Lesbók Morgunblaðsins - 15.01.2000, Page 8

Lesbók Morgunblaðsins - 15.01.2000, Page 8
ÞJOÐSAGA AF UILLIAM O RUANAIGH HERMANN PALSSON FÆRÐI URIRSKU Fornar rústir á Irlandi. Iþjóðsögum íra og íslendinga verður mörgu saman blandað; með báðum þessum þjóðum þótti sjálfsagt að segja írá viðburðum sem aldrei höfðu gerst nema í hugskotum gáfaðrar alþýðu. Frá raunheimi örbirgðar og kúgunar verður ekki nema steinsnar að mannbetri ver- öld og veðursælli, þar sem snauðum kot- karli er sýnd jafn mikil virðing og prestum og öðrum höfðingjum þessa heims. Þótt skammt sé á milli þessara tveggja heima í vildarsögum beggja þjóða, þá verður engum auðratað um þvílíkar slóðir nema hann beri skyn á eðli ís- lenskrar og írskrar sagnalistar og átti sig á þeirri kímni sem rennur eins og rauður þráður um frásagnir fólks við úthafið sjálft. Sú kímni getur verið undarlega létt, enda skapaðist hún með fólki sem gekk undir þungu oki áþjánar og harðstjómar um margra alda bil. Þjóðsagan af Uilliam 0 Ruamaigh var færð í letur á ofanverðri nítjándu öld. Hún segir frá snauðum bónda á Vestur-írlandi og því ævin- týri að hann kynnist galdramanni sem gerir ná- kvæma eftirmynd af karli. Þessi tvífari bónda andast og er lagður tii hinstu hvíldar meðan Li- am sjálfur seíúr löngum svefni í kynlegu húsi við landamæri þessa heims og annars - og þó í átthögum hans. En þegar karl kemst aftur á stjá ber ýmislegt við og þykir ekki allt með felldu. Skal nú ekki fjölyrða um þetta lengur heldur snúa sér að sögunni sjálfri. Einu sinni í fymdinni var maður sem hét Uilliam 0 Ruanaigh og átti heima skammt frá Clár-Gaillimh.2 Hann var bóndi. Einn góðan veðurdag kemur landeigandi til hans og segir: „Þú skuldar mér þriggja ára leigu, og ef þú greiðir mér ekki fyrir næstu helgi þá rek ég þig útágaddinn." „Eg ætla að skreppa út í Gaillimh í fyrramál- ið og selja þar hlass af hveiti, og þegar ég fæ verðið fyrir það skal ég gjalda þér skuldina," sagði Liam.3 Morguninn eftir hleður Liam hveiti í kerruna sína og heldur síðan áleiðis til Gaillimhs. Þegar hann var kominn svo sem hálfa aðra mílu að heiman kemur heldri maður í veg fyrir hann og spyr: „Er þetta hveiti sem þú ert með í kerr- unni?“ „Já,“ sagði Liam. „Ég ætla að selja þetta svo að ég geti greitt landskuldina." „Hve mikið er þetta?“ spyr heldri maðurinn. „Ósvikið tonn,“ segir Liam. „Ég skal kaupa þetta af þér,“ segir heldri maðurinn. „Ég greiði þér hæsta markaðsverð. þegar þú kemur að næstu vagnslóð til vinstri, þá skaltu víkja þangað og halda svo áfram þangað til þú kemur að stóru húsi í dalnum. Ég skal bíða þín þar með beinharða peninga.“ Þegar Liam kemur að vagnslóðinni snýr hann þvers þangað og heldur svo eftir henni uns hann kemur að risulegum bæ. Honum þykir kynlega bregða við, því að hann var borinn og bamfæddur á næstu grösum og hafði aldrei augum litið þetta stórhýsi, og þó þóttist hann kannast við hvert einasta hús sem stóð innan fimm mílna heiman að frá honum. Þegar Liam kemur að skemmunni sem stóð skammt frá stórhýsinu kemur lítill sveinstauli út og segir: „Liami 0 Ruanaigh sé fagnað hundrað þúsund sinnum!“ Síðan setur piltur sekk á bak sér og fer með hann inn í skemmu. Næst kemur annar snáði út, fagnaði Liami, lagði sekk á bak sér og fór með hann. Með slíku móti kemur hver piltur á fætur öðrum: fagnar fyrst Liami og setur síðan sekk á bak sér uns allt hveititonnið er horfið inn í hlöðu. Þá þyrpast allir piltamir í kringum Liam, og honum verður að orði: „Þið þekkið mig allir en ég kannast ekki við neinn ykkar.“ Þeir sögðu þá við hann: „Gakktu í bæinn og snæddu náttverð. Meistarinn bíður þín þar.“ Liam fer inn og sest að borði, en hann hafði naumast kyngt tveim munnbitum þegar svefn- höfgi sækir að honum svo að karl hnígur undir borð. Þá gerir galdrameistari mannlíkan í mynd Liams og sendir það heim til húsfreyju hans með kapli og kerru. Þegar þangað kemur fer líkanið upp á loft, leggst niður á rúmið og deyr. Fréttin er ekki lengi að berast út að nú sé Li- am dauður. Konan kveikti undir katli, og þegar vatnið var orðið nógu heitt, þvær hún líkið og leggur á fjalir. Brátt koma grannar að vaka yfir líkinu og harma fráfall hans. Vesalings konan naut mikillar samúðar, en hún var þó ekki sér- lega sorgbitin, enda var Liam aldri orpinn og hún sjálf í blóma lífsins. Daginn eftir var líkið jarðsungið og þaðan í frá datt engum í hug að minnast Liams framar. Hjá húsfreyju var vinnumaður, og nú segir hún við hann: „Þú ættir að taka mig fyrir eigin- konu og ganga mér svo í bónda stað.“ „Það er alltof brátt enn sem komið er,“ segir piltur. „Nýlátinn maður á bænum. Bíddu þang- að til Liam hefur legið í moldu svo sem eina viku.“ Þegar Liam sjálfur hefur sofið sjö daga og sjö nætur kemur lítill drengsnáði og vekur hann. „Nú hefur þú sofið heila viku,“ sagði snáðinn. „Við höfum þegar sent hestinn og kerruna heim. Hér eru peningamir þínir og farðu nú af stað.“ Liam hverfur heimleiðis, og með því að komið var fram á nótt varð enginn hans var. Morguninn áður höfðu þau farið á stúfana húsfreyja Liams og vinnumaður og beðið prest- inn að vígja þau saman. „Komuð þið með vígslutollinn?" spyr klerkur. „Nei,“ segir konan. „En ég á svín heima og þér getið fengið það í staðinn íyrir peninga." Prestur gefur þau saman og segir síðan: „Ég sendi eftir svíninu í fyrramálið." Þegar Liam kom heim að bæjardyrunum sín- um ber hann bylmings högg á hurðina. Hús- freyja og vinnupiltur eru þá á leiðinni í bólið og spurðu: „Hver er þarna á ferð?“ „Það er ég," segir Liam. „Opnaðu dymar fyr- ir mér!“ Þegar þau heyrðu röddina könnuðust þau undir eins við að þetta var hann Liam. Og konan sagði: „Ég get ekki hleypt þér inn og þú mátt skammast þín fyrir að ganga aftur eftir sjö daga hvíld í gröfinni." „Ertu gengin af göflunum?“ segir Liam. „Ég er engan veginn gengin af göflunum,“ segir konan. „Hver einasta hræða í sveitinni veit að þú ert dauður, enda lét ég jarða þig sóma-samlega. Farðu aftur í gröfina og ég skal láta syngja messu á morgun fyrir sálartetrinu þínu.“ „Bíddu við þangað til lýsir af degi,“ sagði Li- am, „og þá skal ég launa þér spott og spé.“ Því næst fór bóndi út í kofann þar sem hest- urinn hans og svínið höfðust við, lagðist niður í hálm og steinsofnaði. í býti morguninn eftir segir prestur við vika- pilt sinn: „Farðu út að bænum hans Liams. Konan sem ég gifti í gær lætur þig fá svín sem þú skalt koma með hingað.“ Pilturinn kemur að bæjardyram og fer að berja hurðina með prikinu sínu. Húsfreyja þorði ekki að ljúka upp dyram og spurði hver væri þar á ferð. „Það er ég,“ svaraði piltur. „Presturinn sendi mig eftir svrninu þínu.“ „Það er úti í kofa,“ segir konan. Piltur fer inn i kofann og reynir að reka svínið út. Þá settist Liam upp við dogg og kallaði: „Hvert ætlarðu með svínið mitt?“ Þegar piltur kom auga á Liam tók hann til fótanna, og án þess að staldra nokkru sinni við eða horfa um öxl hljóp hann alla leið heim til prests, viti sínu fjær af skelfingu. „Hvað gengur að þér?“ spyr klerkur. Pilturinn sagði að Liam Ruanaigh hefði verið í kofanum og meinað sér að taka svínið. „Þegiðu, lygarinn þinn!“ segir prestur. „Hann Liam er steindauður og hefur nú legið heila viku í gröfinni." „Þótt hann hefði dáið fyrir sjö árum, þá sá ég hann í kofanum fyrir örfáum andartökum. Og ef þér trúið mér ekki þá skuluð þér koma sjálfur og reka yðar eigin skyggnur á bónda.“ Síðan fara þeir prestur og piltur heim að kofadyram. Þá segir prestur: „Skjóstu nú inn og rektu svínið út til mín.“ „Ég stíg aldrei fæti þangað, jafnvel þótt allar eigur yður stæðu mér til boða,“ segir piltur. Prestur gekk þá inn sjálfur og reyndi að reka svínið út, en þá sprettur Liam upp úr hálminum og spyr: „HVert ætlið þér með svínið mitt, séra Patrekur?11 Þegar prestur sá Liam rísa á fætur stökk hann í burtu og hrópaði: „í guðs nafni skipa ég þér, Uilliam 0 Ruanaigh, að fara aftur í gröf- ina!“ Liam hljóp í humátt á eftir og kallaði: „Séra Patrekur, erað þér með öllum mjalla? Dokið við og talið við mig!“ Prestur beið ekki boðanna heldur hljóp hann heim sem fætur toguðu og skellti hurðinni á lás á eftir sér. Liam fer að hamra á dyram og held- ur því áfram þangað til hann er dauðlúinn, en prestur hleypti honum aldrei inn. Loksins rek- ur hann höfuðið út um glugga uppi á lofti og kallaði niður: „Uilliam 0 Ruanaigh, farðu aftur í gröfina þína!“ „Þér erað ær og örvita, séra Patrekur. Ég er ekki dauður og aldrei á minni lífs fæddri ævi hef ég hírst í neinni gröf,“ sagði Liam. „Ég sá þig örendan sjálfur,11 segir prestur. „Dauða þinn bar brátt að höndum, og ég var til staðar þegar þú varst lagður til hinstu hvíldar, flutti raunar prýðisræðu yfir moldum þínum.“ „Fjandinn fjarri mér! Svo sannarlega sem ég er bráðlifandi, þá erað þér ekki með réttu ráði!“ segir Liam. „Farðu undir eins burt úr augsýn mér,“ segir prestur. „Og þá skal ég syngja þér messu í fyrramálið." Liam fór nú heim og drap á dyr hjá sér, en konan hleypir honum ekki inn. Þá tautar hann fyrir munni sér: „Nú skal ég bregða við og greiða landskuldina.“ Á leiðinni til landeiganda hljóp hver maður í ósköpum burtu sem varð á vegi Liams, enda vissu allir að hann var dauður. Og þegar landeigandi heyrði að Liam var að koma, þá lokaði hann öllum dyram og neitaði að hleypa honum inn. Liam lét höggin dynja svo hart á hurðir að landsdrottinn hélt að bóndi mundi brjóta þær niður og fór því út í kvist- glugga og spurði: „Hvað viltu?“ „Eg er hingað kominn þeii'ra erinda að greiða þér landskuld, rétt eins og hver annar skilríkur náungi.“ „Farðu aftur í gröfina,11 segir landeigandi. „Og j)á skal ég gefa þér upp alla leiguna." „Ég fer aldrei héðan,“ segir Liam, „fyrr en ég fæ það skriflegt frá þér að ég hafi goldið mínar landskuldir að fullu fram að næstu fardögum.“ Landeigandi gefur honum þetta skriflegt, og Liam heldur heimleiðis. Hann drepur enn að dyram heima hjá sér, en konan neitar að hleypa honum inn, enda sagði hún að Liam sjálfur væri dauður og grafinn og maðurinn utan dyra hinn argasti svikari. „Ég er enginn svikari," sagði Liam. „Ég var rétt áðan að gjalda landsdrottni þriggja ára leigu; ég vil vera húsbóndi á mínu heimili og vita hvað hér sé á seyði.“ Hann snarast út í skemmu, nær sér í öflugan járnkarl og er ekki lengi að brjótast gegnum dyrnar. Konan var miklum ótta slegin og einnig nýja bóndamyndin hennar. Þau héldu að upp- risutíð holdsins væri rannin upp og heimsendi færi í hönd. „Af hverju hélstu að ég væri dauður?" spyr Liam. „Rétt eins og hver einasta hræða í sókninni viti ekki að þú ert dauður!" segir konan. „Fjandinn fjarri þér!“ segir Liam. „Nú hef- urðu nógu lengi skopast að mér. Gefðu mér eitt- hvað í gogginn.“ Vesalings konan var skelfingu lostin og skammtaði honum þó einhvern matarbita. Þeg- ar hún sá hann snæða og drekka varð henni að orði: „Þetta er sannkallað kraftaverk." Þá sagði Liam henni alla sólarsöguna, og þegar hann hafði lýst hverju einasta atviki bætti hann við: ,Á morgun ætla ég út að gröf- inni og sjá hvers konar þijót þið hafið jarðsett í minn stað.“ Daginn eftir fór Liam með hóp af mönnum út í kirkjugarð, og þá rafu þeir gröfina. Þegar þeir ætluðu að opna kistuna sjálfa og lyftu henni upp stökk stór, svartur hundur út úr henni og skaust út í buskann. Þeir Liam hlupu á eftii' honum og eltu hann þangað til þeir sáu hann hverfa inn í húsið þar sem Liam hafði sofið. Þá opnaðist jörðin og svalg húsið; síðan hefur eng- inn maður litið það augum. En allt fram á þenna dag má sjá þar mikla jarðholu. Á heimleið sinni sögðu þeir Liam og kumpán- ar hans sóknarpresti allt sem við hafði borið, og hann leysti í sundur hjúskap þeirra vinnupilts og húsfreyju Liams. Liam lifði mörg ár eftir þetta og lét eftir sig mikil auðævi. Hans er ennþá minnst í Clár-Ga- illimh og þannig verður það um allar aldir - svo lengi sem þessi saga gengur frá gamla fólkinu til hinna sem yngri era. 1 írsku gerðina gaf Douglas Hyde út, ásamt með enskri þýðingu, í bókinni Beside the Fire. A Coliection oflrish Ga- elic Folk Stories (London 1910), bls. 90-103. 2 Gaillimh kallast Galway á ensku. 3 Liam er stytting á nafninu Uilliam (= Vilhjálmur). 4 Á irsku eru prestar jafnan ávarpaðir með orðinu athair - ,faðir?. 8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS - MENNING/LISTIR 15. JANÚAR 2000

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.