Lögberg - 09.10.1958, Síða 4
4
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 9. OKTÓBER 1958
■■l'. 1 '■ ■ 1 ' ' . ■ ■ ■ ' ' ■ ' ' ■■ -
Lögberg
GeflS út hvem flmtudag af
THE COLUMBIA PRESS LIMITED
303 KENNEDY STREET, WINNIPEG 2, MANITOBA
Utanáskrift ritstjórans:
EDITOR LÖGBERG, 303 Kennedy Street, Winnipeg 2, Manitoba
Ritstjóri: EINAR P. JÓNSSON
Skrifstofustjóri: INGIBJÖRG JÓNSSON
Verð $5.00 um árið — Borgist fyrirfram
"Lögberg" is published by Columbia Press Limited,
303 Kennedy Street, Winnipeg 2, Manitoba, Canada
Printed by Columbia Prtnters
Authorised as Second Class Mail, Post Office Department, Ottawa
WHitehall 3-0931
Prýðilegt kynningarrit
um Bandaríkin
Eftir prófessor RICHARD BECK
Nýlega kom út á vegum Upplýsingaþjónustu Bandaríkj-
anna í Reykjavík rit, sem nefnist Bandaríkin (staðhættir og
landkostir), í íslenzkri þýðingu Þórðar Einarssonar fulltrúa.
Er hér um að ræða einkar greinargott og að sama skapi
fróðlegt kynningarrit. Hefst það á almennu yfirliti, þar sem
lýst er í stuttu máli landslagi, veðurfari og jarðargróðri í
Bandaríkjunum, íbúum þeirra, ríkjaskipan og tæknilegri
þróun. Síðan er ritið í þessum meginköflum: Norð-Austur-
héruðin, Miðhéruðin, Suð-Austurhéruðin, Slétturnar miklu,
Fjöll og eyðimerkur, Dalir með ströndum fram, 48 ríki — ein
þjóð. Af framanskráðri upptalningu má ráða það, hve fjöl-
þætt þessi landslýsing er, en vitanlega samtímis stiklað á
stóru, þar sem fjallað er um eins geysilegt landflæmi og
Bandaríki Norður-Ameríku eru.
En það gefur nokkura hugmynd um víðfeðmi þeirra,
þegar á það er minnt, að eimreið, sem ekur með 100 kíló-
metra hraða á klukkustund, er tvo sólarhringa á leiðinni yfir
þvert meginland Bandaríkjanna. Og tilbreytnin í landslagi
og veðurfari er sambærileg.Eftirfarandi staðhæfing bókar-
innar er í engu orðum aukin:
„Sérhver ferðamaður, sem heimsækir Bandaríkin, getur
fundið umhverfi, sem minnir hann á landslag heimalands
síns — svala birki- og greniskóga með vötnum hér og þar,
snæviþakta fjallstinda, bylgjandi akra með kjarrivöxnum
fljótsbökkum, hrikalega sjávarhamra og víðfeðmar grasa-
sléttur, vínekrur og sólbakaða eyðisanda.“
Af því leiðir aftur jafn mikla fjölbreytni í atvinnulífi
Bandaríkjamanna, sem einnig er ágætlega lýst í þessu riti,
og þá ekki síður þjóðinni merkilegu, sem byggir þetta víð-
lenda og auðuga andstæðnanna land. Glöggri mynd af upp-
runa hennar og því afli sameiningarinnar, sem gert hefur
hana að einni þjóðar heild, er brugðið upp í þessum máls-
greinum :
„Það er af ýmsum ástæðum erfitt að gera sér fulla grein
fyrir því, að Bandaríki Norður-Ameríku skuli vera eitt, heil-
steypt þjóðland. Dökklit grenitré norðurríkjanna og grönn
pálmatré suðurríkjanna; græn, frjósöm ræktarlönd og naktar,
vindblásnar klappir, afskekta bóndabýlið og stórborgin með
milljón heimila — allt er þetta hluti af ásjónu Bandaríkjanna.
Grannvaxni, svarthærði verkamaðurinn á ávaxtaekrunni,
sem talar spænsku reiprennandi; hávaxni, ljóshærði korn-
ræktarbóndinn, sem átti afa, er fæddur var í Noregi; ítalski
vörubílstjórinn; námuverkamaðurinn með langa nafnið, sem
aðeins Pólverji getur borið rétt fram; kaupmaðurinn, sem
dansar á bak við drekann á kínversku nýjárshátíðinni — allir
eru þessir menn Bandaríkjamenn.
Hver einasti maður, sem í Bandaríkjunum býr, er annað
hvort sjálfur aðfluttur eða hann er afkomandi manna, sem
þangað hafa flutzt. Indíáninn yfirgaí ættjörð sína í Asíu
fyrir þúsundum ára síðan til þess að hefja nýtt líf í nýjum
(heimkynnum. Allt frá því að fyrsti Evrópumaðurinn steig
fæti sínum á meginland Ameríku hefur fólk frá öllum löndum
heims flykst vestur um haf og sezt þar að. Eigi að síður er
þetta víðáttumikla landsvæði, sem er eins breitt og Atlants-
hafið sjálf, ein samfeld heild, eitt sameinað sambandsríki,
ein þjóð, og íbúar þess tala allir sömu tungu, lúta sömu
lögum og hafa að mestu tileinkað sér sömu menningarein-
kennin. —
Hvernig mætti þetta ske? Svarið liggur í samstarfi
millum íbúa landsins, samstarfi, sem skapað hefur eina,
sameinaða þjóð úr mörgum ólíkum þjóðabrotum.“
Rit þetta er bæði skilmerkilega og skemmtilega samið,
og þýðandinn hefur leyst verk sitt vel af hendi, með smekk-
vísi og lipurð í máli.
En það er eigi lesmálið eitt, þótt prýðilegt sé og vel í
letur fært, sem gefur riti þessu sitt mikla fróðleiksgildi,
heldur einnig landabréfin og hinar fjölmörgu yfirleitt góðu
myndir, sem það er prýtt, og alveg sérstaklega litmyndirnar,
því að fjölbreytnin og litbrigðin í landslagi Bandaríkjanna,
SIGURBJÖRN EINARSSON, prófessor,
forseti Guðfraeðideildar Háskóla íslands:
Vestur-íslenzkur prestur starfar við
Guðfræðideild Hóskóla íslands
Reykjavík, 26. sept. 1958
Herra ritstjóri:
Hér með sendi ég yður
greinarstúf með vinsamleg-
um tilmælum um, að þér birt-
ið hann í heiðruðu blaði yðar.
Ráðning séra Haralds Sig-
mars til kennslustarfa við
Háskóla Islands til bráða-
birgða er mál, sem varðar
landa okkar vestra. Frá okkar
sjónarmiði, sem stóðum að
þeirri ráðningu, er hún fyrst
og fremst raunhæf viðleitni
til aukinna tengsla við þjóð-
bræður okkar í Ameríku,
kristið og íslenzkt handtak
yfir hafið. Þess vegna eru all-
ir lesendur blaðs yðar á viss-
an hátt aðilar að því máli.
Séra Harald hefur og kynnt
sig það vel, bæði í starfi sínu
og að öðru leyti, að þess er
skylt að geta opinberlega.
Með þökkum fyrir starf
yðar og góðum óskum
yðar
Sigurbjörn Einarsson
----0----
Séra H a r a 1 d S. Sigmar
hefur um eins árs skeið dval-
izt hér á Islandi, ásamt konu
sinni', frú Kristbjörgu Ethel,
og börnum þeirra fjórum.
Hann kom hingað í fyrrahaust
til þess að gegna kennslu-
störfum við Guðfræðideild
Háskólans í fjarveru Þóris
Þórðarsonar, prófessors, sem
hafði verið boðið að kenna í
eitt ár við McCormick Theol-
ogical Seminary í Chicago.
Benti hann á séra Harald Sig-
mar sem staðgengil sinn og
var það samþykkt of öðrum
kennurum Guðfræðideildar
og stjórn Háskólans. Nú hef-
ur svo ráðizt, að séra Harald
verði hér annað ár til, þar eð
hann hefur hlotið styrk frá
Fullbright-stofuninni til dval-
ar á Islandi og háskóla-
kennslu, en prófessor Þórir
Þórðarson mun dveljast í
Chicago í vetur við vísinda-
störf.
Harald Sigmar kom hingað
til lands flestum ókunnur.
Margir könnuðust að vísu
við ætt hans og þekktu hana
að miklu góðu. Foreldrar
hans, dr. og Mrs. Haraldur
Sigmar, höfðu og verið gestir
hér fyrir fáum árum og bróð-
ir hans, séra Eric Sigmar, var
að námi við Háskóla íslands
nokkru fyrr og urðu þau hjón-
in mjög vinsæl hér. Um séra
Harald er það skemmst að
segja, að hann hefur orðið
hugljúfi hvers þess manns,
sem hefur haft tækifæri til
þess að kynnast honum. Á
það jafnt við um samkennara
hans við Háskólann, stúdent-
ana þar, nemendur hans, og
aðra. Að sjálfsögðu hefur
hann átt við nokkra öruðleika
að etja sakir þess að íslenzkan
var honum ótöm og margt
annað framandi í landi feðra
hans, svo sem eðlilegt er. En
hann hefur sigrazt á þessum
erfiðleikum. Hann bregður að
vísu gjarnan fyrir sig ensku í
kennslunni, því að hún er
þjálli við hann ennþá, þegar
hann þarf að gera grein fyrir
torveldu máli undirbúnings-
laust. En stúdentar kunna því
vel að fá þannig æfingu í að
hlusta á góða ensku.
Guðfræðideild Háskóla ís-
lands er, eins og aðrar hlið-
stæðar háskóladeildir, bæði
vísindaleg stofnun og skóli til
hagnýts undirbúnings undir
prestsstarf. Hún þarf því að
vera í nánum tengslum við
vísindalega starfsemi samtíð-
arinnar og við kirkjulegt líf
í umheiminum. Aldalangri
einangrun íslands er nú sem
óðast að létta. Einn vottur
þess er vaxandi samband ís-
lenzkra guðfræðinga við um-
heiminn. Erlendir háskóla-
kennarar, kunnir guðfræðing-
ar, hafa verið gestir okkar.
Þannig var prófessor Bent
Noack frá Kaupmannahöfn
starfandi við guðfræðideild-
ina haust-misserið í fyrra. En
það er engu síður mikilvægt
að verðandi prestar okkar
kynnist starfsaðferðum í
kirkjum annarra landa. Og
það hefur lengi verið skoðun
mín, að við hefðum sérstak-
lega mikið að sækja í þeim
efnum til lúthersku kirkjunn-
ar vestan hafs. Það var okkur
öllum fagnaðarefni, þegar dr.
Valdimar Eylands hafði tæki-
færi til þess að dveljast og
starfa hér sem prestur. Slíkir
menn hafa örvandi áhrif,
flytja með sér nýjan andvara
og benda á nýjar leiðir. Það
er líka ánægjulegt, að ungir,
efnilegir kandidatar frá Há-
skóla Islands taka vígslu til
lútherskra safnaða vestra og
bráðabirgða þjónustu þar.
Með þessu skapast ekki aðeins
holl og heilnæm sambönd við
kristni hins stóra lands vest-
an hafsins, heldur líka við þá
íslenzku þjóð, sem þar býr.
Dvöl séra Haralds Sigmars
er mikilvægur þáttur í þeirri
festi, sem tengir og tengja á
hina íslenzku, lúthersku
kirkju og hið íslenzka þjóð-
erni beggja megin úthafsins.
Hann er góður fulltrúi kirkju
sinnar og þjóðar hvar sem
hann fer og starfar.
ADDITIONS
to Betel Building Fund
Brian W. Hawcroft
342 Dunbeath Avenue
East Kildonan 5,
Manitoba $15.00
---0----
Fred T. and Helga Fridgerson
9708 National Blvd.,
Los Angeles 34,
California $100.00
In loving memory of my
parents Ásgeir T. and Thor-
björg Fridgeirson, and in
memory of my wife’s father
Jónas Jónasson frá Húki.
------------0---
Mr. & Mrs. James Johnsön,
Amaranth, Man. $10.00
---0----
Mr. & Mrs. G. Ólafsson,
Reykjavik, Man. $10.00
"Betel"$205,000.00
Building
Campaign Fund
—180
Make your donations to tb«
"Betel" Campaign Fund.
123 Princess Street.
Winnipeg 2.
eins og annars staðar, njóta sín eigi verulega nema í slíkum
myndum. Eins og vera ber, er ritið ennfremur einstaklega
vandað um ytri búning.
Fer svo vel á því að ljúka þessari stuttorðu umsögn með
niðurlagsorðum ritsins sjálfs:
í bók þessari hefur verið farið hratt yfir sögu. Við höfum
aðeins fengið að líta Bandaríkin ofurlitla stund, við höfum
aðeins séð lítinn hluta landsins. Við höfum aðeins séð fólkinu
bregða fyrir, vandamálum þess og afrekum.
Að líta eitt land og íbúa þess stutta stund er ekki það
sama og að skilja þau til hlítar. Landafræðin segir ekki alla
söguna.
En samleikurinn millum íbúa Bandaríkjanna og þeirra
staðhátta, sem náttúran hefur búið þeim, sýnir okkur hvernig
frjálsir og hugdjarfir menn hafa farið að því að byggja og
nema nýtt land og hvað þeir geta gert til þess að færa sér í
nyt auðæfi náttúrunnar.“