Þjóðviljinn - 15.11.1986, Blaðsíða 5

Þjóðviljinn - 15.11.1986, Blaðsíða 5
HUNDRAÐ KRÓNUR - EÐA HUNDRAD MILLJÓNIR? Smœlingjar undir tölvueftirliti Utlægur úr viðskipta- lífinu „Nú er ég loksins orðinn út- lægur úr viðskiptalífinu," sagði kunningi minn við mig um dag- inn, þegar ég spurði hann í mesta sakleysi að því hvernig hann hefði það. „Að öðru leyti hef ég það mjög gott,“ sagði hann. „Fjárhagurinn mun betri en stundum áður, en hins vegar er ég eftirlýstur maður í viðskiptaheiminum og get ekki einu sinni farið út í búð án þess að lenda í klandri.“ Þessi kunningi minn er ekki kaupsýslumaður að atvinnu, að minnsta kosti ekki í venjulegum skilningi þess orðs. Hann hefur rekið lítið fyrirtæki, sem fram- leiðir og selur vöru, sem hann á heiðurinn af að hafa sjálfur fund- ið upp. Og öll þau ár sem ég hef þekkt hann hefur mér virst hann vera ákaflega gamaldags að því leyti, að hann leggur mikið upp úr því að vera óháður einstakling- ur, sem skuldar ekki neinum neitt. Ég spurði hann hvernig það hefði atvikast, að hann væri út- skúfaður úr fjármálaheiminum. „Þannig var,“ sagði hann, „að það eru nokkrir aðilar hérna í borginni, sem hafa fengið gjald- frest hjá mér. Pottþéttir menn, sem gott er að eiga hjá, enda hef ég bara gaman af því að gera mönnum greiða. En kannski hef ég verið of alminlegur, því að um daginn þegar ég átti að borga inn á launaskattinn hjá Tollstjóra hafði ég ekki handbæra peninga. Þetta voru ekki nema 13 þúsund krónur, svo að ég lét þetta dank- ast með það í huga að borga skuldina við fyrsta tækifæri með tilheyrandi dráttarvöxtum. Þegar ég ekki borgaði skuldina hefur Tollstjóri orðið órólegur, því að hann lét gera lögtak fyrir þessum 13 þúsund krónum. Og ég er ekki að lá honum það, því hann þarf sjálfsagt að standa sín- um yfirmönnum skil á því, af hverju hann lætur mér líðast að skulda ríkinu þessar 13 þúsund krónur í nokkra mánuði. Svo að Tollstjóri gerði lögtak til að tryggja skuldina og mér fannst það alveg rétt hjá honum, af því að maðurinn þekkir mig nákvæmlega ekki neitt.“ Bókahillur „Það er nú fullmikið sagt, að þú sért útlægur úr viðskiptalífinu, þótt þú skuldir Tollstjóra skitnar 13 þúsund krónur," sagði ég. „Það hélt ég nú líka,“ sagði kunningi minn, „þangað til ég keypti bókahilluna." „Jæja,“ sagði ég og leit á klukk- una. „Þú verður að segja mér frá þvf - við tækifæri." „Þannig var...,“ byrjaði kunn- ingi minn. „Einhvern næstu daga til dæm- is,“ sagði ég. „Til að gera langa sögu stutta,“ hélt hann áfram, „þá sagði konan mín við mig um daginn, að ann- aðhvort hringdi hún í Hreinsun- ardeildina og bæði hana um að koma skruddunum mínum á öskuhaugana, eða ég færi og keypti bókahillur til að raða skræðunum í. Ég reyndi að koma konunni í skilning um að við erum bláskínandi fátæk, og hún sagði að við værum ekki fátækari en svo að eiga fullt hús af bókum, sem eru svo verðmætar að hvorki ryksuga né afþurrkunarklútar mega koma nálægt þeim. Þá sagði ég: ...“ Þarna greip ég fram í fyrir kunningja mínum til að hlífa hon- um (og mér) við því að rekja heimiliserjur í smáatriðum. „Nema hvað,“ hélt hann áfram, „auðvitað endaði þetta á því að ég lofaði upp á æru og trú að kaupa bókahillur - og hélt að þar með væri málið afgreitt í bili. En veistu hvað mín gerirþá? Nei, það er ekki von. Það þekkir hana enginn sem ekki hefur búið með henni í nær tuttugu ár. Hún gerir sér lítið fyrir og nær í frakkann minn. Skipar mér að fara í hann og dregur mig svo á eftir sér út í bfl. Og af stað. Útibú frá KEA? Svo veit ég bara ekki fyrr en hún er komin með mig inn í stór- markað og búin að segja af- greiðslustúlkunni að ég ætli að fá nokkrar bókahillur, og af- greiðslustúlkan er búin að leggja saman upphæðina. Og ég stend þarna eins og illa gerður hlutur og get ekki stunið upp öðru en því, á hvern ég eigi að stfla tékkann. „Á IKEA,“ segir afgreiðslu- stúlkan. Og ég sem hafði ekki einu sinni hugmynd um að KEA væri kom- ið með húsgagnaverslun í höfuð- borginni tek upp pennann og tékkheftið. Þá segir afgreiðslustúlkan: „Ætlarðu að staðgreiða þetta? Eða á að setja þetta á skulda- bréf?“ Þá var ég nú fljótur að hugsa og segi: „Á skuldabréf." „Þá borgarðu þriðjunginn út og afganginn á fjórum mánuð- um,“ segir afgreiðslustúlkan - og þetta þóttu mér góð kjör og hugs- aði hlýlega til Vals Arnþórs- sonar. Svo að ég fæ mér sæti og ætla að bíða eftir því að stúlkan útbúi skuldabréfið og er nú svona held- ur að vona að hún flýti sér, því konan var farin að skoða sig um í búðinni og ég hef fengið dýr- keypta reynslu af svoleiðis skoð- unarferðum. Stórsvindlari handsamaður Þá heyri ég allt í einu nafnið mitt hrópað hátt og snjallt, svo að hver einasti maður í búðinni snýr sér við og fer að glápa. Þarna er afgreiðslustúlkan komin og held- ur nú á þverhandarþykkum doð- rant og segir stundarhátt: „Við getum bara alls ekki skrifað hjá þér. Það kemur því miður ekki til greina.“ Ég sé að fólkið í búðinni gónir á mig og fer að stinga saman nefj- um. Þarna er búið að handsama einhvern stórsvindlara, hefur sjálfsagt einhver hugsað. Ég ætlaði náttúrlega niður úr gólfinu. Það var ekki eins og ég hefði verið að biðja um að fá eitthvað skrifað hjá mér, heldur var mér boðið upp á það og þegar ég segi játakk kemur stúlkan og æpir yfir viðskiptamannahópinn að mér sé alls ekki treystandi til að vera í lánsviðskiptum. Þetta er eitthvert versta mál sem ég hef lent í og ég spurði afhverju? „Það er bara út af lögtaki," sagði afgreiðslustúlkan. „Okkur er bannað að skrifa hjá fólki sem búið er að gera lögtak hjá.“ „Hvaðan er þessi listi sem þú ert með í höndunum?“ spurði ég. „Þetta er bara tölvuútskrift sem við erum látnar hafa,“ sagði hún. „Og hvaðan kemur þessi tölvu- útskrift?“ „Bara úr tölvu?“ „Já, en hvaða tölvu?“ „Það veit ég ekki,“ sagði hún og var orðin leið á þessu röfli við skuldugan þrjót. „Ætlarðu að fá hillurnar, eða ætlarðu að sleppa þessu?“ „Auðvitað ætla ég að fá helvítis hillurnar,“ sagði ég og er ég þó ekki vanur að bölva. „Til þess kom ég og út af þeim urðu lætin.“ „Hvaða læti?“ sagði af- greiðslustúlkan. „Veistu hvað ég skulda rnikið?" spurði ég. „Nei, það kemur mér ekkert við,“ sagði hún. „Mín vegna mega það vera hundrað krónur. Eða hundrað milljónir. Reglurn- ar eru svona. Við gerum bara það sem okkur er sagt.“ Stóri bróðir En allt um það. Ég rétti stúlk- unni ávísun og varð hálfvegis hissa þegar hún tók við henni orðalaust. Svo fór ég mína leið með hillurnar. Læddist út úr búð- inni. Konan mín hafði látið sig hverfa þegar lætin byrjuðu. Hún beið eftir mér í bflnum. Á leiðinni heim byrjuðu yfir- heyrslurnar. „Hvað gerðist eiginlega?" spurði hún. „Nú. Ég er kominn á svartan lista hjá Stóra bróður.“ „Hvaða Stóra bróður?" „Þjóðfélaginu. Tölvunni sem rekur þjóðfélagið.“ „Afhverju?" „Af því ég trassaði að borga Tollstjóranum 13 þúsund krónur. Þrettán þúsund eitthundrað sjöt- íu og fimm krónur, nánar til- tekið.“ „Láttu ekki eins og fífl, “ sagði hún. „Hver heldurðu að sé settur á svartan lista út af 13 þúsund krónum?“ „Ég.“ „Þú hlýtur að hafa gert eitthvað meira af þér en það,“ sagði konan mín. „Þú þarft ekki að vera með nein látalæti við mig. Ertu kannski farinn að lifa tvö- földu lífi? Þú rekur kannski tvö heimili hérna í bænum og ert kominn á kaf í einhverja fjár- glæfra.“ „Finnst þér það líklegt að ég reki tvö heimili?“ „Nei,“ sagði hún. „Mér hefur alltaf fundist alveg á mörkunum að þú kláraðir þig af því að reka eitt heimili. En hvað á maður að halda úr því að þú ert orðinn eftirlýstur glæpamaður. Það er ekki betri sú músin sem læðist.“ Svo lagði hún bflnum fyrir utan húsið okkar og sagði: „Æltarðu að koma með inn? Eða ég ég að skutla þér til hinnar fjölskyldunnar?" Kjarval og pelsinn Ég sagði ekki neitt, enda þurfti ég þess ekki, því að yfirheyrslan hélt áfram: „Nú held ég að það sé langbest fyrir þig að segja mér allt um mál- ið og svo skulum við reyna að komast sameiginlega að niður- stöðu um hvernig við klórum okkur fram úr þessu. Við byrjum náttúrlega á því að selja húsið, að ég tali nú ekki um þessar bækur þínar." „Út af 13 þúsund krónum?“ „Þú gerir þinn málstað ekki betri með því að halda áfram að reyna að fela sukkið,“ sagði hún. „Ég ráðlegg þér að segja mér alla sólarsöguna, en áður en ég tala meira við þig ætla ég með pelsinn minn yfir í næstu hús, ef lögtaks- menn skyldu koma á meðan við erum að tala saman. Ég erfði þennan pels eftir móður mína og hann skal ekki lenda á uppboði.“ Ég hitaði kaffi meðan hún fór með pelsinn og ómerkta svart- krítarteikningu sem er sögð eftir Kjarval yfir í næsta hús. „Jæja,“ sagði hún þegar hún kom aftur. „Þrettán þúsund eitthundrað sjötíu og fimm krónur,“ sagði ég. „Og ekki eyri meira.“ Smælingjar og höfðingjar Úr þessu varð löng rimma. Ekki vegna þess að konan mín neitaði að trúa mér eftir að ég var búinn að bjóðast til að leggja hönd á helga bók og sverja. Held- ur vegna þess að hún bað mig um að útskýra fyrir sér, hvernig hægt væri að svipta skilvísan borgara öllu lánstrausti og gera hann ofan í kaupið að viðundri út af kr. 13.175.00 í þjóðfélagi, þar sem menn geta hæglega tapað hundr- uðum milljóna af Útvegsbankan- um, sett Hafskip á hausinn og só- lundað söfnunarfé Hjálparstofn- unar kirkjunnar án þess að nokk- ur sé talinn bera ábyrgð á óráðsí- unni. „Stóri bróðir fylgist bara með smælingjunum,“ sagði ég. „Höfðingjarnir fá auðvitað að gera það sem þeim sýnist. Þess vegna eru þeir höfðingjar. Og við smælingjar." „Það hljóta samt að gilda ein lög í landinu fyrir alla,“ sagði konan mín, því að hún gengur með þá hugmynd í kollinum að lög séu það sama og réttlæti. „Við skulum segja það,“ sagði ég- „Mér finnst þetta helvíti hart,“ sagði hún, og blótar hún þó eigin- lega aldrei. Þetta er sem sé sagan af því, hvernig kunningi minn varð út- lægur úr viðskiptalífinu. Hann bætti því við, að hann væri ekki biblíufróður maður, en sagði, að sig rámaði í að einhvers staðar væri talað um að maður ætti að vera trúr yfir litlu. Og það hefði hann ávallt reynt að vera. Hins vegar væri það dálítið skrýt- ið, að hann hefði hvergi rekist á stafkrók um að inenn ættu að vera trúir yfir miklu. -Þráinn Laugardagur 15. nóvember 1986 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 5

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.