Dagur - 16.05.1992, Blaðsíða 13

Dagur - 16.05.1992, Blaðsíða 13
12 - DAGUR - Laugardagur 16. maí 1992 Laugardagur 16. maí 1992 - DAGUR - 13 Hann býr í sveit en þó innan bæjarmarka Akureyr- ar. Snúinn aftur og býr nú á jörð afa og ömmu. Einn með hestum og öðrum ferfætlingum. Kominn á kaf í hrossarækt. Ætlar að einbeita sér að tamningum í sumar. Valdimar heitir hann og er Andrésson og býr í Litla-Garði, skammt sunnan við Krókeyri. Valdi- mar er háskólamenntaður og kennir íslensku við Verkmenntaskólann á Akureyri en hann segir að áhuginn á íslenskum bókmenntum og hrossum fari mjög vel saman. Valdimar er sonur Andrésar sýslumanns á Selfossi Valdimars- sonar Stefánssonar bónda í Fagraskógi og Katrínar Karls- dóttur Ágústssonar í Litla-Garði. Hann er því af eyfirskum ættum og hefur alla tíð verið mikið fyrir norðan. Blaðamaður Dags skrapp í heimsókn til Valdimars og var vel fagnað af tveimur vingjarnlegum hundum af Collie kyni. Með útsleiktar hendur var síðan sest með kaffibolla í eld- húsinu og spjallað um hesta og menn. Heyrum hvað Valdimar hefur að segja: „Ég var hér mikið sem krakki hjá afa og ömmu í Litla-Garði og kynntist hestamennskunni, enda alltaf mikið af hestum hérna. Áhuginn sem kviknaði þá hefur fylgt mér alla tíð síðan og hefur aukist frekar en hitt með árun- um. Það má segja að ég hafi verið hér hvert einasta sumar sem barn. Síðan kom ég aftur norður og settist í Menntaskólann á Akureyri 1979 og brautskráðist þaðan 1983. Um haustið það ár fór ég suður og lagði stund á íslensk fræði í Háskólanum. Námið stundaði ég með hléum og útskrifaðist með BA próf í íslensku vorið 1991. Kannski má rekja upphaf áhuga míns á þjóðlegum fræðum til bernsku minnar. Þórhildur Sveinsdóttir, langamma mín, móðir Þórhöllu ömmu í Litla- Garði hafði það fyrir sið að segja okkur bræðrunum þjóðsögur og ævintýri fyrir svefninn. Hún sagði ákaflega vel frá og kunni ósköpin öll af sögum. Þessar stundir sitja í minningunni og ef til vill á ég langömmu minni það að þakka að ég valdi þessa grein menntun- ar. Hinu get ég ekki neitað að í menntaskólanum hafði ég góða lærifeður sem einnig geta hafa ýtt undir þessa ákvörðun, þá Valdi- mar Gunnarsson og Erling Sig- urðarson, afbragðs menn báðir tveir.“ Var í kaupavinnu hjá góðum bændum í Hörgárdal Með BA próf upp á vasann fór Valdimar að líta í kringum sig og þegar honum bauðst staða við Verkmenntaskólann á Akureyri sá hann kjörið tækifæri til að koma norður. „Afi og amma voru nýlega flutt í íbúð við dvalarheimilið Hlíð og Litli-Garður var laus. Það var ákveðið að ég settist þar að og þarna gat ég slegið tvær flugur í einu höggi, sinnt hestamennsk- unni og sótt vinnu á Akureyri." - Þú hefur þá hellt þér út í búskapinn. „Já, ef búskap má kalla. Sveitastörfin hafa alltaf verið mér hugleikin. Ég var í kaupavinnu hjá góðum bændum í Hörgárdal meira og minna öll sumur frá 15 ára aldri. Fyrst var ég hjá Sverri bónda Haraldssyni í Skriðu, síð- an hjá Sturlu Eiðssyni á Þúfna- völlum og loks Steini Snorrasyni á Syðri-Bægisá. Mér finnst það mikil gæfa að hafa kynnst þessu fólki og þarna hafði ég alltaf með mér hross.“ Valdimar hefur átt hesta frá unga aldri og þá fyrstu fékk hann frá afa sínum, Karli heitnum Ágústssyni. „Ég hef notið hans í minni hrossaeign og þau hross sem ég á núna eru flest frá honum komin eða út af hrossum frá honum,“ sagði Valdimar. „Einum manni á ég líklega meira að þakka en öll- um öðrum hvað varðar þá íþrótt sem hestamennskan er, en það er Guðmundur Karlsson móður- bróðir minn. Hann hefur kennt mér mikið, bæði með tilsögn í gegnum árin og þeirri yfirvegun sem einkennir manninn. Honum fæ ég líklega seint fullþakkað.“ Ætlum aö fara víða og temja mikið Reynslan af kaupavinnunni í Hörgárdalnum er mikilvæg í aug- um Valdimars og nýtist honum vel í hrossaræktinni. „Það hjálpaði mér mikið að vera hjá svona góðum bændum. Maður lærði að vinna vel og það verður seint ofþakkað. Nú er ég byrjaður í hrossaræktinni og ætla að einbeita mér að henni og tamningum í sumar þegar skóla- starfinu lýkur. Ég verð eingöngu við tamningar í sumar, en þeim kynntist ég strax sem unglingur heima í Litla-Garði. Ég var svo lánsamur að kynn- ast ákaflega góðum manni vorið 1991, en það er Ólafur Jónsson, dýralæknir. Hann kemur austan af Egilsstaðabúinu og er mikill hestamaður eins og hann á ættir til. Hann hefur verið með hesta hjá mér í vetur og við ráðgerum að liggja í ferðalögum á hestum í sumar, fara víða og temja mikið. Við ætlum í mikla ferð héðan austur á Vopnafjörð og þaðan á Hérað. Þar ætlum við að hitta hestamenn og hafa af þeim gagn og gaman. Ég hef verið að aug- lýsa eftir hrossum til tamningar í sumar. Þau ættu að temjast vel á þessum ferðalögum. Þau hafa mjög gott af því að hlaupa með í svona ferðum. Við áætlum að taka í þetta hálfan mánuð upp í tuttugu daga og síðan verð ég einnig mikið á ferðinni í nágrenni Eyjafjarðar." „Áhuginn á íslcnskum hestum og íslenskum kveðskap samrýmist mjög vel. Það er fátt betra en að rifja upp gullaldarbókmenntir Islendinga milli þúfna á sumrin ein- hvers staðar uppi á fjöllum,“ segir Valdimar. Þáttur viðraður á heimreiðinni að Litla-Garði. Valdimar ætlar að fara víða í sumar og temja mikið. Valdimar býr einn með hestum og öðrum ferfætlingum og ekki má gleyma öllum bókunum sem íslenskumaðurinn hefur viðað að sér. Hundarnir eru af Collie kyni og heita Perla og Kátur. Læðan Hress var fjarri góðu gamni þegar myndin var tekin. „Ahuginn á íslenskum hestum og kvebskap samrýmist mjög vel" - segir Valdimar Andrésson, hestamaöurinn og íslenskukennarinn í Litla-Garöi Með sautján hesta í húsi og meira en fulla kennslu - Hvernig hefur það farið saman í vetur að kenna og sinna hross- unum? „Það hefur verið mikið að gera, ég get ekki neitað því. Ég hef verið með 17 hesta inni og kennt fulla kennslu og meira en það þannig að yfirleitt hef ég far- ið seint að sofa og snemma á fætur. Auðvitað hefur kennslan líka tekið mikinn tíma þar sem ég er að byrja og hef þurft að eyða meiri tíma í undirbúning en reyndari kennarar. Ég hef verið að temja aðeins fyrir aðra í vetur og reynt að sinna því verki vel og allt tekur þetta sinn tíma.“ - Ég sá í Mínervu, bók útskriftarnemenda í VMA, að þú ert teiknaður á hestbaki og text- inn snýst allur um hross. Þetta áhugamál þitt hefur ekki farið fram hjá nemendum, eða hvað? „Nei, ég hef stundum minnst á hesta við nemendur mína enda eru geysimargir krakkar í Verk- menntaskólanum mjög áhugasam- ir um hesta. í hverjum einasta hóp sem ég kenni eru einhverjir sem eru „undir á'nrifum", sagði Valdimar, en hann var fenginn til að fara ríðandi í Brunnárhlaupið á dögunum, þar sem nemendur og kennarar VMA og MA skokk- uðu frá Brunná að hjarta Akur- eyrar. „Ég hafði nú ekki hugsað mér að fara ríðandi svona langt inn í menninguna. Maður gerði þetta oft í gamla daga. Þá var ég gjarn- an sendur út í Höepfner eftir mysu og fór þá oft ríðandi. Það var mjög gaman en maður fer ekki í búðina á hesti núna.“ Hef notið góðra manna í sambandi við stóðhesta - Þú ert kominn í hrossaræktina, hvernig fékkstu þá bakteríu? „Ja, eftir að hafa riðið á góðum hestum þá kviknaði sá áhugi að reyna að framleiða þá sjálfur. Þetta eru mikil fræði og maður verður að fylgjast vel með ef maður ætlar að standa sig í hrossaræktinni og hafa gott auga með kostum hverrar skepnu. Ég nýt afa míns í þessum efn- um líka. Frá honum eru komnar þær hryssur sem ég hef notað í ræktuninni. Ég hef líka notið góðra manna í sambandi við stóðhesta. Það eru að koma upp athyglisverðar unghryssur hérna núna,“ sagði Valdimar og fór að lýsa nokkrum þeirra nánar. „Ég á sex vetra gamla hryssu undan Ófeigi frá Flugumýri og brúnskjóttri hryssu frá Syðri- Varðgjá. Hún er geysilega efni- leg. Undan þessari brúnskjóttu hef ég fengið ákaflega góð hross og hef kappkostað að koma henni til góðra hesta. Þetta er afar stór og vörpulega hryssa, alhliða hross. Hún er systir bleiks hests sem afi minn átti og margir af eldri kynslóðinni muna kannski eftir. Undan þessari brúnskjóttu á ég núna brúnan son Höfða-Gusts 923, en sá hestur er ákaflega vin- sæll núna. Þetta er veturgamall foli sem ég hef hugsað mér að hafa graðan eitthvað. Þessi foli fæddist aðfaranótt 7. júní. Kvöldið 6. lést Karl afi minn á Fjórðungssjúkrahúsinu þannig að líf tók við af lífi og ég vona að afi gamli komi til með að hafa vakandi auga með gripnum.“ Hættir ekki að hugsa um þá rauðu undan Kjarval Nú var Valdimar kominn á skrið, enda hrossaræktin hans hjartans mál: „Svo er hér rauð hryssa í eigu Karls bróður míns, úr ræktun afa, af svokölluðu Golu-kyni. Hún á ættir að rekja til hryssu sem afi kom með hingað í Eyja- fjörð austan af Borgarfirði. Út af henni átti hann mikla gæðinga, harðvítug fjörhross og góð. Þess- ari rauðu hryssu hélt ég undir Kjarval frá Sauðárkróki og nú stendur grenjandi við stallinn hryssa á fjórða vetri, rauð, ákaf- lega ganggóð, hreyfingafalleg, og má segja að ég hætti aldrei að hugsa um hana, sofinn eða vakinn. Árni Jóhannsson, mikill vinur minn, hestamaður og stórsöngv- ari, hefur útvegað mér pláss fyrir eina hryssu hjá Ófeigi 882 frá Flugumýri. Það er honum að þakka að sú móálótta undan þeirri skjóttu er til og svo fæ ég að læða undir hann annarri hryssu á sumri komanda, þannig að þetta er alit í geysilegri upp- sveiflu. Svo hlakka ég mikið til þegar ég get farið að nota þær hryssur í ræktuninni sem ég á nú ungar og á eftir að sýna. Það er nauðsyn- legt núorðið að sýna hryssurnar blessuðum ráðunautunum ef maður ætlar að nota þær í rækt- uninni," upplýsti Valdimar fáfróðan blaðamann. „Maður verður að vera skynsamur í þessu eins og öllu öðru og nota ekki annað en það sem maður telur allra best í ræktun. Hitt notar maður til reið- ar.“ Kominn á Höfða-Gusts línuna Við fengum okkur meira kaffi og tóbak. Svört og makindaleg læða gægðist á gestinn en sýndi honum lítinn áhuga. Hundarnir léku sér úti á lóð og út um gluggann sáum við hvar Halldór Ingi Ásgeirsson var að sækja hross sem Valdimar hafði í húsi. Sveitasælan sveif yfir vötnum og ný og hljóðlát Fokker vél sem kom inn til lendingar rauf ekki kyrrðina. En áfram með hrossin: „Maður verður að hafa ákveð- in markmið í ræktuninni. Það dugar ekki að hlaupa úr einni ættlínunni í aðra heldur reyna að hafa hópinn nokkuð samstæðan. Eins og margir fleiri nýt ég þar Sveins Guðmundssonar á Sauð- árkróki. Ég er ákaflega hrifinn af þeim hrossum sem frá honum hafa komið og hef hugsað mér að nota hesta frá honum og út af hans hestum. Ég er byrjaður að færa mig inn á þessa Höfða-Gusts línu í ræktuninni. Þar er kannski einn hestur sem heillar mig öðr- um fremur, brúnskjóttur og heit- ir Galdur. Ég hef ætlað mér að nýta tækifærið ef hann kemur hingað norður og reyna að koma undir hann. En þetta eru allt hlutir sem maður kastar ekki til hendinni. Maður verður að vera duglegur ef árangur á að nást.“ Valdimar sagðist vonandi kominn til að vera í hrossarækt og hann hefur sett sér markmið sem hann ætlar sér að ná. Valdimar, Kátur og Hress - og Perla Litla-Garði fylgir ekki mikið land en Valdimar segist þar enn njóta góðra manna. „Ég hef fengið að hafa hross hjá Steini Karlssyni, móðurbróð- ur mínum, og Þórunni í Fjósa- tungu í Fnjóskadal. Einnig hef ég notið frænda míns, Davíðs Guðmundssonar í Glæsibæ. Sama máli gegnir um heyið, ég hef lítið getað heyjað vegna land- leysis. Þar hefur góður vinur minn og fyrrum húsbóndi, Steinn Snorrason á Syðri-Bægisá, hjálp- að mér. Ég hef ekki verið svikinn af því heyi sem þaðan kemur." Við fórum út til að líta á hest- ana og héldum spjalli okkar áfram. Ég bað Valdimar að segja mér frá sambýlisdýrum hans, hundunum og læðunni. „Bleyðan hefur fylgt mér lengi og er stórvinkona mín. Hún er 50 barna móðir og einu sinni var ég að hugsa um að rækta ketti en Texti og myndir: Stefán Þór Sæmundsson ekki hross. Ég hef einnig mjög gaman af hundum og finnst nauð- synlegt að hafa þá í félagi með mér. Hundinn fékk ég hjá miklu sómafólki á Barká í Hörgardal og tíkina í Brúnagerði í Fnjóskadal. Þau eru bæði af Collie kyni og ákaflega skynsöm og skemmti- legir félagar að öllu leyti. Læðan heitir því óvenjulega nafni Hress og hundurinn Kátur. Tíkin Perla er nýlega komin á heimilið en áður voru jólakortin til Valdimars stíluð svona: Valdi- mar, Kátur og Hress. Glað- hlakkalegur titill, enda er Valdi- mar bæði kátur og hress og hefur yndi af gamansögum og vísum og kryddar þær oft með gjallandi hlátri sínum. Gullaldarbókmenntir rifjaðar upp milli þúfna Valdimar segir að Litli-Garður sé ákaflega vel staðsettur, þrátt fyrir lítið landrými. Þetta sé í rauninni sín draumastaða, að búa á Akur- eyri og sækja þar vinnu og vera með hestana í næsta húsi. Eftir að Leiruvegurinn kom hefur umferð um sunnanverða Drottn- ingarbraut minnkað verulega. „Afi minn féll frá í fyrravor en kotið er nú í eigu ömmu minnar, Þórhöllu Steinsdóttur. Mér líkar mjög vel að búa hérna,“ sagði Valdimar og kvaðst vera feginn að losna af malbikinu í Reykja- vík. - Hvernig gengur þér að sameina íslenskufræðinginn og hestamanninn? „Áhuginn á íslenskum hestum og íslenskum kveðskap samrým- ist mjög vel. Það er fátt betra en að rifja upp gullaldarbókmenntir íslendinga milli þúfna á sumrin einhvers staðar uppi á fjöllum. Ég læri sífellt nýjar vísur og drekk í mig alþýðufróðleik. Síð- an dunda ég við það að smiða vísur sjálfur en passa mig á því að láta ekki nokkurn einasta mann heyra þær, því ég vil ógjarnan koma meira óorði á mína persónu en orðið er, sagði Valdimar og skellti upp úr. - Er þetta ekki fullmikil hógværð? Mér segir svo hugur um að bókin „Hrossavísur Valdi- mars í Litla-Garði“ eigi eftir að koma út innan tíðar. „Þú segir nokkuð. Kannski verð ég einhvern tíma svo svell- kaldur að þora að birta eitthvað af þessu. En það er mitt uppáhald í öllum svona ferðum að rifja upp dýran kveðskap ferskeyttan, enda það kvæðaform sem lifir helst með þjóðinni. Ég á ekki langt að sækja áhuga minn á kveðskap, ekki frekar en áhug- ann á hestum. Afi minn, Karl Ágústsson, var snjall hagyrðing- ur en sá var galli á að hann skrif- aði aldrei neitt niður og hafa margar vfsur orðið gleymskunni að bráð. Þórhalla amma mín var þó það fyrirhyggjusöm að skrifa þær oft niður þegar þær komu og hún á því dágott safn af vísum hans.“ Stutt spjall okkar um hesta og menn var nú búið að teygja sig upp í helgarviðtal og eins gott að setja punkt áður en það þróaðist út í ævisögu. Blaðamaðurinn hvolfdi því kaffinu í sig og kvaddi rómantíkerinn, vísnavininn og hestamanninn Valdimar Andrés- son í Litla-Garði og lífsförunauta hans ferfætta.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.