Morgunblaðið - 14.11.2001, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 14.11.2001, Blaðsíða 4
4 B MIÐVIKUDAGUR 14. NÓVEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ BÆKUR Bóla – með Bólu í bæjarferð er fyrsta skáldsaga Sigrún- ar Eddu Björns- dóttur leikkonu. Sagan birtist fyrst á skjá Ríkissjón- varpsins 1990. Bóla býr á Þing- völlum og henni finnst tími til kominn að fara til Reykjavíkur með Hnúti vini sínum og taka þátt í 17. júní hátíðahöldunum. Ferðin til borgarinnar gengur ekki átakalaust fyrir sig og það er alveg ævintýralegt að hve mörgu þarf að hyggja áður en farið er í slíkan leið- angur. Þau hitta margt áhugavert fólk, svo sem Vestur-Íslending sem á tyggjó, Grana lögregluþjón, lífsglaða róna og síðast en ekki síst hitta þau Jón Sigurðsson forseta. Útgefandi er Iðunn. Bókin er 64 bls., prentuð í Prentsmiðju Odda hf. Verð: 1.980 kr. Farðu nú að sofa! og Pétur og putti konungur eru ætl- aðar fólki á leik- skólaaldri. Bæk- urnar eru eftir þýska höfundinn Bärbel Spathelf, þar sem tekið er á hvunndagslegum vandamálum á ævintýralegan hátt. Þýðandi er Nanna Rögnvalds- dóttir. Farðu nú að sofa! fjallar um Kötlu sem á erfitt með að sofna á kvöldin því hún er hrædd við skrímsl- in sem kunna að leynast í náttmyrkr- inu. Pétur, stóri bróðir Kötlu, gefur henni svefnmúsina sína og með henni vinnur Katla bug á hræðslunni við myrkrið. Bókinni fylgir mjúk svefnmús. Pétur og Putti konungur segir frá Pétri sem er kominn á eldri deildina í leikskólanum en sýgur ennþá þum- alfingurinn þegar hann fer að sofa. Mamma Péturs fær snjalla hug- mynd og teiknar lítið andlit á þum- alfingurinn. Þar með er Putti konungur kominn til sögunnar og hann vill ekki að Pétur stingi sér í munninn. Útgefandi er Iðunn. Bækurnar eru 30 bls. hvor, prentaðar í Belgíu. Sus- anne Szesny myndskreytti. Verð: 1.490 kr. hvor bók. Börn Björg – ævisaga Bjargar C. Þor- láksson er skráð af Sigríði Dúnu Kristmunds- dóttur prófessor í mannfræði. Björg fæddist árið 1874 í Vest- urhópshólum í Húnaþingi. Hún varð fyrsta íslenska konan til að ljúka doktorsprófi. Í kynningu segir m.a.: „Hér er greint frá fræðistörfum Bjargar og þátttöku hennar í kvennabaráttunni á fyrstu áratugum tuttugustu aldar, veru hennar í Þýskalandi og Frakk- landi og baráttu hennar við illvíga sjúkdóma. Þetta er saga konu sem skóp sig sjálf í trássi við viðteknar hugmyndir um hlutverk kvenna, hetjusaga og harmsaga mikillar konu og merks brautryðjanda.“ Útgefandi er JPV útgáfa. Bókin er 403 bls., prentuð í Odda. Hunang hannaði kápu. Verð: 4.980 kr. Ævisaga Gersemar goð- anna er fyrsta skáldsaga Selmu Ágústsdóttur. Höfundur sæk- ir í arf norrænnar goðafræði og spinnur vef þar sem goðsagnir og skáldskapur tvinnast saman. Systkinin Baldur og Sóley eru í heimsókn hjá Nóa afa sínum sem er um margt óvenjulegur karl. Hann er einfari og býr í bát sem rak upp á land í fárviðri fyrir áratugum síð- an. Fyrstu nóttina hjá afa á Baldur erfitt með að sofna og einhverra hluta vegna vekur báturinn óhug innra með honum. Dularfull og ágeng hljóð berast inn til hans og þegar hann loksins sofnar taka ill öfl völdin og leiða hann inn í skuggalega veröld. Útgefandi er Ið- unn. Bókin er 77 bls., prentuð í Prentsmiðjunni Odda hf. Ingibjörg Ágústsdóttir myndskreytti bókina. Verð: 1.980 kr. Gilitrutt er í nýjum búningi lista- mannsins Krist- ins G. Jóhanns- sonar. Í kynningu seg- ir: „Vatns- litamyndir hans gæða Gilitrutt ein- stæðu lífi og kveikja hugmyndaflug allra barna.“ Útgefandi er Bókaútgáfan Hólar. Bókin er 32 bls., prentuð í Lettlandi. Verð: 1.890 kr. SJÁVARPLÁSS hafa löngum orðið að sögusviði íslenskra skáld- sagna. Enn eru þau útverðir ís- lensks mannlífs þótt víða halli undan fæti. Í skáldsögunni, Hótel Kali- fornía, eftir Stefán Mána er varpað ljósi á slíkt mannlíf í tilbúnu plássi, Gömluvík. Það er ekki upphafið og ekki fagurt, mestanpart einkennist það af harðri lífsbaráttu, fiski og slori. Ein persóna sög- unnar segist aldrei venjast því. Að koma „í þetta guðsvolaða krummaskuð, svona um haust, er eins og að ganga ofan í niðdimmt, ískalt grafhýsi, fullt af dauða og myrkri og andskotans engu“. Við lestur sögunnar fær lesandi tilfinningu fyrir þessu tómi, þess- ari auðn andans og til- verunnar og ef til vill hefur sú upplifun víð- tækari skírskotun en bara til þorpsveruleik- ans. Eigi að síður er það sá veruleiki sem við skoðum. Sögutíminn er í kringum 1980. Tilveran markast af vinnu í fiski, pylsuáti í sjoppuræfli, einhæfum skemmtunum, drykkju, vonleysi og lágkúru. Jafnvel heil- brigt líferni, nánd við náttúru og fjölskyldu nær ekki að fylla tómið. Samt má líta á söguna sem þroska- sögu ungs manns, aðalpersónunnar sem reynir að fóta sig í tilverunni og hefur háleitari markmið en að bíða alla ævi eftir þúsund þorskum á færibandinu sem færast nær. En lífsskilyrði og brothætt persónugerð kemur í veg fyrir þau markmið ná- ist. Þá gengur allt á afturfótunum í kvennamálum og ungi maðurinn verður stöðugt innhverfari og óör- uggari með sig. Höfundur leitast við að skapa innri spennu með unga manninum uns hún nær suðumarki og upp úr sýður. Að því leytinu til er sagan grimm- úðleg, lífssýnin full af bölmóði og sneydd allri bjartsýni. Sögustíllinn einkennist af 1. persónu frásögn. Sagan er allt að því natúralísk í raunsæi sínu framan af, uppfull af smáatriðum, jafnvel nákvæmum skírskotunum til vörumerkja og popphljómsveita en um fram allt er sú veröld sem lýst er hráslagaleg. Höfundur veltir sér töluvert upp úr slori, óþrifnaði, neyslu vímugjafa og ælupollum til að túlka tómlega til- veru sögumanns en raunar leysist raunsær textinn upp í lokin með innri upp- lausn persónunnar í anda expressíonískrar frásagnar. Þessi upp- lausn gerir sögunni gott því hún hæfir efn- inu. Í heild virkar þessi skáldsaga nokkuð vel á mig því að auk þessa fer höfundur þokkalega með samtöl sem mikið er af í skáldsögunni. Aftur á móti finnst mér sumt í henni nokkuð klisjukennt, t.d. öll þessi lágkúra þorps- búa. Einhvern veginn hef ég á til- finningunni að þar mótist sögu- hneigðin af of þröngu sjónarhorni og vanmati á því lífi sem lifað er í þorp- um. Þá þykir mér það nokkur brota- löm á verkinu að upplausn aðalper- sónunnar og óöryggi er ekki nógu vel undirbyggð. Framan af er unga manninum lýst sem sjálfstæðu nátt- úrubarni, e.t.v. ofurlitlum einfara en hann er fremur heilsteyptur; úr- ræðagóður og viljasterkur. Þegar á söguna líður virkar hann hins vegar sem rekald. Persónugerðin og til- vistarnauðin falla ekki saman svo að skáldsagan verður dálítið ótrúverð- ugari fyrir bragðið. Hvað sem því líður er skáldsagan virðingarverð tilraun til úttektar á íslensku samfélagi, einkum tilver- unni í sjávarplássi. Jafnframt má túlka hana sem tilvistarlega könnun því að höfundur reynir að varpa ljósi á örlög einstaklinga við erfið skil- yrði. Maðurinn er býsna einn í þeirri lífssýn sem okkur birtist í sögunni og virðist ekki eiga í neitt skjól að venda. Öll samskipti eru harð- neskjuleg og allt að því grimm. Kannski er þetta sú upplifun sem kynslóð Stefáns Mána hefur af líf- inu. Í þessari úttekt er raunar fólg- inn meginstyrkur skáldsögunnar hvað sem líður einstökum þáttum hennar. Þúsund þorskar á færibandinu BÆKUR Skáldsaga HÓTEL KALIFORNÍA eftir Stefán Mána. Forlagið. 2001, 232 bls. Skafti Þ. Halldórsson Stefán Máni NOKKUR dular- og ævintýra- ljómi lék löngum um nafn Jóhanns Péturssonar Svarfdælings, eða Jó- hanns risa, eins og hann var oft nefndur í daglegu tali. Eins og svo oft vill verða um landa, sem dveljast mikinn hluta ævinnar í útlöndum, vissi fólk hér heima fátt um hann með nokkurri vissu og þess vegna spunnust um hann sögur. Voru þær margar með nokkrum ævintýrablæ og mögnuðust frekar en hitt eftir því sem á leið og þær voru oftar sagðar. En hver var Jóhann Svarfdæling- ur, hvað gerði hann svo sérstakan sem raun bar vitni og hvers vegna eyddi hann miklum hluta ævinnar fjarri heimahögum? Þessum spurn- ingum er öllum skilmerkilega svarað í þesari nýju ævisögu Jóhanns eftir Jón Hjaltason sagnfræðing. Jóhann Kristinn Pétursson, eins og hann hét fullu nafni, fæddist á Akureyri árið 1913, en ólst upp á Dalvík og víðar í Svarfaðardal, þar sem hann átti heima allt þar til hann hleypti heim- draganum og hélt utan í atvinnuleit árið 1935. Eftir það átti hann heimili sitt í útlöndum nánast alla ævi, fyrst í Evrópu en síðar í Bandaríkjunum. Einu undantekningarnar voru árin 1945–1948, er hann reyndi árangurs- laust að skapa sér lífs- viðurværi hér á landi, og síðustu tvö æviárin sem hann eyddi hér heima, fyrst í Reykja- vík en síðan á Dalvík. Hann lést á Dalvík und- ir árslok 1984. Jóhann vakti ungur athygli fyrir stærð sína og hlaut af þeim sökum ýmis viðurnefni, hin al- gengustu voru að lík- indum „Jóhann risi“ og „Jói risi“. Fram yfir fermingu var að vísu ekk- ert óeðlilegt við líkamsvöxt hans, en eftir það tók hann að vaxa hraðar og meira en aðrir menn og varð að lok- um vel á þriðja metra á hæð. Sem ungur maður vann hann ýmis venju- leg störf til sjós og lands, en fótar- mein, sem átti rætur að rekja til of þröngra stígvéla, olli því að hann varð að hætta sjómennsku. Þá hélt hann utan að undirlagi Steingríms Matthíassonar læknis og lifði eftir því á því að sýna sjálfan sig í ýmsum sirkusum og sýningarflokkum aust- an hafs og vestan. Því hlutskipti undi hann jafnan illa, en átti vart annarra kosta völ. Í þessari bók rekur Jón Hjaltason ævihlaup Jóhanns Péturssonar og tekst það vel. Svo sem vænta mátti frá hendi Jóns er bókin ágætlega skrifuð og skemmtileg aflestrar. Mestu skiptir þó að hann er trúr söguhetjunni, reynir hvergi að fegra ævi hans eða sveipa hana töfraljóma, en sýnir lesandanum Jóhann eins og hann var og dregur enga dul á, að hlutskipti hans í lífinu var næsta ömurlegt. Með miklum rétti má kalla ævisögu Jóhanns harmsögu. Hann var sjálfur ósáttur við að þurfa að lifa á því að sýna sig, þjáðist af einsemd hin síðari ár ævinnar og saknaði þess lífs, sem hann hefði getað lifað á Ís- landi, þrátt fyrir stærðina. Þá er frá- sögnin af samskiptum hans við dótt- ur sína í Danmörku einkar fróðleg og varpar ljósi á skoðanir hans og lífs- viðhorf. Ekki fer hjá því að ýmsar spurn- ingar vakni við lestur þessarar bók- ar, og þá fyrst, hvers vegna lék ís- lenskt samfélag Jóhann svo grátt sem raun bar vitni? Fótarmein olli því að hann varð að hætta sjó- mennsku, sem honum hafði annars líkað vel, og þá mælti Steingrímur Matthíasson með því að hann héldi utan og reyndi að fá vinnu þar. Far- areyri var safnað, Svarfdælahreppur lánaði fé og utan hélt Jóhann í fylgd Steingríms, sem hafði hann m.a. með sér sem hálfgerðan sýningargrip á læknaþing. Þar svaraði hann gagn- rýni sænsks starfsbróður síns með því að halda fram sama bulli og dr. Helgi Pjeturss hafði áður gert um að ofvöxtur Jóhanns væri tákn um kom- andi glæsileika Íslendinga, sem væru augsýnilega að ná sömu hæð og á víkingaöld og myndu bráðlega vaxa a.m.k. öðrum Norðurlandaþjóð- um yfir höfuð! Svona hundalógikk hefði vitaskuld átt að verða þeim Steingrími og Helga til ævarandi skammar og einhvernveginn læðist sá grunur að lesandanum, að Stein- grímur hafi ekki verið alls kostar sáttur við þátt sinn í málinu. Hann reyndi að hjálpa, en of seint. Þá hljótum við líka að spyrja hvort ekki hefði verið útlátaminna fyrir alla aðila að búa svo að Jóhanni að hann gæti stundað atvinnu hér heima en að senda hann til útlanda. Sama máli gegnir um undirtektir bæjaryfirvalda í Reykjavík við beiðnum hans um aðstöðu til versl- unarrekstrar hér eftir stríðið. Þeim var ýmist hafnað eða ekki sinnt. Voru Íslendingar kannski undir niðri svolítið montnir af þessum stóra landa sínum í útlöndum? Margar bráðskemmtilegar ljós- myndir prýða bókina og allur frá- gangur hennar er til sóma. Lífshlaup Svarfdælings BÆKUR Ævisaga OF STÓR FYRIR ÍSLAND. ÆVISAGA JÓHANNS RISA Höfundur: Jón Hjaltason. Bókaútgáfan Hólar, Akureyri 2001. 255 bls., myndir. Jón Þ. Þór Jóhann Pétursson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.