Þjóðviljinn - 26.05.1987, Page 4
LEIÐARI
Grípum þjófinn!
Frelsi er vandmeðfarið hugtak og tekur í ým-
issa munni á sig furðulegar myndir, einkum í
samtengingum við verslun og viðskipti. Hið for-
takslausa jákvæði sem í orðinu felst gerir að
verkum að stjórnmálaöfl, hagsmunasamtök og
þrýstihópar keppast við að rita það sem
gullnustu letri á gunnfána sína. Verður stundum
úr afar sérkennilegur grautur, einsog þegar
krafist er frelsis handa kjúklingum og knúið á
um frjálsar kartöflur.
Frjáls álagning hefur lengi verið skýlaus
krafa kaupmanna, og nú hefur um nokkurt
skeið verið gerð sú tilraun að opinberir aðilar
skipta sér ekki af vöruverði í von um að hin
fræga markaðshönd muni standa frammúr
sinni ósýnilegu ermi.
Björgvinjarskýrsla Verðlagsráðs sýnir svo
ekki verður um villst að heildsalar hafa fallið á
prófinu. Þar kemur til dæmis í Ijós að frjáls hrær-
ivél er um þriðjungi dýrari í Reykjavík en í Björg-
vin, frjálst litasjónvarp kostar 91 prósenti meira
hér en handan hafs, frjáls Ijósmyndavél er tæp-
lega helmingi dýrari hér en þar, og frjáls filma í
frjálsu myndavélina kostar Reykvíking um 60
prósent meira en Björgvinjarmann. Og miðað
við hinn regnhrjáða Norðmann er rúmlega tvö-
falt dýrara fyrir frjálsan íslending að sneiða af
sér sitt frjálsa skegg með frjálsri rakvél.
Inní þessum tölum er að vísu meiri flutnings-
kostnaður hingað en til Bergen, og einnig meiri
opinber gjöld hér en í Noregi þarsem beinir
skattar eru hærri. En þessir liðir eru léttvægir.
Innkaupsverðið er í öllum tilvikum miklu hærra
hér, sömuleiðis álagningin, - þessi frjálsa.
í fjölmiðlum og manna á milli eru aðrar skýr-
ingar nefndar. Talið er víst að íslenskir stór-
kaupmenn stundi enn þann sið að þiggja um-
boðslaun ytra og leggja þau ofaná
innkaupsverðið þannig að allur verðgrunnurinn
hækkar um leið. Rætt er um að íslenskir stór-
kaupmenn sætti sig við einhverskonar nýlendu-
afstöðu gagnvart erlendum umboðsfyrirtækj-
um, einkum skandínavískum, og kaupi vörur
hærra verði en sæmilegt er. Kannski fá þeir
umboðslaunin fyrir það viðvik?
Það vekur einnig athygli að hin frjálsa
heildverslun virðist sem atvinnugrein afar ófrjó.
Féð sem þangað rennur festist í gríðarlegum
stórhýsum, og þessi iðja tekur til sín ótrúlega
mikinn hluta vinnuafls á landinu. Samkvæmt
tölum frá Þjóðhagsstofnun starfar rúmlega tí-
undi hver vinnandi karlmaður á höfuðborgar-
svæðinu við heildverslun, og ársverk í
heildverslun í Reykjavík og nágrenni eru talin
um 5-6 þúsund ársverkum meira en í smá-
sölu, tvöfalt fleiri ársverken þau sem unnin eru í
öllum bönkum og sparisjóðum samanlagt.
Þó er rætt um að á mörgum sviðum sé í raun
um að ræða samtryggingu um vöruverð milli
heildsalanna og nánast einokun á ákveðnum
innflutningi, þvert á allar ræðurnar um blessun
samkeppninnar og hinnar alfrjálsu verslunar.
Það er vert að vekja athygli á því að það
háttalag stórkaupmanna sem Björgvinjar-
skýrslan hefur sýnt frammá með óyggjandi
hætti getur ekki flokkast undir mistök, klaufa-
skap eða glappaskot. Gagnvart fólkinu í landinu
er auðvitað ekki um neitt annað að ræða en
hreinan þjófnað.
Því miður er víst ekki hægt að draga hina
ábyrgu fyrir formlega dómstóla, en það er hægt
að kreppa að þeim með öðru móti.
Formaður Neytendasamtakanna hefur til
dæmis komið fram með þá hugmynd að setja
aftur á hámarksálagningu á þeim sviðum þar-
sem okrið er illskeyttast. Og forseti ASÍ hefur
lagt til þá opinberu rassskellingu aðalþjófanna
að hámarksverð útúr búð á allra frjálsustu vör-
unum verði ákveðið það sama í Reykjavík og í
Björgvin.
Gangi þetta ekki mætti ósköp einfaldlega
hugsa sér að reka þessa viðsjárverðu menn úr
því starfi sem þeir gegna fyrir þjóðina, og taka
að nýju upp beint verslunarsamband við hina
fornu viðskiptavini okkar í Hansaborginni nor-
sku.
Við verðum að grípa þjófinn.
r
Islenskur heimsmeistari
Hannes Hlífar Stefánsson hefur gert garðinn
frægan í Austurríki og kom heim nú um helgina
nýkrýndur heimsmeistari unglinga í skák. Þjóð-
viljinn óskar hinum unga skákmanni til ham-
ingju, og þjóðinni til hamingju með hann.
Afrek Hannesar Hlífars er auðvitað fyrst og
fremst frábær árangur einstaklings, en það
beinir einnig athygli að traustu starfi í skák-
hreyfingunni, ekki síst að því gagni sem hún
vinnur æskulýð um leið og til verða íslenskir
skákmenn í fremstu heimsröð.
Fréttir berast af því að félagar og forystu-
menn í Taflfélagi Reykjavíkur og Skáksam-
bandinu hugi nú að byggingu skákhallar, sem
orðið gæti vegleg miðstöð þessarar þjóðarí-
þróttar. Á sama tíma kemur í Ijós að ágóði af
lottói er meiri en nokkurn óraði fyrir. Því ekki að
heiðra Hannes Hlífar og aðra unga skákmenn
með því að bæta Skáksambandinu í þann hóp
félagasamtaka sem lottóið styrkir?
-m
KLIPPT OG SKORIÐ
íslenska í grunn-
skólum
Blöðin hafa verið að velta því
töluvert fyrir sér hvernig á því
stendur að meðaleinkunn í sam-
ræmdu íslenskuprófi í níunda
bekk grunnskóla fór niður í 4,8,
en hafði þó skriðið eitthvað yfir
fimm undanfarin tvö ár.
Eins og komið hefur fram í
fréttum hafa m.a. ýmsir íslensku-
kennarar kvartað yfir því að
prófíð hafi verið of þungt. Sá sem
ekki hefur fylgst með nemendum
í grunnskóla sjálfur um nokkra
hríð og þá enn síður prófum
undanfarinna ára veit að sjálf-
sögðu fátt um það, hvað hann á
að gera við slíka staðhæfingu.
Fyrir nú utan það, að seint verður
úr því leyst hvað það er sem próf
einkum mæla - kunnáttu eða
vissa þjálfun í því að taka próf
kannski?
Kennarar ávíttir
En hvað um það - einna leiðin-
legust hafa viðbrögð Morgun-
blaðsins orðið við þessu próf-
máli. Þar á bæ er tækifærið nefni-
lega notað til þess að gera allt í
senn - sá efasemdum um frammi-
stöðu kennara, ítreka andúð á
þeim tilraunum sem uppi hafa
verið hér á landi til endurnýjunar
námsefnis og vinnubragða í
skólum, og halda eina ferðina
enn á lofti þeirri eftirlætiskenn-
ingu Morgunblaðsins að best sé
kennsla komin í höndum einka-
framtaksins.
Til dæmis að taka segir í leiðara
Morgunblaðsins í þeim spurnar-
tón sem þykist vera kurteis en
geymir sína illkvittni og vel það :
„Oneitanlega vaknar sú spurning
hvort slakað hafi verið á kröfum á
undanförnum árum eða kennarar
misst áhuga á efninu?" Og svo er
klykkt út með þessari athuga-
semd hér:
„Það þarf auðvitað ekki að
taka fram, að sé áhugi kennara
ekki til staðar vaknar ekki áhugi
hjá nemendum.“
Þetta hjal hlýtur að benda til
þess að Morgunblaðinu sé ekki
runnin reiði í garð kennara fyrir
þeirra kjarabaráttu - ykkur hefði
verið nær, er þar undan skilið, að
keppa að þeim kennaraorðstír
sem deyr aldregi, í stað þess að
falla í synd verkfallsins eins og
aðrir dauðlegir menn.
Einkaskólinn enn
Morgunblaðið gerði líka tölu-
vert úr þeirri frétt, að í Tjarnar-
skólanum margrædda hafí nem-
endur fengið meðaleinkunn sem
var rúmlega einum hærri en út
kom þegar litið er á alla skóla
landsins. í framhaldi af þessu er
svo spurt í leiðara Morgunblaðs-
ins:
„Getur til dæmis verið að yfir-
burðir Tjarnarskóla stafi beinlín-
is af því, að hann er rekinn af
einstaklingum en ekki ríkinu?“
Satt best að segja er þessi
spurning út í hött. Það er í fyrsta
lagi rangt að bera saman einn
lítinn skóla og svo meðaltal allra
hinna - það er vitað að aðrir
skólar hafa ekki sömu útkomu,
sumir lakari en meðaltalið og
aðrir skárri, og því eru áreiðan-
lega til skelfilegir „ríkisskólar"
sem hafa náð svipuðum árangri
og Tjarnarskólinn. í annan stað
getur ekki farið hjá því, eins og
allt er í pottinn búið, að skóli sem
með forskot eins og Tjarnar-
skólinn fær skili að einhverju
leyti betri árangri á prófum.
Hann hefur fé og aðstöðu til að
velja úr kennurum og nemendum
(og foreldrum - en þeir foreldrar
íem eru tilbúnir að borga með
börnum sínum í skóla eru að öðru
jöfnu líklegri til að fylgjast með
heimavinnu þeirra). Auk þess
sem skólinn getur leyft sér hag-
kvæmari stundaskrá og minni
bekki en aðrir skólar.
Sjónvarps-
kynslóð
Miklu skárri var leiðari sem
DV skrifaði um prófmál þessi og
móðurmálskennslu. Vitanlega
var þar lýst áhyggjum af því að
rúmur helmingur nemenda í
grunnskóla fellur á móðurmáls-
prófí. En það er tekinn nokkuð
annar póll í hæðina að því er
varðar leitun á skýringum:
„Ekki getur það verið að kenn-
arastéttin skili sínu hlutverki verr
en áður þegar á heildina er litið.
Skýringin getur heldur ekki verið
sú að nemendur séu upp til hópa
lakari en gengur og gerist.
Ástæðurnar hljóta að vera aðrar
og alvarlegri“
Og hvað er þá átt við?
Leiðari DV segir sem svo:
Sú kynslóð unglinga sem nú
gengur undir samræmt próf hefur
hlotið sjónvarpsuppeldi. Hún
hefur alist upp við gláp á sjón-
varp, minni bóklestur og afþrey-
ingu sem að flestu er á einn veg.
Sjónvarpið matreiðir, áhorfand-
inn tekur á móti. Tjáskipti eru
einhliða, orðaskipti eru óþörf
.... Möguleikarnir til að þroska ís-
lenskukunnáttu sína fara þverr-
andi, orðaval og orðaforði sömu-
leiðis, tilfinningin fyrir íslen-
skunni dvínar" ( hér er m.a vísað
til þess hve mikið af sjónvarps-
efni er á erlendum málum og þá
fyrst og síðast ensku).
Hvað skal gera?
Þeir sem kallaðir hafa verið
sjálfskipaðir menningarvitar hafa
fengið að heyra það sl. 20-30 ár,
að þeir væru á móti frelsinu af því
að þeir væru tortryggnir á fagnað-
arboðskap sjónvarpsins og svo
vanstillingu þeirra sem halda að á
því sviði gildi lögmálið því meira
þeim mun betra. En því miður er
það svo, að þetta leiðinlega
„vandamálalið", sem hefur ekki
síst átt athvarf hér í Þjóðviljan-
um, hefur um alltof margt á réttu
að standa. Allt hefur gengið til-
tölulega vel fram til þessa í að-
lögun íslendinga að veruleik
sjónvarps. En þegar notkunin
nær vissu stigi og mótar börnin
áður en þau muna eftir sér, þá
vitum við frá örðum löndum, að
það geta orðið mjög skyndilegar
breytingar á hæfni nýrrar kyn-
slóðar til að tjá sig, lesa, muna,
tengja saman. I einu grann-
landinu dettur t.d. allur bóka- og
blaðalestur hjá börnum niður um
meira en helming á örfáum árum.
f ríkasta landi heims er sáran
kvartað yfir „hinu nýja ólæsi“
sem muni sundra samfélaginu
enn frekar en orðið er. Og svo
framvegis.
í þeim leiðurum um móður-
málskennslu sem hér var vitnað
til eru settar fram kröfur um
aukna íslenskukennslu, betri
vinnubrögð í skólum og fleira
þesslegt. Réttmætar kröfur sem
sjálfsagt er að taka undir - um.
leið og menn verða að gera sér
grein fyrir að átak kostar sitt í
tíma og fé. En þar fýrir utan er
rétt að spyrja enn og aftur, hvað
menn ætli sér í mótun íslenskrar
sjonvarpsstefnu, sem vinni með
skólum en ekki gegn þeim. í stað
þess að yppa öxlum eins og Morg-
unblaðið gerir, segjandi sem svo í
sínum leiðara „ekki verður fjöl-
miðlunin stöðvuð".
þlÓÐyiUINN
Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis
og verkalýðshreyfingar
Útgefandl: Útgáfufólag Þjóðviijans.
Ritstjórar: Árni Bergmann, Þráinn Berteisson, össur
Skarphéðinsson.
Fróttasfjórl: Lúðvík Geirsson.
Blaðamenn: Garðar Guðjónsson, Guðmundur RúnarHeiðarsson,
Hrafn Jökulsson, HjörleifurSveinbjömsson, IngunnÁsdísardóttir,
Kristín Ólafsdóttir, Kristófer Svavarsson, Logi Bergmann Eiðsson
(íþróttir), Magnús H. Gíslason, MörðurÁmason, OlafurGíslason,
Ragnar Karlsson, SigurðurÁ. Friðþjófsson, StefánÁsgrímsson, Vil-
borg Davíðsdóttir, Yngvi Kjartansson (Akureyri).
Handríta- og prófarfcalestur: Elías Mar, Hildur Finnsdóttir.
Ljósmyndarar: EinarÓlason, SigurðurMarHalldórsson.
Utlltsteiknarar: SævarGuðbjömsson, GarðarSigvaldason.
Framkvæmdastjóri: Guðrún Guðmundsdóttir.
Skrlfstofustjórl: Jóhannes Harðarson.
Skrifstofa: Guörún Guðvaröardóttir, Guðbergur Þorvaldsson.
Auglýsingastjóri: Sigríður Hanna Sigurtjörnsdóttir.
Auglýsingar: Baldur Jónasson, Olga Clausen, Guðmunda Kristins-
dóttír.
Símvarsla: Katrín Anna Lund, SigríðurKristjánsdóttir.
Húsmóðlr: Soffía Björgúlfsdóttir.
Bflstjórl: Jóna Sigurdórsdóttir.
Útbrelðslu-og afgreiðslustjóri: Hörður Oddfríðarson.
Afgreiösla: Bára Sigurðardóttir, Kristín Pétursdóttir.
Innhelmtumenn: Brynjólfur Vilhjálmsson, ólafurBjörnsson.
Útkeyrsla, afgreiðsla, rltstjórn:
Sfðumúla 6, Reyfcjavfk, sfmi 681333.
Auglý8ingar: Sfðumúla 6, símar 681331 og 681310.
Umbrot og setning: Prentsmiðja Þjóðviijans hf.
Prentun: Blaðaprent hf.
Verð f lausasölu: 55 kr.
Helgarblöð: 60kr.
Áskrlftarverö á mánuði: 550 kr.
4 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Þrlðjudagur 26. maí 1987