Dagblaðið Vísir - DV - 07.03.1987, Blaðsíða 10

Dagblaðið Vísir - DV - 07.03.1987, Blaðsíða 10
52 LAUGARDAGUR 7. MARS 1987. Gunnar Örn og nýleg höfuðlausn eftir hann. Málaralistin er fiskirí Heimsókn til Gunnars Arnar listmálara að Kambi Ekki viðrar glæsilega á leiðinni austur í Holtahrepp þennan þriðju- dag í mars. Á Hellisheiði er hálka og hraglandi og þegar komið er að Þjórsárbrú er þungbúinn himinninn búinn að hvolfa yfir mig hverri skúr- inni á fætur annarri. Vindhviðurnar bera mig að afleggjara, bæjarleið austan við brúna, „Heiði“ stendur þar á vegvísi en ég veit af reynslu að grýttur götuslóðinn liggur einnig heim að Kambi. Þar býr Gunnar Örn Gunnarsson, landsþekktur listmálari, sem um daginn hlaut Menningarverðlaun DV fyrir framlag sitt til íslenskrar myndlistar á árinu 1986. Ég fleyti kerlingar eftir slóðanum og eftir fimm mínútur blasir bærinn við mér þar sem hann hjúfrar sig upp við gróið klettabelti. Bæjarstæði gerast vart glæsilegri en að Kambi, í skjóli fyrir verstu veðrum en með útsýni yfir góð tún, gjöfult veiðivatn, sjálfa Þjórsá og blómlega byggðina allt um kring. Þarna er líka gnótt húsa, nýlegt tvílyft timburhús í fjallakofastíl, stór járnbitaskemma þar sem Gunnar Öm málar og gerir skúlptúra, gam- alt bárujárnsklætt íbúðarhús, sem nota má sem vistarverur fyrir gesti og gangandi, og loks 350 kinda fjár- hús og hlaða. Fortíðin er líka áþreifanleg að Kambi því enn standa þar gamlir og hálffallnir torfkofar sem Gunnar Örn ætlar sér að reisa við og nota sem geymslur. Hestar góðir fyrir geðið En í bili tilheyra kofarnir ævin- týraveröld Maríu litlu Gunnarsdótt- ur, sjö ára heimasætu á bænum, sem rekur þar búskap með hundinum Depli. Gunnar Örn er úti í fjárhúsum við gjaftir þegar mig ber að garði. Hann er regnvotur en sællegur þegar hann birtist. Það kemur í ljós að hann er fyrir margt nokkru búinn að losa sig við allar kindur, gott ef ekki búmark og fullvirðisrétt líka. í staðinn varð hann sér úti um sjö hesta og ríður út öllum stundum. „Ég get ekki hafist handa við að teikna eða mála á morgnana fyrr en ég er búinn að tala við hestana, gefa þeim og kemba. Svo er ég að reyna að temja einn folann, sem er gott fyrir mitt geð, því tamning krefst bæði hlýju og þolinmæði. Að loknum vinnudegi er svo ómet- anlegt að geta riðið niður að Þjórsá til að hlusta á árniðinn.“ Það voru margir sem ráku upp stór augu þegar fréttist að Gunnar Örn hefði selt stóra íbúð sína og vinnu- stofu á besta stað í Reykjavík til að kaupa „jörð fyrir austan“, víðs fjarri heimsins glaumi. Ég spyr Gunnar Örn fyrst um það hvort lífsleiði eða menningarþreyta hefðu ýtt undir þessa búferlaflutn- inga. „Alls ekki. Okkur Þórdísi (Ingólfs- dóttur, konu Gunnars og heimilis- hjúkrunarfræðingi) hafði lengi dreymt um að eiga heimili bæði í Reykjavík og úti á landi en það gekk ekki upp. Ég var líka farinn að fá mikinn áhuga á skúlptúr sem er auð- vitað ansi plássfrekur. Þegar ég frétti af þessum miklu húsum hér að Kambi vaknaði mynd- höggvarinn í mér fyrir alvöru. Ætli það megi ekki segja að skúlpt- úrinn hafi verið hvatinn að þessu öllu?“ Að eiga tímann allan Hvað með einangrunina frá menn- ingunni? spyr ég. „Jú, vitanlega sakna ég þess að geta ekki hlaupið til með stuttum fyrirvara að sjá ýmislegt það sem er að gerast í Reykjavík. En á móti kemur að hér að Kambi er eins og tíminn nýtist miklu betur en í bænum. Maður á hann allan og g'utrar honum ekki niður í fánýta iðju.“ Læðist einmanakenndin aldrei að listamanninum þar sem hann stend- ur úti í skemmu, klappar í granít og hlustar á gnauðið í vetrarvindum? „Langt því frá. Ég á gott með að vera einn með sjálfum mér. Verð helst að vera aleinn þegar ég er að Gunnar Örn, Maria, hundurinn Depill og traktorinn Guggenheim. í fjarska má sjá íbúðarhúsið að Kambi þar sem Þórdis, húsmóðirin á heimilinu, var að jafna sig eftir veikindi.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.