Vísbending


Vísbending - 06.07.1988, Blaðsíða 3

Vísbending - 06.07.1988, Blaðsíða 3
VÍSBENDING inda setur óháða hagfræðinga í nokkurn vanda. Stöðugar deilur stjórnmálamanna um efnahagsmál geta varpað rýrð á hagfræði sem vís- indagrein í augum almennings, jafnvel þótt mikill hluti nútímahagfræði, eink- um rekstrarhagfræði, sé utan og ofan við dægurdeilur. Hitt er líka rétt, að hagfræðinga greinir á um ýmsar óleyst- ar gátur í fræðum sínum ekki síður en eðlisfræðinga til dæmis. Við þetta bæt- ist, að sumir hagfræðingar gæta þess því miður ekki alltaf sem skyldi að greina á milli stjórnmálaskoðana og hlutlausra ályktana um efnahagsmál. Petta er alvarlegur vandi um allan heim. Hlutlaus hagfræði_____________________ Hagfræði getur verið hlutlaus og á að vera hlutlaus að mínum dómi, ekki síður en eðlisfræði til dæmis. Flest við- fangsefni hagfræðinga eru þess eðlis, að úrlausn þeirra getur verið óháð stjórnmálaskoðunum og öðrum gildis- dómum hagfræðinga sem einstaklinga um þjóðfélagsmál. Ef útlán bankakerf- isins eru aukin, þannig að vextir lækka um 5%, eykst verðbólga þá að öðru jöfnu? Hversu mikið? Ef veiðileyfi eru seld í stað þess, að aflakvótum sé út- hlutað ókeypis, lækkar útgerðarkostn- aður þá að óbreyttum afla? Hversu mikið? Þannig er hægt að spyrja áfram endalaust. Áreiðanleg svör við spurn- ingum sem þessum hljóta að vera óháð stjórnmálaágreiningi, því að svörin varða staðreyndir. Ýmsar aðrar spurningar hagfræð- inga eru erfiðari viðfangs. Á að auka útlán bankakerfisins, þannig að vextir lækki, jafnvel þótt verðbólga aukist? Á að selja veiðileyfi til að lækka út- gerðarkostnað? Við þessum spurning- um eru ekki til einhlít svör, sem eru hafin yfir allan stjórnmálaágreining. Ástæðan er sú, að þessar spurningar varða stefnu, ekki staðreyndir. Er það rétt stefna að taka hagsmuni eins fram yfir hagsmuni annars eða jafnvel fram yfir þjóðarhag? Það er ekki aðeins spurning um hagkvæmni, heldur líka um réttlæti. Það er eðlilegt, að hag- fræðinga greini á um réttlæti og rang- læti ekki síður en annað fólk. Hér þarf að hyggja að ýmsu. Vextirogveröbólga__________________ Tökum vaxtadæmið fyrst. Lang- flestir hagfræðingar telja það vera staðreynd, að útlánaaukning banka- kerfisins lækki vexti og auki verð- bólgu. Það er líklegast, að nafnvextir og raunvextir fylgist að niður á við í kjölfar peningaþenslu, en þó er það hugsanlegt, að raunvextir lækki minna en verðbólga eykst, þannig að nafn- vextir hækki. Nú er það auðvitað lauk- rétt, að lækkun raunvaxta dregur úr rekstrarkostnaði fyrirtækja og þar með úr verðbólgu að öðru jöfnu. Hitt er þó yfirleitt miklu þyngra á metunum, að peningaþensla örvar innlenda eftir- spurn bæði beint og með því að þrýsta raunvöxtum niður á við og ýta þannig undir fjárfestingu og trúlega einka- neyzlu og innflutning líka. Hvort tveggja eykur verðbólgu og viðskipta- halla. Þessi eftirspurnaráhrif vaxta á verðbólgu eru allajafna miklu meiri en kostnaðaráhrifin. Ýmis dæmi má nefna úr hagsögu síð- ustu ára þessu til staðfestingar. Reynsla iðnríkjanna sýnir það, að veruleg hækkun raunvaxta á heims- markaði 1981-82 var undanfari dvín- andi verðbólgu árin næst á eftir, enda var gætt aðhalds í peningamálum báð- um megin Atlantshafs og í Japan. Verðbólgan í iðnríkjunum nú er jafn- lítil og raun ber vitni meðal annars vegna þess, að háir raunvextir hafa haldið aftur af eftirspurn. Hvers vegna halda sumir stjórn- málamenn því fram, að háir raunvextir séu verðbólguvaldur, jafnvel þótt lang- flestir hagfræðingar telji bæði fræðileg rök og reynslu hníga að hinu gagn- stæða? Því er ekki auðvelt að svara. Hitt er augljóst, að háir raunvextir eru sparifjáreigendum í hag, en baka skuldurum kostnað. Ágreiningur um raunvexti endurspeglar togstreitu um tekju- og eignaskiptingu. Þeir stjórn- málamenn, sem vilja berjast á móti verðbólgu og standa jafnframt vörð um hagsmuni sparifjáreigenda, eru því yf- irleitt hlynntir háum raunvöxtum við núverandi skilyrði. Hinir, sem standa vörð um hagsmuni skuldara, eiga úr vöndu að ráða, því að lækkun raun- vaxta með aukinni útlánaþenslu myndi auka verðbólgu. Þeir eiga þó að vita það, að lækkun raunvaxta með auknu aðhaldi í ríkisfjármálum myndi lækka bæði raunvexti og verðbólgu samtímis, en virðast telja, að sú leið sé ekki fær. Er það tilviljun, að þá sé gripið til þess ráðs að halda því fram, að háir raun- vextir séu verðbólguvaldur, þegar öllu sé á botninn hvolft? Því verður hver að svara fyrir sig. Fiskveiðistefnan_____________________ Tökum nú hitt dæmið. Yfirgnæfandi meiri hluti hagfræðinga er þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé að stjórna fiskveiðum til að koma í veg fyrir of- veiði og að sala veiðileyfa í einhverri mynd væri hagkvæmasta stjórntækið í þessu skyni. Ástæðan er einfaldlega sú, að með því móti er hægt að veiða leyfilegan hámarksafla með minnstum tilkostnaði. Þessi skoðun kom til dæm- is skýrt fram á alþjóðlegri ráðstefnu í Reykjavík nýlega, þar sem flestir helztu fiskihagfræðingar heims báru saman bækur sínar. Yfirburðir veiði- leyfasölu yfir önnur fiskveiðistjórn- tæki eru sömu ættar og yfirburðir frjálsra búskaparhátta yfirleitt. Veiði- leyfasala er bæði hagkvæmari og rétt- látari en til dæmis ókeypis úthlutun aflakvóta, að ekki sé talað um óheftar veiðar, með svipuðum hætti og frjáls viðskipti eru yfirleitt hagkvæmari og réttlátari en haftabúskapur. Nú kann einhver að spyrja: Hvers vegna þarf að hefta veiðar, en ekki viðskipti? Ástæð- an er sú, að óheftar veiðar myndu ógna fiskstofnum í sjónum og þar með fram- tíðarhagsmunum þjóðarinnar í heild, en óheft viðskipti efla þjóðarhag. Samt eru margir stjórnmálamenn andvígir veiðileyfasölu, jafnvel þótt þeir aðhyllist viðskiptafrelsi á öðrum sviðum. Hvers vegna? Miklir hags- munir eru í húfi. Utgerðarmenn, sem fá aflakvóta afhenta ókeypis við núver- andi skipan, vilja auðvitað ekki þurfa að greiða fyrir veiðileyfi. Þeir eru á móti veiðileyfasölu. Hinir, sem fá eng- an kvóta nú, ættu kost á að kaupa kvóta á frjálsum markaði. Þeir eru hlynntir veiðileyfasölu. Hinir fyrr nefndu ráða ferðinni nú, jafnvel þótt næstum allir hagfræðingar telji, að veiðileyfasala væri miklu hagkvæmari fyrir þjóðarbúskapinn í heild. Rann- sóknir benda til þess, að Jiægt væri að veiða jafnmikinn botnfiskafla og nú fæst úr sjó umhverfis land með allt að 40% minni flota og minni útgerðar- kostnaði eftir því. Fjárhæðin í húfi er fjallhá. Vandinn er sá, að hagræðingin krefst fækkunar í flotanum. Starfs- menn viðkomandi útgerðarfyrirtækja þyrftu að fá sér önnur verk að vinna. En verkefnin eru næg um landsins breiðu byggð, sem betur fer. Er það tilviljun, að næstum allir hag- fræðingar eru á einu máli um yfirburði veiðileyfasölu? Nei. Samsæri? Nei. Samsæri eru aldrei svo fjölmenn. Ástæðan er einfaldlega sú, að rökin eru sterk. Þess getur því ekki verið langt að bíða, að meiri hluti stjórn- málamanna sannfærist líka um nauð- syn þess að taka brýna hagsmuni þjóð- arheildarinnar fram yfir þrönga sérhagsmuni. 3

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.