Lögberg - 02.05.1957, Blaðsíða 6

Lögberg - 02.05.1957, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 2. MAÍ 1957 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF „Það eru ekki viðkvæmar taugar, heldur óslítanleg bönd, sem binda mig við þig, Nauta- flatir og dalinn. Vertu ekki reiður, þó að ég réði ekki við forvitnina og læsi bréfin þín. Þú getur þó ekki sagt, að þau væru mér alveg óviðkomandi. ^g vissi, að það var eitthvað í veskinu, sem var haldið leyndu fyrir mér“. Hann setti hana á hné sér og bauð hana vel- komna með mörgum kossum. „Þú ert þá vonandi alveg hætt við að skilja við mig, þó að þú sæir æskusyndirnar mína? Ég veit bara ekki hvernig þú hefur náð lyklinum“. „Ég togaði vestið undan koddanum þínum, það var erfitt, þú varst svo þungur ,en svo snér- irðu þér á hina hliðina og þá náði ég því“. Hún gat ekki stillt sig um að brosa. „Það hefur sjálfsagt verið erfitt að búa við mína mörgu galla öll þessi ár“, sagði hann. „En þetta var óþarfa fyrirhöfn. Ég hefði sýnt þér í veskið, ef þú hefðir óskað þess. Mig hefur oft langað til þess að sýna þér myndirnar af drengn- um, en ég bjóst við því, sem nú er fram komið, að þú þyldir ekki að heyra það. En hvernig stend- ur á, að þér snérist svona fljótt hugur? Var það vegna þess, að ég var í svona slæmu skapi þarna um daginn, að þú vildir ekkert annað en skilnað?“ „Við tölum um það seinna“, sagði hún og losaði sig úr faðmi hans. „Ég get ekki stillt mig lengur um að líta á hana Lísibetu litlu. Ég hef oft hugsað heim til hennar". Hún kyssti barnið á kaf- rjóðar kinnarnar og tók ofan af henni sængina. „Mér sýnist hún bara hafa stækkað meðan ég var í burtu“. Hann var kominn að hlið hennar. Þau horfðu bæði á litlu stúlkuna sofandi. „Hún er orðin útitekin í andlitinu og ekki eins falleg og hún var, þegar ég fór“, sagði 'hún svona til að segja eitthvað. „Ég ætlaði að láta hana til Rósu aftur, ef þú hefðir ekki komið. Borghildur hefur í nógu öðru að snúast en að hugsa um hana. Hún er einþykk og vill ekki að aðrir hugsi um sig en hún“, sagði hann. „Svo þú ætlaðir að vera einn og barnlaus hérna í húsinu?“ „Hvað er um annað að ræða fyrir þann, sem hefur verið útrekinn úr Paradís?" sagði hann og nú brá fyrir gömlu glettninni í rómnum. „Jæja, hvernig gengur það?“ sagði þriðja persónan fram við dyrnar. Það var Þóra. „Það gengur aldeilis ágætlega“, sagði Anna og þurrkaði tárvot augun. „Sæl, Þóra mín“, sagði Jón. „Varst það þú, sem komst henni heim til mín svona fljótt?" „Það máttu vera viss um“, sagði Anna. „Ef . hún hefði ekki komið til mín, hefði ég setið með fýlu niðri á Ós í stað þess að vera komin heim í blessað húsið mitt“. „Víst hjálpaði ég dálítið til þess að koma henni heim til þín, syndaselurinn þinn“, sagði Þóra. „En ég vona að ég þurfi ekki að tala á milli ykkar oftar, því að mér lætur það ekki rétt vel. Hún lét sig ekki verulega fyrr en ég kvaldi hana með því, að þú hefðir ekki verið farinn að hærast, ef ég hefði verið konan þín. Og það var þó anzi djúpt tekið í árina, enda var hún ekki lengi að minna mig á skallann á Sigurði“. „Það hefur hlotið að vera gaman að heyra til ykkar“, sagði Jón hlæjandi. Anna kyssti Þóru hlæjandi. „Mér bara sárnaði við þig“, sagði hún lágt. „Svona, Jón, komdu með giftingarhringinn og dragðu hann á hana, fyrr get ég ekki álitið, að þið séuð sátt. Svo bíður kaffið frammi. Ég get hugsað, að Sigurði þyki ég verá nokkuð lengi í kaupstaðar- túrnum.“ „Hún kærir sig sjálfsagt ekkert um að setja upp hring aftur“, sagði Jón glettinn. „Hún var svo ákaflega ánægð með hendina í gær, heyrðist mér“. „Ó, þú slæmi maður, manstu þá ekki hvað þú varst kaldur og hryssingslegur — hvernig átti ég að vera öðruvísi en ég var?“ sagði Anna og gaf þilinu hornauga. Hringurinn var þar ekki. „Hvað hefurðu gert við hringinn?“ spurði hún hikandi. „Ég gat nú ómögulega látið hann hanga þarna framan í hverri manneskju, sem kæmi inn, — nóg hefur sjálfsagt verið talað um okkur samt“. Hann opnaði skrifborðið og kom aftur með hringinn og rétti konu sinni hann. Hún greip hann hálf- feimnislega og smeygði honum upp á fingurinn. „Hann er svo rúmur, að, ég óttast að ég tapi honum“, sagði hún. „Þá er betra að láta það bíða að setja hann upp, þangað til þú ert orðin feitari“, sagði Þóra. „Nei, ég er búin að sakna hans svo mikið og lengi“, andvarpaði Anna og faldi andlitið undir vanga manns síns til að hylja tárin, sem ógern- ingur var að halda inni á þessari stundu. Frammi í eldhúsinu settust allir við dúkað borð og drukku súkkulaði og kaffi með fínasta veizlubrauði. Þvílíkar viðtökur minntu helzt á glataða soninn í dæmisögunni, hugsaði sú biblíu- fróða húsmóðir, og þó var það bezta eftir, að hátta ofan í mjúka rúmið inni í funheitu hjónahúsinu, því að Borghildur hafði sent Gróu inn til að bæta í ofriinn, meðan setið var að drykkju. „Ég verð aldrei skuldlaus við þig, Þóra mín, fyrir þennan dag og margt annað svo oft áður“. Þannig voru kveðjuorð önnu við vinkonu sína fram í bæjardyrunum. „Eginlega finnst mér sjálf- sagt, að þú kyssir hana Þóru, góði minn, fyrir allan hennar mikla dugnað“, bætti hún við og snéri sér að manni sínum. „Það skal ég gera með mikilli ánægju, ef þú sérð ekki eftir þeim kossum“, sagði hann hlæjandi. „Nei, það eru sömu kærleikarnir okkar á milli, þó að við kyssumst ekki“, sagði Þóra. „Ég er vel ánægð með það, sem ég hef gert fyrir ykkur í dag. Það er mér meira virði en allt annað“. » GULLNÆLAN HORFIN Anna vaknaði næsta morgun við það, að Lísibet var að læðast ofan undir sængina hjá henni. „Ó, mín elsku stúlka!“ sagði Anna hálf- sofnandi. „Er ekki gaman, að mamma er komin heim?“ Ef barnið hefði sagt „nei“, hefði hún farið að gráta. En Lísibet vafði handleggjunum utan um höfuð hennar, svo að henni lá við köfnun, og sagði: „Ég ætlaði ekki að trúa pa'bba, hélt hann væri að segja að gamni sínu að þú værir komin heim. Hánn sagði mér að hafa lágt, svo að þú vaknaðir ekki, en ég gat ekki annað en komið til þín, mamma. Því varstu svona lengi á sjónum? Ég hef sofið hjá Borghildi og pabba síðan þú fórst“. Dísa kom með morgunkaffið á bakka og bauð góðan daginn. „Þú hefur náttúrlega ekki getað sofið fyrir stelpuvarginum“, sagði hún. „Hefur hún hnoðazt hjá þér í álla nótt eða hvað?“ „Hún var rétt að koma til mín núna og ætlar alveg að kæfa mig með gæðunúm, blessað barnið“, sagði Anna ánægjuleg. „Hún hefur þó ekki látið þesslega að hún saknaði þín — varla aldrei minnzt á þig“, sagði Dísa ólundarlega. „Það ber ekki vel saman við það, sem Þórður og Siggi sögðu mér“, sagði Anna fálega. „Því trúi ég vel. Þeir hafa líklega báðir reynt að tala nógu fagurt og flærðarlega til að hafa þig heim aftur. Ég hef nú aldrei orðið meira hissa og undrandi en að sjá og heyra, hvernig tekið var á móti þér í gærkvöldi eftir það, sem búið var að tala um þig“. „Hvað svo sem var það að tala um mig?“ spurði Anna og settist upp til að drekka kaffið. „Það væri nú víst nóg efni í heila bók, ef það væri allt sagt, en ég fer nú sjálfsagt ekki að gera svo lítið úr mér að hafa það eftir“, sagði Dísa. „Ertu ekki með eitthvað handa henni Lísibetu?" „Jú, það er þarna súkkulaði handa henni. Það er víst engin hætta á, að henni sé gleymt. Það er ekki látið svo lítið með hana. Borghildur hefði varla verið að geyma súkkulaði handa mér, þegar ég var á hennar aldri, eins og hún gerir núna handa henni og Kristjáni". „Þú hefur víst enga ástæðu til að nöldra um það. Borghildur hefur verið þér góð fyrr og síðar. Hvers konar kuldataí er þetta um Lísibetu litu — hefurðu kannske verið hláleg við hana, meðan ég var í burtu?“ sagði Anna ávítandi. „Ég hef svo sem lítið skipt mér af henni. Það hefur verið séð um, að ég hefði annað að gera. Þvílíkur þrældómur!" „Nú, líklega þó ekki meira en vanalega. Varla hefurðu þó tekið við verkunum mínum“. „Hún hefur látið mig skúra gólfið hérna fyrir innan og leggja í 'ofninn og hugsa um hann. Svo hef ég orðið að skúra frammi líka“. „Þetta eru nú svo sem engin ósköp, Dísa mín, þú ert orðin svo stór stúlka. Ég vona, að þú hafir verið þæg og góð við Borghildi, meðan ég var í burtu“. „Það þýðir nú líklega lítið annað en að hlýða henni, meðan maður er undir 'hana gefin, en ég var farin að hlakka til að komast í burtu til þín. Hvernig stóð á því, að þú skyldir koma heim í þetta óhreinlyndis greni, sem þetta heimili er? Og Þóra að fara að koma með þér! Hún hefur nú reyndar ekki talið sporin sín hingað þennan tíma, og alltaf setið á eintali við pabba hér inn í læstu húsi“. „Góðan daginn, Anna mín! Vonandi hefurðu sofið vel í rúminu þinu“, sagði Borghildur. Hún hafði komið inn án þess að hvorug þeirra tæki eftir. Dísa hafði ekki lokað hurðinni á eftir sér. Það kom fát á Dísu. „Ég kom hérna með egg handa þér. Mér sýnist þér ekki veita af að reyna að fita þig, ef hægt væri“. Svo snéri hún talinu til Dísu: „Þér hefur legið svona mikið á að komast inn með ósannar sögur til fóstru þinnar, að þú skildir eggið eftir. Þú ætlar að fagna henni með því að skrökva að henni“. Dísa hörfaði út að glugganum og bar hendurnar fyrir andlitið eins og hún ætti von á höggi. „Heldurðu að ég snopp- ungi þig?“ sagði Borghildur. „Sannarlega ættirðu það skilið. Kannske það verði nú ein sagan, að við höfum gengið á þig með höggum. Þú um það. Ég tala við þig seinna. Ekki nema það þó að segja að þau hafi læst að sér! Ég vona nú, Anna min, að þú látir skynsemina ráða um sannleiksgildi þessar- ar sögu. Það eru nú ekki nema þrír dagar, síðan Jón kom heim. Þar af var hann einn dag, í fyrra- dag, út í kaupstað, svo að þú getur séð, hvort Þóra hafi heimsótt hann oft. Hún kom í gær- morgun til að láta okkur vita, hvar þú værir niður- komni. Þá var Jón ekki kominn heim. Svo var hún hér við jarðarförina frá Þverá. Þar níeð er það upptalið, sem hún hefur komið“. „Það þýðir nú lítið hvorki fyrir einn eða annan að baktala Þóru í mín eyru“, sagði Anna. „Ég hlusta ekki á slíkt". „Ég skil bara ekkert í þér, stelpa, að fara með þennan þvætting“, sa^ði Borghildur og var svo svipmikil, að önnu for ekkert að lítast á þetta. „Hafðu þig fram í eldhús og hjálpaðu henni Möngu við þvottirin, meðan hún Gróa kemur ekki úr fjósinu". „Ert þú einhver húsmóðir hér?“ sagði Dísa þrjózkuleg. „Ég veit ekki betur en mamma sé komin heim“. „Ég er það, sem ég hef verið, og ef þú gegnir ekki, skal húsbóndinn fá að heyra, hvernig þú hagar þér“. „Ég skil bara ekkert í því, hvernig þú lætur, Dísa“, sagði Anna. Nú heyrðist gengið rösklega inn baðstofu- gólfið. Dísa þekkti, hver var þar á ferð og flýtti sér fram um leið og Jón opnaði hurðina. Borg- hildur fór líka fram. Jón bauð konu sinni góðan daginn og spurði, hvort hún hefði ekki sofið vel. „Jú, það gerði ég, svaf í einum dúr frá því ég lagðist á koddann þangað til Lísibet kom til mín“, sagði Anna. „Tók hún vel á móti þér, þessi góða stúlka? Oft er hún búin að tala um það, hvenær mamma kæmi af sjónum“. „Hún er yndislegt barn, enda hef ég oft hugsað til hennar“, sagði Anna og andvarpaði mæðulega. I

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.