Morgunblaðið - 08.04.2001, Blaðsíða 5

Morgunblaðið - 08.04.2001, Blaðsíða 5
5ÆVI OG STÖRF / SR. SIGURBJÖRN EINARSSON SUNNUDAGUR 8. APRÍL 2001 sæta sjávarföllum, fara á liggjandanum, eins og kallað er, eða með föllum og betra að kunna á sjó og strauma. En það kunnu þeir vel Skógstrend- ingar og eyjamenn. Bátur var fylgifé með staðn- um, en hann var ónýtur, þegar ég tók við. Ein eyja tilheyrði Breiðabólstað, Flatey, en hún var lítil og kostarýr og borgaði sig ekki að hafa bát hennar vegna. Það situr í minningunni, þegar fólk dreif að á sumardegi til að sækja messu, fór af baki við túnhliðið, hefti hestana og bjó sig til kirkjunnar og síðan samverustundirnar með fólkinu í kirkj- unni og heima á eftir. Ég á líka góðar minningar frá húsvitjunum mínum á bæjunum. Þar hitti ég fyrir greindarfólk, margfróðar gamlar konur og guðræknar og svo börnin auðvitað, sem voru þroskavænleg. Skólabörnin sem ég kenndi eru mér mjög minnisstæð, annan veturinn höfðum við skólann heima á prestssetrinu, þá var þröngt um okkur, en ekki fjörlaust heimilislíf. Í þessum hópi voru greind börn og skemmtileg. Sá nem- enda þessa skóla, sem kunnastur varð, hét Sig- fús Daðason. Kirkjubóndinn á Narfeyri hét Vilhjálmur Ög- mundsson. Hann var merkilegur maður, af- burða stærðfræðingur. Hann var verzlunar- skólagenginn og las stærðfræðirit á erlendum tungumálum. Og hann gerði sjálfstæðar upp- götvanir í stærðfræði, sem fjallað var um í fag- tímaritum erlendum. Hann var einn af þessum fágætu snillingum, sem öðru hverju koma fram meðal alþýðu manna á Íslandi, en jafnframt var hann ákaflega yfirlætislaus maður, hlýr og traustur. Hann var einn traustasti bóndi í sveit- inni og nýtur maður í sveitarmálum. Hann var góður kirkjubóndi og við áttum gott sálufélag, þótt lítið gæti ég nú stutt hann í stærðfræðinni!“ Það fer ekkert á milli mála, að Sigurbjörn hef- ur mikla ánægju af að rifja upp árin á Breiðaból- stað. „Því er þó ekki að neita að mér fannst þessi verkahringur takmarkaður til langframa, en eftir á þykir mér vænt um að hafa fengið að standa í honum þennan tíma. Frumbýlingsárun- um fylgja að jafnaði einhverjir erfiðleikar, en þau verða yfirleitt mjög fyrirferðarmikil í minn- ingunni þegar frá líður. Torfærur, sem menn komast yfir óskemmdir, verða skemmtilegir förunautar í huganum, og birtan frá góðum at- vikum og reynslu verður enn sterkari, hafi mað- ur þurft að taka á og standa í erfiði.“ En presturinn á Breiðabólstað sveiflar ekki bara orfinu. Hann mundar líka pennann, semur langar hugvekjur um kirkjuleg málefni og sum- arið 1940 semur hann bókina Kirkja Krists í ríki Hitlers, sem kom út það ár og varð umdeild vegna þess hvernig höfundur fjallaði um glímu nazismans við kirkju og kristindóm. Það er ljóst að hann er nú vaxinn upp úr bernskudraumnum um að sitja á prestssetri og stýra góðu búi, eiga góða hesta og láta til sín taka í sveitinni. Hann segir sjálfur að enda þótt hann uni sér vel við útiverkin á Breiðabólstað og þyki notalegt að umgangast kýr og hross, síður sauðfé, þá sé úr honum allur hugur til þess að verða bóndi. Hann þyrstir í annan og stærri verkahring. Fimmtánda desember fara fram fyrstu prestskosningarnar í þremur nýjum prestaköll- um í Reykjavík. Sextán guðfræðingar og prest- ar bjóða sig fram og er Sigurbjörn Einarsson meðal sex umsækjenda um tvö embætti Hall- grímssóknar. Tiltölulega stór hluti bæjarbúa lætur sig þetta einhverju skipta, auðvitað af sundurleitum ástæðum. Sigurbjörn segir, að í nokkrar vikur hafi í mörgu húsi verið meira talað um presta og vígstöðu þeirra en um stríðið. „Ég var þetta sumar að heyja á búi mínu vest- ur á Breiðabólstað og kom suður seint í sept- ember til að fylgjast með prentun bókarkvers, sem ég hafði sett saman í hjáverkum vestra. Með því riti vildi ég vekja athygli á því, hvers kirkja Krists mætti vænta, ef nazisminn sigraði. Of mörgum duldist, hverju sú stefna bjó yfir. Ég flutti erindi um þetta í júní, sem var útvarpað, og skrifaði tímaritsgrein. Og nú kom bókin. Ýmsum þótti ég vera of munnhvatur og óvarkár í tali um þetta efni. Ýmsir mér velviljaðir sögðu, að ég gerði ekki annað en að spilla fyrir mér með þessu háttalagi, ef ég ætlaði að sækja um prestsembætti í Hallgrímssókn, sem þeir vildu og hvöttu mig til. Og ég ákvað það. En ég fór heim, þegar bókin var komin út, þurfti að gegna störfum þar og sinna haustverk- um á búi mínu. Ég var því lítilvirkur í sambandi við kosninguna, var þó í bænum meðan koll- hríðin stóð yfir, en fór heim daginn eftir að kosið var. Úrslitin voru ekki kunn fyrr en eftir þrjá daga og þau heyrði ég í útvarpi. Ég beið síðan átekta.“ Atkvæði falla þannig, að Sigurbjörn hlýtur flest atkvæði umsækjenda; 2.140, en 4.640 kusu. Það dregst fram yfir áramót að skipa nýju prestana. Kosningin er ekki bindandi, en ráð- herra, Hermann Jónasson, á úr öðrum vanda að ráða. Hugur hans stendur til að skipa Jakob Jónsson í annað embættið, en hann varð aðeins fjórði umsækjenda að atkvæðamagni; bæði Jón Auðuns og Sigurjón Þ. Árnason koma nær Sig- urbirni en hann og eiga sér atkvæðamikla stuðningsmenn báðir tveir. Ráðherra tekur svo af skarið 7. janúar 1941 og skipar Sigurbjörn og Jakob presta Hallgrímssafnaðar. „Þegar loks skipunin kom, átti ég engan veg- inn heimangengt í bili. Auk þess var mesta ótíð upp úr áramótum. En þar kom að ég brauzt suður um heiðar í mikilli ófærð. Við séra Jakob vorum settir inn í Dómkirkjunni annan febrúar og fengum síðan að messa þar og í Fríkirkjunni eftir því sem á stóð. Ég var einn míns liðs til vors, sótti þá skyldu- lið og búslóð og fékk opinn vélbát til þess að flytja allt saman fyrsta áfangann. Þorkell minn á þriðja ári horfði út yfir borðstokkinn, þegar við lögðum frá landi. Hann var hljóður og hugsi lengi, en sagði loks. „Stór sjór og hann er djúp- ur.“ Mér fannst barnið vera að segja hug minn á þessum tímamótum. Ég hafði lagt út á mikið djúp, þegar ég ungur og óreyndur, tókst á hendur prestsþjónustu í svo fjölmennu prestakalli sem Hallgrímssókn. Oft hef ég síðan, þegar ég hef gengið um göt- urnar í prestakallinu, fundið hvernig mér var innanbrjósts þá. Innan allra veggja var fólk, mikill fjöldi í hverju húsi, erfiðismenn í meiri- hluta, stritandi barnafólk og börnin alls staðar. Þau voru prýðin á annars fátæklegri götumynd. Hvað gat ég verið öllu þessu fólki? Hafði það hugsanlega eitthvað til mín að sækja? Það var auðvelt að húsvitja á Skógarströnd, jafnvel að ganga bæ frá bæ, sveitina á enda, eins og ég gerði fyrsta haustið mitt meðan ég var enn hest- laus, og gefa sér góðan tíma á hverjum bæ. Í nýja starfinu var vonlaust að húsvitja þannig. Bjarnaborg var þá fullsetin, stærsta fjölbýlishús landsins, og mér hnykkti við, þegar ég áttaði mig á því, að þar var undir einu þaki svo margt fólk, að það slagaði drjúgum upp í töluna á þeim sóknarbörnum, sem ég bar ábyrgð á vestur á Snæfellsnesi. En þótt engin væri kirkjan í Hallgrímssókn, lagðist mér annað til, sem er verðmætara en öll ytri umgjörð. Ég mætti mikilli góðvild sóknar- barna minna, tiltrú og uppörvun.“ Hernámið setur sérstakan brag á mannlífið í Hallgrímssókn, sem annars staðar í bænum, og hans gætir í störfum sóknarprestsins. En einn starfi Sigurbjörns fer ef til vill öðrum fremur hærra og nær sú ókyrrð langt út fyrir sókn- armörkin. Vilmundur Jónsson landlæknir skrifar í júlí- byrjun 1941 bréf til dómsmálaráðuneytisins, þar sem hann vekur athygli á tölum, sem lög- reglan hafi undir höndum, um fjölda kvenna og stúlkubarna, sem séu á glapstigum. Dómsmála- ráðherra skipar nefnd til að rannsaka málið og er Sigurbjörn einn þriggja nefndarmanna. Skýrsla „Ástandsnefndarinnar“ leiðir til harðra umræðna í þjóðfélaginu og sér Sigurbjörn sig á endanum tilneyddan til að bera af sér spjótalög- in í langri grein í Morgunblaðinu. Einnig mót- mæla brezk hernaðaryfirvöld og má segja, að þau líti á þennan sóknarprest í Hallgrímssókn sem fjandmann sinn. En í ljósi bókar hans um kirkju Krists í ríki Hitlers gengur ekki að núa honum því um nasir að hann sé hliðhollur naz- istum! Leitin að aðstöðu fyrir guðsþjónustu innan prestakallsins endar í Austurbæjarbarnaskól- anum. Styrjöldin er í algleymingi. „Fermingarsonur minn var einmitt fyrir nokkru að rifja það upp við mig, að þegar hann var að ganga til spurninga hjá mér, kom fyrir, að upphófst þetta nístandi væl í loftvarnaflaut- um, sem boðaði að stórmorðingjar væru að koma yfir landið með helsprengjur. Þá urðu allir að flýja sem skjótast inn í næsta loftvarnar- byrgi, hvað sem prestinum leið eða öðru. Kjall- arasalur í suðurálmu Austurbæjarskólans var útbúinn sem loftvarnabyrgi vorið 1940. Engum datt þá í hug, að sú vistarvera fengi síðar það hlutverk líka að vera guðsþjónustustaður. Nema Guði hafi dottið eitthvað í hug? Var þetta kannski ábending frá honum um það, hvert er að leita undan öllum djöfuldómi, að hann er hæli og styrkur og örugg hjálp í nauðum, eins og menn hafa vitað og játað frá kyni til kyns? Var hann með þessu að minna á, að jörðin, hrakin og hrjáð, saurguð, sár og blóðug, á það fyrirheit frá honum, að hún eigi að breytast úr myrkvuðu hæli flóttamanna undan þeirri skelfingu, sem þeir eru sjálfum sér, og verða helgidómur, þar sem Jesús Kristur er tilbeðinn, þar sem Guði kærleikans er þjónað og friður hans ríkir? Þetta vildi hann segja okkur í þessum dimma sal, þar sem hann gaf svo marga bjarta stund.“ En þótt kirkja fyrirfinnist engin á þessum tíma, eru stórhuga menn farnir að undirbúa byggingu hennar. En mörgum þykir meira en nóg um stórhuginn. Þegar 300 ár eru liðin frá því Hallgrímur Pétursson var vígður til prests, er efnt til útiguðsþjónustu á Skólavörðuhæð, þar sem sóknarprestarnir, Sigurbjörn og Jakob predika. Sigurbjörn leggur út af textanum; „Þá sögðu þeir: Vér viljum fara til og byggja! Og þeir styrktu hendur sínar til hins góða verks- ins.“ Frá Jerúsalem víkur Sigurbjörn sér á Skólavörðuhæðina: „Ágreiningur nokkur um gerð fyrirhugaðrar kirkju hefir engu jákvæðu til vegar komið, en fyrst og fremst verið mikill fagnaður þeim óvinum málsins, sem enga kirkju vilja, hvorki hjer nje annarsstaðar, og sem minnstan kristindóm, bæði hjer í Reykjavík og alstaðar annars. Og í þeim hópi, sem er vonandi fámennur en sýnilega furðu öflugur, eru menn með nákvæmlega sama smekk og sömu hollustu við málefni Guðs og valdspersónan, sem kallaði Hallgrím nývígðan „líðilegan slordóna“. Og á sveif með þeim hefir lagst dómgreind og góðfýsi sömu tegundar og birtist í orðunum frægu: „All- an skrattann vígja þeir.“ Jeg legg ekki alla and- stöðumenn þessa máls að líku. En þeir, sem hafa beitt sjer fyrir þeirri andstöðu á bak við tjöldin og opinberlega af metnaði einum, öfund og hroka, eða blindum fjandskap við kirkju Krists, þeir munu verða að svara fyrir það á sínum tíma, að þeir höfðu illt verk með höndum, myrkraverk. Því heiti jeg þeim í nafni Guðs.“ Þessi predikun Sigurbjörns verður tilefni greinaskrifa í blöð og kemur hreyfingu á málið. Nú má sjá langt að, hvar Hallgrímskirkja er ris- in á Skólavörðuhæð. „Þó að reglubundnar húsvitjanir væru óhugs- andi í þessu prestakalli, þá kom ég að sjálfsögðu víða, á heimili fermingarbarna, skírnir og hjóna- vígslur fóru oftast fram í heimahúsum, oftast raunar í litlu stofunni okkar heima. Þá var Magnea organistinn. Hún var lengi ólaunaður organisti bæði á Breiðabólstað og í Hallgríms- sókn, hún hefur eiginlega verið í ólaunuðu leyfi mestalla ævina, enda orðin níræð! Og þegar við vorum að skíra eða gifta, urðu einhverjir að passa óróabelgi hússins, svo að ekki yrðu hneykslanleg helgispjöll. Það lenti lengstum á ömmunni í húsinu. Nærri má geta að ég þurfti að koma í margt sorgarhús. Hver útför hófst með húskveðju á heimili hins látna. Þá var enn algengt, að las- burða fólk og aldrað væri í heimahúsum. Ég fékk að kynnast helguðu fólki, sem alla ævi hafði byggt á og ávaxtað með sér trúararfinn úr for- eldrahúsum, oftast snauðum. Það kunni margar bænir og mörg heilræði. Og fór ekki dult með það, að þetta hefði dugað bezt í hörðum heimi, strangri lífsbaráttu og miklu mótlæti stundum. Þarna mætti ég lifandi Hallgrímskirkju, fólki, sem kunni Passíusálmana jafnvel orði til orðs. Það hafði fengið „blessun og nýja krafta“ við brunninn þann. Þetta heyrði ég játað af reynslu og þakkað í bæn. Og marga krónu fékk ég úr lúnum lófa handa Hallgrímskirkju. Þar var eyr- ir ekkjunnar, þar var ilmur af dýrustu smyrslum, sem er þakklæti hjartans fyrir eilífa hjálp Drottins, og hann gleðst yfir slíkri gjöf, hvað sem smásálir segja eða hrópa. Ég fann orð og anda, traust og trú Hallgríms. Húsin eru horfin mörg, en sum standa enn og minna mig á ógleymanleg augnablik.“ „Haustið 1943 var ég allt í einu staddur á vegamótum, algerlega fyrirvaralaust og óvænt. Magnús Jónsson, prófessor og þáverandi for- seti guðfræðideildar, kom til mín og bað mig að taka við kennslu í deildinni. Svo væri mál með vexti, að Sigurði Einarssyni yrði vikið úr starfi, því samkennarar hans hefðu kært hann fyrir vanrækslur og óreglu. Yrði nefnd kvödd til að rannsaka ákæruefnin. Taldi Magnús ekki vafa á, hver niðurstaða hennar hlyti að verða. Þar með myndi sú staða losna, sem Sigurður hafði skipað. Nú þyrfti deildin mann, sem leysti vanda hennar í bili og myndi þá væntanlega taka við starfinu til frambúðar, ef hann kærði sig um. Þetta kom flatt upp á mig. Ég vissi að vísu, að Sigurður átti í erfiðleikum og alkunnugt var, að hann hafði komizt að deildinni með sögulegum hætti og mjög gegn vilja þeirra mætu manna, sem þar voru kennarar fyrir. En að þessi stórræði væru á döfinni varði mig ekki. Ég vissi meira um erfiða einkahagi séra Sig- urðar en margur annar. Líka vissi ég, að stúd- entar voru honum hliðhollir. Það var augljóst, að hér var verið að tefla mér í vanda, sem ég hefði ekki kosið yfir mig að sjálfráðu. Í fyrsta lagi hafði mér ekki komið til hugar að hverfa frá Hallgrímssöfnuði. Ég undi mér hið bezta þar, þrátt fyrir erfiða starfsaðstöðu, og ekki hafði ég haft tök á að sinna fræðastörfum að neinu marki jafnframt kröfufreku prests- starfi. Í öðru lagi var ekki fýsilegt að ganga með þeim hætti, sem hér var um að ræða, inn í vand- ræði manna, sem allir voru vinir mínir en áttust illt við, svo að með fádæmum var. Magnús Jónsson var mikill mælskumaður og eitt mesta glæsimenni samtímans, bæði í sjón en einkum að gáfum, miklum og fjölþættum. Úr honum hefði sannarlega mátt gera marga menn og alla æði gervilega og atkvæðamikla. En svo fór hann frá mér í þetta sinn, að ég hafði ekki gefið honum ádrátt um að taka þetta að mér. Ég hef víst ekki staðizt annað eins áhlaup öðru sinni, nema þegar Haraldur Guðmunds- son, þremur árum seinna sat yfir mér lengi næt- ur til þess að fá mig á framboðslista Alþýðu- flokksins við alþingiskosningar, og þar á lista, að ég ætti þingsæti víst. Hann fór hryggbrotinn frá mér. En seinna gafst ég upp fyrir öðrum vinum mínum og þá vegna þess, að ég gat með því að taka fjórða sæti á listanum tryggt að Gylfi Þ. Gíslason yrði þar í öruggu sæti og kæmist á þing, annars gat það ekki orðið í það sinn. Ég hef víst ekki unnið óumdeilanlegt þarfaverk í stjórnmálum annað en þetta. Það fór líka svo eftir mikinn þrýsting og um- brot í huganum, að ég tók að mér kennsluna í guðfræðideild þennan vetur samhliða prests- starfinu.“ Rannsóknin yfir séra Sigurði leiðir ekkert í ljós, sem staðfestir kæruna á hendur honum. Hann getur þess vegna horfið aftur að starfi sínu. En hann kýs að segja af sér og þiggja stöðu, sem ráðherra býður honum, heldur en að stríða áfram á fyrri hólmi. Eftir tvö ár gerist hann prestur í Holti undir Eyjafjöllum, þar sem hann að sögn Sigurbjörns nýtur sín vel sem sá kennimaður og skáld, sem hann er að upplagi. En eftirleikur tekur við. Það kemur í ljós, að kennarar guðfræðideildar vilja fá bættan að fullu þann ósigur, sem þeir biðu sjö árum áður fyrir Haraldi Guðmundssyni, kennslumálaráð- herra, og fá að deildinni þann mann, séra Björn Magnússon, sem þá hafði orðið að rýma sæti fyrir séra Sigurði. Þetta er ekki í samræmi við það, sem Sig- urbjörn hefur ástæðu til að ganga út frá. Hann langar ekki til að standa í vegi fyrir séra Birni,

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.