Lögberg - 03.07.1958, Blaðsíða 6

Lögberg - 03.07.1958, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 3. JÚLl 1958 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF „Lína gistir hjá mér í nótt“, sagði Anna Frið- riksdóttir- „Það er engin hætta á, að Fríða hugsi ekki ufti það, sem þarf að gera heima“. Lína þáði boð hennar. En ákaflega fannst henni skrítið að hátta í gamla rúmið sitt og sjá Þórð afklæða sig við rúmið rétt á móti. Það hlutu að vera liðin mörg ár, síðan hún hafði sofið í þessu rúmi. Mikið fleiri en hún hafði reiknað, þegar hún hugsaði um, hvað dóttir hennar hefði verið orðin gömul, ef hún hefði lifað hjá henni. „Hefurðu ekki sofið vel í gamla rúminu þínu, Lína?“ spurði Þórður um morguninn. Það voru víst fyrstu orðin, sem hann talaði við hana. Henni virtist hann hálfu þungbúnari og þögulli en fyrr. „Ég svaf ágætlega“, sagði Lína. „Þetta fer að verða viðkunnanlegra, þegar hann er kominn í gröfina". Borghildur kom inn með morgunkaffið á bakka, sem hún setti á lítið borð við rúmið. Það voru þrjú pör á bakkanum. „Þú drekkur kaffi hérna, Þórður“, sagði hún. Þórður færði stól að borðinu. Svo kom hrepp- stjórinn inn og settist á rúmið fyrir framan Línu. Hún spurði sjálfa sig, því hann væri að setjast þarna. Svarið varð, að það væri ekkert annað sæti við borðið. Ekki gat hann þráð nærveru hennar framar en hún hans. Ást hennar hafði drukknað í bitru táraflóði yfir lítilli líkkistu, sem tilheyrði henni. Svoleiðis myndi einnig hafa verið fyrir honum. Og hana langaði ekkert til að hún lifnaði á ný. „Hvað hefurðu hugsað þér í framtíðinni, Lína mín?“ spurði hann. „Ég get ekki annað en búið áfram, hvernig sem sá búskapur gengur“, svaraði hún. „Ég reyni að útvega þér góðan vinnumann“, sagði hann. „Ætli þér gangi það ekki hálfilla. Það langar líklega fáa til að fara til mín“. „Heldurðu að þú sért svona lila kynnt í sveit- inni?“ sagði hann og brosti glettnislega. „Ég er víst hvorki vel né illa kynnt — bara eins og hvert annað núll, sem enginn gefur gætur að“, sagði Lína. „Núllið er ekki þýðingarlaust“, sagði hann. „Við sjáum nú, hvað setur“. Þórður lagði ekkert til málanna. Lína varð fegin, þegar hann fór. Nærvera þessara gömlu keppinauta um ást hennar fannst henni óþægileg. Anna húsfreyja kom fram úr hjónahúsinu rétt í því að hurðin skall á hæla manni hennar. „Mér heyrðist einhver vera að tala við þig, Lína mín“, sagði hún og kom fram að rúminu til hennar. „Hver hefur verið að drekka með þér?“ bætti hún við, þegar nún sá þrjú bollapör á bakkanum. „Þórður drakk kaffið inni í þetta sinn“, sagði Borghildur. Hún hafði komið inn á réttum tíma til að losa Línu við að svara. „Við fáum okkur hérna aukasopa. Ég kom með könnuna“. Þær settust að kaffidrykkju og ræddu um það markverðasta í sveitinni. Lína spurði eftir Dísu. „Hún er nú víst í þann veginn að trúlofa sig þessum sjómanni, sem hún ráðskar hjá. Hún var svo lánsöm að karluglan fór suður aftur, án þess að grafa það upp, hvar hún væri niðurkomin. Vonandi þarf hún ekki að sjá hann aftur, aum- ingja stelpan", sagði Borghildur. Þegar Lína var komin á fætur, fór hún út í fjósið til að sjá kúna sína- Svo fór hún að hugsa til heimferðar. Hugur hennar var hjá litlu, föður- lausu börnunum heima. Þórður kom með Grána heim á hlaðið og lagði á hann söðulinn og hélt í sveifina, meðan hún vóg sig á bak. Hún þakkaði honum fyrir allt gott. Hann fékk henni súkkulaðis- stykki. „Þetta er handa litlu systrunum", sagði hann. „Krakkarnir vonast alltaf eftir sælgæti, þó að ekki sé farið í kaupstaðinn". Svo bætti hann við: „Þú ættir að láta mig vita, ef þig vanhagar um eitthvað". Hún þakkaði honum aftur. Handa- bandið var langt og hlýtt. Hann sagði enn: „Ég býst við, að það verði litið til með þér. Hann útvegar þér vinnumann, svo að þú þurfir ekki að láta börnin frá þér“. „Ég vona, að mér leggist eitthvað til, svo að ég þurfi þess ekki. Það yrði erfitt fyrir mig“, sagði Lína. ÞRJAR HJALPARHENDUR Línu fannst tómleikinn og söknuðurinn enn á- takanlegri eftir að Fríða fór. Hún var kát stúlka og sat með litlu systurnar tímunum saman og sagði þeim sögur af fátækum, góðum stúlkum, sem urðu drottningar vegna þess, hvað þær voru dyggðugar. Nú voru þær sífellt að jagast við ömmu um að segja sér sögur, en hún var eitthvað svo utan við veröldina, að hún mundi ekki nema upphafið á sögunum, svo þagnaði hún, því að hugurinn hafði fengið annað til að glíma við — eitthvað, sem Doddi hafði sagt eða gert. Litlu stúlkurnar leituðu þá vonsviknar til mömmu sinnar, ef hún væri eitthvað minnugri. Hún reyndi að rugla við þær einhverja endaleysu, ef þær gætu orðið rólegri- En þær voru sífellt að tala um pabba sinn. Nú sváfu þær saman í rúminu, sem hann hafði sofið í með Björgu litlu. Þær töluðu um það, þegar þær voru háttaðar, hvort Guð mundi ekki lofa pabba þeirra að koma aftur til að spila við þær á kvöldin. Mamma hefði svo margt annað að gera. Oft komu þær tárunum út á ömmu sinni með því að spyrja hana um, hver smalaði kindunum og ræki í stekkinn, þegar sumarið kæmi, fyrst pabbi væri dáinn. Lína reyndi að biðja Hildi að vera ekki sífellt að tala um pabba við ömmu. Sjálf saknaði hún hans miklu gæða og umhyggju við hana og börnin. Aldrei leið sá dagur, að hún hugsaði ekki um það, hvað fram undan myndi vera, þegar þessi vandaði förunautur var horfinn. Hildur hafði einhverja ánægju af að rifja það upp, hvað hann hefði leitað mikið að Hildi litlu til að geta kvatt hana í síðasta sinn, sem hann fór að heiman. Hún hafði verið að dunda bak við fjárhúsin með sleðann sinn. „Það hefði verið leiðinlegt, ef hann hefði ekki getað kvatt hana“, sagði hún í endi umtalsins. Lína samsinnti því. Henni þótti vænt um að sjá það, að Hildur fór að hressast. Hún fór að verða lengur á fótum með hverjum deginum. Lífslöngunin, sem virtist alger- lega vera slokknuð á tímabili, fór að vakna á ný. Hún gæti þá kannske eitthvað gert fyrir börnin hans Dodda — gætt að drengnum og hugsað um matinn, þegar Lína væri við útiverkin. Helzt hefði hún þó kosið að fá að verða Dodda sínum samferða yfir á eilífðarlandið. Þau höfðu alltaf verið svo samrýmd — lifað hvort fyrir annað í mörg ár. Hún fór að grípa í rokk og kamba og fann, að það dreifði söknuðinum og einstæðingskenndinni. Oft kom það þó fyrir eftir langa þögn, að hún bar upp þessa ásæknu spurningu: „Hvernig skyldi þetta fara fyrir þér, góða mín — skyldum við verða að skiljast að og börnin verða látin sitt í'hvora áttina?“ Svarið var alltað það sama: „Nei, nei, Hildur mín, mér leggst eitthvað til- Við verðum hér að minnsta kosti þetta ár“. Þannig svaraði þessi bjart- sýna kona, sem þó bar daglegar áhyggjur út af því, hvernig hún gæti haldið heimilinu saman, þegar fyrirvinnan var horfin. Helga á Hóli, sú margfróða kona, sagði henni, að Björn í Hvammi væri ráðinn til Jóns hrepp- stjóra næsta ár. Náttúrlega ætlar hann þér hann fyrir ráðsmann. Ekkert hefur hann að gera með þrjá vinnumenn núna, þegar Jakob er orðinn svo duglegur, að allir eru hissa á þeim framförum. Ekki gat Lína annað en kviðið fyrir því að fá skólagenginn mann á heimilið. Það var víst ekki fyrir hana að gera honum til hæfis, en að öðru leyti gat hún verið ánægð. Hvammsbræður voru víkingar til vinnu, enda höfðu þeir ekki alizt upp við annað. En svo kom það til, að borga hátt kaup af sínum litlu efnum. Helga hafði sagt, að hann ætti fjölda af skepnum, sem hann hefði á kaupi sínu. Þá vantaði fjárhús yfir þær skepnur. Það orsakaði ný útgjöld að byggja þau. Endirinn yrði svo sá, að búið, sem ekki var ýkjastórt, gengi saman með hverju ári, þangað til hún yrði nauð- beygð til að hætta búskap og selja skepnurnar, sem eftir yrðu, og flytja í kaupstað — draga þar fram lífið með því að prjóna á vélina, þvo þvotta og vinna í fiski. Það var ekki eins fyrirkvíðan- legt og að sjá skepnurnar seldar þeim, sem hæsta verðið byði, hvernig sem þei mliði hjá þeim. Þannig voru hugsanir einstæðingsekkjunnar, þeg- ar hún vakti á dimmum, köldum nóttum útmán- aðanna. Oft datt henni í hug, hvað tímarnir gætu breytzt ,ef það yrði Björn í Hvammi, sem hjálp- aði sér. Einu sinni hafði hún klifrað upp í Hvamms fjallið með mannbrodda á fótum, þegar hann og Friðrik bróðir hans grétu af hugleysi niðri á grundunum. Nú var það hún, sem þjáðist af kjark- leysi og kvíða fyrir því að ganga á brattann. Einn daginn komu litlu systurnar inn með mikl- um asa og sögðu, að nú væri maður að koma. Hann væri gamall og gengi við staf- Gestakoma var sjaldgæf, nema ef nágrannakonurnar litu inn með prjónaband. Bjössi á Hóli var daglegur gestur eða öllu heldur heimamaður, því að hann hirti skepnurnar. Lína var því ekkert ókunnug því, sem við bar í sveitinni, því að hann var fréttafróður eins og móðir hans. „Komdu út og sjáðu hann“, sagði eldri systirin og togaði í móður sína. Lína stöðvaði prjónavélina og gekk til dyra með dætr- um sínum, sem héldu sín í hvora hönd henni og sögðu: „Þú þarft ekkert að vera hrædd, mamma. Við getum passað þig. Það er heldur ekki víst, að hann sé neitt slæmur“. Lína brosti — þetta var svo líkt því, að faðir þeirra hefði talað það. Auð- vitað ætluðu þær að hjálpa henni af sínum veiku kröftum. — Hún þekkti manninn, þótt hann væri niður við á. Það var faðir hennar. Einu sinni verður allt fyrst. Hann var þá á leið til hennar. Reyndar voru þau orðin hálfókunnug. Hún hafði einu sinni flúið til föðurhúsanna, síðan hún kom að Jarðbrú. Það var, þegar hún fór með Hildi litlu út eftir til að komast hjá því að fara með hana fram að Nautaflatakirkju til skírnar. Þau höfðu tekið henni vel, en hún heimsótti þau ekki aftur. Hún fann, að hún hafði misst traust þeirra og virðingu. Henni sárnaði lítilsvirðíngin og með- aumkunin, sem lá í því hjá systrunum, þegar þær töluðu um, hvað barnið væri líkt honum Dodda. Nú voru gömlu hjónin orðin tvö ein í kotinu að mestu leyti- Systurnar voru giftar — önnur út úr sveitinni, hin var búsett á ósnum. Lína leit alltaf inn til hennar, þegar hún kom ofan í kaupstaðinn, en hún var alltaf svo pakksödd frá frú Svanfríði, að hún hafði enga lyst á kaffi hjá henni. Dodda bauð hún aldrei neitt, þó að hún sæi hann. Gamli maðurinn gekk léttilega heim túnið. „Ertu hrædd, mamma?“ spurði Hildur litla. „Nei, þetta er hann pabbi minn. Það er óþarfi ag vera hrædd við hann“. Hún heilsaði föður sínum brosandi og bauð hann velkominn. Hann kyssti litlu systurnar á ennið. Þær brostu framan í hann, af því að mamma þeirra brosti. Svo gengu þau öll til baðstofu. „Hvað er það, sem ég sé?“ sagði Hildur, þegar gamli nágranninn utan af Ströndinni kom inn úr dyrunum. „Ekki undrar mig, þótt ég svæfi ekki vel í nótt“. Gesturinn heilsaði hlýlega. „Þú hefur hlotið að hafa átt þykk skæði, fyrst þú lagðir upp í slíka langferð, Árni minn“, sagði hún og beiskju- bros lék um varir hennar. „Já, við slátruðum ársgömlum tudda í haust. Líklega hefur konan tekið hrygglengjuskæðin", sagði hann og brosti líka. Þau höfðu oft skrafað saman, en aldrei í þessum tón fyrr. Lína leysti skóna af föður sínum, aðgætti hvort utanyfirsokkarnir væru vel þurrir og bauð honum svo að halla sér upp í rúmið — hann hlyti að vera þreyttur að ganga svona langt. Hann þáði hennar góða boð- Hildur spurði hann frétta utan af Ströndinni. Hann sagði henni það, sem honum fannst þess vert að bera milli bæja. Svo mundi hann þá allt í einu eftir því, að hann hefði átt að skila kveðju frá konunni til þeirra. „Er hún nú ein heima?“ spurði Hildur. „Nei, sá yngsti er heima í vetur. Hann var fyrir sunnan í fyrra. Þeir eru til skiptis heima á veturna, en vanalega báðir heima á sumrin. Þeir eiga tals- vert af skepnum hjá okkur“.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.