Dagur - 15.08.1986, Qupperneq 9
15. ágúst 1986- DAGUR-9
- Sr. Bjöm H. Jónsson Húsavík
meira að gera. Skömmu eftir kom-
una til Húsavíkur fékk ég vinnu við
sjúkrahúsið sem þá var í smíðum,
vann við að slá upp vinnupöllum við
húsið með starfsmönnunum þar til
því verki lauk. Síðar fylgdi ég
Ásgeiri Höskuldssyni sem var meist-
ari þarna við ýmis önnur byggingar-
störf og vann við að standsetja lóðir
m.a. sjúkrahúslóðina.
Einu sinni hafði ég þann starfa að
grafa fyrir hitaveitu og fleira mætti
telja af þessu tagi. Ég var vinnunni
vanur að heiman og það má segja að
vinnan hafi verið minn besti vinur,
bæði fékk ég peninga fyrir vinnuna
og gat kostað mig til náms og seinna
hefur hún fyllt upp margt tómið svo
ég hef verið laus við tóm sem margir
finna fyrir. Það var svolítið skemmti-
legt að tvo sumarparta vann ég í fisk-
búðinni sem fiskbúðarmaður. Það
atvikaðist þannig að ég mætti Þor-
grími Jóelssyni starfsmanni þar á
götu. Hann heilsaði mér glaðlega og
sagði áreiðanlega bæði í gamni og
alvöru og þó líklega meira í gamni:
„Heyrðu heldurðu að þú leysir mig
ekki af í sumarfríinu? Ég fæ engan til
að leysa mig af.“ „Það er nú alveg
sjálfsagt,“ sagði ég og þegar hann
heyrði svarið ætlaði hann að fara að
draga þetta til baka en ég sagði að
við værum búnir að slá þessu föstu og
værum ekkert að breyta því. Hann
var hálf niðurbeygður með að þurfa
að færa Tryggva Finnssyni fram-
kvæmdastjóra þessa frétt. Ég vann
þarna í mánuð til að leysa Þorgrím af
og sama sumar leysti ég Björn Þor-
kelsson af líka og næsta sumar var
sami háttur á hafður. Ég veit að þetta
starf mitt hneykslaði suma, veit ekki
hversu alvarlega og lét mér það í
léttu rúmi liggja. Allt heiðarlegt starf
held ég að fari flestum mönnum vel.“
- Kynntistu ekki annarri hlið á
sóknarbörnunum með því að ganga
til daglegra starfa með þeim?
„Ég komst áreiðanlega miklu nær
þeim með því að vinna við bygg-
ingarvinnuna og einnig í fiskbúðinni,
í þriðja lagi vann ég við aðgerð og
fiskpökkun og þá kynntist maður enn
fleiri og enn nánar. Starfsmennina í
aðgerðinni átti ég sem félaga en ekki
eingöngu sem sóknarbörn, það hefur
ábyggilega tengt mig mjög þessum
söfnuði.“
Suma daga kom maður
glaður heim
- Hvernig eru Húsvíkingar sem
sóknarbörn?
„Mér hefur fundist þeir afskaplega
þægilegir, eiginlega hef ég fengið að
segja óáreittur það sem mér hefur
legið á hjarta en að sjálfsögðu hef ég
reynt að fylgja allri sanngirni. Það
sem ég hef sagt bæði í alvöru og
gamni hefur aldrei orðið að ásteiting-
arsteini. Kannski má segja að kirkju-
sókn hafi oft á tíðum ekki verið sem
skyldi en á stórhátíðum hefur hún oft
verið mjög góð og oft full kirkja.“
- Hvernig líður prestinum á
venjulegum sunnudegi þegar örfáar
hræður koma til messu?
„Þá líður prestinum ekki vel og á
leiðinni heim hugsar hann oft sem
svo að þetta hljóti að stafa af því að
ræðurnar séu svo lélagar, þetta er
sannarlega ekki uppörvandi. En það
er nú svo með lífið að það þýðir ekki
að horfa á það sem miður fer og þá
þýddi ekki annað en slá þessu upp í
kæruleysi hugsa að við þessu væri
ekkert að gera og ekkert þýddi að
láta það á sig fá. Þannig hafa árin lið-
ið og suma daga kom maður glaður
heim, þá var kannski óvænt á þriðja
hundrað manns eða fleiri í kirkj-
unni.“
- Finnurðu breytingar á trúar-
áhuga um þessar mundir?
„Það er ef til vill erfitt að svara
þessu afdráttarlaust, hins vegar held
ég að fullyrða megi að afstaða fólks
til kirkjunnar hafi breyst mjög í já-
kvæða átt. Það leynir sér ekki að
margt fólk á sína trú, viðurkennir
það fyrir sjálfu sér og margir einnig
fyrir örðum. Ef ekki væri trúin, á
hvað á þá að leggja traustið?
Ekki er ástæða til að halda að fólk
sé minna trúað nú en áður var, það
sem skilur á milli er kannski hvað
menn iðka minna sína trú vegna ann-
arra ytri aðstæðna, það er með trúna
eins og annað hana verður að iðka ef
hún á að vera manninum eðlileg."
- Nú þegar þú ert að hætta prests-
störfum og hefur öðlast mikla
reynslu, mundirðu hvetja ungan karl
eða konu sem væru að hugsa um að
leggja út á þessa braut og leituðu
álits þíns?
„Já það mundi ég gera því prests-
starfið er eitt af þeim störfum sem
gefur manninum geysilega mikið svo
framarlega sem maður veldur starf-
inu. Stundum koma mjög svo alvar-
legar stundir en ef rétt er við þeim
brugðist fær maður venjulega meira
frá þeim sem í sorginni og vandanum
eru heldur en maður getur sjálfur
gefið. Að því held ég eru þetta mjög
notaleg gagnkvæm samskipti, það
sem hefur snúið að mér hefur verið
mér mikils virði. Það er spurning út
af fyrir sig hvað gefur lífinu mest
gildi. Ég held að sá sé auðugastur í
lífinu sem sér þegar hann lítur til
baka sem flest tækifæri sem hann
hefur notað til góðs af þeim sem boð-
ist hafa. Þetta er eins og með talent-
urnar sem sagt er frá í Biblíunni og
ekki á að grafa í jörðu."
Vil ekki gista innan um blöðin
- Þú ert ekki orðinn gamall maður
og ert að hætta sem opinber starfs-
maður, hvernig líður þér, ertu sáttur
við þennan þátt ævinnar?
„Mér líður satt að segja mjög vel.
Ég hætti störfum án þess að vera
óánægður með eitt eða neitt og er
ekki að hætta vegna þess að ég sé
orðinn óhæfur til starfsins. Þegar
maður lítur til baka getur maður eig-
inlega glaðst mest yfir því að engir
skuggar skuli vera að baki manns og
ekki heldur neinir skuggar framund-
an sem fortíðin hefur dregið upp.“
- Hvað er framundan hjá þér,
sestur í heigan stein eða hefurðu sótt
um vinnu í fiskbúðinni?
„Nei, undir niðri er ég sjálfsagt lat-
ur maður og hugsa mér að vinna ekki
neitt. Það má segja að ég verði al-
frjáls þegar ég hætti störfum, ekkert
bindur mig, börnin eru komin upp og
ég er einhleypur og öllum óbundinn.
Get sem sagt hugsað mér að leika
mér eins og mig langar til en að sjálf-
sögðu á ég mín hugðarefni í tóm-
stundum og mun vafalaust sinna
þeim að ákveðnum hluta.“
- Þú ert að vinna að ritstörfum?
„Já, ég ætla mér að reyna að ljúka
seinna bindinu af Sögu Húsavíkur.
Því verki var mér úthlutað án þess að
ég nokkurn tíma samþykkti, en það
er samt orðið að samþykki mínu að
reyna að Ijúka þeirri bók. Hins vegar
hef ég tekið mér hvíld frá því verki í
sumar vegna flutninga, ég er að flytja
úr prestssetrinu aðalmagnið af tíma-
ritum og blöðum í kjallara sem ég á,
þar hef ég býsna gótt húsrými.“
- Þú hefur verið þekktur sem
bóka- og blaðasafnari, ertu hættur að
safna?
„Nú má segja að ég sé ekki orðinn
sérstakur safnari, er búinn að ná
saman mjög mörgum tímaritum og
dagblöðunum að verulegu leyti og
hef gefið Bókasafni Suður-Þingey-
inga fjögur blöð: Alþýðublaðið,
Þjóðviljann, Tímann og Morgun-
blaðið. Að vísu vantar einhver ein-
tök enn sem ég ætla að reyna að ná.
Þar með er ég alveg búinn að vísa
þessum blöðum frá mér og hef ekki
áhuga á að viða meiru að mér, hins
vegar er mér ljóst að þörf er á ein-
hvers konar tímarita- eða blaðamiðl-
un því margir eru að safna einhverju
ákveðnu efni og þá er nauðsynlegt að
einhvers staðar sé svona miðstöð eða
fyrirgreiðslustaður. Ég geng að þessu
sem vinnu og veit að í framtíðinni
þegar ég gegni engum sérstökum
störfum hins opinbera þarf ég að
skipuleggja mína vinnu. Ekki vinna
frá morgni til kvölds heldur ákveðinn
kafla úr degi og eiga síðan mitt frí
eins og ungur maður á besta aldri
sem vill fá eitthvað út úr sínum frí-
stundum.“
- Ætlar þú að búa áfram hjá okk-
ur á Húsavík?
„Það er eiginlega meiningin ef ég
fæ húsnæði við mitt hæfi. Ég vil ekki
gista innan um blöðin í kjallaranum
hjá mér. Þetta ræðst líklega seinni-
partinn í sumar, annars verð ég að fá
leigt heldur en að fara í burtu.“
Það ríkir yfirleitt glaðværð og
gamansemi umhverfis séra Björn og
oft hefur hann komið mönnum á
óvart með alþýðleik sínum. Til
marks um það er að lokurn ein lítil
saga: Það var skömmu eftir að séra
Björn kom til Húsavíkur að hann fór
sér til gamans með Hálfdáni Hjalta-
syni að Tjarnarrétt í Kelduhverfi.
Hittu þeir bónda einn sem átti margt
fé í réttinni en var liðfár. Ganga þeir
félagar nú til liðs við bóndann og var
presturinn enginn liðleysa við fjár-
dráttinn. Er mesta annríkið var um
garð gengið gaf bóndinn sér loks
tíma til að víkja sér að Hálfdáni og
spyja hvaða piltur þetta sé sem svo
ötullega hafi aðstoðað hann um dag-
inn. Séra Birni mun ekki hafa leiðst
að sjá svipinn á bóndanum þegar
honum varð ljóst hvaða embætti
aðstoðarmaðurinn gegndi. IM
. . . fór beint í prestsstarf á Árnesi á Ströndum.
E 'S