Lesbók Morgunblaðsins - 31.10.1992, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 31.10.1992, Blaðsíða 2
KRISTJÁN J. GUNNARSSON Vetrarverk Óðum líður á haustið og akurliljumar falla því upplýsing norðurslóða í sumar var rekin með greisluhalla. Jafnvægi milli myrkurs og Ijóss er í alheimsins gangverki undirstöðuliður og því verður Drottinn daginn að skera niður. Frá nóttu til nætur verður það aukin vinna að vefja myrkrið innan í sængurfötin. En sængin slitnar í vetur og vorið gægist að lokum forvitið gegnum götin. Heims- reisan Þetta ferðalag planlaust stjórnlaust vitlaust. Þessi ferðaskrifstofa ábyrgðarlaus. Þessir sölumenn heimsreisunnar prókúrulausir. Þessir ferðalangar umkomulausir að hringja í forstjórann og kvarta. Þessi farsími sambandslaus gagnslaus. Þessi hæstráðandi drottnari áhyggjulaus með leyninúmer sem enginn þekkir. Skák Með opnunarleiknum ég ákvað að fórna peði. Ætlaði mér að vinna skiptamun. Leikfléttan tvinnast. Lagt er allt að veði. Lokasókn og hrun. Höfundur er fyrrverandi fræðslustjóri. Leiðrétting í grein Sigurðar Bjarnasonar frá Vigur í síðustu Lesbók um gamalt hús á sjávarbakk- anum, var minnst á Ólaf prófast á Stað á Reykjanesi. En hann hét fullu nafni Ólafur E. Johnsen. Sonur hans og Sigríðar Þorláks- dóttur, konu hans, var m.a. Þorlákur Ó. Johnson, kaupmaður í Reykjavík. Skal þetta hérmeð áréttað. í reykvískri verslun um 1910, sennilega Edinborgarverslun. KONURINN FYRIR BÚÐARBORÐIÐ Eftir GUÐJÓN FRIÐRIKSSON Fram undir aldamótin 1900 einskorð- aðist vinna kvenna mjög við hefð- bundin heimilisstörf í höfuðstað íslands. Flestar þeirra voru hús- mæður eða vinnukonur. Margar þessara kvenna gripu þó í einhveija launa- vinnu þegar hún gafst, svo sem fiskvinnu. Nokkur hópur kvenna lifði svo í lausa- mennsku og voru það oft fyrrverandi vinnu- konur, útslitnar og gamlar, sem urðu að hafa ofan af fyrir sér með þvottum, sauma- skap, kúarekstri, mótekju, vatnsburði, upp- og útskipun eða annarri tilfallandi vinnu. Einu konurnar í embættismannastétt voru ljósmæður, en í verslunar- og iðnaðarstétt voru engar ef frá eru taldar nokkrar sauma- konur. Sighvatur Bjarnason segir í fyrir- lestri sínum um verslunarlífið í Reykjavík um 1870 að enginn kvenmaður hafi þá ver- ið fastur starfsmaður við verslun. Þær kom- ust ekki hærra en að bera vörupoka á bak- inu eða á handbörum eða þegar best lét að „sortéra" eða flokka ull í pakkhúsi. Eftir 1880 fór smám saman að verða breyting á þessu og einkum eftir aldamót tóku reyk- vískar konur að stunda störf, sem einungis karlmenn höfðu sinnt áður, og var það til merkis um nýjan hugsunarhátt og breyting- ar á atvinnuháttum þjóðarinnar. Fáeinar konur, aðallega úr efri stéttum, fóru að stunda atvinnurekstur upp á eigin spýtur en aðrar réðu sig til starfa sem búðardömur og skrifstofustúlkur. Fyrir 1880 voru búðirnar í Reykjavík eins konar allsheijarkramvörubúðir þar sem öllu ægði saman. Og það sem meira var. Búðirn- ar voru jafnframt helstu krár bæjarins. Þar hímdu karlarnar hvenær sem því var við komið og keyptu ódýrt brennivín eða sníktu það. Auk þessa voru búðirnar yfirleitt sóða- legar, dimmar og kaldar og þvj ekki beint aðlaðandi fyrir kvenfólk. Sómakærar konur voguðu sér varla inn fyrir dyr þar vegna brennivínsberserkja sem alltaf mátti eiga von á og áttu það til að senda þeim tóninn. Guðrún Borgfjörð kom ung stúlka til Reykjavíkur árið 1865 til að setjast þar að ásamt foreldrum sínum og systkinum. Hún segir í endurminningum sínum: „Það var varla komandi inn fyrir kvenfólk í margar búðir, því að vanalega, þegar þær fóru út, kom gusa af ýmsum ókvæðisorðum á eftir þeim og náttúrlega hlátur með... Ég segi fyrir mig, að ég fór aldrei í þá búð, nema ég væri knúð til þess.“ Ef virðulegar frúr eða heldri manna dætur komu inn í verslun í höfuðstaðnum var þeim boðið bak við inn fyrir búðarborðið til þess að þær þyrftu ekki að standa innan um „dónana“. Um- komuleysi fátækra kvenna, sém ekki hlutu slíka meðhöndlun, má skynja í grein sem óþekktur sveitakarl skrifaði í eitt blaðanna árið 1895: „Kvenfólk er oft, ef ekki eru frúr, ríkis- mannakonur eða ásjálegar yngismeyjar og þessleiðis fólk, látið standa fyrir utan búðar- borðið, innan um misjafnlega siðaða karl- menn, þangað til einhver mannúðlegur mað- ur kemur þeim á framfæri. Kvenfólk þarf þó oft að fá fljóta afgreiðslu, þó það sé fátækt, það getur verið móðir, sem þarf einhvers með handa sjúku barni, sem hún hefur orðið að skilja eftir eitt heima ...“ Um og eftir 1880 fór aðeins að bera á nýjum brag í verslunarháttum í Reykjavík og aukinni samkeppni. Kaupmenn sáu sér hag í því að reyna að laða kvenfólk að versl- unum með því að hafa vefnaðarvöru í sér- stökum deildum þar sem þær gátu verið í friði fyrir óknyttastrákum og fylliröftum. Mun Smithsverslun í Hafnarstræti 18 hafa riðið þar á vaðið er þar var opnuð sérstök álnavöru- og dömudeild um .1880. Norskur kaupmaður, Matthías Johannessen að nafni, gekk enn lengra, líklega nokkrum árum síð- ar. Hann opnaði sérstaka dömubúð og réð til hennar tvær stúlkur til að afgreiða og segir Guðrún Borgfjörð að þær hafi verið fyrstu stúlkurnar í Reykjavík til þess að standa í búð. Þær voru frænkur og hétu Gabriella Benediktsdóttir (f. 1861, síðar Manberg) og Sigríður Möller (f. 1865, síðar Blöndal). Árið 1887, að því er yfirleitt er talið, gerðust þau tíðindi i Reykjavík að rúmlega fimmtug ekkja, frú Augusta Svendsen (1835-1924), keypti sér borgarabréf og hóf eigin verslun í Reykjavík. Hún hafði verið gift kaupmanni á Austfjörðum en missti hann eftir skamma sambúð og stóð þá uppi með tvær hendur tómar og þijú lítil börn. Hún fluttist fyrst til Kaupmannahafnar en síðan til Reykjavíkur 1886 og kom undir sig fótunum „með dæmafáu þreki, iðjusemi og hyggindum", eins og sagði í minningar- grein um hana. Verslun hennar var glit- sauma- og hannyrðaverslun, sú fyrsta sinn- ar tegundar í höfuðstaðnum. Frú Augusta varð þannig fyrst kaupkvenna í Reykjavík. Byijaði hún verslun sína í litlu þakherbergi í Þingholtsstræti 18 og verslaði aðallega með svuntur og slifsi og annað sem hæfði íslenska búningnum. Pantaði hún efnið í þetta að mestu leyti frá París og saumaði síðan sjálf og seldi. Smátt og smátt færði hún út kvíarnar og fór að selja alls konar handavinnu. Um tíma var verslunin í Skóla- stræti 1 en árið 1901 keypti hún stórt og myndarlegt timburhús í Aðalstræti 12 og þar var verslunin um langan aldur. Augusta Svendsen tók sér í byijun 17 ára aðstoðar- stúlku í búðina, Guðrúnu Heilmann að nafni, og taldi hún sig seinna fyrstu búðardömu í Reykjavík, en sennilega hafa þær Gabri- ella og Sigríður þó verið á undan henni. Önnur kaupkonan er yfirleitt talin Ingi- björg Johnson, sem byijaði að versla í húsi sínu eftir 1892. Hún var eiginkona Þorláks Ó. Johnsons kaupmanns, sem um þær mund- ir missti heilsuna, en verslun hans hafði þá liðið undir lok og fjölskyldan orðin eignalaus að mestu. Kom í hlut Ingibjargar að sjá heimilinu farborða. Keypti hún silkiefni frá Sviss og Þýskalandi, sneið sundur og bjó til slifsi og svuntur sem hún seldi í dag- stofu sinni. Síðar færði hún verslun sína á neðri hæð, við eitt lítið borð, en varninginn fékk Ingibjörg þá með aðstoð Edinborgar- verslunar. Verslun Ingibjargar Johnson varð brátt ein þekktasta hannyrðaverslun Reykjavíkur. Rak Ingibjörg hana til dauða- dags, 1920, en þá tóku dætur hennar við. Eftir aldamót varð æ algengara að konur stunduðu kaupmennsku. I bæjarskrá Reykjavíkur 1909 eru alls 39 konur taldar upp í verslunarstétt. Þar eru 26 konur titlað- ar búðarmeyjar, tíu kaupmenn, ein klæð- sali, ein verslari og ein verslunarstjóri. Þarna mun þó langt í frá að öll kurl séu komin til grafar. Verslunarstörf meðal kvenna voru orðin nokkuð algeng um 1910. Þá voru 6.434 konur í Reykjavík, þar af 3.791 á aldrinum 20-70 ára, og má giska á að ekki færri en 100 þeirra hafi stundað verslunar- störf eða a.m.k. 3% kvenna á vinnualdri. Þá er til skrá yfir útgefin borgarabréf á árunum 1900-1917 og voru á þeim tíma gefin út alls 536 slík bréf, af þeim fengu konur 64, eða um 12% allra bréfanna. Ekki er þó víst að allar konurnar hafi notfært sér borgarabréfm og í nokkrum tilfellum voru þetta konur manna sem orðið höfðu gjaldþrota, en þeir hugðust halda áfram verslun undir nafni eiginkvenna sinna. Þróun í átt til sérverslunar og deildskiptr- ar verslunar var ör um aldamótin 1900 og má segja að konur hafi þar helgað sér viss svið í verslun þar sem þær urðu mikilsráð- andi eða jafnvel allsráðandi. Þar má nefna álnavöru, fatnað, snyrtivöru, skartgripi, búsáhöld, blóm, mjólk og brauðvörur. Þetta voru þeir vöruflokkar sem konum voru kunnugastar úr heimilisstörfum. Flestar voru verslanir þeirra í fremur smáum stíl og stundum inni á heimilum.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.