Lögberg - 11.07.1957, Blaðsíða 6

Lögberg - 11.07.1957, Blaðsíða 6
6 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF Sumarið var sólríkt og grasspretta í góðu meðallagi. Allt lék í lyndi í dalnum. Anna Frið- riksdóttir tók þeim stakkaskiptum, að engum hefði dottið í hug, að annað eins gæti komið fyrir. Hún dáði son sinn á sama hátt og föður hans áður fyrr. Nú var hann orðinn lítils virði í hennar augum. Ef það kom fyrir, að hann væri ekki heima við máltíðir, fannst henni þó sætið hans svo óvið- kunnanlega tómlegt og bað Jakob að sitja í því, en hann svaraði því alltaf á sömu leið, að það væri leiðinlegt að sjá kött í bjarnabóli, og sat í sínu vanasæti. Þar hafði hann setið síðan hann mundi fyrst eftir sér. Á Reykjavíkurferðina var aldrei minnzt einu orði. Þegar svo ungmenna- félagið fór að halda samkomur þar á heimilinu, dansaði Anna eins og ungu stúlkurnar. Það hafði hún ekki gert í mörg ár. Tvisvar sótti hún skemmt- un út á Strönd og einu sinni vestur yfir fjall. Þvílíkar framfarir undruðust allir. Og það þá ekki síður, að Þóra 1 Hvammi fór á hvern fund, 'sem haldinn var á Nautaflötum, og dansaði meira að segja. Þáð voru þá orðin þó nokkur ár, síðan hún hafði sézt á dansgólfi. Björn hafði farið að kenna systkinum sínum sporið fram í stofu á kvöldin, þegar faðir hans var sofnaður. Það var leiðinlegt fyrir þau að vera eins og álfar út úr hól og kunna ekkert, þegar aðrir færu að dansa. Svo fannst honum sjálfsagt, að mamma sín færi að liðka sig. Hún var ung kona ennþá — það var ómynd að verða gömul fyrir tímann. Það varð til þess, að hún fór að sækja þessar skemmtanir. í fyrstu til þess að sjá Björn á dansgólfinu. Hann hafði alltaf verið augasteinninn hennar. Svo komst hún ekki undan því að dansa. „Hamingjan góða! ;— hvað það er gaman að vera orðin ung í annað sinn, Þóra“, sagði Anna Friðriksdóttir. Við fyrstu sýn var hún líka lítið aldurslegri en sonur hennar, en við nánari athugun sást þó reynslu- og vonbrigðasvipurinn á andliti hennar, sem jafnvel þessi sólríku tímamót gátu ekki afmáð. Sigurður sagði oft og einatt við konu sína, að ekki skildi hann, hvernig hún gæti fengið sig til að láta svona asnalega. Hún hlyti að gera sjálfa sig að athlægi allrar sveitarinnar með því að leggja á sig vökur við að horfa á þetta „hringsól". Hitt datt honum ekki í hug, að hún tæki þátt í leikjum ungdómsins. En hún svaraði því hpra, að meðan hún vanrækti ekki sín vanalegu störf, skyldi hann láta það óumtalað. Og nú fann þessi ráðríki bóndi, að komið myndi að því, að hann yrði að láta undan síga, því að öll fjölskyld'an var á bandi konu hans. Systkinin höfðu alltaf borið fyrir honum þrælsótta og nú, þegar þeim var vax- inn fiskur um hrygg, fóru þau sínu fram án þess að spyrja um hans vilja. Það kom því fyrir, að hann var einn í bænum allan daginn, meðan fjöl- skylda hans var að skemmta sér. Var þá svipur hans langt frá því að vera hlýlegur, þá loksins að kona hans kom heim með yngstu strákana og fór að hugsa til 'að mjólka kýrnar. Finnst þér þetta borga sig,“ spurði hann þá, „að vera að þeytast þetta og standa svo á öndinni fram á nótt við að koma af búverkunum? Svo verða krakkarnir hálfsofandi við heyskapinn á morgun. Þvílík þó bölvuð ráðleysa, sem komin er yfir ykkur“. „Það hefur komið fyrir fyrri, að ég hef háttað seinna en hitt fólkið“, svaraði hún. „En það er óþarfi að nauða um það, að systkinin vinni ekki vel. Þú ættir bara að koma með, þá fyndirðu hvað það yngir mann upp“. Þá gekk alveg fram af Sigurði. „Þótt ég hafi aldrei verið álitinn mjög skynsamur, hvorki af þér né öðrum, geri ég mig aldrei að þeim hálfvita að haga mér þannig“, sagði hann rámur af reiði. „Það var ekki svo skökk ráðstöfun á þessum krón- LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 11. JÚLl 1957 um, sem sonur þinn átti, að koma þeim fyrir á þennan hátt — gera bæði hann og þig að hálf- vitum. Og það sem meira er — alla sveitina. Hlægilegt, bölvuð vitleysa. Nautstirðar kerlingar farnar að dansa og geðveikir garmar, sem varla hafa haldið höfði fyrir vesöld, farnir að ríða út eins og Anna Friðriksdóttir“. Hann hélt áfram rausinu fram göngin og út bæjardyrnar. Úti á hlaðinu voru yngstu synir hans — þeir fengu niðurlagsorðin: „Reynið að fara að hafa ykkur í bólin. Það verður ekki svona líflegt yfir ykkur í fyrramálið. Dragið þá á eftir ykkur lappirnar, ef eitthvað þarf að snúa ykkur“. „Við höfum nú ekki^alltaf verið háttaðir um þetta leyti og getað vaknað á morgnana samt“, sagði Bogi dálítið kergjulega. „Þú rekur mann ekki í rúmið, þegar verið er að taka saman“, bætti hann við úr hæfilegri fjarlægð. Björn hafði tekið k&upakonu í mánuð. Ekki sat hún af sér skemmtanirnar. Sigurður óskaði þess með sjálfum sér, að þau tækju saman. Þá losnaði hann við Björn. Hann var orðinn óþægi- lega rúmfrekur á jörðinni. Það var náttúrlega ekki nema gott um það að segja, að hann vildi eignast eitthvað. Ekki langaði hann til þess, að krakkarnir hans yrðu áhugalausir búskítir. En Friðrik og Stína voru nú komin yfir fermingu og þurftu eitt- hvað að eignast. Ekki gaf móðir þeirra það eftir. Það leit út fyrir, að það ætlaði að verða sama togstreitan og á Hvoli. Og svo að fæða kaupakonu í heilan mánuð og hirða skepnur fyrir hann að vetrinum. Hann ætlaði að láta það óumtalað þetta sumarið. Sjálfsagt fyndist Þóru það skammarlegur nánasarháttur, en hann hafði nú aldrei ætlað að láta þau traðka á sér, börnin sín. Nei, áreiðanlega ekki. Ekki lét húsfreyjan á Hóli sig heldur vanta á skemmtanirnar. Þær voru líka flestar haldnar á Nautaflötum og því stutt að fara. Stundum þó á Kárastöðum. Prestssonurinn var nú svo sem skrif- ari í ungmennafélaginu. Þó það væri nú. Það hafði dálítið þykknað í henni, þegar Sigurður sonur hennar varð aðeins vara-gjaldkeri. Henni hafði alltaf fundizt hún og hennar heimili snið- gengið — ekki hvað minnst, þegar hún kom af þessum skemmtisamkomum. Hún sáröfundaði þessar mæður, sem voru á líkum aldri og hún, en gátu þó dansað og hoppað með börnum sínum, meðan hún varð að sætta sig við að sitja og horfa á, því að fáir höfðu kjark til að fara með hana út á gólfið, enda hafði hún víst aldrei þótt eftirsóknar- verð „dama“. Svo var það þá líka gremjulegt fyrir hana að sjá, hvað ungu stúlkurnar voru kankvísari við skólabræður sonar hennar en hann sjálfan. Hann var líka svo kveljandi líkur í föðurættina. Ekki batnaði heldur, þegar ný kaupakona sást komin í slægjuna hjá þeim Hvammsfeðgum. „Ef hann Sigurður okkar væri nú svona stönd- ugur að geta tekið kaupakonu, skyldi þáð þá ekki vera dálítill munur fyrir heimilið“, nauðaði hún við mann sinn. „En það hefur nú kannske verið hlaðið heldur minna undir hann“. „Ójá, það hefði verið eftirlæti, kella mín, að hafa unga stúlku í slægjunni“, sagði hann og hneggjaði ánægjulega. „En það verður nú ekki á þessu sumri, enda fækkar nú heldur á fóðrum hjá mér, býst ég við, vegna þessarar skólagöngu“. Þá gramdist henni enn meir: Það var, nú kannske eins og vant var, bölvað skuldabaslið hérna. Aldrei var neitt hægt að gera fyrir skuld- um. Þeir mundu varla þurfa að fækka hinir, sem sent höfðu syni sína í skóla. „Þér dettur þó ekki í hug, að Jón hreppstjóri muni eitthvað um að kosta son sinn í skóla. En Sigurður tekur ekki neinn þátt í skólagöngu Björns. Það er móðir hans, sem gerir það“. „Nú, nú, alltaf er það munur að vera eitthvað“, hnusaði í Helgu. „Hvaða svo sem aukatekjur hefur sú kona?“ „Hann var ekki tómur kistuhandraðinn hans Björns gamla, og Sigurður hefur víst aldrei fengið að gramsa í honum“, sagði Erlendur með svip þess, sem veit meira en fjöldinn. „Ekki var furða, þó að þig langaði til að fá hana, heimasætuna þá‘, sagði hún háðslega. „Mér hefur boðizt gott verð fyrir yngstu kúna. Ég býst við að láta hana fala“, sagði Er- lendur og lét sem hann heyrði ekki það seinasta sem kona hans sagði. Gamalt hryggbrot getur verið neyðarlega viðkvæmt, og hitt líka fyrir hús- móður að missa kú úr fjósinu. Helgu þótti líka vænt um kýrnar sínar. „Það er þá ekki í fyrsta sinn, sem þú grípur til þess“, sagði hún stuttlega. „Þú kemst af með tvær kýr, þegar heimilis- fólkið er ekki nema fjórar hræður“. „Það geijir víst ekki betur. Það væri vesælt fyrir þig að hafa þrjá karlmenn við slátt og þurfa þó að fækka í fjósi, en Doddi á Jarðbrú hefur þrjár kýr í vetur og er þó ekki nema einn við sláttinn. En hvað er það, sem ekki blómgast á því heimili?“ „Það verður þungt fjósið hjá honum í vetur, skinninu, og ekki minnsta ástæða til að öfunda hann af því“, sagði hann. Svo fór hann að hneggja svo kindarlega, að hún fór að færa sig frá honum. Nú ætlaði hann að koma með eitthvert skítyrðið til hennar. „Það hlyti að vera vansæl manneskja, sem þú öfundaðir ekki, Helga mín“. Hún skellti í góm og fór inn í bæ. SYRTIR AÐ AFTUR Það var hálfum mánuði fyrir göngur að heita mátti, að sumarið kveddi. Eftir það var hver dagurinn öðrum óskemmtilegri — úrhellings- rigning og krepjuhríð, sjaldan þurr stund. Það sem slegið var eftir þann tíma, var flutt sem vota- band heim á tún. Það var eins og lífsgleði og heil- brigði húsmóðurinnar á Nautaflötum hyrfi með sólskininu. Hún varð fálát og kvíðin. Haustið var komið. Þá færi Jakob — þar eftir kæmi langur, kaldur vetur. Hún fór að þjást af svefnleysi eins og vanalega, þegar dagurinn styttist. Hún öfundaði sinn hrausta eiginmann, sem steinsvaf eins og rotaður selur alla nóttina, eins þó að hún kveikti ljós og reyndi að stytta andvökuna með því að lesa í bók. Ef hann rumskaði og varð þess var, að hún lá vakandi, færði hann sig nær henni, faldi andlit hennar undir vanga sínum og bað hana að vera rólega og reyna að sofna. Eftir andartak var hann steinsofnaður sjálfur og hún fjarlægðist hann, því að hrana sveið undan sárum skegg- broddunum á vanga hans. Hann gaf sér ekki tíma til að raka sig nema endrum og eins, þegar hann var á engjunum. Undir morguninn sofnaði hún vanalega og svaf fram undir hádegi. „Nú er hún að falla saman einu sinni enn“, sagði Gróa dags daglega við samverkakonur sínar fram á engjunum. „Sefur á daginn, en vakir á nóttunni. Það er byrjunin. Ja, eins og hún hefur verið hress í sumar“. / Svo kom dagurinn, sem kviðið hafði verið fyrir í margar vikur, — dagurinn, þegar Jakob fór burtu, þungbúinn regndagur eins og flesj;ir dagar voru þetta haust. Anna treysti sér ekki til að fylgja honum úr hlaði. Hann kvaddi hana inni í hjóna- húsinu. Hún var fjarska vesaldarleg. Hann reyndi að hughreysta hana með því, að hann skyldi vera viljugur að skrifa. „Ég er eitthvað svo kvíðandi — allt öðruvísi en í fyrra“, sagði hún. „Mér finnst þessi vetur muni verða hræðilega langur. Kannske sjáumst við ekki aftur í þessu lífi, Jakob minn“, Hann faðmaði hana enn einu sinni, sagðist vona, að svo tækist ekki til. Annars hefði það verið skakkt að fara ekki subur með hana í sumar eins og þeim hefði dottið í hug. „Ó, mér hefði víst ekki batnað mikið við það“, sagði hún. „Þú ættir að fara núna, þegar mestu haustann- irnar eru afstaðnar, með pabba eitthvað til ein- hvers læknis. Halldór bætir þér aldrei neitt“, sagði Jakob án þess að vænta þess, að hún fyrirhitti þann lækni, sem gæti gert hana heilbrigða. Hann var búinn að sjá það fyrir löngu, að slíkt yrði erfitt. Helzt einhver tilbreytni". „Drottinn minn! Með honum sífullum sjálf- sagt. Það yrði ekki óskemmtilegt ferðalag", and- varpaði hún.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.