Þjóðviljinn - 24.09.1986, Blaðsíða 4

Þjóðviljinn - 24.09.1986, Blaðsíða 4
LEIÐARI Björt framtíð! í því margblessaða góðæri sem nú gengur yfir verður fólki fyrst fyrir að hugsa með þakklæti til skapara allrar skepnu, því að víst ber að gleðjast yfir því að hér skuli vera næg atvinna handa öllum þeim sem vettlingi geta valdið. Hægrisinnaðir fjölmiðlar ná hins vegar ekki upp í nefið á sér af bræði yfir því að menn skuli ekki beina þakklæti sínu til ríkisstjórnarinnar og vilja kenna Þjóðviljanum um að hafa blekkt fólk og talið því trú um að hér sé alls ekkert góðæri. Það er best að reyna að leiðrétta þennan misskilning enn eina ferðina. Það er ekkert vafamál að á íslandi ríkir eitthvert besta góðæri, sem menn hafa haft spurnir af um árabil. Hafa haft spurnir af er því miður er hið rétta orðalag, því að þeir pen- ingar sem eru bein afleiðing góðærisins hafa ekki ratað rétta leið ofan í vasa alls þorra lands- manna. Kauptaxtar hafa ekki náð þeim kaup- mætti, sem taxtarnir höfðu á erfiðari árum, svo að ekki hefur góðærið hækkað launin. í hvað hafa þá peningarnir farið? spyrja menn. Og það stendur ekki á svari: í að greiða niður verðbólguna. Þetta er nú ekki alveg sannleikanum sam- kvæmt, því að flestir launþegar muna allvel eftir því að launin þeirra voru gróflega skert til þess einmitt að borga niður verðbólguna. Svo að menn spyrja aftur: Hvar í ósköpunum eru góðærispeningarnir? Þá er hummað. Svo er sagt: Um hvaða pen- inga er verið að röfla? Vita ekki allir að ráðstöf- unartekjur heimilanna eru orðnar meiri núna heldur en fyrst eftir kjaraskerðinguna. Jú takk. Víst getum við (allflest) dregið fram lífið í blessuðu góðærinu og ráðstöfunartekjur heimilanna eru sjálfsagt ekki lægri en þær voru áður en góðærið byrjaði. Þá er spurt: Nú úr því að ráðstöfunartekjurnar eru í lagi, á þessu röfli út af peningum aldrei að linna? Málið er samt ekki alveg útrætt. Það er nefni- lega dálítill munur á kaupmætti kauptaxta og ráðstöfunartekjum heimilanna. Kaupmáttur kauptaxta erfólginn í því, hversu margar mínútur fólk er að vinna sér inn peninga, sem nægja til að kaupa ákveðinn hlut. Kaupmáttur ráðstöfunartekna er hins vegar fólginn í því, hversu mikla peninga fólk á eftir þegar það er búið að borga skattana sína og þarf að fara að kaupa sér lífsnauðsynjar og lúxus fyrir afganginn. Kaupmáttur kauptaxta segir okkur hvers vinna okkar er raunverulega metin. Kaupmáttur ráðstöfunartekna segir okkur hins vegar, hversu úthaldsgóð við erum að vinna, og hvernig fólki gengur að berja upp launahækkanir umfram kauptaxta, það er að segja yfirborganir. Kaupmáttur kauptaxta segir okkur, hversu stóran hlut við fáum í góðærinu og hversu dug- leg ríkisstjórnin er við að deila þjóðartekjunum til vinnandi fólks í landinu. Þetta er kannski dálítið flókið. Allavega er hægt að plata fólk með þessu. Það er hægt að telja fólki trú um að það fái hlutdeild í góðærinu einfaldlega með því að vinna svolítið lengri vinnudag. Hins vegar nægi góðærið ekki til að hækka tímakaupið. Þá mundi fólk kannski ekki nenna að vinna eins mikið. Þetta er umhugsunarvert. Enda skulum við hafa það hugfast, að það er engin spurning að hér ríkir góðæri. Jafnframt skulum við hafa það hugfast, að það hagnast ekki allir á þessu góð- æri, þótt það sé út af fyrir sig fagnaðarefni að sumir hagnast ákaflega mikið. Peningar hafa nefnilega tilhneigingu til að lenda annars staðar en inn á vinnustaði. Það sem virðist gilda er að vera klókur í viðskiptum og átta sig á því hvar peningarnir liggja, úr því að þeirra verður ekki vart á vinnustöðunum. Það er kannski tímanna tákn, að nærri því tíundi hver íslendingur af þeim árgangi, sem hóf háskólanám á síðasta ári fór í viðskiptafræði. Þetta þýðir að tíunda hvert barn sem fæddist á landinu fyrir tveimur áratugum er nú komið í viðskiptafræðinám við Háskóla íslands. Vonandi sér þessi viðskiptafræðingur um að fleiri íslendingar fái hlutdeild í næsta góðæri! - Þráinn KUPPTOG SKORID Hafskip og Tsjernobyl Klippari setti saman frásögn í Sunnudagsblaðið um nýtt leikrit sem sovéskur höfundur hefur sett saman um kjarnorkuslysið í Tsjernobyl. Undir lokin setti hann fram þá spurningu, hvort nokkurt íslenskt leikskáld nú um stundir mundi treysta sér til að setja saman heimildaverk um „nýafstaðin ótíðindi sem tengd eru viðkvœmum málum fyrir þá sem með völd og ábyrgð fara? Til dœmis Hafskipsmálið?" f>etta var með ráðum gert - í spurningunni felst ögrun, sem Morgunblaðsmenn og sjálfsagt fleiri hlytu að bregðast við. Enda létu Staksteinar ekki á sér standa og ausa þeir og prjóna sem mest þeir mega í gær. f>ar segir m.a.: „Hugleiðing ritstjórans fœrir samanburðarfrœði Þjóðviljans á nýtt stig. Gjaldþrot íslensks skipafélags og meint fjármálamis- ferli er engu ómerkari „ótíðindi", en mesta kjarnorkuslys sögunnar, sem hefur leittfólk til dauða og á eftir að valda krabbameini fjölda manna í mörgum löndum. Og andlega frelsið í Sovétríkjum Gorbatchovs er líklega meira en á íslandi. í Sovétríkjunum þora leikskáld að gera hluti sem ís- lenskir starfsbrœður hafa ekki hugrekki til að leika eftir. Ástæða er til að óska Þjóðviljanum til hamingju með rökvísina og smekkinn. “ Nú er gaman. Samanburðarfræði er náttúr- lega á ferðinni í þessu máli, en hún er að sjálfsögðu allt annars eðlis en Staksteinar halda. Ótíðindi þar og hér Vitanlega er til dæmis ekki hægt að bera kjarnorkuslys í Tsjernobyl saman við neitt sem gerist hér á landi - við eigum ekki kjarnorkurafstöðvar sem betur fer. Og Mogginn og Reagan segja að það séu engin kjarnorkuvopn á landinu og láti guð satt vera. Hafskipsmál var náttúrlega nefnt til blátt áfram vegna þess, að það er síðasta stórmálið sem „við- kvæmt“ mun þykja áhrifa- mönnum. Svo viðkvæmt að ekki hefur skort á skrif í Morgunblað- inu um að menn segðu helst sem minnst um það mál, enda væri það svo flókið að það þurrkaði út muninn á réttu og röngu og svo skal aðgát höfð í nærveru fjár- málamanna og allt það. Allir hlutir gerast með nokkuð öðrum hætti á íslandi en í þeim „stóra heimi“: Nýlegt leikrit minnir á það, að þegar uppreisn er gerð út í heimi mega margir snýta rauðu og súpa hel - en hér á ísafirði var spurt, hvort hægt væri að loka annan hershöfðingjann inni á kamri meðan afgangurinn af liði hans glutrar niður víga- móðnum í dönskum bjór. Ritskoðun En svo er það með ritfrelsið hér og í Sovét. Eins og allir vita eru Sovétríkin ritskoðunarþjóðfélag. Þetta þýð- ir m.a. að umrætt leikrit um stór- slys hefði líkast til verið óhugs- andi fyrir nokkrum mánuðum - og kannski verður það aftur óhugsandi síðar meir. Erfitt að spá um það. En hitt er rétt að hafa í huga, að þótt fullt sé í Sovétríkj- unum af rithöfundum sem aldrei gera annað en sitja á strák sínurn og skrifa ekki annað en það sem til er ætlast, þá hafa sovétbók- menntir alltaf átt merkilegan hóp manna, sem glímdu við ramma ristkoðunar af þeirri vígfimi sem þeim var gefin. Og hafa í þeirri viðureign orðið til merkir sigrar, sem allir þeir mega vel við una sem gjarna vilja að skrifað orð megi sín nokkurs í þjóðfélögum. Það er einmitt ein þverstæðan í ritskoðunarþjóðfélaginu, að ó- frelsið skerpir þá athygli sem beinist að því, sem skrifað er - sé það á mörkum hins ieyfða og hins óleyfða. Sjálfs- ritskoðun Við hér í okkar hluta heims erum afar stoltir af okkar mál- frelsi og er það vel. En það er jafnan full ástæða til að spyrja að því, hve vel menn nýta sér mál- frelsið. Það er svo margt sem er ekki bannað - en kemur samt ekki fram, og á þetta ekki síst við um leikhús og kvikmyndir. Það er t.a.m. ljóst, að íslenskur rit- höfundur getur sagt stéttum og kynslóðum til syndanna í skáld- sögu án þess að menn kippi sér upp við það - en um leið og hann ætlaði að filma sama efni t.d. fyrir sjónvarpið, þá mundi heldur bet- ur heyrast hljóð úr horni. Sjón- varpið mundi fá á baukinn fyrir vinstrislagsíðu og höfundur fengi óspart að heyra það, að hann kynni ekki á þau mál sem hann um fjallaði og hefði betur fjallað um eitthvað annað og auðveld- ara. Og í framhaldi af þessu: Haf- skipsmálinu var upp skotið í spurningunni af ásettu ráði. Það er reyndar mjög ólíklegt að ís- lenskt leikskáld taki sér það fyrir hendur nú um stundir að kynna sér sem best hvernig menn verða ríkir á íslandi, hvernig menn tapa annarra manna fé, hvaða undan- komuleiðir eru frá skiptaráðanda og þar fram eftir götunum. Og þó einhver réðist í þetta verk með það fyrir augum að skrifa um það leikrit, þá er mjög vafasamt að það mundi sýnt. Það yrði náttúr- lega ekki bannað. En það er mjög líklegt að okkar ágætu atvinnu- leikhús fyndu gildar ástæður fyrir því bæði tvö að þetta verk hent- aði þeim ekki. Því miður. Og sem fyrr var spurt: Hvað haldið þið? ÁB ÞJOÐVIIJINN Málgagn sósíalisma, þjóöfrelsis og verkalýðshreyfingar Útgefandi: Útgáfufélag Þjóðviljans. Rltstjórar: Árni Bergmann, Þráinn Bertelsson, össur Skarphéðins- son. Fréttaatjóri: Lúðvík Geirsson. Blaðamenn: Garðar Guðjónsson, Inaólfur Hjörleifsson, Kristín Olafs- dóttir, Magnús H. Glslason, Mörður Árnason, Sigurdór Sigurdórsson, Sigurður A. Friðþjófsson, Valþór Hlöðversson, Vilborg Davíðsdóttir, Vfoir Sigurðsson (íþróttir), Ingvi Kjartansson (Akureyri) Handrita- og prófarkalesarar: Andrea Jónsdóttir, Elías Mar. Ljó8myndarar: Einar Ólason. Sigurður Mar Halldórsson. Útlltsteiknarar: Sævar Guðbjörnsson, Garðar Sigvaldason. Framkvæmdastjóri: Guðrún Guðmundsdóttir. Skrifstofustjóri: Jóhannes Harðarson. Skrifstofa: Guðrún Guðvarðardóttir, Magnús Loftsson. Auglýsingastjóri: Sigríður Hanna Sigurbjörnsdóttir. Auglý8lngar: Ásdís Kristinsdóttir, Guðbergur Þorvaldsson, Olga Clausen. Símvarsla: Katrín Anna Lund, Sigríður Kristjánsdóttir. Húsmóðir: Ólöf Húnfjörð. Bflstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir. Afgreiðslustjóri: Hörður Oddfríðarson. Afgreiðsla: Bára Siguröardóttir, Kristín Pétursdóttir. Innheimtumenn: Brynjólfur Vilhjálmsson, Ólafur Björnsson. Utkeyrsla, afgreiðsla, ritstjórn: Síðumúla 6, Reykjavík, sími 681333. Auglýsingar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310. Umbrot og setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf. Prentun: Blaðaprent hf. Verð í lausasölu: 50 kr. Helgarblöð: 55 kr. Áskriftarverð á mánuöi: 500 kr. 4 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Miðvikudagur 24. september 1986

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.