Dagur - 10.02.1984, Blaðsíða 3

Dagur - 10.02.1984, Blaðsíða 3
þrautseigur, ef þess þurfti. Hann var gunnreifur, eins og skáld sögðu um Ólaf konung Tryggva- son. Pað sem hann sagði mér um tilkomu sína í akureyrsk stjórnmál, verður ekki tíundað hér. En Sigurður var svo gerður, að hann hlaut að róa í fyrirrúmi eða róa ekki. Hann var ekki mið- skipsmaður og þaðan af síður skutbyggi, heldur stafnbúi. Með annarri líkingu sagt gat hann einskis manns eftirbátur verið. Hann átti líka leikgleði og kapp- girni, en samt barðist hann fyrst og fremst málefnanna vegna, ekki leiksins, og gat þó haft gam- an af snúnum skákfléttum. Hann var sigurglaður, þá er svo gaf og þó á móti blési, miklaði hann ekki fyrir sér stundarmótbyr. Hann var starsýnni á það sem hagstætt var. Hann var jákvæður persónuleiki. Hann var maður uppbyggingar og grósku. Hann efndi meira en hann lofaði. Hon- um mátti treysta, og þess vegna hafði hann traust. En sumir þoldu ekki stjórnsemi hans. Samviskusemi hans var einstök að hverju sem hann gekk. Hann vildi sjálfur gjörkanna og gjör- skilja hvert mál af stærðfræðilegri nákvæmni. Hann kunni ekki að hlífa sér, kunni ekki að láta aðra taka af sér ómakið. Sjálfur gerði hann bæði stórt og smátt. Hann lifði strítt. Orð sr. Bjarnar Hall- dórssonar, þau að lífsstundir sumra manna líði í leti og dofa, áttu síst af öllu við Sigurð Öla Brynjólfsson. Og það er huggun harmi gegn, að það hefði aldrei klætt hann að vera gamall. En hann bauð ekki dauðann velkom- inn. Sigurður Óli vildi lifa, stríða og umfram allt starfa. Hann var ekki borinn til vegs og valda. Hann fékk ekkert fyrir- hafnarlaust. Honum var aldrei rétt neitt á silfurfati nema góðir hæfileikar í vöggugjöf. Þá varð hann hjálparlaust að nýta. Og það gerði hann. Hann braust úr fátækt til bjargálna, hann aflaði sér menntunar og hann fór að lokum fyrir stórum hópi manna. Hann taldi ekki eftir sér ungur að hlaupa frá Krossanesi suður í Menntaskóla. Hann vann og nam, nam og vann, giftist ungur og eignaðist börn. Hann var mik- ill fjölskyldumaður, afskaplega tryggur og ræktarsamur. Sam- band hans og móður hans, sem lengi lifði ekkja í Ytra-Krossa- nesi, mætti vera mörgum til fyrir- myndar. En utan heimilis varð kennslan, félagsmálaforystan og stjórnmálin líf hans og yndi. Til þess leiks gekk hann fús og kapp- samur. Hann var óskemmdur og ókalinn á sínu heita hjarta eftir alla þá glímu. Hann unni sér ekki hvíldar, og í ákefð sinni brann hann upp fyrir þann tíma, sem flestum mönnum er mældur úr al- valds hendi. Ég veit að ég mælist ekki við einn, þegar ég flyt Sigurði Óla að leiðarlokum þakkar- og kveðju- orð og færi ástvinum hans samúð- arkveðjur. Það mæli ég einnig fyrir munn okkar fjölmargra sem með honum unnu, og þá eins svokallaðra andstæðinga sem við hann kepptu og deildu. „Sá dauði hefur sinn dóm með sér“, stendur skrifað, og dómurinn um Sigurð Óla mun verða sá, að þar hafi farið heilsteyptur, geðríkur, sóknardjarfur, vammlaus og góð- hjartaður maður sem mikils megnaði af ótal mörgu sem hann langaði til að þoka á betri veg. Hann féll frá í miðri önn ævi- dagsins, óbugaður, ósigraður. Þannig munu menn minnast hans. Vera má að hann hafi verið orðinn þreyttur. Samt sem áður unni hann sér starfs umfram allt annað. Og.hvar sem hann fer, get ég ekki óskað honum hvíldar, hana þráði hann ekki. Mér verð- ur eins og Jónasi Hallgrímssyni sem síst vildi tala um svefn við Tómas vin sinn Sæmundsson látinn, en bað hann flýta sér í fegri heim, meira að starfa. Ég get vel séð Sigurð Óla flýta sér þannig. Fari hann vel, og blessuð sé minning hans. Gísli Jónsson. Eitt sinn skal hver deyja, það fær enginn umflúið. Nú þegar Sig- urður Óli Brynjólfsson er horfinn yfir móðuna miklu, vil ég reyna að skrifa fáein kveðjuorð. Hugur minn er á reiki, stórar minningar leita fram, ég á erfitt með að tjá hug minn. Mannkostir hans voru miklir, um þá mætti skrifa stórt. Prúður, glaður og hýr, var hann ætíð, allan ágreining vildi milda, og ætíð reiðubúinn að tak- ast á við vandamálin, og leysa þau þannig, að deilur voru settar niður. Þessir mannkostir hans, komu skýrt í ljós þau 12 ár er hanft starfaði í stjórn Útgerðarfélags Akureyringa h/f. Kynni mín af honum urðu mikil, er ég fyrir nokkrum árum kom í stjórn Útg.fél. Akureyr- inga h/f, kynni er urðu að vin- áttu, og trúnaði er aldrei bar skugga á. Fyrir mig var það mikil gæfa og þroski, er ég mun búa að alla tíð, að hafa átt samfylgd og vináttu hans. Þau djúpu spor er hann mark- aði, með miklu og fórnfúsu starfi fyrir Útg.fél. Akureyringa fennir seint í. Er ég næst síðasta dag liðins árs, átti samverustund með honum, ræddum við mikið um málefni Útg.fél. Akureyringa þá vitandi um hans veikindi, undr- aði mig, hans eldmóður, um hag og áframhaldandi uppbyggingu félagsins. Nú þegar hann er horfinn, er það skylda oss, að fylgja því eftir. Með Sigurði Óla er hniginn í valinn mætur maður. Dugnaður hans og ósérplægni, mun lengi verka sem lýsandi fyrirmyndir, og verk hans, munu lengi halda minningu hans á lofti. Það er huggun harmi gegn, að eiga stórar og bjartar minningar um Sigurð Óla, og hvetur okkur er enn höndlum lífsljósið til dáða, að vinna í anda hans, er að rækta manninn, byggja upp betri og bjartari framtíð. Ég sendi eftirlifandi eiginkonu hans Hólmfríði Kristjánsdóttur og fjölskyldu innilegar samúðar- kveðjur. Sverrir Leósson. Sigurður Óli Brynjólfsson kenn- ari og bæjarfulltrúi á Akureyri lést 31. f.m. og verður jarðsung- inn frá Akureyrarkirkju í dag, föstudaginn 10. febrúar. Þótt hann væri maður á besta aldri og jafnan önnum kafinn hafði hann lengi fundið fyrir heilsubresti og fengið oftar en einu sinni nokkra viðvörun um að honum kynni að verða skemmra lífs auðið en flestir hljóta að kjósa sér eða vonast eftir. Sigurður Óli lét sem minnst á því bera að hann gengi ekki heill til skógar, hann var alltaf sama hamhleypan, margskiptur milli aðalstarfs síns, kennslunn- ar, og fjölþætts félagsmálastarfs á vegum Akureyrarbæjar, Kaup- félags Eyfirðinga og Framsóknar- flokksins. Allt víl um eigin hag var honum víðs fjarri. En nú er Sigurður Óli fallinn í valinn, harmdauði vinum sínum og sam- starfsmönnum, einn þeirra sem að er mikill mannskaði. Sigurður Óli Brynjólfsson fæddist 8. sept. 1929 í Steinholti í Glerárþorpi, þá í Glæsibæjar- hreppi í Eyjafjarðarsýslu, en nú tilheyrandi Akureyrarkaupstað (Glerárhverfi). Foreldrar hans voru hjónin Brynjólfur Sigtryggs- son kennari og Guðrún Rósin- karsdóttir frá Kjarna í Arnarnes- hreppi. Brynjólfur var Hörgdælingur að ætt (f. 1895 d. 1962), gagn- fræðingur frá Akureyri 1914 og stundaði mikið barnakennslu eft- ir það, lengst í Skriðuhreppi, en kenndi einnig unglingum þar og víðar og bjó nemendur undir menntaskólanám, enda miklu betur að sér í almennum náms- greinum en sem nam eigin skóla- göngu, ekki síst í tungumálum. Brynjólfur Sigtryggsson var einn þeirra íslendinga, sem náð hafa langt í sjálfsnámi, enda gáfaður maður og menntafús. Guðrún kona hans, móðir Sigurðar Óla, var ekki síður vel gefin og skörp til náms, þótt ekki gengi hún skólaveg. Hún var gædd sérstakri stærðfræðigáfu og mun hafa átt mikinn þátt í því að glæða áhuga barna sinna á þeirri námsgrein, a.m.k. er stærðfræðiþekking þeirra bræðra, dr. Ara Brynjólfs- sonar og Sigurðar Óla, alkunn. Sigurður Óli var því alinn upp á menntaheimili. Þau hjón, Brynj- ólfur og Guðrún, fluttust að Ytra-Krossanesi við Eyjafjörð árið 1935. Þar bjuggu þau búi sínu æ sfðan. Brynjólfur andaðist 1962, en Guðrún lést á síðasta ári, en hún var fædd árið 1905 og átti til eyfirskra og vestfirskra ætta að telja. Faðir hennar, Rós- inkar Guðmundsson, var eitt hinna landsþekktu Æðeyjar- systkina. Ekki var auður í garði þeirra hjóna, Brynjólfs og Guðrúnar, og líklega stundum þröngt í búi, a.m.k. áður en þau settust að í Krossanesi, en þar vegnaði þeim vel. Sigurður Óli ólst upp í stór- um og mannvænlegum systkina- hópi í Krossanesi frá 5 ára aldri. Var hann lengi við þann stað kenndur, enda stundaði hann búskapinn í Krossanesi með for- eldrum sínum árum saman og átti þar heima þar til hann fluttist í eigið hús fyrir allmörgum árum. Sigurður Óli stundaði nám í Gagnfræðaskóla Akureyrar og síðar í Menntaskólanum á Akur- eyri, lauk stúdentsprófi úr stærð- fræðideild 1950. Eftir það var hann einn vetur við verkfræði- nám í Háskóla íslands, en hóf kennslu við Gagnfræðaskóla Ak- ureyrar haustið 1951. Hann kenndi auk þess mikið við Iðn- skóla Akureyrar og á ýmsum námskeiðum fyrr og síðar. Kennsla í stærðfræði, eðlis- fræði og efnafræði var aðal- lífsstarf hans. Á fyrstu kennara- árum sínum bjó hann sig undir að ljúka B.A.-prófi í stærðfræði og eðlisfræði við Háskóla íslands, og fór ekki troðnar slóðir í því efni. Hann sat aðeins einn vetur í B.A.-deildinni sem fastur nem- andi, en lauk B.A.-prófi vorið 1954 í stærðfræði, eðlisfræði og uppeldis- og kennslufræði. Árið 1953 kvæntist Sigurður Óli eftirlifandi konu sinni Hólm- fríði Kristjánsdóttur frá Holti í Þistilfirði. Eignuðust þau 5 börn sem öll eru á lífi, en þau eru: Þorsteinn verkfræðingur á Akur- eyri, kv. Snjólaugu Pálsdóttur frá Dagverðartungu, Guðrún Brynja kennari á Akureyri, Ingi- ríður nemi í læknisfræði, Ragn- heiður nemi í tölvunarfræði við Háskóla íslands og Ambjörg sem er 11 ára og langyngst barnanna. Þetta er dugmikil og samhent fjölskylda, sem fluttar eru inni- legar samúðarkveðjur á þessari sorgarstundu. Sérstaka kveðju sendum við Auður Hólmfríði og börnum hennar og minnumst vin- semdar Sigurðar Óla í okkar garð. Á langt samstarf okkar bar aldrei neinn skugga. Þótt kennsla yrði þannig aðal- starf Sigurðar Óla Brynjólfssonar og nemendahópur hans í nærri þriðjung aldar stærri en tölu verði komið á í fljótu hasti, verð- ur hans ekki síður minnst fyrir opinber störf og afskipti af félags- málum og stjórnmálum. Hann gekk ungur í Framsóknarflokk- inn og starfaði fyrir flokkinn sem liðsmaður og forystumaður um meira en 3ja áratuga skeið. Hann varð varafulltrúi í bæjarstjórn Akureyrar á vegum Framsóknar- flokksins 1958 og kosinn í bæjar- stjórn 1962 sem fjórði maður á lista flokks síns, og hafði Fram- sóknarflokkurinn ekki átt fleiri fulltrúa í bæjarstjórn áður, a.m.k. ekki um langt skeið. Æ síðan sat Sigurður Óli í bæjar- stjórn og nokkur síðustu kjör- tímabil sem aðalforystumaður flokks síns og reyndar bæjar- stjórnar í heild, ef út í það er farið. Ekki er unnt að telja hér upp þau trúnaðarstörf sem hann hefur gegnt á vegum bæjarstjórn- ar, enda eru þau mörg og spanna vítt svið. Sigurður Óli var enginn einstefnumaður í pólitískum áhugamálum, hann lét sig allt varða og var alls staðar heima í almennum landsmálum og bæjar- málum Akureyrar sérstaklega. Hann fékkst jafnt við atvinnumál og fræðslumál, almenn fjármál bæjarins og félagsmál. Sigurður Óli var kosinn endur- skoðandi Kaupfélags Eyfirðinga á aðalfundi 1963 og gegndi því starfi til 1972, þegar hann var kjörinn í stjórn kaupfélagsins, þar sem hann sat til dauðadags eða nærri 12 ár, og ætíð sem varaformaður stjórnarinnar. Auk forystu fyrir Framsóknar- flokkinn í bæjarmálum á Akur- eyri starfaði Sigurður Óli af lífi og sál í almennu flokksstarfi, bæði í Framsóknarfélagi Akur- eyrar og á vegum Kjördæmis- sambands Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra. Fáir menn hafa setið fleiri kjör- dæmisþing framsóknarmanna í Norðurlandskjördæmi eystra frá stofnun samtakanna 1960 en hann. í þessu starfi var hann mjög virkur og óhætt að segja að fáum var betur treyst í málflutn- ingi og málatilbúnaði á kjör- dæmisþingum en Sigurði Óla. Þar naut sín vel réttsýni hans og víðsýni og frábær skilningur á högum og hagsmunum fölks í þessu stóra og sundurleita kjör- dæmi, sem framsóknarmönnum þótti reyndar stofnað til á sinni tíð með nauðungarsameiningu „gömlu“ kjördæmanna. Þrátt fyr- ir það h'afa framsóknarmenn í kjördæminu unnið vel saman í heildarsamtökum sínum, og þar átti Sigurður Óli Brynjólfsson góðan hlut að máli. Um áratuga- skeið sótti Sigurður Óli flokks- þing Framsóknarflokksins og sat um tíma í miðstjórn. Fyrir öll þessi störf eru honum færðar þakkir og þess minnst hversu vel hann leysti þau af hendi. Þegar ég hugsa til langra kynna minna af Sigurði Óla Brynjólfs- syni og samskiptanna við hann, er mér maðurinn sjálfur ekki síður hugstæður en málefnin, sem hann var að vinna að og við fleiri í sameiningu. Hann var ákaflega eftirminnilegur maður og á ýmsan hátt ólíkur öðrum. Hann var mjög sjálfstæður í skoðunum og gleypti ekki við hverjum og hverju sem var, en jafnframt mannblendinn og fé- lagslyndur. Hann var frjálsmann- legur og djarfur í tali hvar sem var, en tróð sér ekki fram og var enginn leikari í gervi stjórnmála- manns. Hann var einlægur og op- inskár, svo að ýmsum þótti nóg um af stjórnmálamanni, og ger- samlega laus við spjátrungshátt og hégómaskap. Hann var afar umburðarlyndur gagnvart skoð- unum og tillögum annarra, en átti það þó til að stæla við menn um það sem virtust smámunir og lék sér stundum að því að varpa ljósi á umræðuefni frá ýmsum hliðum án þess að það sýndist hafa annan tilgang en íþróttina, sem slíku fylgir. Þessi rökræðu- aðferð Sigurðar Óla bar þó oft góðan árangur og skýrði málin betur en margt annað, þegar upp var staðið. Þegar umsvif hans og vinnu- álag var mest hér fyrr á árum, þegar hann stóð í því að kenna 30-40 tíma á viku í Gagnfræða- skóla og Iðnskóla, stundaði bú- skap í Krossanesi, sat í bæjar- stjórn og tók þátt í ýmiss konar flokksstarfi og fundahaldi, þá mátti segja að það ryki af honum, og ekki var alltaf tími til að snur- fusa sig nákvæmlega eftir tilefn- inu. Hann var eldfljótur að öllu, sem hann átti að gera, lét sig aldrei vanta þar sem honum bar að vera og taldi ekkert eftir sér, virtist alltaf hafa nægan tíma. Slíkur maður kemur miklu í verk, en hjá því getur naumast farið, að þreki hans verði að Iok- um ofboðið. Gaman var að gleðjast með Sigurði Óla og eiga við hann orðastað um næstum hvað sem var, enda var hann fyrst og fremst gáfaður menntamaður, sem kunni góð skil á mörgum efnum og hafði áhuga á flestum hlutum. En vænst þykir mér þó að geta sagt það um Sigurð, að hann var hreinlyndur og heill í öllum samskiptum, reyndar svo að af bar. Hann var ekki „vinnu- maður varmennskunnar", svo að notuð sé íslenskun Stephans G. Stephanssonar á einkunnarorð- um Þorleifs gamla Repps: „Gaa aldrig paa Akkord med Slethed- en“. Svik urðu ekki fundin í hans munni. Ingvar Gíslason. Nýlega er fallinn í valinn einn þeirra manna er um árabil setti svip sinn á bæjarbraginn á Akur- eyri. Sigurður Óli Brynjólfsson var forystumaður í bæjarmálaliði Framsóknarflokksins og ókrýnd- ur oddviti þess meirihluta, sem talist hefur öðrum fremur bera ábyrgð á málefnum þessa bæjar undanfarin ár. Bæði vegna stöðu Sigurðar í bæjarstjórn Akureyrar og vegna gamalla kynna lágu leiðir okkar saman eftir að ég tók við stöðu framkvæmdastjóra Fjórðungssambands Norðlend- inga. Á Húsavíkurárum mínum ■hittumst við Sigurður árlega á svonefndum kjördæmisþingum, sem oftast voru haldin í góðum tíma í kyrrðinni á Laugum í Reykjadal, þar sem Karl Krist- jánsson og Gísli Guðmundsson gáfu tóninn og menn sáu byggða- stefnu komandi tíma í hillingum. Á þeirri tíð kynntist ég hugsjóna- manninum Sigurði Óla Brynjólfs- syni og drenglundaðri málafylgju í hverju því máli er hann lét sig varða. Hann var rökfastur og fylginn sér, ef því var að skipta og málefnið var honum hjartfólg- ið. Atfylgi hans var mikilvægt og að hafa notið liðsinnis hans hefur verið mér drjúgt veganesti í starfi mínu. Ætíð var stuðningur hans heill og óskiptur í hverju því verkefni, sem hann tókst fyrir hendur. Á vegum Fjórðungs- sambands Norðlendinga lét hann sig einkum varða fræðslu og menningarmál. Hann var tvö kjörtímabil for- maður fræðsluráðs Norðurlands- umdæmis eystra. Formennska hans var þýðingarmikil fyrstu ár hinnar nýju starfsemi, þar kom bæði til reynsla hans, sem skóla- nefndarformanns á Akureyri og brennandi áhugi fyrir að efla þessa starfsemi heima í héraði. Af heilsufarsástæðum ákvað hann að láta af störfum í fræðsluráði á síðasta ári. Það er sjónarsviptir að Sigurði á þeim vettvangi, þannig verður ætíð skarð eftir Sigurð, slíkur var kraftur hans í störfum og allri persónugerð. Ég vil færa bestu þakkir frá mér og þeim samtökum, sem ég starfa fyrir, fyrir góða samfylgd. Ég votta eiginkonu, bömum og þínu fólki öllu samúð mtna og þeirra manna er standa vörð um norðlenskar byggðir. Askell Einarsson.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.