Dagur - 19.12.1953, Blaðsíða 31

Dagur - 19.12.1953, Blaðsíða 31
JÓLABLAÐ DAGS Frostaveturinn 1917—1918 1. Snemma komu snjóar, bleytuhnðar, snöggir byljir, kafaldsdembur tíðar; sköflum huldust skjól og fjallahlíðar, skemmdust eða náðust ekki hey. Nýár kom með nepjukaldan anda, niðaþoku mekkir sáust standa hafsbrún yfir. Hel með vængi þanda hófst til flugs og réð á land og ey. Ofsahríð með gaddi grimmum flæddi, menn og skepnur mæddi, kvaldi, hræddi. Miklir snjóar hrjáðu sýluð fley. Bálið lægði. Hross í kófi hörðu hófi köldum snjóastorku börðu, soltnum augum heim að húsum störðu, hrakin eftir fártryllt veðraskök. Rjúpan sneri raunamóð úr landi, ref og fálka sultur varð að grandi. Haíið gyrtist hvítu jakabandi, harður kreppti ís að sel í vök. Hrakinn sjófugl hrökk til dala og fjalla, hungri kvalinn dauður varð að falla. Lögmál sama gildir eins um alla: ómild reynast frosts og dauðans tök. Timinn leið; en vel á verði stendur Vetur jötunn, seint við miskunn kenndur. Hafís þegar herjar landsins strendur, hungurvofan löngum hrýnir geir. Hvað mun létta þungum þjóðar vanda? Þumbungsháttur, blótsorð vorra landa? Von um komu vors með sólskins anda? Vortíð engin lífgar það, sem deyr. Eigi er breyting veðra manns á valdi, veikum mætti storkar ísinn kaldi. Hvar finnst sá, er straumi og stormum haldi sterkri í hönd og bjóði: Komi þeyr! 2. * Maður, ert þú meiri en neisti á arni, meiri en snækorn, eitt á jökulhjarni? Minni ert þú en minnsti efnis kjarni, miðist stærð þín heiminn sjálfan við. Líf þitt skammvinnt, líkt og hverfull reykur, líður brott, er kallar dauðinn bleikur. Rekur hafís burt þinn vilji veikur? Vegur ósk þín hafsins bjarta lið? Þúsund rastir þekur sveitin hvíta, þrúðgan gleipni mannkyns öfl ei slíta: maður, dramb þitt má í grasið bíta, máttkan Drottin alheims bið um grið. Í5l Þegar geipar hávært mannsins hroki, hjartað unir synda þrældómsoki, beiðist þess, að bæn og kristni þoki brott úr landi, dómi stefnir að. Himinvaldur hroka mannsins lægir, hirting beitir eins og kærleik nægir; iðrist menn, þeim elska Drottins vægir, aldagömul mannkyns reynsla er það. Iðrun synda, vægðar bljúgt að beiðast, böli létta mundi allra greiðast. Neyðin manns og náðin Guðs er leiðast, nýja blessun veitir þjóð og stað. Þeir, sem Guði æðstum Htið unna, 'íþrótt bænar sjaldan mikið kunna. Aðrir verða að opna lífsins brunna, ausa blessun Guðs úr náðarlind. Fyrirbæn er fegurst list í heimi, flestir þó að mætti hennar gleymi. Hún er miklu dýrri silfri og seimi, sálu veitir flug á lífsins tind. ' i Grípi manninn ósæld, andleg korka, efinn verði sálu hélustorka, vegna bænar leysist andleg orka. ísi líkt við heitan sólskinsvind. 3. Erlend hjón á Isalandi dvöldu, eygðu skort í nánd, en bæn þau töldu rétta leið til hjálpar, hana völdu, Himnaföður báðu um líkn og náð; báðu, að ísinn burtu skyldi sendur. „Blás með anda munns þíns,“ ritað stendur. Aldrei getur ís við landsins strendur ónýtt Drottins mátt og vizkuráð. Guðs að leita þeim var indæl iðja, öðlast munu þeir, sem staðfast biðja. Bænamenn að bættum högum styðja. Bænasvar er vilja Drottins háð. i /; Skjótt kom svar frá himna Drottni háum. Hlýnar loft og klæðist möttli bláum. Stormaskarar geyst að ísi gráum greiða ferð og reiða varman hjör. Snjóvædd jakafylking brast á flótta, fór sem huglaus skræfa, gripin ótta; förin veitti fögnuð hugum drótta; færðu knerrir björg i höfn og vör. Bænin sigrar. Bæn til Guðs er máttur; bænin, hún er lífsins æðasláttur, mannlegs anda dýpsti andardráttur, dyr að gættum Guðs á mannlífs för. (Heimildir: 1. Eigin reynsla og samtímafréttir. 2. „Can we trust our God?“, bls. 45, eftir Arthur Gook, trúboða, Akureyri.) Sæmundur G. Jóhannesson.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.