Þjóðviljinn - 28.11.1985, Qupperneq 4
LEIÐARI
Álmálið: blekkingar og ný mistök
Sá fáheyrði atburður gerðist í þessari viku aö
ríkisstjórn íslands varð uppvís að því að reyna
að nota blekkingar til að breiða yfir mjög alvar-
leg mistök sín varðandi hinn nýja samning um
skattgreiðslur Alusuisse auðhringsins hér á
landi.
Þetta kom í Ijós við umræðu um frumvarp
sem ríkisstjórn lagði fram í síðustu viku til stað-
festingar á samningnum, sem Sverrir Her-
mannsson þáverandi iðnaðarráðherra undirrit-
aði í Amsterdam í sumar. Strax við heimkomu
Sverris var því einarðlega haldið fram af tals-
mönnum Alþýðubandalagsins að samningur-
inn væri vondur, og sýnu verri en sá gamli. Sá
var þó talinn í lakasta lagi. Til að sanna staðhæf-
ingar sínar um kosti nýja samningsins lagði
ríkisstjórnin fram útreikninga með frumvarpinu,
sem áttu að sýna tvennt: I fyrsta lagi að skatt-
heimta af auðhringnum yrði aldrei minni en
samkvæmt gamla samningnum og í öðru lagi
að skattgreiðslur myndu aukast miðað við hann
yrði hagnaðurinn meiri.
Á alþingi hafa nú fulltrúar Alþýðubandalags-
ins sýnt fram á það með óhrekjanlegum rökum,
að útreikningarnir voru kolrangir. Þau dæmi
sem þingmenn flokksins lögðu fram þessu til
stuðnings hafa meira að segja verið staðfest af
ríkisendurskoðun þannig að þau fara ekki á milli
mála. Hið sanna í málinu er einfaldlega það,
að nýi samningurinn er verri en sá gamli,
sem þó var nógu vondur.
Hér munar engu smáræði. Þannig sýndu full-
trúar Alþýðubandalagsins fram á það á þinginu,
að hefði nýi skattasamningurinn gilt áriö 1980,
þá hefðu skattatekjur íslenska ríkisins af Alusu-
isse verið 400 þúsund dollurum lægri en þær
voru þá samkvæmt gamla samningnum!
Sú staðhæfing ríkisstjórnarinnar að skatta-
greiðsla Alusuisse muni aukast með auknum
hagnaði, miðað við gamla samninginn, er
sömuleiðis ekkert annað en bláköld fölsun. Á
alþingi var þannig rakið dæmi, sem sýndi að
ykist hagnaður Alusuisse upp í 15 miljónir doll-
ara, þá yrði skatturinn af honum 1.5 miljón doll-
urum lægri með nýja samningnum.
Þetta sýnir tvennt:
- í fyrsta lagi hefur ríkisstjórnin, og Sverrir
Hermannsson sérstaklega, samið heiftarlega
af sér. Staðreyndin er einfaldlega sú, að nýi
samningurinn hefur stórkostlegar upphæðir af
íslensku þjóðinni. Hann er ekkert annað en leyfi
til Alusuisse um að féfletta þjóðina í enn stór-
kostlegri mæli en nokkru sinni fyrr.
- í öðru lagi hefur ríkisstjórnin gert sig seka
um að nota grófar blekkingar til að fela hin fá-
tæklegu rök sín í málinu. Hver ber ábyrgðina á
því?
Menn skulu heldur ekki gleyma því, að samn-
ingurinn nýi var gerður í framhaldi af því, að
Sverrir Hermannsson ieyfði Alusuisse að
kaupa sig undan gerðardómi seint á síðasta
ári. En það var á allra vitorði að sá dómur félli
íslensku þjóðinni í hag.
Hvers konar ríkisstjórn er það sem gerir sig
seka um svona dómadags vitleysur? Hvers
konar ráðherra er það sem lýgur að heilli þjóð?
Og hvaða skoðun hefur Morgunblaðið nú á
samningnum, eftir uppljóstrun Alþýðubanda-
lagsins, einkum með hliðsjón af því að blaðið
skrifaði á sínum tíma hverja sprengisands-
greinina á fætur annarri um hversu mikil klók-
indi Sverrir hefði sýnt og hvílíkur kostasamning-
ur væri hér á ferðinni.
Staðreyndin er einfaldlega sú, að vaskleg
framganga Hjörleifs Guttormssonar í álmálinu
olli því, að Alusuisse var komið í herfilega klípu.
Auðhringurinn var fyrir atorku Hjörleifs orðinn
uppvís að stórkostlegum svikum. Óhagstæður
gerðardómur hékk einsog sverð Damóklesar
yfir hringnum. Og andstæðingar Alþýðubanda-
lagsins og Hjörleifs Guttormssonar voru ekki
meiri sanda og sæva en svo, að þeir máttu ekki
til þess hugsa að smáþjóðin íslendingar ynni
frægan sigur gegn einum alræmdasta auðhring
veraldar með þeim vopnum sem Alþýðubanda-
lagið hafði smíðað.
Þess vegna fékk auðhringurinn að kaupa sig
undan gerðardómi. Þess vegna var aðstaðan
ekki nýtt til að knýja fram góðan skattasamning
og miklu hagstæðara raforkuverð. Andstæð-
ingarnir hræddust einfaldlega að fólkið í landinu
myndi telja sigur í stríðinu gegn Alusuisse Al-
þýðubandalaginu til tekna.
Þess vegna fífluðust stjórnvöld til þess að
gera þennan afspyrnu vonda skattasamning
sem mun kosta þjóðina feikilegar upphæðir.
Er nema von, að Sverrir hafi notað fyrsta
tækifæri til að flýja úr iðnaðarráðuneytinu?
-ÖS
KLIPPT OG SKORHÐ
Verðtryggingar-
raunir
í fyrradag var hér minnst á þá
miklu mismunun sem í raun er á
hlutskipti þeirra, sem leysa sín
húsnæðismál’ fyrir daga verð-
tryggingar og hávaxta, og þeirra
sem verða að gera það eftir að sú
breyting reið yfir.
í framhaldi af því skrifi hafði
lesandi blaðsins, kona um átt-
rætt, samband við okkur og sagði
sem svo:
Málið er alls ekki svona einfalt.
Við hjónin ieystum að sönnu
okkar húsnæðismál tiltölulega
auðveldlega þegar að því kom.
En á hitt er að líta, að það var
búið að stela rniklu af okkur
áður. Ég hafði af vissum ástæðum
keypt mér alldýra líftryggingu
þegar ég var ung, sem hefði verið
hátt í íbúðarvirði þegar út var
greitt ef allt hefði verið með
felldu. Þegar til kom var þessi
trygging svo sem ekki orðin að
neinu - en á sínum tíma hafði ég
greitt af henni iðgjöld sem numu
heilum mánaðarlaunum.
Þetta er vitanlega rétt hjá kon-
unni sem hringdi. Það kerfi sem
var við lýði fyrir verðtryggingu
var tvíbent: það hjálpaði með
ýmsum hætti þeim sem stóðu í
byggingum og kaupum með
„hæfilegum skuldum“ - en það
stal af þeim sem áttu sparifé og
líftryggingar. Kannski jafnaðist
dæmið upp með millifærslum
milli kynslóða, eða jafnvel með
því að á vissu aldursskeiði töpuðu
menn á þeirri verðbólgu sem í
gangi var, en á öðru skeiði höfðu
þeir nokkurn tímabundinn hagn-
að af.
En þetta breytir því ekki, að
ungt fólk sem ætlar að leysa sinn
húsnæðisvanda í dag, það stend-
ur einatt frammi fyrir dæmi sem
er ekki barasta rangindum meng-
að heldur og óleysanlegt. Gengur
ekki upp - að minnsta kosti ekki
hjá „venjulegu fólki". Og ekki
bara hjá þeim sem ráðast vilja í
lúxusævintýri heldur og þeim sem
eru hógværir í sínum áformum.
Og þetta er stórpólitískt vanda-
mál sem ekki er hægt að loka
augunum fyrir.
Eftir framboðs-
ævintýrið
Nú er lokið í biii framboðsæv-
intýrum Sjálfstæðismanna vegna
borgarstjórnarkosninga. Efstu
menn vitna í Morgunblaðinu í
gær um það, að allt hafi þetta
gengið nokkurn veginn eins og
best varð á kosið í hinum besta
allra heima. Að sjálfsögðu voru
þeir ekki síst lukkulegir yfir því,
að Davíð Oddsson skyldi fá til
fyrsta sætis einhverja hæstu at-
kvæðatölu sem um getur síðan
Stalín dó.
Miklu meiri skemmtun var að
hafa af viðtali við einn af sigur-
vegurunum, Árna Sigfússon, sem
lenti í sjöunda sæti, og birtist það
í DV í fyrradag.
Þar koma fram ýmsar meining-
ar fróðlegar og sérstæðar ekki síst
um jafnrétti kynjanna í Sjálfstæð-
isflokknum: Árni segir:
Jafnrœði kynjanna er tryggt með
þessum úrslitum".
Frumleg kenning, ekki síst
vegna þess, að Katrín Fjeldsted
var eina konan í hópi þeirra átta
sem efst urðu og hlutu bindandi
kosningu. Og eru áhrifakonur
flokksins ekki beinlínis glaðar
yfir þessu í Morgunblaðinu í gær,
þótt Ragnhildur Helgadóttir sé
að hugga sig við það, að konur
geti orðið að liði sem varamenn í
borgarstjórn.
Jafnræðiskenning Árna Sigfús-
sonar verður hinsvegar varla
skilin á annan veg en þann, að
Katrín Fjeldsted sé sjö karla
maki og hafa slíkir skörungar
ekki verið uppi lengi. Hallgerður
langbrók má fara að vara sig.
Árni Sigfússon er líka spurður
að því sérstaklega, hvað honum
finnist um fall Sigurjóns Fjeld-
steðs, sem hrökk úr sjöunda sæti
listans í það tíunda nú:
„Sigurjón er heilsteyptur mað-
ur og kostur að hann datt frekar
en aðrir".
Einhverja dulardjúpa merk-
ingu má sjálfsagt í þessum um-
mælum finna líka. Kannski er átt
við það, að einhver „ósýnileg
hönd“, eins og þeir orða það í
guðfræðinni og frjálshyggjunni,
sjái til þess, að úrslit í prófkjöri
Sjálfstæðisflokksins verði eins-
konar sálgæsla, sem liðsinni þeim
sem ekki eru nógu „heilsteyptir“
til að detta niður í fallsæti?
Frjálshyggjan vel á minnst.
Árni Sigfússon kveðst aðhyllast
eitthvað það sem hann nefnir
„sveiflukennda frjálshyggju“ og
eru þau ummæli kannski allra
dularfyllst. Okkur dettur þá helst
í hug til skýringar skilgreining
Vilmundar Jónssonar á „dingul-
sft7“-en hann er, samkvæmt skil-
greiningu, fólginn í því, að hugar-
orkan sveiflast til beggja hliða:
hafi hún sagt eitthvað jáícvætt um
fyrirbæri finnur hún í næstu
sveiflu eitthvað neikvætt til að
vega það upp.
Útkoman er á núlli.
Guddugrösin
Neytendasíða NT segir frá því í
fyrradag að komin séu á markað-
inn íslensk fjallagrös í pokum.
Síðan segir:
„Pau hafa fengið nafnið
Guddugrös í höfuðið á einni
frœgustu persónu í Pilti og stúlku
eftirJón Thoroddsen en hún heitir
Gudda, oftast nefnd Grasa-
Gudda“.
Það er náttúrulega hábölvað
að reka þessa ágætu vinkonu
landsins, Grasa-Guddu, af svið-
inu í Skugga-Sveini. En allir geta
víst lent í slysum. Verst er að slys-
um af þessu tagi fer heldur fjölg-
andi í fjölmiðlum.
ÞJOÐVILJINN
Málgagn sósíalisma, þjóöfrelsis
og verkalýöshreyfingar
Útgefandi: Útgáfufélag Þjóðviljans.
Ritstjórar: Árni Bergman, össur Skarphéðinsson.
Ritstjórnarfulltrui: Oskar Guðmundsson.
Fróttastjóri: Valþór Hlöðversson.
Blaðamenn: Aðalbjörg Óskarsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Garðar
Guðjónsson, Ingólfur Hjörleifsson, Lúðvík Geirsson, Magnús H. Gísla-
son, Mörður Árnason, Sigurdór Sigurdórsson, Víðir Sigurðsson, Þór-
unn Sigurðardóttir, Þröstur Haraldsson.
Handrita- og prófarkalestur: Andrea Jónsdóttir, Elías Mar.
Ljósmyndir: Einar ólason, Sigurður Mar Halldórsson.
Útlit: Sævar Guðbjörnsson, Garðar Sigvaldason.
Símvarsla: Sigríður Kristjánsdóttir.
Husmæöur: Agústa Þórisdóttir, Ölöf Húnfjörð.
Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir.
Framkvæmda8tjóri: Guðrún Guðmundsdóttir.
Skrif8tofu8tjóri: Jóhannes Harðarson.
Skrifstofa: Guðrún Guðvarðardóttir, Magnús Loftsson.
Utbreiðslustjóri: Sigríður Pétursdóttir.
Auglýsingastjóri: Ragnheiður Óladóttir.
Auglýsingar: Ásdís Kristinsdóttir, Guðbergur Þorvaldsson,
Olga Clausen.
Afgreiðslustjóri: Baldur Jónasson.
Afgreiðsla: Bára Sigurðardóttir, Kristín Pétursdóttir.
Innheimtumenn: Brynjólfur Vilhjálmsson, ólafur Björnsson.
Útkeyr8la, afgreiðsla, auglýsingar, ritstjórn:
Síðumúla 6, Reykjavík, sími 81333.
Umbrot og setning: Prentsmlðja Þjóðviljans hf.
Prentun: Blaðaprent hf.
Verð í lausasólu: 35 kr.
Sunnudagsblaö: 40 kr.
Áskrift á mánuðl: 400 kr.
4 SÍÐA — ÞJÖÐVILJINN Fimmtudagur 28. nóvember 1985