Dagur - 08.09.1987, Blaðsíða 8

Dagur - 08.09.1987, Blaðsíða 8
8 - DAGUR - 8. september 1987 Gagnfræðaskóli Akureyrar: Skólasetning í Akureyrarkirkju - föstudaginn 4. september 1987 kl. 14.00 Háttvirta samkoma, gestir skólans, starfsmenn og nemend- ur! Þið munið eflaust - enda flestum í fersku minni - sönglagakeppni sjónvarpsstöðva Evrópu í vor og alla eftirvæntinguna, sem ís- lenska lagið vakti. Þorri íslend- inga óskaði þess heitt, að þetta fallega lag næði langt í keppn- inni, helst af öllu vildum við, að það sigraði, og margir gerðu sér vonir um það í alvöru. Víst er um það, að lagið er fallegt og ljúft og smaug inn í hvers manns hug. En tókuð þið eftir hinu, hve textinn var góður, látlaus og ljóðrænn? Mér þótti hann á sinn hátt ekki síðri en lagið. „Einu sinni, einu sinni enn...“ bergmálar í hug- skotinu. Já, - „einu sinni, einu sinni enn“ hefjum við skólastarf, þegar haustið nálgast og lætur glytta í fyrstu hvítu vígtennurnar á fjöllum. Einu sinni enn komum við saman undir merkjum skól- ans og í skjóli kirkjunnar okkar með það í huga að auka kunnáttu okkar, færni og hæfni í ýmsum greinum, svo að við séum betur en ella búin undir átökin á orrustuvelli lífsbaráttunnar, þeg- ar sá tími kemur. „Einu sinni enn“ hittast gamlir vinir og félagar til upprifjunar fornra kynna og upplifunar nýrra ævintýra. Nýr tími fer í hönd, tími starfs og leikja í hæfilegum hlutföllum, tími, sem vonandi verður okkur öllum góður og gjöfull, veitull á gleði og framför og sigra. Einu sinni enn heilsar skólinn ykkur, einu sinni enn fögnum við nýju starfsári. Verið öll hjartanlega velkomin í skólann, nemendur, kennarar og aðrir starfsmenn! Horfur eru á, að nemendur verði fjölmennari á komandi skólaári en þeir hafa verið um langt skeið, eða rösklega 500 talsins. Nákvæma tölu er ekki unnt að nefna fyrr en endanlegt manntal hefir farið fram. í 9. bekk verða 8 deildir, í 8. bekk 6 deildir og í 7. bekk 7 deildir. Flestar deildirnar eru mjög fjöl- mennar, sumar mannfleiri en góðu hófi þykir gegna, en af því leiðir vitanlega góða nýtingu á kennslukvóta skólans, þó að hitt sé efamál, að það leiði af sér betri árangur náms og kennslu. 9. bekkur verður nú fjölmennari en nokkru sinni áður, en í honum verða 185 nemendur. Hins vegar eru árgangarnir, sem á eftir koma, snöggt um fámennari. Svo undarlega horfir við á þessari stundu, við þessa skóla- setningu, að ég get ekki nefnt nákvæma eða endanlega tölu kennara, en þegar þetta er talað, eru þeir 37. Ég man ekki til, að jafnilla hafi gengið að ráða fólk til kennslustarfa, og kann ég ekki einhlíta skýringu á því. Ekki er þó vonlaust, að takast muni að manna meginþorra kennslu- stunda, sem áætlaðar eru, þó að þunglega horfi á þessari stundu, en þó er sennilegt, að fresta verði líffræði 7. bekkjar til næsta vetrar. Sumt annað er í tvísýnu, en allt kapp er og hefir verið lagt á, að ráða fram úr vandanum, og vonandi tekst það að mestu leyti. Það ber til nýlundu á þessu hausti, að stundaskrá skólans er ekki nema að litlu leyti handunn- in, heldur gerð í tölvu Mennta- skólans eftir norsku forriti. Að þessu er mikill tímasparnaður og allmikill peningasparnaður. Af hálfu Gagnfræðaskólans unnu að undirbúningi verksins Hugrún Helgadóttir kennari og Magnús Aðalbjörnsson yfirkennari, en af hálfu Menntaskólans kennararnir Gunnar Frímannsson og Valde- mar Gunnarsson. Ég kann þeim öllum bestu þakkir fyrir gott verk og vandað og vona, að þessi fyrsta vélunna stundaskrá skól- ans reynist vel nemendum og kennurum. Nokkrir kennarar hafa horfið frá skólanum, sumir eftir langa og dygga þjónustu, svo sem Álf- hildur Pálsdóttir og Arnar Ein- arsson, sem tekur við stjórn Húnavallaskóla á þessu hausti. Auk þess vil ég nefna Önnu Lilju Sigurðardóttur, Bjarka Hrafns- son, Jakob Kristinsson, Kristínu Haraldsdóttur, Nönnu Þórsdótt- ur og Ragnheiði Haraldsdóttur. Öllum þessum kennurum þakka ég störf þeirra og óska þeim góðs gengis á nýjum vettvangi náms eða starfs. Nýir kennarar, sem vitað er á þessari stundu, að starfa muni við skólann, eru þessir: Ásdís Sigur- vinsdóttir (íþróttir), Eltnborg Ragnarsdóttir (íslenska, landa- fræði), Gerður Jónsdóttir (ís- lenska, stærðfræði, landafræði), Guðríður Eiríksdóttir (heimilis- fræði), Karen Malmquist (enska), Svanborg Magnúsdóttir (vélritun) og Þórunn Olafsdóttir (íslenska, enska, þýska). Ég býð alla nýja kennara vel- komna til starfs. Enn höldum við í vonina um, að fleiri kennarar fáist til starfa, þannig að takast megi að full- nægja þeirri fræðsluskyldu, sem á íslenska ríkinu hvílir, svo að nemendur skólans fái þjónustu, sem þeir eiga rétt á og kröfu til. Ég hefi leyft mér að tala um „kennara“ skólans sem einn ósundurgreindan starfshóp og bið engrar afsökunar á því. Lög- gjafinn hefir þó látið undan þrýstingi stéttarsamtaka og tekið upp nokkurs konar aðgreiningu þess fólks, sem vinnur við skóla- kennslu, í sauði og hafra, bæði til launa og réttinda, þó að þessir starfsmenn starfi hlið við hlið að sömu verkefnum. Mér gengur illa að kyngja þessari nýjung, enda eru margir þeir „kennarar" skólans, sem kallast skulu „leið- beinendur“, með langa starfs- reynslu og margra ára háskóla- nám og háskólapróf í kennslu- greinum sínum og engu síðri menntun en hinir, sem keypt hafa sér „bréf upp á það“ að mega heita „kennarar“ í síma- skrá. Mér þykir t.a.m. ekki að- eins fáránlegt, heldur einnig óverðskulduð auðmýking, að skólinn skuli þurfa að knékrjúpa einhverju fólki suður í Reykjavík eða Kópavogi, til þess að guð- fræðingurinn, presturinn og próf- asturinn í Eyjafjarðarprófasts- dæmi, séra Birgir Snæbjörnsson, með áratuga starfsreynslu sem prestur og uppfræðari í skólum og utan þeirra, megi náðarsam- legast halda áfram að segja ung- mennum til í kristnum fræðum. Satt að segja áttaði ég mig ekki á þessu, fyrr en nokkuð var liðið á sumar. Til öryggis spurðist ég fyr- ir um þetta atriði í menntamála- ráðuneytinu og fékk þar staðfest, að umsóknar um undanþágu væri þörf í þessu tilviki. Þá umsókn sendi ég óðara til undanþágu- nefndarinnar, en svar er enn ókomið. Satt best að segja tel ég ekki vafamál - og er ekki einn um þá skoðun, - að við þessi lagaákvæði og rekstrarskilyrði skóla verði ekki unað stundinni lengur og þegar hafi komið ber- lega í ljós, að helstu annmarka laganna um lögverndun á starfs- heiti og starfsréttindum kennara verði að sníða af hið allra fyrsta. Aldrei hefir gengið jafn erfiðlega að ráða fólk til skólakennslu og á þessu hausti, einkum víða á þeim hluta íslands, sem liggur austan Elliðaáa. Á þessu hausti verða þau tíma- mót í skólasögu Akureyrar, að bærinn okkar verður ekki aðeins skólabær, heldur háskólabær. „Háskólinn á Akureyri“ verður settur í fyrsta sinn hér á þessum helga stað eftir nákvæmlega einn sólarhring. Gagnfræðaskóli Akureyrar, sem samkvæmt ís- lenska ríkissjónvarpinu á 125 ára afmælisdegi Akureyrarkaupstað- ar er reyndar ekki til, vill þó senda hinni nýju skólastofnun bestu heilla- og velfarnaðaróskir og vonar, að hann verði, eins og til er ætlast, til þess að efla og glæða mennta- og menningarlíf, farsæld og framfarir, í Akureyr- arbæ, Norðlendingafjórðungi og landinu öllu. Veri hinn nýi háskóli velkominn í hina stóru skólafjölskyldu bæjarins og leiddur til sjálfsagðs öndvegis. Já, bærinn okkar átti afmæli á laugardaginn var, það fór ekki leynt, því að þátttaka fólks í afmælishátíðinni var mjög virk og almenn. Flestir, ef ekki allir, eru líka á einu máli um, að hún hafi tekist vel og orðið okkur öll- um til sóma. Margt fallegt var sagt um bæinn okkar, ýmist opin- berlega eða manna á milli, meðal annars það, hve snyrtimennska úti við væri mikil og umgengni góð, enda ætti bærinn áratuga - ef ekki aldagamla ræktunar- og umgengnismenningu. Víst er um það, að við getum sýnt á okkur þetta snið, en því miður er stund- um annar flötur uppi, ekki síst á síðkvöldum og um nætur. Hreinsunarsveitir bæjarins eru góðu heilli árrisular og skjótar til viðbragðs, svo að ekki ber neitt á neinu, þegar venjulegir borgarar fara á stjá að morgni. En fyndist ykkur ekki ánægjulegt afspurnar, nemendur góðir, að allir Akur- Sverrir Pálsson skólastjóri í ræðustól. eyringar, ungir og gamlir, tækju höndum saman um að halda uppi því merki og láta á sannast, að bærinn okkar sé og verði til fyrir- myndar um snyrtimennsku og hreinlæti, ræktun og fegrun? Ef þið svarið játandi, skyldi hver og einn byrja hjá sjálfum sér, hyggja að næsta umhverfi sínu og gengn- um slóðum, kasta ekki frá sér umbúðum og óhroða á förnum vegi að hætti ósiðaðs skríls, held- ur halda götu sinni hreinni. Ég bið um og særi ykkur við dreng- skap ykkar og gróinn smekk, að láta nefndar hreinlætisvenjur einnig ná til skólans ykkar, stofa hans, ganga og hlaðs. Skólinn á að vera annað heimili ykkar auk þess að vera vinnustaður ykkar, og þá ber að sýna þar sömu umgengnishætti og hver og einn vill hafa heima hjá sér. Ekki má misbjóða fegurðarskyni náung- ans og hreinlætiskennd og vitan- lega ekki sjálfs sín heldur. Þá líð- ur ykkur betur í skólanum ef allir hafa þetta í huga. Skólinn okkar á að vera til fyrirmyndar í þessu efni, rétt eins og bærinn okkar hefir lengst af verið öðrum byggðarlögum. Einn fræknasti sægarpur við Breiðafjörð á síðari hluta 19. ald- ar og fyrri hluta þeirrar 20. var Snæbjörn Kristjánsson í Hergils- ey. Hann var í senn kappsamur og aðgætinn sjósóknari, vitur maður og virtur, farsæll og fengsæll. Umfram allt var hann drengskaparmaður alla ævi. Hann átti góða foreldra og auk þeirra hafði ömmusystir hans mikil afskipti af honum, meðan hann var í bernsku, og kallaði hann hana jafnan fóstru sína. Hún lagði honum mörg ráð, blés honum margt í brjóst og hafði djúp og langvinn áhrif á skaphöfn hans og lífsviðhorf. Meðal annars kenndi hún honum að hemja skap sitt, ef hann reiddist, og sýna aldrei af sér ótta eða van- stillingu, ef háska bæri að höndum, því að hvort tveggja byði heim hættunni á vanhugsuð- um og óskynsamlegum viðbrögð- um, sem leitt gætu til ógæfu eða slysa og hann kynni að iðrast síðar. Snæbjörn ritaði merka sjálfs- ævisögu, og þar rekur hann minningar sínar um fóstru sína. Honum þótti afar vænt um hana. Mynd: TL Þótt hún væri kröfuhörð og stundum ströng, var hún jafn- framt blíð við hann. Drengnum skildist, að hún var að stæla hann og styrkja, búa hann undir kom- andi lífsbaráttu manndómsár- anna, lífsbarátttu, sem gat verið hörð og óvægin í návígi við höf- uðskepnurnar og óblíða náttúru úteyja og opins hafs. Snæbjörn telur upp flest þeirra heilræða, sem fóstra hans lagði honum á hjarta og minni og urðu honum góð leiðsögn alla ævi. Mig langar að nefna ykkur nokkur þeirra, ef vera mætti, að þau kæmu ykkur að haldi ekki síður en breiðfirska sægarpinum. Verfu sannordur. Reyndu að gera aldrei öðrum illt að fyrra bragði. Segðu aldrei frá því, sem þér er trúað fyrir. Vertu tryggur vinum þínum. Vertu gætinn í orðum. Talaðu sem fæst, ef þú reiðist. Vertu sáttfús, ef þú ert beðinn sátta. Leggstu aldrei á lítilmagna. Vertu gjafmildur við fátæka, ef þú getur. Taktu málstað þess, er þú telur verða fyrir órétti. Treystu guði umfram allt. Vitanlega er hægara að kenna heilræðin en halda þau. Það hafa flestir fengið að reyna. En þau eru ekki lakari fyrir það og ekki þeim um að kenna, þótt okkur takist ýmislega að fara eftir þeim. Skólinn ykkar mun vissulega reyna að leggja ykkur ýmis ráð í lófa, reyna að temja ykkur við ýmsar venjur, sem ykkur veitist misjafnlega auðvelt að fara eftir og ykkur þykja misjafnlega þarf- legar í svip. En ég vona þó, að þið skiljið, að skólanum gengur gott eitt til. Hann vill reynast ykkur góð fóstra eins og Guðrún Eggertsdóttir í Hergilsey ungum frænda sínum og stuðla að því eftir megni, að þið verðið vel búin undir frekara nám og síðan langt og gæfusamt lífsstarf. Hann vill, að þið verðið gæfumenn. Að því skulum við öll vinna í samein- ingu, hver eftir sínu megni. Leggjum svo á komandi vetur, nýtt skólaár, „einu sinni, einu sinni enn,“ full vonar og vilja. Gagnfræðaskóli Akureyrar er settur.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.