Lögberg - 31.01.1957, Page 6
6
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 31. JANÚAR 1957
GUÐRÚN FRA LUNDI:
DALALÍF
„Ég er nú bara farin að finna til óþæginda
strax“, sagði stúlkan, „og þeir spá norðangarði —
það verður hræðilegt fyrir Strandirnar“, volaði
hún og byrgði sig í fotunum.
Ekki var nú samferðakonan upplífgandi,
fannst önnu, strax orðin sjóveik og kjarklaus.
Það var allt annað en skemmtileg tilhugsun að
vera í sambýli við hana svo og svo lengi —
kannske tvo til þrjá sólarhringa. Svo var ekkert
líklegra en að hún yrði sjálf sjóveik. Henni fannst
sér verða óglatt.
„Góða, útvegaðu mér vatn“, bað stúlkan.
Hvar skyldi hún nú geta fengið það? hugsaði
Anna. Samt lagði hún að stað og var svo heppin
að mæta konu, sem hljóp fyrir hana eftir vatninu.
Aumingja stúlkan, svo ætlaðist hún til þess að
það yrði stjanað við sig. Það var svo sem sjálfsagt
meðan hún var frísk sjálf. En hún vildi helzt
halda kyrru fyrir, því að veltur skipsins voru
óviðkunnanlegar. Nokkru seinna kastaði sambýlis-
konan upp. Þetta var hræðilegt — líklega yrði ekki
langt þangað til hún yrði farin að haga sér alveg
eins. Viðbjóðslegt! Fallega skyndimyndin af nýrri
og betri veröld með sólskin og glampandi lognsjó
var horfin, en önnur komin, gráköld, húmkennd
veröld, þar sem allir voru vansælir. Hún slangr-
aði fram úr klefanum og upp stigann. Óþefurinn
ætlaði að gera út af við hana. — Hann var strax
kominn til hennar, Ósbúinn, Kristján hét hann,
og spurði hana, hvort hann gæti eitthvað gert
henni til þægðar. Hann var víst prýðilegur piltur,
þó að hann væri alinn upp í Ijóta kofanum hans
Björns gamla og hennar Hólmfríðar gömlu, kofa-
kerlingarinnar eins og frú Matthildur kallaði hana
einu sinni.
„Ég ætlaði bara að anda að mér hreinu lofti“,
svaraði Anna. „Það er hræðilegt þarna niðri“.
„En hér er bara svo kalt“, sagði hann.
„Ég ætla samt að vera hérna dálitla stund“.
Anna varð að styðja sig við, svo að hún missti
ekki fótanna. Hún leit í kringum sig. Henni fannst
skipið hjakka alltaf í sama farinu, ef hún horfði
upp til strandarinnar, en þegar hún leit út fyrir
borðstokkinn sýndist henni það bruna áfram
gegnu'm þessar úfnu, géigvænlegu öldur. Húsin í
litla kauptúnfhu í fjarðarbotninum smáskýrðust
og stækkuðu og ljósunum í gluggunum fjölgaði
óðum. Hvað hún elskaði þessi litlu ljós og horfði
til þeirra vonaraugum. Loksins var komið inn á
höfnina. Hamingjunni sé lof! Skipið var hætt ^ð
velta og ruggaði rólega. Hún gat gengið yfir
þilfarið án þess að styðja sig við, ep kuldinn var
orðinn bitur — hún þráði húsaskjól. Átti hún að
fara hér í land eða fara niður og halda ferðinni
áfram? Það var óhugsandi að fara lengra. Hún
heyrði karlmennina spá illu veðri. Henni virtist
það samt vera nógu vont. Sjórinn gekk í gusum
upp á bryggjuna. Það yrði ekki gott að skipa upp
heyrði hún einn manninn segja. Anna var hálf
feimin ein á meðal margra karlmanna, sem ekki
virtu hana þess að líta á hana, hvað þá heldur að
tala við hana. öðruvísi var þáð heima í sveitinni
hennar — þar heilsuðu henni allir vinalega. Yfir-
leitt litu karlmenn niður á konurnar og fundust
þær fáfróðar og barnalegar. Samt nálgaðist hún
þá og spurði, hvort ekki myndi vera hægt að
komast í land.
„Hvað skyldi vera því til fyrirstöðu?“ sagði
einn þeirra stuttlega.
I
„Ætlar þú hérna í land?“ spurði annar.
„Já, ég fer hér í land“, svaraði hún.
Þá kom Kristján Björnsson til hennar. Ég tók
svo eftir að þú ætlaðir vestur á land — vestur á
Breiðasand", sagði hann.
„Það var nú meiningin í fyrstunni, en mér
hefur snúizt hugur. Ég fer ekki lengra, er að verða
sjóveik og var ekki vel frísk, þegar ég lagði af
stað. Þú vildir kannske ná í töskuna mína“.
Tvær stíilkur með ferðatöskur komu upp á
þilfarið og ætluðu auðsjáanlega í land. Þarna
komu tveir stórir bátar úr landi, en þegar þeir
komu að skipshlið sýndust þeir svo átakanlega
litlir, að Anna óttaðist að þeir sykkju, þegar fólkið
kæmi í þá. En það leit ekki út fyrir að hinar
stúlkurnar væru neitt hræddar. Það var bara hún,
sem var kjarklaust og heimskt heimaalið barn.
Önnur konan bar töskuna sína sjálf niður stigann
— en sá dugnaður. Þetta var líkt Þóru. Ef hún
hefði haft svoleiðis samferðakonu, þurfti hún ekki
að kvíða. Nú kom Kristján með töskuna, og ofan í
bátinn var Anna komin, áður en hún vissi af og
hann settist við hlið h«mi.
„Ætlar þú hér í land?“ spurði hún.
„Ég lofaði Þórði að hjálpa þér í land, það er
sama hvar það er, enda fannst mér hann ekki
búast við að þú færir alla leið vestur á Breiða-
sand“, svaraði hann.
„Jæja, var hann svona glöggskyggn“, sagði
hún og andvarpaði af feginleik yfir að Þórður
skyldi biðja þennan góða pilt fyrir hana. Hvað
hefði svo sem orðið úr henni, ef enginn hefði
verið henni hjálplegur?
Stúlkurnar í bátnum hlógu og spauguðu á-
hyggjulausar, þó að bylgjurnar æddu og freyddu
meðfram hlið hans eins og þær ætluðu að fylla
hann á svipstundu, en liðu svo aftur með honum
á góðlátlegu undanhaldi. Bryggjan var full af
karlmönnum, sem hjálpuðu henni úr bátnum og
upp á bryggjuna. Anna lofaði guð, þegar hún hafði
fast land undir fótum, og hét því að aldrei skyldi
hún á sjó koma á ævi sinni aftur.
„Skyldi nokkurt gistihús vera hér?“ var fyrsta
spurningin, sem hún lagði fyrir Kristján, sem
fylgdist með henni með töskuna hennar í hendinni.
„Jú“. Hann þekkti það eins og allt annað og
fylgdi henni þangað. Gestgjafinn var miðaldra og
hálf spjátrungslegur , en tók þó kumpánlega á
móti þeim og fylgdi Önnu inn í hlýja stofu eftir
að hún hafði kvatt þennan góða fylgdarmann og
þakkað honum fyrir alla umönnunina. Og þegar
hún var setzt í dúnmjúkan sófa fannst henni öll
vandræði vera léttvæg og hana langaði ósegjan-
lega mikið til að sofna,því að nú var komið harður
háttatími í sveitinni. Frúin var talsvert unglegri
en maðurinn, en ekki nærri eins kumpánleg.
Anna óskaði eftir að komast sem fyrst í rúmið.
Matarlyst hafði hún enga, en kaffi drakk hún til
að hlýja sér innvortis. Henni fannst heimilis-
hátturinn svipaður og hjá frú Matthildi — sífellt
þras við vinnukonurnar í hvert sinn, sem hún fór
fram. Hún heyrði aðra stúlkuna spyrja um, hvort
ekki ætti að leggja í ofninn í gesta herberginu.
Það efaðist frúin um að væri nauðsynlegt —
veðrið hafði verið svo gott þennan dag.
„En mér sýndist konan svo aumingjaleg“,
sagði þessi góða stúlka. „Ég gæti trúað því, að
hún væri sárlasin“. .
• „Hún ætlaði vestur í land, en var svo sjóveik,
að hún treysti sér ekki lengra“, sagði frúin.
„Þá get ég ímyndað mér, hvernig henni muni
líða, og það ættu allir að geta sér þess nærri, sem
sjóveiki hafa fengið“.
„Mér sýnist henni batna fljótt“, sagði frúin
hirðuleysislega. „En það er líklega notalegra að
leggja í uppi“, bætti hún þó við.
Anna blessaði þessa góðu stúlku í huganum.
Það hefði verið hræðilegt að hátta í óupphituðu
herbergi, þar sem hún var vön við hlýja húsið
heima. Nú kom önnur vísan hennar Siggu gömlu
í huga hennar: „Ég vildi ég hefði verið um kjurt /
og aldrei horfin burt“. Bara að hún hefði farið út
að Hvammi eins og Borghildur hafði stungið upp
á, en aldrei farið sjóferðina. Þá væri hún háttuð
heima í blessuðu notalega rúminu sínu. En nú
mátti guð vita, hvenær hún háttaði þar. Líklega
aldrei.
Loksins var henni vísað til sængur. Unglings-
stúlka, sem líklega var dóttir hjónanna, fylgdi
henni upp á loft. Þar var svefnherbergið, lítið og
hlýtt, en rúmið var kalt og undirsængin allt of
þunn. En þreytan vann bug á öllu, og hún sofnaði
fljótlega, en þegar fór að líða á nóttina fór hún
að sofa órólega. Þungur brimgnýrinn frá sjónum
gerði hana hrædda — henni heyrðist öldurnar
skella á húsinu. Þess á milli heyrðist henni mað-
urinn sinn vera að áminna Lísibetu liltu um að
hafa ekki hátt, svo að mamma gæti sofið. En þetta
var bara draumur. Hún var hér í bráðókunnugu
húsi, sem kannske var fullt af draugum og vofum,
sem hvísluðust á í kringum hana. Hún vafði sæng-
inni utan um höfuðið, því að það var að verða sár-
kalt í herberginu, og bað góðan guð að varðveita
sig. Loksins heyrði hún, að fólkið niðri fór að
hreyfa sig. Þá þorði hún að sofna. Hún varð hissa,
þegar hún vaknaði við það, að það var funheitt
inni og stúlkan stóð við rúmið með morgunkaffið
á bakka og bauð henni góðan daginn.
„Hvernig ér veðrið?“ var það fyrsta, sem
Anna spurði.
„Það er stórhríð“, Var svarið.
Það var einmitt það, sem hún hafði búizt við.
Hún spurði um skipið. Það hafði farið um nóttina.
Hamingjunni sé lof fyrir að hún var þó á landi,
en ekki sjó. Aumingja veika konan, sem hún hafði
talað við daginn áður, það var hræðilegt að hugsa
til hennar.
„Það er óefnilegt fyrir mig, ef ég verð nú
hríðarteppt hér“, sagði Anna.
„Ojæja! Það kemur nú skip eftir tæpa viku,
sem fer suður — kannske verðuf þá betra í sjóinn",
sagði stúlkan. „Annars eru þessar vetrarferðir
hræðilegar“.
„Já. eiginlega hét ég því í gær að koma aldrei
á sjó aftur, en kannske kjarkurinn verði meiri, ef
sjóveðrið yrði betra“.
Stúlkan samþykkti það, en bætti svo við: „En
bezt held ég það væri þó að fara heim og láta
ferðalagið bíða eftir sumrinu. En það er náttúrlega
alltaf svo mikið að gera á sumrin í sveitinni, að
húsmæðurnar mega engan tíma missa. Það ætti
maður að muna“, sagði hún brosandi um leið og
hún fór fram, eftir að hafa bætt vel í ofninn.
Þetta var ágæt stúlka hugsaði Anna. Bezt
væri að fara heim aftur hafði hún ráðlagt henni,
en hvernig ætti hún svo sem að komast heim?
Jón hafði náttúrlega sagt það, að hann sækti hana
hvert sem hún færí og flytti hana heim aftur.
En núna vissi enginn, hvar hennar var að leita,
svo að það var engin von til þess að hann kæmi
að sækja hana. Náttúrlega gat hún símað á Ósinn
og látið hann vita, hvar hún væri niður komin,
en það var heldur óviðeigandi að óska eftir að
hún yrði sótt daginn eftir að hún hafði farið frá
honum og skilið eftir hringinn sem kveðju. Hún
yrði að reyna að halda áfram vestur, það tæki ekki
nema svo sem sólarhring. Einhvern tíma liði hann.
Það var moldveðurshríð allan daginn. Hús-
bóndinn var kurteis og bauð henni að leika á orgel,
sem dóttir hans átti. Og svo var þar stór bóka-
skápur, sem henni var velkomið að fá sér bækur
úr. Annars hefði þessi dagur seint liðið. Næsta dag
var sama veðurfar. Þetta fór að verða óálitlegt.
Þar næsta dag var loksins komið stillt veður.
Anna fór þá í búðir og tók þó nokkuð af álnavöru.
Þar fékkst bara margt laglegt. Dökkleitt kjólefni,
sem hún sá að myndi verða ákaflega hentugt
handa Borghildi, hafði hún keypt. En þegar hún
kom með þetta upp í herbergið sitt, fann hún
hvað það var hlægilegt að vera að hugsa Borg-
hildi fyrir kjól, konunni sem hún hafði kvatt fyrir
fullt og allt, fyrst hún gat ekki hugsað sér að koma
á eftir henni vestur. Auðvitað gæti hún saumað
hann fyrir vestan og sent henni hann ásamt tveim-
ur kjólum, sem hún hafði tekið handa Lísibetu
litlu. Anginn litli — skyldi hún ekki spyrja eftir
mömmu sinni. Henni fannst hún heyra hana segja:
„Hvenær kemur mamma heim úr kaupstaðnum?"