Lesbók Morgunblaðsins - 02.03.1985, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 02.03.1985, Blaðsíða 7
r Nashyrningurinn með ungann sinn á hælunum ræðst af blindri eðlis- hvöt gegn fílnum mínum. Hann er ungt kvendýr og heitir Pathankali. Og viti menn, fíllinn, sem er helmingi hærri í loftinu en nashyrningur- inn, víkur undan, hleypur úr vegi og á flótta. Fíll og nashymingur FRÁSÖGN EFTIR SVEIN EINARSSON etta var auðvitað stórfenglegt ævintýri. Fílagrasið vék til hliðar, og þessar risaskepnur fetuðu sig áfram í frumskógin- um, og grasið sveigðist aftur og hallaði sér að nýju hvað að öðru — eitt náttúrunnar óviðjafnan- legt leiktjald. _ Leiktjald? Óverulegt? Svið- setning fyrir leikhúsgesti eða ferðamenn? Nei, þetta var raunverulegt ævintýri með raunverulegri þátttöku, ótrúlegt ævintýri þeim, sem ekki hafði al- ist upp við kurr í nashyrningi, forvitin augu og hvik eyru dá- dýrsins, hljóðlátt fótatak dá- dýrsins um nætur. Eða var þetta aðeins andartaks hilling, handan við stað og stund? Nema hvað, við sátum fílana eins og við hefðum aldrei annað gert, hnarreist, skimandi af eft- irvæntingu. Og þó óhult. Jafn óhult og í skrifborðsstólum van- ans. Sannfærð að vísu, að þarna myndum við sitja skemur en í þeim stólum — hver situr ekki of lengi þar? En því skyldi notið hvers andartaks. Hvílík nautn! Þetta er nú meira sportið, er hrópað fagnandi röddu frá næsta fíi (þeir eru tólf). Það mátti nú segja! Sport vr rétta orðið. Varla getur verið mikil hætta á ferðum. Við erum í þjóð- garði. Öll dýrin eru friðuð, því skyldum við ekki vera friðuð líka. Þarna er meira að segja verið að friða stofna, sem hætta hefur verið á að dæju út, konunglega bengalska tígrisdýr- ið, nepalska nashyrninginn. Svo þetta er göfugt. Með því að teygja sannleikann ögn má til dæmis orða það sem svo, að við séum hér að kynna okkur lifnaðarhætti þessara dýra, sem átt hafa i vök að verjast, vegna þess að feldur tígursins var slík stofuprýði í híbýlum hinna ríku og horn nashyrningsins svo hjálplegt þeim getulitlu (út- breidd skoðun eystra). Það þarf auk þess að halda í skógana. Þrátt fyrir árþúsunda ástundun, eru mennirnir ekki enn búnir að finna formúluna fyrir óbrigðulu ákalli til guða regns og þurrka. Við erum óvopnuð — eins og friðelskandi fólki ber að vera. Og dýrin eiga að vita þetta, þau búa á friðarreit. Að vísu eru ein- hverjar sögusagnir um það í náttúrunni, að hver éti annan — sumir segja reglur. En tígurinn er þó að minnsta kosti óhultur — hann er höfðinginn, 500 pund af beisluðum krafti, sem leysist úr læðingi, þegar sulturinn sverfur að eða einhver vogar sér inn á hans skika. Eins og kettir, helga tigrisdýrin sér land — þó að þau arki ekki með beljur daglangt. En hvað skyldi tígurinn óttast í þessum friðarreit? Varla margt. Það væri helst annar tígur, sem ásældist buffalóana hans eða villisvínin, laufskálann, þar sem hann mókir á daginn, eða vatnsbólið. Þá getur slegið í brýnu, segja fróðir menn, og liggja stundum báðir dauðir. Þetta er í dögun og þokunni er að létta. Hitamunur dags og nætur er svo mikill, að blöðin eru höfug af náttfalli, og vætan drýpur eins og stórrigningu sé að slota. Við eigum ekki von á tígrisdýrum um þetta leyti, en ofsalega væri nú spennandi, ef við kæmumst í kast við nashyrn- inga. Og allt í einu kveður við hljóð, sem ókunnum eyrum hefði allt eins vel getað þótt koma frá hrossi í íslenskri sveit. „Hvað er þetta? Er þetta eitthvað merkilegt?" segir óvan- ur ferðalangur. „Uss“, hvíslar einn fílastrák- anna. Og við vitum reyndar bet- ur. Dóttir mín skríkir af ánægju, því að hún veit, hvað kynni að vera í vændum. „Ss!“, endurtekur fílastrákur. Þeir þrír fílar, sem næstir eru, nema staðar á augabragði og all- ir eru kyrrir; það mætti heyra saumnál detta, ef þær væru al- mennt í notkun i frumskógum; andrúmsloftið er magnað, þrungið spennu veiðimennsk- unnar — og stendur þó ekki til að deyða nokkra skepnu. Skyndilega blístrar einn fíla- strákanna, hefur svipu á loft og bendir í ákveðna átt, en við hendumst af stað milli trjánna, lukt þessu undarlega háa grasi, sem líka er fórnardýrinu skjól — og þó: er ekki eins og þarna bylg- ist grasið, er ekki eins og þjóti í sefinu. Fílastrákurinn blístrar aftur eins og fugl, og enn þeytumst við af stað og nú í aðra átt. Dóttir mín ræður sér ekki fyrir eftir- væntingu, og ég finn hvernig öll skilningarvit mín þenjast í einn farveg: ég hef þá sennilega verið veiðimaður í fyrra lífi, eftir allt saman. Hátt þrusk. Stór skepna held- ur sig eiga fótum fjör að launa. Svo er auðvitað ekki. En allt ger- ist í einu vetfangi, og það fer allt í handaskolum, bæði þetta með sjónaukann og myndavélina. Brátt þarf reyndar einskis sjón- auka við. Skyndilega hafa þrír fílar króað inni nashyrning, sem á sér enga undankomu. Hann ymur af skelfingu. Hann gerir reyndar meira. Hann er ekki einn. Þetta er móðir með unga sinn. Hræðslan brýst yfir í reiði, dýrið öskrar í sjálfsvörn sinni og ræðst beint gegn óvininum — þessum elskulega, vel tamda fíl, sem ég sit á. Fögnuður dóttur minnar nær nú hámarki, og ég, sem er sjóaður í árásum lífsins, finn til unaðslegs æsings. Enda er þetta bara sport. Nashyrningurinn með ungann sinn á hælunum ræðst af blindri eðlishvöt gegn fílnum mínum. Hann er ungt kvendýr og heitir Pathankali. Og viti menn, fíll- inn, sem er helmingi hærri í loft- inu en nashyrningurinn, víkur undan, hleypur úr vegi og á flótta. Nashyrningurinn og unginn hans eru ekki seinir að stökkva leiðar sinnar um það hlið, sem myndast, en við rekum upp óp af gleði og spenningi. Þetta er nú aldeilis skemmtun. „Eiga fílar ekki að vera fílefld- ir?“ spyr einhver spaugsamur. „Nashyrningurinn hefur bara verið efldur einhverju öðru,“ hrópar annar hlæjandi. Það er einmitt það. Á heimleiðinni komumst við í tæri við fleiri nashyrninga, sjá- um dádýr og rándýr, rhesus-apa og erni. Þetta er sem sagt feiknalega vel heppnuð ferð. En ég fór samt að hugsa um nashyrninginn og ungann hans, um leið og ég klappaði henni Pathankali. Svona friðaður þjóð- garður er auðvitað mesta þing. Og þetta, að hafa aldrei vopn um hönd er í samræmi við þá einu siðgæðisvitund, sem getur frels- að heiminn. Þú úthellir ekki blóði til að afsanna það, að út- hella þurfi blóði. Það gengur ekki upp. Það er ekki rökrétt. Þokan var að greiðast. Hrá- slagi næturinnar var að víkja. Brátt yrði sólin heit og allsráð- andi. En það var samt hrollur í mér. Það hafði skotið niður í mér óþægilegri hugsun: Hvað hefði ég gert ef nashyrningurinn og unginn hans hefðu verið ég og dóttir mín? Lífið er trúlega ekki alltaf bara sportið. Fíllinn minn þrammaði áfram. Fílagrasið vék undan og laukst aftur að baki okkur. Sólin skein í heiði. Sveinn Einarsson er rithöfundur, leik- stjóri og áður Þjóðleikhússtjóri ( Reykja- vik. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 2. MARZ 1985 7

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.