Þjóðviljinn - 04.10.1988, Blaðsíða 6

Þjóðviljinn - 04.10.1988, Blaðsíða 6
þJÓÐVIUINN Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar Mannaskipti í Moskvu Kremlarræði eru varasöm. Fyrir rúmri viku flutti Gorbat- sjov sovétleiðtogi ræðu yfir oddvitum fjölmiöla í sínu landi. Hann talaði þar - eins og oft áður - um að umbætur hans, perestrojkan, gengju ekki nógu vel. Við hikum enn, sagði hann, við töpum tíma og þar með erum við að missa af lestinni. Þetta varð til þess að fréttaskýrendur fóru að tala um að Gorbatsjov blæsi til undanhalds fyrir „hægfara" öflum, sem þvældust fyrir umbótum með ýmsum hætti og þá fyrir Lígat- sjov, næstmestum valdamanni í flokknum, sem hefur haft uppi efasemdir um nýjar áherslur í utanríkisstefnu Sovétríkj- anna og það frelsi til gagnrýni sem Gorbatsjov hefur komið á. En svo líður vika - Gorbatsjov efnir til skyndifunda í miðstjórn flokksins og Æðsta ráðinu, og þar er Lígatsjov og hans líkum ýtt til hliðar eða dregið úr áhrifum þeirra. Sjálfur er Gorbatsjov svo kosinn forseti í stað hins aldraða Grom- iko. Og öllum má Ijóst vera að Gorbatsjov hefur styrkt mjög stöðu sína til að gjöra það sem honum þykir brýnast í landinu. Þegar tilkynnt var um mannaskiptin komst Gerasímof blaðafulltrúi Gorbatsjovs svo að orði að hér væri um kyn- slóðaskiptingu að ræða. Þau orð segja ekki nema fátt. Úr öðru horni heyrast raddir í þá veru, að Gorbatsjov sé barasta að safna í sínar hendur öllum valda- og tignartaumum, svo sem gerðu fyrirrennarar hans. Sá samanburður dugir skammt, svo mjög sem allar aðstæður hafa breyst. Það liggur beinast við að meta tíðindin frá Moskvu blátt áfram sem svo, að Gorbatsjov telji mjög nauðsynlegt að forystusveitin sé samhent, vegna þess hve brýn og erfið verkefni bíða hennar. SjálfurgefurGorbatsjovtilefni til slíkra hugleiðinga einmitt í þeirri ræðu yfir fjölmiðlamönnum sem fyrst var vitnað til. Þar segist hann þurfa nýja menn í foryst- una sem taki skýra afstöðu. Og eins og fyrr sagði: hann leggur um leið mikla áherslu á að Sovétmönnum liggi á að taka upp nýja starfshætti og stjórnsýslu og að þeir megi engan tíma missa. Hann ítrekar, að umbætur á sviði efna- hagsmála gangi alltof hægt og mjög misjafnlega. Segir til dæmis um þetta, að meðan sum fyrirtæki séu rétt að fikra sig í átt til efnahagslegrar sjálfsábyrgðar, þá séu starfsmenn annarra nú þegar reiðubúnir að taka þau á leigu og reka fyrir eigin reikning. Gorbatsjov segir ennfremur að pólitískar um- bætur séu rétt að fara af stað, og nú þurfi að setja ný lög um kosningar og breyta stjórnarskránni. Vafalaust skiptir það miklu fyrir árangur á þessum sviðum öllum ef Gorbatsjov getur treyst á samstillta forystusveit. Það hefur t.d. verið litið svo á, að Ligatsjov hafi verið eins- konar verndari kerfismanna sem hafa óttast það að ráðs- mennska sé tekin úr höndum ráðuneyta og ríkisáætlunar- blátt áfram vegna þess að þar með eru þeirra feitu og þægilegu embætti í hættu. Atburðir í Moskvu fyrir helgi voru vitanlega drjúgur sigur fyrir Gorbatsjov - og hann veit manna best sjálfur að ekki mun af veita. Því eins og hann sá og heyrði í Krasnojarsk á dögunum, þá er alþýða orðin óþolinmóð. Samt tekst honum að sjá vissan stuðning í þeirri óþolinmæði, sem betur fer. í fjölmiðalræðunni sagði hann m.a.: Þeim sem segja að perestrjokan hafi engu skilað vil ég svara þessu: Hún hefur þegar skilað einu sem mestu varðar - því hvernig alþýðan er nú orðin, hvernig hún ræðir málin. ÁB KLIPPT OG SKORIÐ Mei ugg í brjósti Góðir og gegnir íhaldsmenn eru nokkuð kvíðnir vegna þess að Alþýðubandalagsmenn hafa sest í ríkisstjórn og þeir Ólafur Ragn- ar, Svavar og Steingrímur J. eru teknir til við að stjórna mjög mikilvægum ráðuneytum. Að sama skapi eru íhaldsmenn held- ur óhressir með þá sem bera á því ábyrgð að Sjálfstæðisflokkurinn er skyndilega kominn í stjórnar- andstöðu. Verkurinn er að þeir hljóta að draga sína eigin leiðtoga til ábyrgðar þegar rannsaka á banamein síðustu ríkisstjórnar. í leiðara DV í gær er það rakið að Alþýðubandalagið hafi verið utan ríkisstjórnar um hríð og því ekki haft nema óbein áhrif á landsstjórnina. „Fyrir mistök, sem rekja má fyrst og fremst til klaufaskapar og pólitískra afleikja, skákaði Sjálfstæðisflokkkurinn sér til hliðar og Alþýðubandalaginu gafst kostur á stjórnarþátttöku." Hverjum á að refsa? Hér fer ekkert á milli mála hverjum þessi ósköp eru að kenna. Það er engu líkara en efna eigi til opinberrar aftöku. Sökin er enda talin ærin, sem sé það að hleypa Alþýðubandalaginu inn í ríkisstjórn. Leiðara DV, sem merktur er Ellert B. Schram fyrr- verandi þingmanni Sjálfstæðis- flokksins, lýkur þannig: „Það á eftir að koma í ljós hvort Ólafur og Alþýðubanda- lagið hafi erindi sem erfiði. En hitt fer ekki milli mála að eins og sakir standa hefur Alþýðubanda- lagið ná fótfestu á ný í íslenskum stjórnmálum, allsendis að óvör- um og algjörlega að ástæðulausu. Andstæðingar Alþýðubanda- lagsins geta sjálfum sér um kennt. Valdastaða Alþýðubandalagsins er ekki vel- gengni þess að þakka heldur ax- arsköftum hinna sem færðu þeim ráðherrastólana á silfurfati.“ f sjálfu Morgunblaðinu verður líka vart við þann tón að það sé ■eigin glópsku forráðamanna í Sjálfstæðisflokknum að kenna að hann er nú skyndilega kominn í stjórnarandstöðu. Góðlyndir menn hljóta að velta því fyrir sér hvort nú verði magnað eitthvert gjörningaveður að Þorsteini Pálssyni. Vilja menn blóð? Varð útundan { síðasta sunnudagsblaði Moggans má sjá vangaveltur um að innan síðustu ríkisstjórnar hafi orðið til einhvers konar fóst- bræðralag þeirra Jóns Baldvins Hannibalssonar og Steingríms Hermannssonar og að í því hafi tekið þátt þeir Halldór Asgríms- son og Jón Sigurðsson. En enginn ráðherra úr Sjálfstæðisflokknum. Og síðan kemur þessi klausa hér: „Annað sem virðist sameina Framsóknarflokk og Alþýðu- flokk eftir 14 mánaða stjórnar- samstarf við Sjálfstæðisflokk, er óánægja beggja með það sam- starf. Fullyrða forystumenn þess- ara flokka að verkstjórninni í rík- isstjórn hafi verið mjög ábóta- vant. Frumkvæði Sjálfstæðis- flokks í ríkisstjórn hafi ekkert verið og þeir hafi ekki lagt fram eiít einasta mál í ríkisstjórn á stjórnarferlinum." Hér tekur blaðamaður Morg-’ unblaðsins, Agnes Bragadóttir, býsna stórt upp í sig. Einhvern tíma hefðu menn á Morgunblað- inu hikað við að sparka með svo augljósum hætti í formann Sjálf- stæðisflokksins og tæplega munu allir telja að búið sé að efna í syndakvittun þótt tíundað sé að Sjálfstæðismenn telji svona full- yrðingar fjarstæðukenndar og nlálegar, að ekki sé meira sagt. Jafnvel ekki þótt bætt sé við að Sjálfstæðismenn svari staðhæf- ingum um skort á frumkvæði í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar á þann veg, að þeir vísa ásökunum í þá veru heim til föðurhúsanna sem þeir telja að hljóti að heyra Framsókn til. Uppgjðr Einhvern veginn er eins og frá- sögn af digurbarkalegum yfirlýs- ingum verði hálfhjárænuleg við hliðina á frásögn af því að for- ystumaður úr röðum Sjálfstæðis- manna segi „að vissulega hafi verið ákveðin vandamál í þing- flokki Sjálfstæðisflokksins og að ráðherralið flokksins á síðasta kjörtímabili hafi verið mjög ó- samstætt. Það hafi opinberast með ýmsum hætti, eins og stöð- ugum yfirlýsingum út og suður.“ Skrif sem þessi hljóta að vera til marks um að Sjálfstæðismenn telji mikið undir því komið að gert sé upp við þá aðila innan flokksins sem helst bera ábyrgð- ina á því að flokkurinn skuli hafa spilað sig út úr ríkisstjórn. En víst er að hvað sem Iíður því uppgjöri þá er íhaldið að búa sig undir harðskeytt stríð, áróðursstyrjöld sem verður ekki rekin með minni ákafa en fyrri stríð gegn ríkis- stjórnum sem Sjálfstæðisflokkur- inn hefur ekki átt aðild að. í slíkri styrjöld eru íslenskir íhaldsmenn ekki vanir að skjóta eintómum lausum skotum eða spara þær kanónur sem fastast og lengst skjóta. Það verður fróðlegt að fylgjast með hver hlutur Morgun- blaðsins verður í því stríði. í þeirri Morgunblaðsgrein, sem hér hefur verið brugðið á skærum, kemur fram að ein- hverjir íhaldsmenn telja að blað- ið hafi brugðist í áróðursstríði fyrir Sjálfstæðisráðherra í síðustu ríkisstjórn. Klikkaði Mogginn? „Nú er það ekki svo að Sjálf- stæðismenn sakist við fyrrum samstarfsaðila sína eina. Sú skoðun mun býsna útbreidd með- al flokkksmanna að Morgunblað- ið hafi að undanförnu brugðist þeim málstað sem Sjálfstæðis- flokkurinn hefur staðið fyrir. Segjast Sjálfstæðismenn alls ekki vera að gera þá kröfu að Morgun- blaðið verði þröngt flokksmál- gagn Sjálfstæðisflokksins, slíkt sé löngu liðin tíð, en eigi að síður finnist mörgum sem blaðið hafi brugðist málstað sem Sjálfstæðis- flokkurinn var að verja á úrslita- stund.“ Það þarf ekki að velta vöngum yfir því að þeir Sjálfstæðismenn, sem hafa viljað að Morgunblað- inu væri beitt af hörku meðan flokkur þeirra var í ríkisstjórn, munu þrýsta á um að blaðið spari ekki áróðurskraftana þegar flokkurinn er nú kominn í stjórn- arandstöðu. Við skulum bíða og sjá hver verða viðbrögð Morgunblaðsins. ÓP Þjóðviljinn Síðumúla 6-108 Reykjavík Sími 681333 Kvöldsími 681348 Útgefandi: Útgáfufélag Þjóðviljans. _ Ritstjórar: Ámi Bergmann, Mörður Árnason, Óttar Proppé. Fréttastjóri: Lúðvík Geirsson. Blaðamenn: Dagur Þorleifsson, Guðmundur Rúnar Heiðarsson, Heimir Már Pétursson, Hjörleifur Sveinbjörnsson, Kristófer Svavarsson, Magnús H. Gíslason, Lilia Gunnarsdóttir, ólafur Gíslason, Páll Hannesson. SigurðurÁ. Friðþjófsson, Sævar Guðbjömsson, Þorfinnur Ómarsson (íþr.). Handrita- og prófarkalestur: Elías Mar, Hildur Finnsdóttir. Ljósmyndarar: Einar Ólason, Jim Smart. Útlitsteiknarar: Kristján Kristjánsson, Kristberguró.Pétursson Framkvæmdastjóri: Hallur Páll Jónsson. Skrifstofustjóri: Jóhanna Leópoldsdóttir. Skrifstofa: Guðrún Geirsdóttir, Kristín Pétursdóttir. Auglýsingastjóri: Olga Clausen. Auglýsingar: Guömunda Kristinsdóttir, Unnur Ágústsdóttir, Sigurrós Kristinsdóttir. Símavarsla: Sigríður Kristjánsdóttir, ÞorgerðurSigurðardóttir. Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir. Húsmóðir: Anna Benediktsdóttir Utbreiðslu- og afgreiðslustjóri: Björn Ingi Rafnsson. Afgreiðsla: Halla Pálsdóttir, Hrefna Magnúsdóttir. Innheimtumaður: Katrín Bárðardóttir. Utkeyrsla, afgreiðsla, ritstjórn: Síðumúla 6, Reykjavík, símar: 681333 & 681663. Auglýsingar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310. Umbrotog setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf. Prentun: Blaðaprent hf. Verð í lausasölu: 70 kr. Nýtt helgarblað: 100 kr. Áskriftarverð á mánuði: 800 kr. 6 SÍÐA — ÞJÓÐVILJINN Þriðjudagur 4. október 1988

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.