Dagblaðið Vísir - DV - 13.02.1982, Blaðsíða 17
DAGBLAÐIÐ & VÍSIR. LAUGARDAGUR 13. FEBRÚAR 1982.
17
ÞEGAR
DAUÐINN
NÁLGAST
Lýsingar á síðustu æviár-
um franska rithöf undarins
Sartre vekja gremju
Simone de Beauvoir, franski rithöf-
undurinn, hefur sent frá sér nýja bók,
,,La ceremonie del adieux” sem við
gætum e.t.v. þýtt „Kveðjustund” á ís-
lenzku. Bókin lýsir síðustu mánuðum
Jean Paul Sartre, lífsförunautar henn-
ar, sem lézt í fyrra.
Bókin hefur vakið gremju í heima-
landi de Beauvoir fyrir það hversu
hreinskilnislega hún segir frá sjúkdóm-
um og dauðastríði Sartres. Ólíkt bók de
Beauvoirs um andlát móður sinnar sem
fékk verðlaun og þótti afburða góð,
hefur Kveðjustundinni verið illa tekið.
„Ég veit ekki hvaða rétt hún hefur til
þessa,” segir Bernard-Henri Lévy
heimspekingur, „til að gefa út svo ná-
kvæma skýrslu um angist Sartres, til að
lýsa niðurlægingu hans og leið hans í
gröfina.” Le Monde sagði lýsingar de
Beauvoir næsta sjúklegar.
Smásögur um niðurlægingu
ef ri ára
Jean Paul Sartre var mjög veikur sín
síðustu ár. Hann var með mikla æða-
kölkun, kransæðaveiki og nær blindur.
Simone de Beauvoir segir mjög opin-
skátt frá og hikar ekki við að segja
smásögur af niðurlægingu hins aldraða
og veika manns. Hún segir frá disk með
fiskisúpu, sem Sartre missti niður á sig.
,,Við þurrkuðum af skónum hans og
þjónninn kom meðnýjan disk.”
Sagt er frá þvagvandamálum Sartres.
Hann átti í erfiðleikum með að halda
vatni og skildi oft eftir bletti í stólum,
vætti náttfötin sín eða óhreinkaði bux-
urnar. ,,Hann tók þessu sjálfur með
jafnaðargeði, en mér þótti þetta óþægi-
legt og skildi jafnvægi hans ekki. Mér
fannst óþolandi að hann skyldi þurfa
að bera plastpoka á sér.”
Hann missti sígarettur úr höndun-
um, en Sartre reykti tvo pakka á dag,
rak sig á húsgögn og hurðir. Einu sinni
þegar hann kom að heimsækja Simone,
var lyftan i húsinu biluð svo hann gekk
upp á 10. hæð. Um kvöldið gat hann
ekki talað vegna þreytu og daginn eftir
hafði andlit hans lamazt. „Munnur
hans og blind augun gáfu andlitinu ein-
hvern óhugnalegan svip,” skrifar
Simone.
Flótti frá veröldinni
Eftir að hann varð blindur á báðum
augum, átti hann það til að sofa eða
liggja mókandi svo dögum skipti. ,,Ég
er sannfærð um að það var nokkurs
konar flótti,” skrifar Simone, „hann
gat ekki viðurkennt blindu sína.”
Sartre hélt lengi vel í þá von að sjónin
kæmi aftur. Einu sinni spurði hann
Simone hvort hann ætti eftir að sjá ljós
aftur. Hún minnist þess hversu skelfd-
ur og nær skömmustulegur hann var á
svipinn. „Nei,” varð hún að svara, og
,,ég grét alla nóttina á eftir. Það var
svo hræðilegt að eyðileggja. Það er
hræðilegt að lifa með þjáningu vonar-
innar.
Hann gat fylgzt með sjónvarpinu og
sat alveg upp við það til að geta séð
uppáhaldsmyndefni sitt, kúrekamynd-
ir. Og hann átti það til að renna
fingrum sínum yfir síður nýrra bóka og
reyndi að stafa sig fram úr þeim. „En
ég er ekki lengur rithöfundur,” sagði
Sartre. ,,Á vissan hátt er búið að taka
takmark mitt í lífinu frá mér. Ég var og
nú er ég ekki lengur.” Simone talar um
þetta í bókinni. „Ég sjálf,” skrifar
hún, „get ekki dæmt um gæði eigin
texta án þess að lesa hann. Sartre var
þannig líka.”
Las upphátt
fyrir hann
Simone las mikið upphátt fyrir
Sartre. Meðal siðustu bókanna sem
hún las var Hitler, eftir Joachim Fest.
Hún skrifar í bókinni: „Hann var and-
lega heill. Hann gat rabbað um það
sem við vorum að lesa, en þó ekki
lengi. Hann spurði einskis og fékk eng-
ar nýjar hugmyndir. Oft sagði hann:
,,Ég er tómur,” og stundum spurði
hann hana áhyggjufullur: „Hefur
greind mín rýrnað?”
Margar konur á vakt
Bókin hefst þegar árið 1974. Þá fór
Simone de Beauvoir að lesa inn á
Jean Paul Sartre og Simone de Boauvoir.
segulbönd ýmislegt sem henni datt i
hug. Það er af þessum böndum sem
hún vann bókina.
Þar kemur fram hversu mikiá Sartre,
eftir að hann veiktist, átti undir vin-
konum sínum, fyrst og fremst ástmey
sinni, Simone, en einnig fósturdóttur
sinni, Arlette og þremur öðrum. Þær
skiptust á um að fara með honum út, á
kaffihús i morgunverð og hádegismat
og á Coupole veitingahúsið í kvöld-
verð. Þær fóru með honum í ferðalög.
Eftir að hann hætti að geta gengið
óstuddur, gaf Simone honum hjólastól.
Konurnar sáu einnig um að kaupa hana
honum fatnað.
Þegar enginn
gætti hans...
Umgengni við konur var Sartre
mikils virði. Honum þótti gaman að
tala við þær og ljómaði allur þegar þær
voru ungar og skemmtilegar. „En til
hvers fann hann í návist þeirra?” spyr
Simone. „Því gat hann ekki sjálfur
svarað.”
Ef enginn var til að gæta hans, fékk
hann sér viskt eða vodka. Hann faldi
flöskurnar bak við bækurnar í skápun-
um.”
Sagan segir að síðustu orð Sartres
hafi verið: „Næsta sjúss fáum við
okkur hjá þér.” Hann átti að hafa sagt
þetta við ganilan kunningja sinn. En
Simone rengir þessa sögu í bókinni,
hún segir hann hafa sagt: „Ég elska þig
mjög, kæri þvottabjörn,” en það var
gælunafn hans á Simone vegna iðni
hennar. Hann gat ekki talað meira og
hún sat hjá honum og hélt í hönd hans.
Svo bauð hann henni varirnar og hún
kyssti hann að skilnaði. „Svona
nokkuð var svo ólíkt honum, slík orð
og athafnir.” Simone var hjá honum
alla síðustu dagana á sjúkrahúsinu.
Þegar hann var fluttur í hasti á gjör-
gæzlu í síðasta sinn, bað hún læknana
grátandi að sjá til þess að hann þjáðist
ekki, „hann má ekki verða hræddur,
hann má ekki þjást, hann má ekki
finna nálægðdauðans.”
Síðustu stundirnar, sem Sartre lifði,
var hann enn á sjúkrahúsinu. Simone
lýsir þeim stundum. Hún keypti viskí-
flösku og bauð fimm vinum þeirra að
koma og þau sátu hjá líkinu og drekktu
sorg sinni. Simone vildi leggjast I rúmið
hjá honum, en hjúkrunarkonan leyfði
það ekki.
Við munum ekki
sameinast aftur
Simone de Beauvoir fylgdi Sartre til
grafar ásamt með 50.000 öðrum París-
arbúum. Um kvöldið fór hún út að
borða á veitingahúsi á Montparnasse.
,,Ég man ekkert af þessu kvöldi, líklega
hef ég drukkið of mikið. Það þurfti víst
að hjálpa mér út. Ég hugsaði með mér:
„Dauði hans hefur aðskilið okkur.
Minn eigin dauði getur ekki sameinað
okkur aftur.”
Þessar lýsingar Simone de Beauvoir
hafa, eins og fyrr sagði, vakið gremju
margra. Sumir hafa orðið til að efast
um sannleiksgildi alls þess sem hún
skrifar nú og hefur skrifað, um sam-
band sitt og Sartres. Það hefur löngum
þótt mikið fyrirmyndarsamband, en
raunar eru engin orð fyrir því nema
hennar eigin. Nú er sagt að hún sé enn
að skrifa óáreiðanlega goðsögu. Kona,
sem vinnur að ævisögu Sartres í Banda-
ríkjunum, segist munu hafa aðra sögu
að segja.
En aðrir fagna því að Simone skuli
með hreinskilni sinni hafa lýst síðustu
mánuðum Sartres. Hún haft flett ofan
af bannorðum um það að vera gamall
og veikur, bannorðum sem ættu að
víkja fyrir sannleikanum, sem lang-
flestir verða að horfast í augu við.
SMÁAUGLÝSING í
ER ENGIN SMÁ-AUGLÝSING
A THUGIÐ!
Opið alla virka daga frá kl. 9—22
± Laugardaga frá kl. 9—14
Sunnudaga frá kl. 14—22
'É
BIADID&
Smáauglýsingadeild—Þverholti 11 —Súni27022