Þjóðviljinn - 10.03.1990, Blaðsíða 12
—SPURNINGIN-
Hverju spáirðu um leik
íslands og Frakklands á
HM?
Rögnvaldur Ólafsson
formaður Glímusambandsins
Ég held að ísland vinni þetta 23-
17, það er engin spurning. Þeir
eru búnir að ná að vinna leik og
ég held að einhver af þessum
stórskyttum muni sýna stjörnu-
leik.
Halldór Guöfinnsson
nemi
ísland vinnur þetta að sjálfsögðu.
Þeim gekk vel gegn Austur-
Þjóðverjum og ég spái því að þeir
vinni Frakka 22-17.
Sigríður Jakobínudóttir
ritari alnæmisnefndar
Ég held þetta fari 21-18 fyrir ís-
land. Það þýðir ekki annað en að
vera bjartsýnn.
Sofffa Ákadóttir
hjúkrunarfræðingur
ísland vinnur 22-19. Þetta kom
hjá þeim gegn Austur-Þjóðverj-
um og ég held þeir haldi áfram á
þeirri braut.
Andrés Torfason
verkamaður
Það hef ég ekki hugmynd um, ég
hef ekkert fylgst með þessu. Ég
vona þó að þeir vinni.
blÓÐVILIINN
Laugardagur 10. mars 1990 48. tölublað 55. ðrgangur.
SIMI 681333
SÍMFAX
681935
Sigurður Reynir Gíslason jarðfræðingur er einn þeirra vísindamanna sem munu kynna almenningi rannsóknir sínar á Opnu húsi Háskóla
Islands á morgun. Siguröur Reynir hefur fengist við rannsóknir á efnafræði vatns á undanförnum árum. Mynd Jim Smart.
Rannsóknir
ísland leysist hratt upp
Háskólinn kynnir almenningi starfsemi sína á morgun. Sigurður
Reynir Gíslason mun m.a. kynna rannsóknir sínar á efnafræði vatns
r
Island leysist mun hraðar upp
en flest önnur lönd, og það má
gera ráð fyrir að um tíu miljónir
tonna af uppleystu bergi renni til
sjávar á ári hverju. En það er
samt engin hætta á að landið
skolist undan okkur, segir Sig-
urður Reynir Gíslason jarðfræð-
ingur í samtali við Þjóðviljann.
Sigurður Reynir er einn þeirra
vísindamanna sem munu kynna
almenningi rannsóknir sínar á
Opnu húsi í háskólanum á morg-
un. Hann hefur unnið að rann-
sóknum á efnafræði íslenska
vatnsins á undanförnum árum.
Gífurlegt magn úrkomu
skellur á íslandi árlega og að sögn
Sigurðar Reynis á úrkoman
auðveldara með að leysa ísland
upp en önnur lönd vegna þess hve
hraunlög eru veik fyrir. Hins veg-
ar sjá eldgos til þess að landið
endurnýjast.
„ísland leysist tvisvar til þrisv-
ar sinnum hraðar upp en önnur
lönd að meðaltali,“ segir Sigurð-
ur Reynir.
Regnið ekki súrt
Hann hefur einnig sýnt fram á
að úrkoma á íslandi er almennt
ómenguð, þótt aðeins beri á
brennisteini í henni vegna
brennslu lífrænnar orku, t.d.
olíu.
„Súrt regn er gífurlegt vanda-
mál víða í heiminum, en úrkoma
hér á landi er ekki súr. í eldgos-
um getur sú hins vegar orðið
raunin. Við íslendingar höfum
reynslu af því, m.a. frá gosinu í
Lakagígum. Það eru til frásagnir
um að súrt regn hafi brennt göt á
lauf trjáa við Kirkjubæjarklaust-
ur.
Annars erum við svo langt frá
helstu mengunarsvæðum að úr-
koma á yfirleitt ekki að vera súr.
Við getum borðað snjó og drukk-
ið regnvatn með góðri sam-
visku,“ segir Sigurður Reynir.
Hann lauk námi í jarðfræði í
Bandaríkjunum árið 1985 og hef-
ur unnið að rannsóknum á efna-
fræði vatns síðan. Kalt vatn á ís-
landi hefur ekki verið rannsakað
jafn mikið og heita vatnið okkar,
en að sögn Sigurðar hafa rann-
sóknir þó aukist verulega á síð-
ustu tíu árum. Það stafar ekki síst
af uppbyggingu fiskeldis og hita-
veitna þar sem jarðvarmi er not-
aður til þess að hita upp neyslu-
vatn.
Grunnvatnið
basískt
Sigurður Reynir hefur m.a.
komist að því að sýrustig íslensks
grunnvatns er svo hátt að fiskeldi
getur stafað hætta af.
„Sýrustig íslenska grunnvatns-
ins er mun hærra en annars stað-
ar, svo hátt að það getur haft ert-
andi áhrif á tálkn fiska, að því er
iíffræðingar tjá mér.
Þetta er dæmi um að rannsókn-
ir á efnafræði vatns geta verið
hagnýtar.
Annars er mjög mikilvægt að
bæði almenningur og nemar
kynni sér hvernig þekking verður
til.
Ég afla mér gagna með því að
taka sýni til greiningar. Ég er t.d.
nýkominn úr hálendisleiðangri
með mönnum frá Landsvirkjun
og Orkustofnun, þar sem ég tók
snjósýni. Þegar niðurstöður fara
að liggja fyrir flyt ég erindi um
efnið og skrifa um það greinar í
vísindatímarit, og ef rannsókn-
irnar eru taldar nógu góðar enda
niðurstöðurnar í kennsluefni,“
segir Sigurður Reynir.
Ókeypis í bíó
Opið hús er haldið árlega í Há-
skóla íslands og tilgangurinn er
að veita almenningi innsýn í þá
starfsemi sem þar fer fram í hin-
um ýmsu deildum, hvort sem um
er að ræða rannsóknir, kennslu
eða almenna þjónustu. Allar
deildir háskólans taka þátt í
Opnu húsi, en auk þess verða 22
sérskólar með kynningar á starf-
semi sinni. Megináhersla er lögð
á kynningu á verkfræðideild og
raunvísindadeild að þessu sinni.
Það verður mikið um að vera á
háskólasvæðinu á morgun. Há-
skólabókasafnið verður með
kynningarbás í Þjóðarbókhlöðu-
nni í tengslum við 50 ára afmæli
safnsins. Myndlista- og handíða-
skóli íslands heldur einnig upp á
50 ára afmæli sitt um þessar
mundir og af því tilefni verða brot
af myndverkum nemenda
skólans sýnd í Þjóðarbókhlöð-
unni. Aðrir listaskólar og Hásk-
ólakórinn munu einnig standa
fyrir listaviðburðum.
Háskólabíó býður almenningi
upp á fríar bíósýningar og kynnir
um leið nýja sýningarsali hússins.
Sérstök kvikmyndasýning verður
í boði fyrir börn. Þá verður Fé-
lagsstofnun stúdenta með
veitingasölu í Þjóðarbókhlöðu og
Veitingastofan í Tæknigarði
verður opin.
Flestar deildir háskólans og
sérskólarnir kynna starfsemi sína
í Þjóðarbókhlöðunni, en nokkrar
deildir og stofnanir verða með
kynningu í eigin húsnæði. Þar á
meðal eru verkfræðideild, raun-
vísindadeild, Raunvísindastofn-
un, Verkfræðistofnun og Nor-
ræna eldfjallastöðin.
-gg