Lesbók Morgunblaðsins - 16.11.1985, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 16.11.1985, Blaðsíða 11
Charles Dickens og Jólaævintýrið Samantekt í tilefni sýningar Leikfélags Akureyrar Eftir Reyni Antonsson. eimur Charles Dickens var heimur elsku- legra, illkvittinna, kjánalegra, leikandi og vonglaðra barna. Og hann var sjálfur eitt þeirra. Hans eigin bernska var þó langt frá því að vera full leikja eða vongleði. Myndin er tekin í haust framan rid leikhúsið á Akureyri, þegar adstandendur Jólaærintýris- inskomu saman. Dickens er fæddur árið 1812 í Portsmouth, sonur skrifstofumanns við flotastöðina í Portsea. Drengurinn var lítill og veikluleg- ur, vannærður og þjáðist af völdum reglu- legra veikindakasta. Faðir hans sagði: „Þetta barn mun aldrei upplifa það að reyna beiskju þroskans." Dickens eldri var sjálfur dyggur föru- nautur beiskjunnar, og veitti fjölskyldunni allt of ríkulega hlutdeild í henni. Launin voru lág, en eyðslan að sama skapi ekki lítil, og þó hann fengi launahækkun við flutning til London jukust bara tækifærin til að eyða þeim. Og John Dickens var ekki aðeins eyðslusamur, heldur einnig frjósamur. Hann eignaðist á fáum árum átta börn. Hann lét gæskuríka forsjónina um að ala þau upp, en hóf sjálfur öruggt líf innan veggja skuldafangelsisins í Marshalsea. Það gaf því augaleið, að menntun Charles litla yrði frekar af skornum skammti. Hann lærði að lesa, skrifa og reikna við móðurkné, nasasjón af latínu fékk hann í skóla sem klerkur að nafni Giles rak um skeið, og einnig lærði hann mikið af því að heimsækja leikhús sem frændi hans James Lambert rak. Ellefu ára að aldri var Charles Dickens reiðubúinn að útskrif- ast frá lærdómi til lifibrauðs. Hann vann til að byrja með fyrir fáein- um skildingum með því að syngja gaman- vísur fyrir hafnarlýðinn í Limehouse, en fékk svo fyrir tilstyrk fyrrnefnds frænda ..tryggari" vinnu sem límmiðafestari i skó- svertuverksmiðju. Það var hið versta skít- verk, og kynntist hann nú af eigin raun hinni óhugnanlegu barnaþrælkun sem viðgekkst á þessum tímum. Kröpp kjör barna, harðýðgi sú og miskunnarleysi sem viðgekkst gagnvart þeim urðu honum síðar einkar hugleikin viðfangsefni, og það löngu eftir að hann varð bæði frægur, viður- kenndur og ríkur. BLÁA bókin Þann 8. október 1943 hélt Charles Dick- ens ræðu í Manchester Athenaeum, stofn- un sem hafði það markmið að færa menn- ingu og „saklausa, skynsamlega skemmt- an“ út til hinna vinnandi stétta. í ræðu sinni dvaldi hann við þörfina sem væri á því að mennta hina allra fátækustu. Hann fór hörðum orðum um hin skaðlegu áhrif gömlu vísdómsorðanna „dálítill lærdómur er hættuspil". Fyrr á þessu sama ári hafði „blá bók“ þingsins „Onnur skýrsla" (verslun og verk- smiðjur) barnavinnunefndar, vakið óhug hans. Þetta skjal hafði orðið kveikjan að frægu kvæði skáldkonunnar Elizabeth Barrett, „Grátur barnanna", og orsakaði einnig útkomu mjög ódýrs bæklings sem nefndur var „Ávarp til ensku þjóðarinnar vegna barns fátæka mannsins". Og þarna í Manchestar laust því skyndilega niður í huga Dickens að skrifa jólasögu sem hafa myndi þúsund sinnum meiri áhrif í þá átt en nokkur bæklingur, að flytja þjáningar hinna fátæku, ekki síst barnanna, inn á heimili hinna betur stæðu. Fyrirmynd hinnar væntanlegu sögu var þegar til staðar, þar sem var niunda heftið af Pickwick Papers, sem hann hafði skrifað sjö árum áður. Þar í var sagan af Gabriel Grub, fúlum og ófélagslyndum grafara, sem snerist á veg velvilja og góðra verka eftir að púkar höfðu farið með hann út eitt aðfangadagskvöld og birt honum margar sýnir. Þegar Dickens kom aftur til London hóf hannað vinna að sögunni af miklum krafti, þó í frístundum væri frá öðrum verkum, sem hann þurfti að skila af sér. Sögunni var lokið seint í nóvember, og kom hún út með það sama hjá Chapman og Hall. Á aðfangadag þetta sama ár hafði hún selst í sex þúsund eintökum sem var gríðarleg sala á þeim tímum. Mannbætandi Jólasögur Jolaævintýrið, eða „Christmas Carol" (jólasöngur), eins og hún nefnist á frum- málinu, var hin fyrsta og vinsælasta af mörgum jólasögum Dickens, og það leikur ekki vafi á því, að Dickens gerði hina mannbætandi jólasögu vinsæla með henni. Jólaævintýrið markar tímamót í sögu auðlesins og heimilislegs skáldskapar. Það flutti kærleika og gleði að mörgum arnin- um. Gæsin Og p lómu- BÚÐINGURINN Ein fyrsta sviðsgerð „Ævintýrsins", er eftir Edward nokkur Stirling, hinn „síná- læga“, sem þótti afburðasnjall í að leikgera sögur Dickens, Harrison Ainsworth og fleiri. Var verkið frumflutt í leikhúsinu Royal Adelphi, sem þá var undir stjórn Thomas Gladstane, 4. febrúar 1844, réttu ári eftir að sagan kom fyrst út á prenti. í auglýsingu um sýninguna stóð að hún væri „eina leikgerðin sem C. Dickens hefði lagt blessun sina yfir“. Leikritið var „búið til flutnings og framleitt af hr. Edward Stirling. Að sjálfsögðu hafði hr. Dickens litið framhjá nokkrum af smásyndum Stirlings. Það var í þessu leikriti Stirlings, eða Lamberts, eins og hann mun hafa heitið réttu nafni, sem hinn vinsæli gamanleikari John Lawrence Toole, sló einna eftirminni- legast í gegn sem Bob Cratchit þann 14. janúar 1860 í Adelphi-leikhúsinu. Toole sagði í þessu sambandi eftirfarandi sögu: Þetta var þegar ég var að leika Bob Cratchit í „Jólaævintýrinu" hjá Adelphi- leikhúsinu sem hr. Webster rak. Á hverju kvöldi klukkan átta í fjörutíu daga, varð ég að bera fram gæs og plómubúðing. hr. Webster útvegaði raunverulegar gæsir og raunverulegan plómubúðing sem hvoru- tveggja var borið rjúkandi heitt fram fyrir frú Cratchit og litlu Cratchitbörnin sjö, litli Tommi að sjálfsögðu þar meðtalinn. Börnin fengu alltaf gríðarstóra skammta og öllu átu þau af bestu lyst hvert kvöld, en það sem olli mér áhyggjum var hegðun litlu stúlkunnar sem lék litla Tomma. Matarlyst þessa litla barns skelfdi mig. Ég komst ekki hjá því að taka eftir því með hvílíkum ógnarhraða hún neytti þess sem ég gaf henni, og hún sem var svo veikluleg og grönn, svo aumkunarverð að andlit hennar lét mig aldrei í friði. Ég var vanur að segja við sjálfan mig áður en ég byrj- aði: „Jæja, Tommi litli skal fá nægju sína í þetta skipti hvaö sem öðru líður,“ og ég setti meira og meira á diskinn hennar með hverju kvöldi, þar til ég man, að hún fékk einu sinni meira en hálfan fuglinn, fyrir utan kartöflur og eplasósu. Mig furðaði á því hvernig hún gæti yfir höfuð borið disk- inn að arninum þar sem hún settist á lágan koll svo sem sagan býður, hvað þá borðað af honum. Mér til undrunar bar hún diskinn, og lauk af honum jafnfljótt og af jafnmiklum ákafa og vanalega, ruddist síðan fram eftir plómubúðingnum ásamt hinum. Ég varð órólegur, og talaði við frú Alfred Mellen, sem lék frú Cratchit, og látið hafði þetta einkennilega fyrirbæri afskiptalaust. „Mér fellur þetta ekki,“ sagði ég. „Ég get ekki ímyndað mér hvar vesæl og veikluleg vera eins og þessi getur látið matinn." Mér var það ráðgáta, hvernig börnin héldu áfram að njóta góðgjörðanna í fjörutíu kvöld, því ég komst í þannig ástand, ef ég borðaði í húsi vinar, og gæs var á borðum, leit ég á það sem persónulega móðgun. „Þar að auki,“ sagði ég, „fellur mér ekki græðgi, og hún er sérlega óviðfelldin hjá fíngerðri, veiklulegri veru eins og þessari. Auk þess eyðileggur hún andrúmsloft leiksins, og þegar ég, sem Bob ætti að vera hluttekningarfyllstur, er ég alltaf að velta vöngum yfir því hvar gæsin og búðingurinn eru, eða hvort alvarlegt veikindakast komi yfir Tomma litla frammi fyrir áhorfend- um, vegna þess hve óeðlilega hann gleýpir." Frú Mellen hló að mér í fyrstu, en að lokum ákváðum við að horfa á Tomma litla í sameiningu. Við horfðum á eins vel og við gátum, og á því augnabliki sem Tommi litli settist og byrjaði að borða, tókum við eftir einkennilegri hreyfingu, líkt og ein- hver væri að læðast, við arininn á sviðinu, og allt sem ég hafði gefið henni, gæsin, kartöflurnar og eplasósan, hvarf bakvið eftirlíkinguna af ofninum. Barnið þóttist borða með sömu lystinni og áður, af tómum diskinum. Þegar sýningunni var lokið spurðum við frú Mellen litlu stúlkuna hvað orðið hefði af matnum sem hún hefði ekki borðað, og eftir dálítið hik, af ótta við að lenda í vandræðum, sem við fullvissuðum hana um að ekki gæti átt sér stað, játaði hún að litla systir hennar (ég verð að geta þess að þær voru dætur eins sviðmannanna), biði hinum megin við arininn á sviðinu eftir góðgætinu, og að öll fjölskyldan nyti gómsætrar máltíðar á hverju kvöldi, af hinum ríkulegu skömmtum sem ég, í gervi Bobs Cratchit, hafði fært Tomma litla. Dickens hafði mjög mikinn áhuga á þessu atviki. Þegar ég hafði lokið máli mínu, brosti hann dauft og að því er mér fannst dapurlega, og síðan sagði hann um leið og hann þrýsti hönd mína: „Ah! Þú hefðir átt að gefa henni alla gæsina." Margar LEIKGERÐIR Hinn fjölhæfi Seymour Hicks lék titil hlutverkið í útgáfu af „Ævintýrinu" sem J.C. Buckstone gerði, og nefnd var „Scro- oge“, í Veudeville-leikhúsinu 3. október 1901. Gerði hann mikla lukku í hlutverki gamla skröggsins. Margar fleiri sviðsút- gáfur hafa verið gerðar eftir þessu hug- næma verki, þar á meðal nokkrir söngleik- ir. Þá hefur það einnig oftar en einu sinni verið kvikmyndað, og er þar bæði um að ræða leiknar myndir og teiknaðar. í því sambandi má geta þess að Scrooge mun vera fyrirmynd hins vinsæla nirfils þeirra Ameríkana, Jóakims frænda, sem á ensk- unni er reynd'ar nefndur Scrooge. Einnig hafa verið gerðar útgáfur þessarar sögu fyrir sjónvarp, og hafa einhverjar þeirra verið sýndar hérlendis. „Jólaævintýrið", vekur alveg sérstakan áhuga sem ekki er af hreinum bókmennta- legum toga. Dickens las upp úr því, til ágóða fyrir nýju Midlandstofnunina, í ráð- húsinu í Birmingham 27. desmeber 1853, og var það í fyrsta skipti sem hann kom fram opinberlega, sem túlkandi eigin verka, en ekki hið síðasta, því hann var alla tíð vinsæll upplesari bæði úr sínum eigin leikrænu verkum og annarra. í síð- asta skiptið kom hann fram vorið 1870, farinn að heilsu og kröftum. Heimildir: Living Biographies: Famous Novelists by Henry Thomas and Dana Lee Thomas. A Christmas Carol by Charles Dickens, eftirmáli eftir Allen Lane. Dickens and the Drama by S.J. Adair Fitzgerald. Leikfélag Akureyrar frumsýndi ígær söngleikinn Jólaævintýri. Leikurinn byggir á sögu Dickens „A Christmas Carol“. Leikgerðin er eftir Leif Petersen og Jesper Jensen við tónlist eftir Allan Andersen, en þýðandi leiksins, Signý Pálsdóttir, og María Krist- jánsdóttir leikstjóri hafa gert nokkrar breytingar á leikgerðinni til samræmis við söguna. Kristján frá Djúpalæk þýddi söngtext- ana ogRoar Kvam stjórnar tónlistinni. Jólaævintýrið gerist fyrir miðja síðustu öld og fjallar um kaupmanninn Scrooge. Hann er samansaumaður nirfill og bregst hinn versti við öllu jólatilstandi. En þar sem hann situr einn yfir hafragrautnum sínum á sjálfa jólanóttina birtist honum draugurinn Marley, framliðinn meðeigandi hans. Marley sendir á hann þrjá anda; sem ferðast með Scrooge aftur og fram í tímann. Tilgangur þessara ævintýralegu ferða er að opna augu Scrooge fyrir þeim verðmætum lífsins sem mölur og ryð fá ekki grandað. Það er Arni Tryggvason, gestaleikari frá Þjóðleikhúsinu, sem fer á kostum í hlutverki nirfilsins, en í helstu hlutverkum öðrum eru Theodór Júlíusson, Þráinn Karlsson, Vilborg Halldórsdóttir, Barði Guðmundsson, Erla B. Skúladóttir, Pétur Eggerz, Þórey Aðalsteinsdóttir, Marinó Þorsteinsson, Björg Baldvinsdóttir og Jóhann Ögmundsóttir. Alls koma um 40 manns fram í sýning- unni, leikarar, dansarar, börn og hljóðfæraleikarar. Leikmynd hannaði Hlín Gunnarsdóttir, búninga Una Collins, lýsingu Ingvar Björnsson ogdansa Helga Alice. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 16. NÓVEMBER 1985 1 1

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.