Þjóðviljinn - 19.09.1987, Síða 5
Frá landsfundi 1985.
jft T 0 1 ' W * ff j jÉQ* |
■-y
Nýr foimaður er ekki
Alþýðubandalagið hcfur um
sinn átt í verulegum erfiðleikum.
í aprflkosningunum tapaði það
miklu fylgi, og síðustu kannanir
benda til að hrapið hafí ekki
stöðvast að kosningum loknum.
Skoðanakönnun HP fyrir nokkr-
um vikum gaf flokknum þannig
lang lægsta fylgi frá upphafi vega:
Einungis 8,5 prósént þeirra sem
spurðir voru tjáðu fylgi við Al-
þýðubandalagið.
Meinvörp Al-
þýðubandalagsins
Það hefur að vísu verið alsiða í
flokknum að gefa lítið fyrir kann-
anir. Menn bíta á jaxlinn að hætti
forfeðranna og bíða kokhraustir
eftir því að upp úr kjörkössunum
skilist flokknum svo fleiri at-
kvæði en kannanir gáfu til kynna.
Kanski var það líka reglan einu
sinni. En ekki lengur. Svo mikið
hefur reynslan sýnt. í dag skilur
það milli lífs og dauða fyrir flokk-
inn að hann geri sér grein fyrir
þeim skilaboðum sem felast í úr-
slitum kosninganna og niðurstöð-
um síðustu kannana.
Meinvörp Alþýðubandalags-
ins hafa fyrst og fremst verið innri
átök, sem hafa grundast á ágrein-
ingi um annars vegar stefnu - eða
stefnuleysi - í mikilvægum mál-
um á borð við verkalýðsmál en
hins vegar ágreiningi sem er per-
sónulegs eðlis. Hinn persónulegi
ágreiningur er raunar kapítuli
útaf fyrir sig og nærist fýrst og
fremst á furðulegu sambandsleysi
millum helstu forystumanna
flokksins.
Nú verður þessum átökum að
linna. Þau verður að gera upp.
Forsenda þess er hins vegar að
flokksfélagar úr mismunandi
skoðanahópum geri sér grein
fyrir, að tilvist Alþýðubandalags-
ins sem raunverulegs stjórnmála-
afls byggir á því að menn geti
grafið stríðsexi. Framhald á
karpi, þrefi og skærum felur í sér
ávísun á hægfara dauða.
Kjör formanns
Landsfundur Alþýðubanda-
lagsins verður í hápunkti rétt í
þann mund sem vítt um heim
verður minnst afmælis rússnesku
byltingarinnar, sem eitt sinn skóp
svo miklar vonir. Á þeim fundi
munu ráðast örlög Alþýðubanda-
lagsins hin næstu ár.
Flokksmenn og fjölmiðlar hafa
veitt landsfundinum óvenju
mikla athygli til þessa. En illu
heilli hefur kastljósið fyrst og
fremst beinst að kjöri nýs for-
manns, sem fer fram á landsfund-
inum. Það á sér hins vegar eðli-
legar skýringar.
Breytt fjölmiðlun hefur leitt til
gerbreyttrar stöðu formanna
stjórnmálaflokkanna. Ljósvak-
inn hefur gert þá að risum, sem
að öllum jafnaði gnæfa yfir aðra
stjórnmálamenn, og sósíalískur
stjórnmálaflokkur sem vill leggja
áherslu á breiða forystu fremur
en sterkt foringjaveldi fær ekki
rönd við reist. Miðlarnir hefja
formanninn í hærra veldi en
valddreifingarflokkur telur ef til
vill ráðlegt, - eða vill. Fyrir
bragðið nýtur kjör nýs formanns
stjórnmálaflokks óeðlilegrar at-
hygli.
A síðasta landsfundi Alþýðu-
bandalagsins var mikilvægur á-
greiningur ekki leystur með eðli-
legum og lýðræðislegum hætti, -
með kosningum. Engum duldist
að skoðanir voru skiptar um
skipan stöðu varaformanns og
skipan framkvæmdastjórnar.
Þessi ágreiningur var „leystur"
með einhvers konar samkomu-
lagi að tjaldabaki. Þetta var röng
leið einsog sagan hefur sýnt og
allnokkurn hluta af innri vanda
flokksins í dag má rekja til þess-
arar fælni við að útkljá ágreining
með lýðræðislegum hætti.
Eining um
nýja forystu
Kosningar skera úr um fylgi við
menn og málefni. Þær eru
heilbrigðasta leiðin til að skipa í
trúnaðarstöður það fólk sem
menn treysta best hverju sinni.
Það má vissulega færa rök fyrir
því, að stundum geti verið heppi-
legt fyrir stjórnmálaflokk að um
nýjan formann náist svo mikill
einhugur að hann sé kjörinn án
mótframboðs. En einsog staðan
er í dag innan Alþýðubandalags-
ins er hreinlegast fyrir flokkinn
að kosið verði á milli frambjóð-
enda til formanns.
Það væri innantóm óskhyggja
að halda því fram að ekki verði
átök um kjör nýs formanns. Hjá
því verður vart komist, og þau
kunna að reynast flokknum erfið.
En hvaða skoðun sem félagarnir
annars hafa á því, hver skuli
verða næsti formaður, þá er það
skylda þeirra að sameinast um að
gera þá flokkslegu ákvörðun sem
auðveldasta fyrir bæði flokk og
félaga. Menn verða að gæta sín í
baráttunni, berjast málefnalega,
— og, það sem mestu skiptir, sætta
sig við niðurstöðuna.
Að loknum landsfundi, að
loknu formannskjöri, þá er það
skylda flokksfélaganna að styðja
við bakið á þeirri forystu sem þeir
hafa í sameiningu kosið sér á
lýðræðislegan máta. Það gildir
ekki síst um nýjan formann,
jafnvel þó menn kunni upphaf-
lega að hafa talið til þess starfa
annan betur fallinn.
Margir munu ugglaust telja
kröfu um einingu um nýja forystu
gamaldags forræðishyggju. Þá
það. En í ljósi þeirrar stöðu sem
Alþýðubandalagið er í um þessar
mundir er slík krafa ekkert annað
en gamaldags heilbrigð skyn-
semi.
Á sama grunni rís önnur krafa:
Að menn bretti upp ermar að
loknum landsfundi og moki ofan í
skotgrafirnar.
Annars geta menn lokað þess-
ari sjoppu.
Misklíð minnkar
Skæðast einstakra misklíðar-
efna í flokknum hefur verið af-
staðan til verkalýðsmála. Á
flokkurinn að hafa sjálfstæða af-
stöðu til verkalýðsmála, afstöðu
sem hann mótar sjálfur, - þar
sem verkalýðsforingjar hafa ekki
neitunarvald?
Um þetta hefur staðið ágrein-
ingur að gömlu og nýju. En hann
blossaði upp með áður óþekktri
hörku eftir að menn tóku upp
nýja aðferð í kjarasamningum
sem kennd var við þjóðarsátt, og
mætti harðri andstöðu margra
flokksfélaga og Þjóðviljans
sömuleiðis.
í dag er þessi ágreiningur hins
vegar ekki jafn yfirþyrmandi og
áður. Sú skoðun virðist nú út-
breidd í flokknum, að þar sem
Alþýðubandalagið sé óvefeng-
janlega róttœkasti hluti verka-
lýðshreyfingarinnar, þá sé ekki
óeðlilegt að það setji fram sjálf-
stœða stefnu, sem í mörgum
greinum er róttækari en hin opin-
bera stefna verkalýðshreyfingar-
innar.
Þau rök hníga ennfremur að
þessari niðurstöðu, að forysta
verkalýðshreyfingarinnar er í dag
þverpólitísk. Innan hennar eru
sterkir áhrifamenn úr flokki at-
vinnurekenda, menn á borð við
miðstjórnarmann Sjálfstæðis-
flokksins, Björn Þórhallsson auk
skeleggra forystumanna úr
miðjuflokki á borð við Fram-
sókn. Sameiginleg stefna, sem
mótuð er af verkalýðsforystu sem
þannig er saman sett hlýtur oftar
en ekki að bera keim af mála-
miðlun, sem flokkur á borð við
Alþýðubandalagið getur ekki
ævinlega fellt sig við.
Af þeim sökum er ekkert eðli-
legra en flokkurinn leggi áherslu
á sjálfstæða, róttæka stefnu í
verkalýðsmálum. Örlög þjóðar-
sáttarinnar svokölluðu taka raun-
ar af öll tvímæli um nauðsyn þess.
Um þetta virðist almenn sam-
staða nú um stundir í Alþýðu-
bandalaginu, og raddir sem kyrja
eftir öðrum nótum mynda ekki
sterkan kór innan flokksins.
Þetta hlýtur vitaskuld að auka
möguleika á því að inní flokknum
geti menn splæst sig saman.
Meiri breidd
Úr innviðum Alþýðubanda-
lagsins hafa á síðustu árum komið
fram endurteknar óskir um
aukna breidd í forystu flokksins.
Flokksmenn vilja að þjóðin fái að
sjá með berum augum að forysta
þeirra einskorðist ekki einvörð-
ungu við miðaldra karla af suð-
vesturhominu.
Af hálfu flokks sem í senn vill
kenna sig við jafnrétti kynjanna,
valddreifingu og jákvæða byggð-
astefnu er þetta eðlilegt viðbragð
við ofuráherslu fjölmiðlaþjóðfé-
lagsins á hina „sterku“ leiðtoga.
Svipuð gagnrýni er til dæmis tíð
nóg
innan flokka erlendis sem eru
runnir af svipaðri rót og Alþýðu-
bandalagið.
í Þjóðviljanum hefur áður ver-
ið bent á eitt þeirra úrræða sem
erlendir frændflokkar hafa gripið
til: Þeir hafa fjölgað embættum í
efstu lögum flokksins, og þannig í
senn dreift valdi og búið til
breiðari forystu sem fjölmiðlar
komast ekki hjá því að taka visst
tillit til.
Fyrir Alþýðubandalagið væru
ýmsir kostir fólgnir í því að breyta
uppröðun embætta í forystu
flokksins. Það mætti til dæmis
hugsa sér að leggja niður embætti
sem ekki hafa beinlínis þýðingar-
miklu hlutverki að gegna en
fjölga varaformönnum upp í tvo-
eða jafnvel þrjá.
Varaformenn gætu síðan skipt
með sér verkum og þannig orðið í
raun einskonar talsmenn flokks-
ins í tilteknum málum. Þannig
mætti hugsa sér að í verkahring
annars varaformanns af tveimur
væri fyrst og fremst innra starf
flokksins. Hinum yrði falið að
sinna afmörkuðum málaflokki,
sem til dæmis miðstjómin teldi
brýnt að flokkurinn legði um til-
tekið árabil sérstaka áherslu á. í
dag væri sjálfsagt að slíkum vara-
formanni yrði falið að helga sig
byggðamálum og hafa forgöngu
um sterka stefnumörkun á því
sviði.
Pólitíska nýsköpun!
Nýr formaður eða breytingar á
skipan æðstu embætta Alþýðu-
bandalagsins á landsfundi í nóv-
ember munu þó ekki skipta
sköpum um framtíð flokksins. í
dag er hann hrjáður af hug-
myndalegri stöðnun og á meðan
flokkurinn er upptekinn við innri
deilur er hann ófær um að takast
á hendur þá pólitísku endurnýjun
sem ein getur fleytt honum inn í
framtíðina.
Alþýðubandalagið er í sárri
þörf fyrir pólitíska nýsköpun, -
og hlutverk landsfundar hlýtur að
verða að hefja sókn að því. Á því
byggist endurnýjun og lífsþróttur
sósíalískrar hreyfingar.
Það er ekki nóg að kjósa nýjan
formann.
Össur Skarphéðinsson.
Laugardagur 12. aoptember 1987 ÞJÓÐVIUINN - SÍÐA 5