Dagur - 10.02.1984, Blaðsíða 4

Dagur - 10.02.1984, Blaðsíða 4
V _ p| lí'i&n — kfcPI- it Siguröur Óli Brynjólfsson er látinn, aðeins 54 ára gamall. Þó að erfið sjúkdómslega síðustu vikurnar gerði honum erfitt fyrir, þá var hann allan tímann meira og minna með hugann við málefni bæjar og héraðs, sem hann hafði helgað svo mikinn hluta starfsorku sinnar. Og alla tíð voru skólamálin ofarlega á baugi hjá honum. Enda hafa störf Sigurðar Óla haft mótandi áhrif á framgang og þróun skólamála hér á Akureyri um langt árabil. Lengstur var starfsferill hans við Gagnfræðaskóla Akureyrar, en þar kenndi hann samfellt í 30 ár. Samhliða kennslunni við Gagnfræðaskólann starfaði hann einnig við Iðnskóla Akureyrar og síðustu árin kenndi hann ein- göngu við þann skóla. Þó að aðalstarf Sigurðar Óla væri hjá þessum tveimur skólum, þá tengdist hann öðrum skólum í bænum í gegnum störf sín í bæjarstjórn og skólanefnd. í skólanefndinni átti hann sæti í 20 ár, þar af 12 ár sem formaður. Þar og í bæjarstjórn Akureyrar hafði hann, á mörgum sviðum, forystu um að marka stefnuna í þessum málaflokki. Einnig má geta þess, að hann var fulltrúi Akureyrar í Fræðslu- ráði Norðurlandsumdæmis eystra og formaður þess frá stofnun til sl. árs. Af þessu yfirliti er ljóst, að það skarð sem SigurðurÓli skilur eft- ir sig á þessum vettvangi verður vandfyllt. Leiðir okkar Sigurðar Óla hafa víða legið saman í tengslum við skólamálin. Fyrstu kynni okkar urðu í Gagnfræðaskólanum, er ég var þar við nám, skömmu eftir að Sigurður Óli hóf þar kennslu. Síðar urðum við samkennarar þar um 14 ára skeið. Einnig hafa leiðir okkar legið saman í störf- um fyrir skólanefnd Akureyrar og Fræðsluskrifstofu Norður- landsumdæmis eystra. Ég hef ætíð álitið það mikið lán að fá að starfa með jafn ágæt- um félaga og traustum samstarfs- manni og Sigurður Óli ætíð reynd- ist. Hann var hreinskiptinn, íhug- ull og virti skoðanir annarra. Hann gerði sér far um að setja sig vel inn í þau mál sem hann var að fjalla um hverju sinni og var því fljótur að átta sig og fá yfirsýn yfir viðfangsefnin. En það sem skipti eflaust mestu máli var, að hann var ætíð heill í viðleitni sinni til að vinna heimabyggð sinni sem best, og þannig að öllum gæti liðið þar vel. Þau viðhorf hans komu mjög skýrt fram í störfum hans að skólamálum. Fyrir hönd skólanefndar Akur- eyrar þakka ég, að leiðarlokum, góðum dreng ánægjulega sam- fylgd og sendi eftirlifandi eigin- konu, börnum og öðrum ástvin- um hans innilegar samúðarkveðj- ur. Ingólfur Ármannsson. Lán og lífsgleði, sem við njótum um ævina, verður ekki að öllu leyti til vegna eigin verðleika, heldur að miklu leyti vegna þess fólks, sem við eigum samleið með vegna ættartengsla, vináttu eða samvinnu, sem verður til vegna nágrannakynna. Þessa lífsláns njótum við oftast óafvitandi og finnst það sjálfsagt. En þegar dauðinn lætur til sín taka, óvænt og miskunnarlaust, og náinn vinur og samferðamað- ur er allt í einu horfinn af sjónar- sviðinu, verður okkur ljóst hvað við höfum átt og misst. Þá kemur til sögunnar söknuðurinn og þakklætiskenndin, sem við vilj- um varðveita ævilangt upp frá því. Fregnin um að Sigurður Óli Brynjólfsson væri fallinn frá svo snögglega á góðum aldri, fannst mér eins og fjarstæða og órétt- læti, sem ég vildi neita að viður- kenna. En enginn kemst hjá því að sætta sig við þann harm, sem að höndum ber, þó að þyngri sé en tárum taki. Við hjónin vorum svo lánsöm að komast í kynni við Sigurð Óla mjög fljótlega eftir að við fluttum hingað árið 1946. Hólmfríður mágkona mín var stundum til húsa hjá okkur þegar hún var við nám í Menntaskólanum, en þar tókust þau kynni með þeim, sem leiddu til hjónabands. Á meðan heimili þeirra var í Ytra-Krossanesi var mikill sam- gangur milli heimila okkar, og síðan bjuggum við hlið við hlið í Þingvallastræti í sextán ár. Þegar ég lít til baka yfir öll þessi liðnu ár, finn ég verulega til þess hvað kynnin við Sigurð Óla hafa verið mikilsverður og ánægjulegur þáttur í tilverunni, og hversu margar góðar stundir við höfum átt saman með fjölskyldum okkar, eða í hópi annarra vina. Þar bar aldrei nokkurn minnsta skugga á í eitt einasta skipti. Ánægjulegri gest en Sigurð Óla var ekki hægt að fá í heimsókn. Honum fylgdi alltaf frísklegur andblær og létt glaðværð. Við vorum ekki ævinlega sam- mála, en ekki spillti það samlyndi okkar og meiningamuninn af- máðum við með gamansemi á sameiginlegan kostnað. Væri við einhver vandamál að stríða þá sá hann alltaf broslegu hliðina á þeim og kom öllum í gott skap. Hann var alltaf tilbúinn að bregða á leik við krakkana okkar á ýmsum aldri og vann vináttu þeirra og aðdáun. Ekki taldi hann eftir sér að taka þátt í ærsla- leikjum með drengjunum og skólafélögum þeirra, sem slædd- ust að. Stundum tók hann allan hópinn með sér út í Krossanes til íþróttaiðkana og þar fór fram eins konar keppni í frjálsum íþróttum, en vitanlega í óform- legum galsa og ekki var Sigurður ÓIi vaxinn upp úr því að vera þar fremstur í flokki. Ekki munu gestirnir hafa farið á mis við góðgerðir og oft hefi ég heyrt minnst þessara stunda, sem nefndar voru Krossanessvormót- in. Þó að Sigurður Óli hefði í mörg horn að líta, gat hann fund- ið stund til að tefla fjöltefli við hóp stráka eða aðstoða við flókn- ar þrautir, sem ætlaðar voru til dægradvalar. Þá bar það oft við að hann tók að sér að leiða villu- ráfandi nemanda á rétta braut þegar erfið prófraun var fram- undan og sú þjónusta náði langt útfyrir fjölskylduna og mun ævin- lega hafa verið veitt án greiðslu. Sigurður Óli hafði hlotið fjöl- breyttar gáfur frá foreldrum sínum, og öll voru þau systkinin frábært námsfólk og luku menntaskólanámi jafnframt því að vera að mestu í fastri vinnu. Og öll hafa þau lokið háskóla- námi með mestu sæmd. Sigurður Óli var ör í skapi, við- mótshlýr og viðræðugóður. Gáf- ur hans voru leiftrandi og mátti næstum einu gilda um hvað var rætt, þekking hans og skilningur lét til sín taka. Áhugamál hans voru fjölbreytileg og þátttaka hans í félagsmálum var óhemju- lega mikið starf. Vegna velvilja hans og lipurðar var mikið leitað til hans af fjölda fólks og oft vegna mála, sem voru honum og starfi hans óviðkomandi. Síminn hans hringdi á öllum tímum dags- ins og ekki síst í hádeginu, sem á að vera matmáls og hvíldartími. Dyrabjallan hringdi líka margfalt á við það sem gerist í venjulegum íbúðum og gestkvæmt var í meira lagi á virkum dögum og helgum. Vitanlega mæddi þetta ekki lítið á húsmóðurinni, sem oftast hafði veislu til staðar. Áhugi Sigurðar Óla á félags- og bæjarmálum var honum með- fæddur og eðlilegur og hann vann að þeim störfum af þegnskyldu, en ekki framastriti og um eigin fjárhagsafkomu sinnti hann lítt og í viðskiptum vildi hann miklu fremur vera sá er sætti tapinu, en hinn, sem naut ábata. Nú þegar hann er fallinn frá, verður mörgum að minnast hans og rifja upp liðin samskipti, og aldrei hefi ég heyrt svo einróma hlýju, þakklæti og söknuð við fráfall nokkurs manns, og gildir það um allan almenning, sam- starfsfólk og gamla nemendur og nýja. Sá sem nýtur slíkra eftir- mæla að leiðarlokum hefur til einhvers lifað lífinu. Okkur hjónunum og börnum okkar er dýrmæt minningin um að hafa notið s.tmfylgdar og vin- áttu Sigurðar Óla og minnumst hans ætíð með þakklæti. Hólmfríði og börnum hennar, sem mest hafa misst, og öðrum nánum ættingjum, sendum við innilegar samúðarkveðjur og biðjum um blessun og styrk þeim til handa í þungum harmi. Einar Kristjánsson. Það var föstudaginn 13. janúar sl. sem fundum okkar Sigurðar Óla bar síðast saman á skrifstofu blaðsins okkar, Dags. Þar höfum við oft hist á liðnum árum sem blaðstjórnarmenn og nánir sam- starfsmenn til að ræða um mál- efni blaðsins og um ýmis önnur sameiginleg áhugamál. Það leyndi sér ekki að Sigurður Óli var þá orðinn sársjúkur mað- ur en þó var hugsunin jafn skýr og áður og áhuginn fyrir málefn- um bæjar og byggðar í engu minni. Talið barst einnig að rnál- efnum flokks okkar og um stöðu mála á hinum pólitíska vettvangi. Hvoru tveggja var, að ég var hræddur um að hann myndi þreyta sig um of á löngum orð- ræðum við mig eins og heilsu hans var háttað og hitt að ég var ferðbúinn og var á förum til N,- Þingeyjarsýslu. Ég sagði því Sig- urði að ég yrði að komast af stað austur, væri reyndar þegar orð- inn of seinn. Viðbrögð hans voru á þann veg að mér varð ljóst að hann vissi upp á hár hvað fyrir mér vakti. Hann hélt áfram að spyrja og spjaila og gaf ekkert eftir frekar en fyrri daginn, eins og hann hefði ekki heyrt að ég væri tíma- bundinn. Þegar ég loks stóð á fætur til að kveðja tók hann af mér loforð, að ég kæmi heim til sín er ég kæmi að austan, því við ættum svo margt vantalað. Hann bað mig fyrir kveðju að Holti í Þistilfirði til tengdasystkina sinna. Það var síðasta kveðjan sem vinir mínir í Holti fengu frá honum því ég gisti einmitt þar aðfaranótt mánudagsins sömu nóttina og umskiptin urðu. Þegar ég lít yfir farinn veg hrannast fram í huga minn mörg ljóslifandi atvik á um hálfrar ald- ar tímabili sem við Sigurður Óli höfum þekkst. Faðir hans, Brynj- ólfur Sigtryggsson, var fyrsti kennarinn minn, var farkennari í minni heimabyggð og kenndi að nokkru leyti á heimili mínu. Ég leit mikið upp til þessa fræðara míns, enda tel ég að hann hafi verið góður kennari, fróður og prýðilega greindur maður eins og hann átti kyn til. Sigurður Óli mun hafa verið þriggja ára þegar ég sá hann fyrst, en þá var hann í fylgd með föður sfnum. Mér eru þessi fyrstu kynni minnisstæð, því mér fannst hann öðruvísi en flest önnur börn, eitthvað í fari hans svo áhugavert. Á uppvaxtarárum hans bar fundum okkar oft saman, við áttum mörg sameigin- leg áhugamál, lík lífsviðhorf og því þróaðist á milli okkar vinátta sem aldrei bar á skugga. Ekki svo að skilja að við værum alltaf sam- mála því Sigurður átti það til að ræða mál á þann veg að erfitt var að skilja hvað hann var að fara og þá bar það stundum við að slóst í brýnu á milli okkar. En alltaf vorum við sáttir þegar upp var staðið. í þessu karpi okkar á milli kom Sigurður oft fram með nýjan flöt á máli því sem við ræddum um sem ég hafði ekki komið auga á. Þess vegna leitaði ég oft ráða hans í vandasömum málum. Hann reyndist mér jafnan ráð- hollur enda var hann yfirleitt fljótur að átta sig á málum, bjó yfir víðtækri þekkingu á mörgum sviðum og vildi leysa allra vanda, og manni leið vel í návist hans. Það er mikið áfall fyrir eyfirsk- ar byggðir að missa slíkan mann sem Sigurður Óli var, langt um aldur fram. Fyrir okkur fram- sóknarmenn í Norðurlandi eystra er fráfall hans mikið áfall því hann var ráðgjafi okkar í mörg- um málum sem forystumaður í bæjarmálum Akureyrar um ára- bil. Hann hafði mikla forustu- hæfileika, var ötull baráttumaður og góður og traustur félagi. Hans skarð verður seint fyllt. Blessuð sé minning hans. Við Fjóla sendum fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur. Stefán Valgeirsson. Þakklætiskveðja bæjarstjórnar til Sigurðar Óia, eftir nær aldar- fjórðungs fórnfúst starf í þágu Akureyrarbæjar. Sigurður Óli Brynjólfsson, bæjarfulltrúi lést þriðjudaginn 31. janúar. Ég veit ég tala fyrir munn okkar allra, þegar ég segi, að mikil eftirsjá er að þeim manni, bæði vegna dugnaðar hans og heillandi persónuleika. Sigurður Óli fæddist 8. septem- ber 1929. Hann kvæntist Hólm- fríði Kristjánsdóttur og áttu þau 5 börn. Auk fjölskylduföður- starfsins valdi Sigurður Óli kennslu og stjórnmál að ævi- starfi. Þó átti sveitin og það sem henni tengdist alltaf sterk ítök í honum, og ófáir held ég að dag- arnir hafi liðið, án þess að hann brygði sér norður fyrir á og niður að sjó, þar sem sveitakyrrðin rík- ir þó enn. Árið 1958 liggja leiðir Sigurðar Óla fyrst í bæjarstjórn, þá var hann varamaður Framsóknar- flokksins. Árið 1962 er hann svo kjörinn bæjarfulltrúi og hefur gegnt því starfi síðan. Auk þess sat hann í bæjarráði frá 1966, hann var formaður skólanefndar frá 1970-1982 og sat £ ýmsum öðrum nefndum á vegum bæjar- ins þessi 22 ár, enda búa fáir yfir meiri reynslu og þekkingu í mál- efnum Ákureyrarbæjar en hann gerði. Og hann kunni að miðla af þekkingu sinni. Ég kynntist Sig- urði Óla fyrst þegar ég sat á skólabekk og hann stóð við töfl- una og kenndi okkur krökkunum á lifandi og skemmtilegan hátt um eðli hlutanna. Sem samstarfs- maður í bæjarráði var hann ekki síðri kennari. Það gerist oft með fólk sem sit- ur lengi í sama starfi að það verð- ur samdauna því og lokað fyrir nýjungum. Þannig var Sigurður Óli ekki, hann var ævinlega til- búinn í nýjan slag, hafði einstakt lag á að draga fram skýrar and- stæður í málum og ég held að hann hafi haft gaman af smárifr- ildi öðru hverju. En þegar á reyndi var enginn maður sam- vinnufúsari og réttlátari en ein- mitt hann. Sigurður Óli situr ekki lengur meðal okkar en minningin um hann, hugsjónir hans og lífsvið- horf deyja ekki. Fyrir hönd bæjarstjórnar Ak- ureyrar votta ég Hólmfríði eig- inkonu Sigurðar Óla, börnum hans og öðrum aðstandendum dýpstu samúð. Valgerður H. Bjarnadóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrar. Með örfáum, fátæklegum orðum vil ég að leiðarlokum þakka vini mínum, Sigurði Óla, samfylgd- ina. Hann var maður vammlaus og vítalaus í starfi sínu og hollur í hugum. Sorglegt er nú að sjá hann hafa brennt krafta sína upp í ákafanum, en þannig var hann, og heiðvirðara manni hefég ekki kynnst. Með orðum Gríms Thom- sens sendum við Gréta þér, Fríða, okkar dýpstu samúðarkveðjur. Vammlaúsum hal og vítalausum fleina vant er ei, boglist þarf hann ei að reyna, banvænum þarfhann oddum eiturskeyta aldrei að beita. Tryggvi Gíslason. Það er hlutskipti stjórnmála- manna að takast á um skoðanir, deila um upplýsingar meta tölur og staðreyndir út frá ólíkum sjónarmiðum. Þetta er auðvitað skiljanlegt í ljósi ólíkra lífsskoð- ana og reynslu. Hver sá sem tekur að sér pólitíska trúnaðar- stöðu og sinnir henni af sæmilegri alvöru verður jafnan að ganga til verka í samvinnu við aðra menn, og taka tillit til annarra sjónar- miða. Fyrsta samtal okkar Sigurðar Óla Brynjólfssonar var pólitísk rimma, þar sem höggvið var ótt og títt á báða bóga og stóru orðin ekki spöruð. Mér þótti nóg um og leist fremur þunglega á að við ættum eftir að starfa saman, enda var það naumast í sjónmáli í það sinn. Ég kynntist honum fyrst að ráði eftir bæjarstjórnarkosning- arnar 1978, þegar við hófum að starfa saman í endurnýjuðum vinstri meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar og enn betur eftir myndun meirihluta að afloknum bæjarstjórnarkosningum 1982. Éftir langar setur, og harðar umræður á mörgum samninga- fundum lá fyrir uppkast að mál- efnasamningi. Á síðustu stundu kom í ljós að Alþýðuflokkurinn óskaði ekki eftir að eiga aðild að meirihlutanum á þeim forsendum sem samkomulag gat orðið um, og þar með var einn reyndasti bæjarfulltrúinn úr leik. Við áttum þá fund með okkur, fulltrúar þeirra flokka sem eftir voru, heima hjá Sigurði Óla og ræddum fram og aftur hvað gera skyldi. Fyrir hann sem hafði lang- mesta reynslu okkar sexmenn- inga í sveitarstjórnarmálum hef- ur ákvörðunin um að mynda slík- an meirihluta áreiðanlega verið næsta erfið, þegar þess er gætt að í hópnum voru þrír nýliðar og tveir þeirra auk þess fulltrúar fyr- ir stjórnmálaafl sem nálgaðist pólitísk viðfangsefni með nokkuð öðrum hætti en hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar. Þá eins og oft áður tók Sigurður Óli af skarið með sínum sérstæða hætti, spurði þessarar einföldu spumingar hvort við ættum ekki bara að reyna. Þannig var Sigurður Óli sem stjórnmálamaður og samstarfs- maður. Gæddur þeim frábæra hæfileika að geta haldið fram sín- um málstað, af öllum þeim þrótti sem hann átti til, deilt og ávítað, tekið við ádeilum frá okkur hinum, en þurrkað það allt sam- an út í einu vetfangi þegar nóg var komið og samkomulag gat orðið. Stóð við hvert orð sem samið var um, reiðubúinn til að taka undir áhugamál annarra og gera þau að sínum, ef svo bar undir. Síðasta samtal okkar var með öðrum blæ en það fyrsta, umræðu- efnið annað. Heilsu hans hafði þá hrakað verulega, en um það vildi hann ekki ræða, þess í stað spjölluðum við um skáldskap og listir. Við kvöddumst með mikilli vinsemd og sáumst ekki aftur. Ég er þakklátur fyrir það lærdómsríka tímabil sem ég átti þess kost að starfa með Sigurði Óla. Slíkir önd- vegismenn eru því miður ekki á hverju strái. Ég votta Hólmfríði og öðrum ást- vinum hans mína dýpstu samúð. Helgi Guðmundsson.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.