Dagur - 03.09.1982, Blaðsíða 4

Dagur - 03.09.1982, Blaðsíða 4
ÚTGEFANDI: ÚTGÁFUFÉLAG DAGS SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI RITSTJÓRNARSlMAR: 24166 OG 24167 SlMI AUGLÝSINGADEILDAR OG AFGREIÐSLU: 24222 RITSTJÓRI OG ÁBYRGÐARM,: HERMANN SVEINBJÓRNSSON, BLAÐAMENN: ÁSKELL ÞÓRISSON OG GYLFI KRISTJÁNSSON AUGLÝSINGASTJÓRI: FRlMANN FRlMANNSSON ÚTBREIÐSLUSTJÓRI: JÓHANNES MIKAELSSON FRAMKVÆMDASTJÓRI: JÓHANN KARL SIGURÐSSON PRENTUN: DAGSPRENT H.F. Að snúa vörn í sókn í setningarræðu sem Bjarni Aðalgeirsson formaður Fjórðungssambands Norðlendinga hélt á fjórðungsþinginu á Sauðárkróki sagði hann meðal annars: „Því miður verður að segjast að staða Norðurlands er ekki nógu góð þegar á heildina er litið og á síðasta ári hefur nokkuð hallað á í búsetuþróun fjórðungsins miðað við landið í heild. En að mínu mati er beint samhengi milli búsetuþróunar og atvinnuframboðs. Ég vil þó vara menn við að fyllast bölsýni og mála ástandið of dökkum litum. Við skulum hins vegar snúa vörn í sókn á sem allra flestum sviðum atvinnulífsins og auka þannig atvinnuframboð og hagstæðari búsetuþró- un.“ í ályktun þingsins um atvinnuþróun á Norðurlandi kom fram að á síðasta ári hafi hlutfallsleg íbúaaukning á Norðurlandi verið 50% lægri en landsmeðaltal. Til að mæta eðli- legri íbúaaukningu og til að sjá þeim fyrir störfum innan fjórðungsins þarf að skapa ný atvinnutækifæri fyrir allt að 4 þúsund manns á Norðurlandi á þessum áratug. Fjórðungsþingið leggur áherslu á nokkur atriði er varða atvinnumál fjórðungsins, en þau eru þessi: 1. Atvinnurekstrinum verði tryggður starfs- grundvöllur til arðbærs rekstrar og til að tryggja viðunandi launakjör. 2. Þingið leggur áherslu á að orkuiðnaður og annar stærri iðnaður verði einn af undir- stöðuatvinnuvegunum og þeir möguleikar sem fyrir hendi eru verði nýttir eftir því sem kostur er. 3. í ljósi þess að framleiðslu- og þjónustuiðn- aður verður að taka við meira vinnuafli nú á næstu árum en gerst hefur undanfarin ár bendir þingið á nauðsyn þess að iðnaði verði sköpuð sambærileg starfsskilyrði við aðra atvinnuvegi svo sem landbúnað og sjávarútveg. 4. Þjónustustarfsemi á Norðurlandi verði efld sérstaklega þannig að þau margfeldisáhrif sem undirstöðuatvinnuvegirnir hafa komi fram í fjórðungnum. 5. Sérstök áhersla verði lögð á að efla bygg- ingastarfsemi og verktakastarfsemi með það fyrir augum að norðlenskir verktakar verði færir um að sinna stórum verkefnum og fyrir hendi verði nægilegt framboð hús- næðis. 6. Staðið sé á verði um uppbyggingu og efl- ingu framleiðslugreina í sjávarútvegi og landbúnaði og gerðar ráðstafanir til að bregðast við samdrætti vegna aflaröskunar og takmarkana í búvöruframleiðslu. Vonandi er að takist að hrinda þessum til- lögum fjórðungsþings í framkvæmd. Ef allir gráta ofan í klofið á sér og einblína á bjargráð ríkisvaldsins fer ekki vel. Einstaklings- og fé- lagafyrirtæki verða að takast á við vandann af kjarki og dugnaði, en hins vegar má ekki gleyma þeim skyldum sem stjórnvöld hafa varðandi eðlilega, sanngjarna og hagkvæma dreifingu starfsemi sem þau hafa með höndum. Fjaran og innbærinn: AÐALSTRÆTT 12 Lýsing: Stærð lóðar 1182 fm. Stærð húss 710 fm. Húsið er steinsteypt, tvær hæðir og ris, 93 fm að grunnfleti. Tvær íbúðir eru í húsinu, ein íbúð í risi og önnur á efri hæð auk tveggja íbúðarherbergja á jarðhæð. Húsið er allt í sæmilegasta ásig- komulagi. Saga: Lauritz Hansen Jensen, beykir, kom til bæjarins 1851. Hann kvongaðist íslenskri konu, Helgu Bjarnadóttur, og rak fyrst beykisiðn, en um 1863 fékk hann veitingaleyfi og hafði upp frá því gistingu og greiðasölu á hendi. Ekki er ljóst hver fyrst byggir á lóð þessari, en árið 1859 fær Jensen leyfi til að undir- byggja gamla kofa sem þarna standa og hækka þá, svo að ljóst er að þá hefur verið þarna gömul byggð, enda lá þetta fast við Kóngsverslunarhúsin gömlu. Árið 1866 fékk Jensen leyfi til að byggja 14 álna langt timbur- hús. Gamlan torfbæ sem stóð á lóðinni reif hann árið 1884 og lengdi í þess stað timburhúsið um 16 álnir til norðurs. Árið 1885 byggði hann stórt útihús og endurbyggði hann veitingahús sitt að mestu leyti svo það varð 30 áinir á lengd og 12 álnir á breidd með kvisti. Jón Chr. Stephánsson, timburmeistari, annaðist verkið og teiknaði einnig húsið. Veitingahús Jensens þótti stórt og glæsilegt og varð hann þjóðfrægur af starfi sínu. Veit- ingahús hans var kallað Baukur í daglegu tali og var nafnið dregið af iðn Jensens, beykir. Nafnið festist ekki aðeins við veitinga- hús Jensens heldur voru veit- ingahús á Akureyri almennt kölluð baukar, sbr. Elínarbauk- ur, Ólafsbaukur, o.fl. Veitinga- húsin voru meðal þeirra sem brunnu í brunanum mikla árið 1901 og þar kviknaði eldurinn. Eftir fráfall L.H. Jensen árið 1893 héldu erfingjar hans áfram veitinga- og greiðasölu þar til Sigurjón Jóhannesson, bóndi á Laxamýri, keypti alla eignina árið 1894 og tók Lúðvík sonur hans við vínveitinga- og greiða- sölu. Gaf hann húsinu nafnið Anna. Lúðvík lét reisa mikla byggingu milli tveggja húsa á lóðinni. Vigfús Sigfússon frá Vopna- firði keypti veitingahúsið árið 1898 og rak það til dauðadags, 1916, undir nafninu Hótel Akur- eyri. Hann þótti stjórna hótelinu með mikilli röggsemi. Var hann kenndur við iðju sína og kall- aður Vigfús vert. Eins og fyrr segir brann veit- ingahúsið árið 1901, en árið eftir reisti hann nýtt stórhýsi. Þótti það geysilega vönduð og höfð- ingleg bygging. í Stefni, 23. ágúst 1902, er hótelsmíðinni lýst á þessa leið: „Hótel Akureyri er nú meira en hálfsmíðað, breiðara og hærra en áður var og með meira skrauti og tilgerð í stíl en hér er venja til. Talað erum að það hús muni kosta nær 30 þúsundum króna. Hótelið er plankabyggt, sem kallað er, grind engin en þriggja þumlunga plönkum stokkað upp í veggina og þeir geirnelgdir á hornunum, aðal- skilrúm hússins eru og þannig byggð jafnframt. Slík planka- bygging hefir eigi tíðkast hér, og ekkert hús verið þannig byggt á Akureyri nema elstu verslunar- húsin, t.d. Havsteens-húsin gömlu, sem brunnu í vetur, og elsta Guðmanns pakkhúsið. Þeir Tryggvi Jóhannesson og Jónas Gunnarsson hafa nú byrj- að á þessari byggingaraðferð, og standa þeir algerlega fyrir bygg- ingu þessari. Plankaveggirnir eru fyrst klæddir utan með as- falt-pappa og þar utan yfir með venjulegum klæðningsborðum, en innan eru herbergi hússins annað hvort þiljuð með skífum eða pappaklædd. Nokkuð dýrari en grindarbyggðu húsin en eigi stórvægilega telja smiðirnir þannig byggð plankahús." Eftir að miðpunktur bæjar- lífsins færist norður á bóginn og eftir að bannlögin tóku gildi fór reksturinn að ganga verr. Árið 1916 var svo komið að útlit var fyrir að rekstur hótelsins legðist niður. Þá var það úr að hótelið var leigt Theódór Johnson er árið áður stýrði Hótel íslandi í Reykjavík. Theódór ætlaði að breyta rekstrinum og gera húsið að kvöldsamkomustað. Ekki tókst sú tilraun og áfram hélt húsinu að hnigna. Seinustu árin var það orðið að fjölbýlishúsi þeirra er einna minnst máttu sín í bænum og ekki alls kostar snyrtilegt. Húsið brann til ösku 1955. Tveim árum síðar, eða 1957, var svo byggt það hús sem nú stend- ur nyrst á lóðinni Aðalstræti 12. Fyrir byggingu þess húss stóð Jón Antonsson. Húsið teiknaði Mikael Jóhannesson. Svartholið og saga þess Á bæjarstjórnarfundi árið 1865 var ákveðið að ráðast strax í gerð svarthols þess sem lengi hafði verið í bígerð. Ákveðið var að svartholið skyldi byggjast í brekkunni fyrir ofan íbúðarhús J.G. Havsteens og gaf hann til þess kjallara sem þar var. í grein sem britist í Norðan- fara 18, sept. 1866 segir: „Þú hefur og líka fengið aðra opin- bera byggingu sem kallast „svarthol" og er grafið inn í búðabakkann með tilvöldu skemmuþili að framan og mikl- um járnslám og hangandi inn- siglum . . .“ Svartholið var notað til ársins 1874 er ráðhúsið var byggt. Gestgjafi Jensen keypti þann hluta svartholslóðarinnar sem tilheyrði bænum árið eftir. Til skamms tfma mátti sjá leif- ar svartholsins í brekkurótunum skammt norðan við Aðalstræti 14. 4 - DAGUR - 3. september 1982

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.