Lögberg - 15.08.1957, Blaðsíða 6

Lögberg - 15.08.1957, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 15. ÁGÚST 1957 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF „Já, nú er þó Doddi öfundsverður“, sagði Erlendur. „En það er ráð við öllu, Helga mín, og það er að lóga annarri kúnni. Ég skal gera það strax í dag, ef þig langar í nýtt kjöt. Það er nóg fyrir þig að hafa eina kú handa fjórum, fyrst þú öfundar Línu af því að hafa fimm á einni kýrnyt“. „Alltaf skalt þú þurfa að snúa því á versta veg, sem ég tala“, sagði hún gremjulega og fór burtu frá honum. Hún heyrði hann hneggja ánægjulega. Þetta var ekki ósvipað kerlingarófétinu henni móður hans. Næsta dag tók hún sig upp og gekk út að Jarðbrú. Það var hreinasta heilsubót í því að hreyfa sig ofurlítið. Það var gaman að heyra, hvernig lá á því núna nágrannafólkinu. Það var ekki hægt að segja, að hún hefði séð það allan veturinn. Hildur kom fram í dyrnar, þegar hundurinn tilkynnti gestakomuna. Helga heilsaði henni með mörgum kossum. „Það var gaman að sjá þig, Helga mín“, sagði Hilddr. „Það eru fáir á ferðinni núna á degi hverjum, þó að ekki vanti gangfærið. Þvílíkur þó gaddur“i Helga fylgdist með Hildi inn bæjardyrnar. „Þú kemur til baðstofu, Helga mín. Það er allt fullt af sláturstússi hér frammi“, sagði Hildur, þegar þær gengu fyrir eldhús- dyrnar, sem stóðu opnar- Þar inni var húsmóðirin og hrærði í mörpotti, sem hékk í hófböndufti yfir hlóðunum. „Og svei mér, ef hún er ekki að bræða mör“, sagði Helga og seig inn í eldhúsið. „Hvaða ósköp af mör eru þetta — fór allt blóðið til spillis eða hvað?“ „Já, nei-nei, það er búið að sjóða það allt og lifrina líka og það er spikfeitt“, sagði Hildur hreykin og benti á hurð, sem lögð hafði verið ofan á tvær tunnur, og þar á var hrúgað soðnu slátri. „Það var nú meiri mörinn og spikið á þessari skepnu. Það var heldur ekki svo illa farið með hana“, bætti hún við. „Já, það er nú meira búsílagið þetta“, sagði Helga og settist þreytulega á kassa, sem Lína hafði vanalega fyrir sæti, þegar hún fýsti undir flat- kökur. „En heldurðu að það hafi nú ekki verið fljótræði hjá ykkur að drepa kvíguna, þar sem hann er búinn að flytja þessi ósköp heim af mat- vörunni? Það er tíma verið að koma upp kú í staðinn“. „Hún hefði sjálfsagt aldrei komizt í gagn. Fyrst hún gerði okkur þennan grikk, var bezt að lóga henni“, sagði Lína. „En mikið sá ég eftir henni. Okkur leggst eitthvað til, vona ég“. Helga hristi höfuðið: „Það er von þú sjáir eftir henni út'af þessari dánumanns skepnu. En þú þarft ekki að kvarta undan kjötleysinu, að fá tvær kýrnar í pottinn á sama missirinu“. Doddi kom nú ranglandi innan úr baðstofunni og gekk inn í eldhúsið, þegar hann heyrði, að ein- hver var kominn. „Komdu sæl, Helga“, sagði hann kátur. „Sýnist þér ekki þó nokkuð matarlegt í kotinu núna?“ „Sæll vertu, Doddi minn“, sagði hún. „Jú, það er ómögulegt að segja annað en það sé bú- sældarlegt hjá ykkur, þótt ég kenni náttúrlega í brjósti um ykkur að þurfa að farga kvígunni, þessari fallegu skepnu“. „Ég fór með næstum allt kjötið ofan í kaup- stað og þar er verið að selja það“, sagði Doddi íbygginn. „Hann bjóst við, að það gæti orðið næstum hálft kýrverð, sem ég fengi fyrir það. Það flýgur alveg út“- „Hver selur það fyrir þig?“ flýtti Helga sér að spyrja. „Ja-a, eiginlega er það Siggi Daníels", sagði Doddi. „Það var lán úr óláni“, sagði Helga. „Svo þú hugsar þér að fá þér aðra kú?“ „Við verðum nú mjólkurlítil í sumar, þótt við höfum nóga mjólk núna“. „Ja, þú ert svei mér slyngur búmaður að vera búinn að leggja þetta svona niður fyrir þér“. „Ég naut þar nú góðra ráða annarra eins og fyrri“. „Og hver var nú sá góði og ráðholli?" spurði Helga glettin. „Líklega Þórarinn á Hjalla?“ „Já, hann líka eins og vant er“, sagði Doddi. „Blessuð hafðu þig inn í baðstofuna, Helga“, sagði Hildur, „það er svoddan matarlykt hérna frammi“. Hún hafði reynt að gefa Dodda bend- ingu um að tala varlega, því að hún þekkti það af gamalli renyslu, að það var sama og að kalla það út yfir alla sveitina að láta Helgu komast að því, sem óþarfi var, að kæmist á loft. Helga færði sig inn í baðstofuna, hlýja og fína eins og vanalega. „Mikið átt þú gott, Hildur mín að eiga aðra eins tengdadóttur. Þvílíkur dugnaður að vera búin að sjóða allt þetta slátur á svona stuttum tíma. Bara að ég yrði nú eins lánsöm, þegar drengirnir mínir fara að ná sér í konur“, stundi hún upp með andþrengslum. „Ó, þær eru nú ekki á hverju strái svoleiðis stúlkur", sagði Hildur hreykin. Eftir langar tafir og mikla kaffidrykkju lagði Helga af stað heimleiðis og hafði meðferðis tals- vert af nýmetinu, sem nágrannarnir voru svo ríkir af þessa dagana. En þetta efnislitla eldhúshjal geymdi hún hjá sjálfri sér. Það var þýðingarlaust að segja Erlendi frá því, hann gerði ekki annað en hæðast að því eins og vanalega. DÍSA KEMUR HEIM AFTUR Það var komið fram í marz, þegar Herbert, sonur læknishjónanna, kom heim til föðurhús- anna. Fyrr var hann ekki álitinn ferðafær. Hann var orðinn hálfönuglyndur og keipóttur eins og krakki af þjáningarstríðinu urdanfarnar vikur og mánuði- Móðir hans gerði alll sem í hennar valdi stóð, til að gera honum til hæfis. Bezta skemmtun hans var að spila og tefla. Ungu piltarnir, sem áður höfðu verið leikbræður hans, gáfu honum allar sínar frístundir, en þær voru ónógar, því að vinnan krafðist þess, að þeir hefðu fullan svefn, þar sem nú fóru að glæðast fiskveiðar og fleiri störf kölluðu að. En það var einmitt um svefntíma annarra, sem Herbert kaus helzt að hafa einhvern hjá sér. Hann var búinn að venja sig á að sofa allan daginn fram að miðaftni, en spila og tefla á kvöldin og næturnar. 1 hvert sinn, sem Jón hrepp- stjóri kom ofan eftir, var hann þrábeðinn að vera nóttina til að spila við Herbert. Frúin lagði vana- lega fastast að honum, þó að það væri svo eftir- minnilega stutt síðan hún hafði helzt óskað, að hann væri ekki næturgestur á hennar heimili. En nú voru breyttir tímar. Það var móðurástin, sem allt annað varð að þoka fyrir. Sem húsmóðir hefði hún helzt kosið kyrrð og næði á heimilinu á nótt- unni. Hún fann það, að sonur hennar myndi alveg eins geta sofið þá, ef hann kærði sig um. En það mátti ekki hugsa um annað en reyna að gera allt til þess, að honum gæti liðið sem bezt, aumingja mæðubarninu, sem búinn var að þjást og líða svona lengi. Herbert kaus heldur engan fremur en Jón, því að þá vissi hann, áð faðir sinn yrði með við spilaborðið — og þá var líka nóg vín. En það höfðu þeir yngri félagarnir af skornum skammti og ólíkt lakara að gæðum. Þess vegna urðu það vanalega tvær nætur, sem hreppstjórinn var í hverri kaupstaðarferð, og alltaf bað Herbert hann að koma nú fljótlega ofan eftir aftur, þegar hann fór að hugsa til heimferðar. Anna var undra þolinmóð yfir þessari fjarveru manns síns, þó að hún ætti bágt með að sofa, þegar hann vantaði í rúmið. En hún gat sett sig svo ótrúlega vel inn í mæðu frú Svanfríðar. Borg- hildur var líka sífellt að tala um, hvað Herbert og foreldrar hans ættu bágt, svo að Anna yrði ró- legri, en sjálf var hún langt frá því að vera ánægð yfir þessum sífelldu kaupstaðarferðum húsbónd- ans, vegna þess að piltarnir höfðu svo mikið að gera, þar sem allar skepnur voru í húsi. Manga varð því að taka að sér fjósið og Kristján litli var látinn hjálpa til við útiverkin eins og hann gat. Borghildur svaf í bekknum í hjónahúsinu. 1 rúminu hans Jóns vildi hún ekki sofa — hann gat alltaf komið heim eftir háttatíma. Anna bað hana að hafa bæinn ólokaðan, því að enginn gat vitað, hvað fyrir kynni að koma- Hún gat aldrei gleymt endalokum séra Hallgríms. Það var tilbreytingarlítið lífið í dalnum. Varla kom það fyrir, að maður sæist á ferð, því að allir höfðu nóg að gera. Ekkert mætti auganu annað en fönn og gaddur dag eftir dag, nema ef hrafnar sáust svífa milli bæja til að litast um eftir æti. Það þótti því talsverð nýlunda, þegar Lísibet kom með þær fréttir einn daginn, að stúlka kæmi utan mýrar. Borghildur bjóst við að það væri einhver með prjónadót, en hún vildi helzt vera laus við svoleiðis gest núna, en það voru alltaf einhverjir, sem komu til hennar í þeim erindum, þó að margir færu til Línu á Jarðbrú. „Það er nú nóg að gera núna annað en að standa við prjónavélina. Ég er líka farin að letjast við það“, sagði hún og fór að taka diskana af borðinu, því að nýlokið var við miðdegismatinn og allt heimilisfólkið sat við borð- ið nema Jón, sem hafði farið yfir að Ásólfsstöðum. En áður en búið var að ryðja borðið var gesturinn kominn alla leið inn í eldhús. Það var Þórdís Pálsdóttir, kafrjóð og brosleit, með fínustu ferða- tösku í hendinni, í skrautlegri garnpeysu og stuttu, gráu pilsi og með skræpótta garnhúfu á höfðinu, sem átti betur við á barnskolli en full- orðinni stúlku. „Sæl og blessuð verið þið öll!“ sagði hún. „Þið hafið líklega ekki átt von á því, að það væri ég, sem kæmi“. „Ég bjóst við að það væri einhver með prjóna- band og kveið fyrir að þurfa að fara að taka ofan af vélinni“, sagði Borghildur. Dísa gekk á milli heimilisfólksins og heilsaði því með virktum, en það voru víst allir of undr- andi yfir því að sjá hana og gátu því ekki tekið henni sem góðum og gömlum heimilisvini. Engum datt í hug að bjóða hana velkomna, ekki einu sinni fóstru hennar, en af henni vaénti hún sér þó mestu. „Hvernig stendur á ferðum þínum, Dísa mín?“ spurði Borghildur, þegar kveðjurnar voru af- staðnaf. „Á ferðum mínum?“ sagði Dísa. „Ég kom með skipinu í gær. Ég fór til læknisfrúarinnar og ætl- aði að fá að vera þar í nótt, því að eiginlega fannst mér það standa henni næst að hýsa mig, þar sem hún kom mér í þessa fallegu vist, en það var allt þar á öðrum endanum í spilum og drykkjudrabbi við strákinn hann Herbert. Hann er nú kominn heim trúi ég, brotinn og brenglaður“. Borghildur gerði kuldalegan hnykk á höfuðið. Ekki hafði talsmátanum farið fram hjá Þórdísi, en hún kunni ekki við að fara að setja ofan í við hana strax- „Svo fór ég til Rósu hans Sigga. Hún lofaði mér að liggja í einhverju fleti, sem ég svaf ekki hálfan svefn í“, hélt Dísa áfram. „Það er nú sjálfsagt ekki þægilegt fyrir hana að fá næturgesti“, sagði Borghildur. Anna horfði stórum augum á fósturdóttur sína. Henni fannst þessi klæðnaður, sem hún var í, framúrskarandi óviðkunnanlegur, en líklega var þetta kaupstaðnarklæðnaður. „Mér þykir þú vera dugleg, Dísa mín, að vera komin alla þessa leið í þessari tíð. Nú eru þó fáir á ferð“, sagði hún. „Ó, það er víst ekki margt að því að vera á ferð núna. Ekki er ófærðin“, sagði Dísa blíð í máli. „En hvernig er heilsan hjá þér núna? Ég hef oft hugsað um það, ef þú værir nú í rúminu og ég hvergi nærri til að hugsa um þig“. „Það er víst engin hætta á að það hefði ekki verið stjanað við mig eins og vant er, hefði ég þurft þess með, en ég hef verið stálhraust í allan vetur, — fór vestur í Stapavík í haust til læknis, sem hressti mig svona vel við“. „En hvað það er gott“, vældi Dísa. „En hvernig líður Jakobi mínum? Hann nennir aldrei að skrifa mér. Ég á hjá honum þrjú bréf, því að ég tel ekki eftir mér að skrifa honum. Þakka þér fyrir bréfið þitt, mamma, og þér líka, Gróa mín. Ég varð nú bara geðveik, þegar ég heyrði um allar þessar skemmtanir hjá ykkur hérna í blessuðum dalnum. Það var kannske eitthvað annað en ævin mín. Ég segi ykkur frá henni seinna. Seinast sleit ég mig bara upp og er hingað komin í glauminn og gleðina til ykkar“.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.