Vísbending


Vísbending - 22.06.1989, Blaðsíða 3

Vísbending - 22.06.1989, Blaðsíða 3
VÍSBENDING HLUTA- SKIPTI: TRYGGING GEGN ATVINNU- LEYSI Síðari hluti Dr. Þorvaldur Gylfason í núgildandi launakerfi hér og í nálægum löndum hefur ráðning nýs starfsmanns engin áhrif á laun þeirra, sem fyrir eru í fyrirtækinu. Þess vegna eykst launakostnaður fyrirtækisins sem nemur vinnulaunum nýs manns. Meðallaunakostnaður fyrirtækisins á hvem starfsmann helzt því óbreyttur. Vinnuframlag nýs starfsmanns verður að skila fyrirtækinu meiri við- bótartekjum en nemur vinnulaunum hans, til þess að það borgi sig að ráða manninn í vinnu. Þegar viðbótar- tekjurnar eru jafnar vinnulaununum, hefur fyrirtækið engan hag af því að fjölga fólki, jafnvel þótt fjöldi fólks kunni að vera atvinnulaus í viðkomandi grein. Þannig getur núgildandi launakerfi stuðlað að við- varandi offramboði á vinnumarkaði og atvinnuleysi. Hlutaskipti tryggja atvinnu Öðru máli gegnir um hlutaskipti. I hlutaskiptakerfi dregur ráðning nýs starfsmanns lítillega úr launum þeirra, sem fyrir eru, þannig að launa- kostnaður fyrirtækisins hækkar niinna en sem nemur launum hins nýráðna. Þess vegna lœkkar meðailauna- kostnaður fyrirtækisins á hvern starfs- mann að öðru jöfnu. Vinnufrantlag nýs starfsmanns skilar fyrirtækinu þess vegna alltaf meiri viðbótartekjum en nemur viðbótarlaunakostnaði fyrir- tækisins. Þess vegna vegna hefur fyrirtækið alltaf hag af því að fjölga fólki. Hlutaskipti tryggja þannig viðvarandi umframeftirspurn á vinnu- markaði og koma þannig í veg fyrir atvinnuleysi. I þessu felst höfuðmunurinn á núgildandi launakerfi og hlutaskiptum. í núgildandi launakerfi semja vinnu- veitendur og launþegar um föst mánaðarlaun, sem haggast ekki, þótt afkoma fyrirtækjanna breytist á samningstímabilinu, þannig að fyrir- tækin neyðast til að fækka fólki, ef tekjur þeirra minnka. I hlutaskiptakerfi er hins vegar samið um hlutdeild vinnuveitenda og launþega í tekjum (eða hagnaði) fyrirtækjanna, þannig að óvæntur tekjusamdráttur bitnar á báðum aðilum í fyrir fram ákveðnum hlutföllum, og enginn missir vinnuna. Þessi niðurstaða krefst þess ekki, að öll vinna sé unnin fyrir hlut, heldur myndi blandað kaupgreiðslukerfi með föstum launum auk hlutar, eins og tíðkast í Japan, tryggja sömu niðurstöðu. Kjarni þessa máls er sá, að atvinnuleysi er alls ekki óumtlýjanlegur fylgifiskur frjáls markaðsbúskapar. Grundvallarorsök atvinnuleysisins í Evrópu nú og um allan heim gegnum tíðina er fyrst og fremst sú, að núgildandi launakerfi er gallað eins og mörg önnur ntannanna verk. Laga- setning um hlutaskipti myndi duga til að eyða atvinnuleysisvandanum í eitt skipti fyrir öll. Með skynsamlegu búskaparlagi er hægt að útrýma atvinnuleysi ekki síður en vöruskorti. Sérhagsmunir Og nú er von, að spurt sé: ef atvinnuleysisvandinn er svona auðleystur. hvers vegna er þá ekki löngu búið að leysa hann í löndunum í kringunt okkur? Vandinn hér er að nokkru leyti sá, að núgildandi launakerfi þjónar sérhagsmunum á kostnað heildarinnar. Það er gömul saga. Ef hlutaskipti væru tekin upp í einu fyrirtæki, myndu starfsmenn fyrirtækisins þurfa að sætta sig við aðeins lægri laun en þeir þiggja samkvæml núgildandi fastlaunakerfi. Þetta er kjarni hlutaskiptakerfisins, eins og lýst var í dæminu af álverinu að framan: fyrirtækið hefur hag af því að fjölga fólki einmitt vegna þess, að meðallaun starfsmannanna lækka lítillega, þegar nýr starfsmaður bætist við. Launþegi, sem stendur frammi fyrir kerfisbreytingu, sem kemur niður á launum hans sjálfs, kærir sig yfirleitt kollóttan um þjóðarhag. Þar við bætist, að starfsmenn fyrirtækisins (eða svo nefndir “innanhússmenn”, e. insiders) hafa meiri áhril' á gang mála en atvinnulausir “utanhússmenn” (e. outsiders). Ef öll fyrirtæki tækju á hinn bóginn upp hlutaskipti í einu, horfði málið öðruvísi við. Þá þyrftu laun yfirleitt ekki að lækka, vegna þess að aukin eftirspurn allra fyrirtækja eftir vinnuafli myndi knýja kauplag upp á við. Þess vegna er engin ástæða til að óttast það, að vinnulaun yfirleitt væru lægri við hlutaskipti en í núgildandi fastlaunakerfi. Til þess að starfsmenn í einu fyrirtæki sjái sér hag í hlutaskiptum, þarf því að tryggja það, að önnur fyrirtæki fari sömu leið. Það væri hægt með skattfríðindum, til dæmis með því að lækka eða afnema tekjuskatt af hlut. Þannig væri hægt að laða einstaklinga og fyrirtæki til þess að fallast á hlutaskipti til mikilla hagsbóta fyrir þjóðarheildina. Dómur reynslunnar Eitt enn að lokum. Hlutaskipti hafa verið við lýði í ýmsum atvinnu- greinum víðs vegar um heim um langan aldur og gefið góða raun. Atvinnuleysi hefur til dæntis aldrei þekkzt í íslenzkri sjómannastétt, svo að heitið geti, einmitt vegna þess að hlutaskipti hafa tíðkazt í sjávarútvegi íslendinga um langt skeið. Sama ntáli gegnir um sjálfstæða atvinnnu- rekendur. Hver hefur heyrt talað um atvinnuleysi í þeim hópi? Mikill hluti japanskra fyrirtækja greiðir starfs- mönnum sínum bæði föst laun og hlut. Það er áreiðanlega ekki tilviljun, hversu lítið atvinnuleysi er í Japan í samanburði við flest lönd Vestur- Evrópu og Norður-Ameríku. Ymis bandarísk stórfyrirtæki hafa líka þennan hátt á. Martin Weitzman og aðrir talsmenn hlutaskipta eru því ekki að stinga upp á kerfisbreytingu út í bláinn. Hlutaskipti hafa þvert á móti verið reynd til þrautar við ýmis skilyrði með ágæturn árangri.

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.