Morgunblaðið - 05.10.2002, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 05.10.2002, Blaðsíða 6
6 ∼ Lesbók Handritasýning 2002 Morgunblaðið verðu; að auki eru 11 blöð frá 17. öld, sem hefur verið bætt inn til fyll- ingar. Í Möðruvallabók eru 11 Íslendingasögur, og væru sumar þeirra að- eins til í brotum ef texta hennar nyti ekki við: Njáls saga, Egils saga, Finnboga saga, Bandamanna saga, Kormaks saga, Víga-Glúms saga, Droplaugarsona saga, Ölkofra saga, Hallfreðar saga, Laxdæla saga og Fóstbræðra saga. Aftan við Egils sögu er Arinbjarnarkviða sem ekki er til annars staðar. Hún er á blaðsíðu sem orðið hefur svo hart úti að kvæðið allt er nú mjög torlesið, og hluti þess hefur reynst ólæsilegur með öllu. Á krossmessu vorið 1628 var bókin í stóru baðstofunni á Möðruvöllum, og ritaði Magnús lögmaður Björnsson á Munkaþverá (d. 1662) í hana nafn sitt, dag og stað. Eftir þeirri klausu var bókinni gefið heiti seint á 19. öld. Björn sonur Magnúsar sigldi með bókina til Kaupmannahafnar árið 1684 og gaf hana Thomas Bartholin, konunglegum fornfræðingi. Eft- ir andlát Bartholins 1690 komst Möðruvallabók í eigu Árna Magn- ússonar. Þá er á sýningunni Kálfalækjarbók Náls sögu. Í þessu handriti er Njáls saga en ekki annað efni. Sjö eyður eru í texta sögunnar, af því að glatast hafa blöð úr bókinni. Efni tveggja af þessum eyðum er til í papp- írshandritum. Á sínum tíma hefur handritið verið hið glæsilegasta, fag- urlega skrifað og myndskreytt en myndlýsingar eru fátíðar á miðalda- handritum Íslendingasagna. Handritið var ritað um miðja 14. öld og er með bestu handritum Njálu sem er talin samin um 1290. Hún er varð- veitt í yfir 50 handritum og talin einna víðlesnust Íslendingasagna. Árni Magnússon fékk Kálfalækjarbók árið 1697 frá séra Þórði Jónssyni á Staðastað (d. 1720), en til hans kom hún frá Finni bónda Jónssyni á Kálfalæk í Mýrasýslu, og af því hefur bókin fengið nafnið Kálfalækj- arbók. Tveir þriðju hlutar Hauksbókar eru enn á Árnasafni í Kaupmannahöfn en sá þriðji er hérlendis og sýndur á sýningunni meðal annarra dýrgripa. Sá hluti sem er til sýnis geymir Landnámabók í sérstakri gerð sem Haukur Erlendsson lögmaður (d. 1334) setti saman úr eldri gerðum, og Kristni sögu. Hauksbók var að drýgstum hluta rituð af Hauki 1302–1310 og er rithönd hans elsta rithönd nafngreinds Íslendings. Af upphaflegum 45 blöðum í þessum hluta bókarinnar eru einungis 18 til nú, en gott eft- irrit var gert á 17. öld áður en blöðin týndust og er það varðveitt. Auk sagnfræðilegs efnis er Eiríks saga rauða og ýmsar aðrar sögur í Hauksbók, þýðingar erlendra sagnarita og ýmis fróðleikur á sviði stærð- fræði, landafræði og guðfræði. Loks er kvæðið Völuspá í handritinu. Í Landnámu sinni rekur Haukur ættir sínar til nokkurra landnámsmanna og í Eiríks sögu rauða kemur fram að hann er áttundi ættliður frá Snorra Þorfinnssyni, fyrsta Evrópumanninum sem fæddist á meginlandi Norður- Ameríku. Þá er á sýningunni 17. aldar handrit að Íslendingabók Ara fróða. Hinn 21. apríl árið 1651 sat presturinn Í Villingaholti í Flóa, séra Jón Er- lendsson (d. 1672) og skrifaði Íslendingabók Ara fróða eftir gömlu skinn- handriti. Brynjólfur Sveinsson biskup í Skálholti (d. 1675) hafði sent honum skinnhandritið sem hefur verið ævafornt, líklega skrifað um 1200, minna en öld eftir að Ari fróði setti bókina saman. Séra Jón var einn ágætasti skrifari 17. aldar, vandaði verk sitt sem mest hann mátti og reyndi að fylgja stafsetningu hins forna handrits. Þó var biskup ekki fyllilega ánægður þegar hann fékk eftirritið og bað séra Jón að skrifa Íslendingabók upp aftur og vanda sig enn meira, enda var honum ljóst hve mikilvægt ritið var. Séra Jón tók nú til aftur, sennilega skömmu síðar, og gerði annað eftirrit enn nákvæmara, það sem nú er AM 113 b fol. Árni Magnússon eignaðist bæði þessi handrit, hvort úr sinni áttinni. Hann rannsakaði þau vandlega og bar saman, og á spássíur í 113 b hefur hann krotað talsvert um mismun þeirra. Honum varð ljóst að í 113 b var betri texti, og það hafa síðari rannsóknir staðfest. Bókin kom aftur heim til Íslands árið 1974. Þá er á sýningunni 16. aldar handrit að Margrétar sögu. Saga af heil- agri Margréti er ein hinna fjölmörgu sagna af heilögum mönnum sem þýddar voru á norrænu úr latínu. Heilög Margrét var á fyrri öldum áköll- uð til hjálpar konum í barnsnauð og stundum voru handrit Margrétar sögu lögð við lær sængurkvenna til þess að létta þeim fæðingu. Máð letr- ið sem sjá má á sýningarhandritinu á kveraskilum er ef til vill vísbend- ing um að bókin eða kver úr henni hafi verið höfð til slíkra nota. Mörg handrit sögunnar eru til frá því eftir siðbreytingu og hún hefur jafnvel verið skrifuð upp á þessari öld. Fáein íslensk handrit eru til sem varðveita ýmiskonar töfra sem áttu að hjálpa til að leysa úr daglegum vanda manna. Meðal sýningargripa er lít- ið 17. aldar kver frá óþekktum skrifara sem safnað hefur ýmsum töfrum, meðal annars særing til að gera smyrsl. Að lokum er á sýningunni 18. aldar handrit, Melsteðs Edda, sem fjöl- skylda Arnar Arnar, ræðismanns Íslands í Minnesota, gaf Árnastofnun árið 2000. Gísli Sigurðsson fjallar sérstaklega um handritið í ritgerð sinni „Melsteðs Edda: Síðasta handritið heim?“ og segir handritið skrifað af Jakobi Sigurðssyni í Vopnafirði á árunum 1765 og 1766. Millifyr- irsagnir eru blaðsins. „Þótt handritið hafi ekki komið heim með freygátu bandaríska sjóhers- ins, og þótt ekki hafi verið gefið frí í skólum með beinni sjónvarps- útsendingu, þá er samt ástæða til að fagna þessari heimkomu. En hvaða handrit er þetta? Er það eitthvað merkilegt? Og – hvað er merkilegt við handrit? Oft hafa handrit verið metin eftir því hvort þau geymdu elstu gerðir texta tiltekinna verka, eins og til dæmis Konungsbók eddukvæða sem er merkileg fyrir þ sök að hún er eina heimild okkar um flest þau eddukvæði sem þekkt eru. Eða horft hefur verið til ytra útlits og skreyti- listar, eins og í Flateyjarbók sem er ríkulega gert og skreytt safnrit fjöl- margra texta sem margir hverjir eru til í eldri og svokölluðum „upp- runalegri“ gerðum. Sé Melsteðs Edda metin á þessum kvörðum verður ef til vill ekki mik- ið úr henni. Þeir textar sem í henni eru byggjast á eldri og þekktum handritum eða prentuðum bókum þannig að textagildi handritsins er lítið þegar kemur að leitinni að hinum upphaflega texta fornrita. En í henni eru átta fallega myndskreytt blöð með myndum úr goðafræðinni, höf- uðprýði bókarinnar, af sama meiði og myndir í handriti séra Ólafs Brynj- ólfssonar á Kirkjubæ í Hróarstungu, sem hann skrifaði 1760, og varðveitt er í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn. Ólafur dó 1765, árið sem Mel- steðs Edda var skrifuð, og Eiríkur sonur hans hefur sennilega selt þetta edduhandrit föður síns til að eiga fyrir brennivíni í Kaupmannahöfn – eins og Jón Helgason getur sér til um í Handritaspjalli. En er þetta þá bara ómerkilegt handrit, af „absolut ingen værdi,“ eins og Finnur Jónsson, prófessor í Kaupmannahöfn, sagði stundum um ung pappírshandrit? Og svarið er „nei!“ Þótt Melsteðs Edda sé ekki heimild um upphaflegan texta né frumlega myndlist þá er hún merkileg heimild um menningarástand og viðhorf fólks til þess fornmenntaarfs sem hún geymir – og hefur jafnvel gegnt sínu litla hlutverki við að tengja sögu nú- tímalistar á Íslandi við myndlistarhefð handritanna. Jakob Sigurðsson skrifaði og myndskreytti fjölmörg handrit á sinni tíð, á milli þess sem hann fluttist með sívaxandi fjölskyldu á milli kota á Austurlandi. Á Landsbókasafni eru 14 safnnúmer um handrit hans, hið mesta uppá 339 blöð með 15 riddara-, ævintýra- og fornaldarsögum. Þá skrifaði hann sálmahandrit sem Handritastofnun, forveri Árnastofnunar, fékk að gjöf árið 1967. Af því tilefni birti Benedikt Gíslason frá Hofteigi mikla grein um Jakob í Jólablaði Þjóðviljans. Þar leiðir hann líkur að því að Jakob hafi alist upp hjá séra Ólafi Brynjólfssyni á Kirkjubæ og lært þar að skrifa, þannig að skyldleiki við handrit Ólafs er ekki mikið undr- unarefni. Jakob hóf síðan búskap upp úr tvítugu með Ingveldi Sigurð- ardóttur árið 1749 og bjó þá í Jórvík í Breiðdal, en þau fara eftir það á milli kota í Vopnafirði uns Jakob deyr á Breiðumýri þar í sveit 1779, rétt liðlega fimmtugur faðir að minnsta kosti sjö barna. Skólaganga og verald- arauður komu ekki við ævisögu Jakobs en hin andlegu gildi hafa verið þeim mun meiri eins og sjá má af þessari vísu sem ort var um hann lát- inn: Nú er Jakob fallinn frá frí við raunir harðar skrifari bæði og skáld var sá, skemmtun Vopnafjarðar. Melsteðs Edda er því fagur vitnisburður um andlega auðlegð í fátækt- arbasli 18. aldar og myndi ein duga til að fá Jakobi virðulegan sess í stóru íslensku skrifarabókinni þegar hún kemur út. En hvað er í þessu handriti og hvað segir það okkur um viðtökur fornra fræða og umhugsun manna um þau? Í þeim formálum Snorra Eddu sem hér eru skrifaðir er fylgt megingerð- inni sem þekkt er úr Wormsbók Snorra Eddu. Í þessum formálum er gert miklu meira að því að bera hina norrænu goðafræði saman við hina klassísku en áður tíðkaðist – þótt tengingin við Tróju hafi verið við lýði frá fyrstu tíð. Og það er greinilegt af því sem þar segir um þá tengingu að menn hafa vitað vel af því hvernig hinar klassísku goðsögur voru notaðar til að fjalla um fyrirbæri himinhvolfsins, reikistjörnurnar Júpíter, Sat- úrnus, Úranus, Mars og Venus eða Freyju, og stjörnumerkin, en goðsögur gegna einmitt því hlutverki í hefðbundnum samfélögum víða um heim að vera tungumál stjarnfræðinnar. Hér sjáum við því sams konar hugsun að verki andspænis norrænum goðsögum og þekkt er annars staðar að. Það er líka athyglisvert að þessir eddutextar skuli vera á bók með dagatali, þar sem einnig er greint frá stöðu himintungla, og reiknifræði sem hvort tveggja er þekking af sama meiði. Melsteðs Edda er því merkilegur vitn- isburður um það að á 18. öld hafi hinn forni skilningur á tengslum goð- sagna við himinhvolfið enn verið vakandi, og eddulist ekki eingöngu ver- ið bundin við að að heyja sér orðaforða til skáldskapariðkunar. Og fer vel á því að þessi Edda komi til okkar frá byggðum Vesturíslendinga, frá sömu slóðum og hýstu Björn heitinn Jónsson í Swan River í Manitoba- fylki í Kanada en hann var einna ötulastur samtímamanna okkar við að benda á hvernig hægt væri að túlka hin fornu fræði í skini stjörnuhvels- ins (sbr. bók hans Stjarnvísi í Eddum). „Á með rjettu Bókina Eddu“ Á aftasta blaði handritsins, þegar búið er að rekja ættir frá Adam til Óðins í 43. lið og enda á biskupi Jóni Arasyni á Hólum í 76. lið frá Adam, koma þrjú nöfn þeirra sem líklega hafa átt bókina. Þar er efstur á blaði Gísli Gíslason í Skörðum sem „á með rjettu Bókina Eddu“. Gísli var uppi 1797–1859, bóndi, skáld og bókbindari í Skörðum í Reykja- hverfi og átti sjálfur 68 bindi bóka þegar hann dó. Gísli bjó um skeið á Auðnum í Laxárdal, hjáleigu Þverár, en í band bókarinnar var notað rifr- ildi úr bréfi Jóns Sigurðssonar forseta til Jóns Jóakimssonar á Þverá, föð- ur Benedikts á Auðnum – og tengir það handritið óbeint við sjálfstæð- isbaráttuna. Gísli var faðir Arngríms málara (1829–1887) og þar kemur að því að Melsteðs Edda gæti hafa leikið merkilegt hlutverk við að koma arfi myndlýsinga í handritum áleiðis inn í nútímamyndlist. Í ævisögu Arngríms eftir Kristján Eldjárn (bls. 83) er þessi frásögn, höfð eftir Sig- urjóni Þorgrímssyni frá Hraunkoti, sem var um skeið vert á Húsavík, en hann hafði heyrt Arngrím segja frá þessum fyrstu tilburðum sínum í myndagerð: Það var að vorlagi, góð tíð, heimilisfólk í Skörðum flest farið til kirkju, en Arngrímur sat heima. Myndabók lá uppi á hillu í baðstofunni. Dreng- urinn seildist eftir bókinni, hljóp með hana út og upp í Skarðaháls, fór að teikna og gleymdi stund og stað. Þegar fólkið kom heim frá kirkjunni vissi enginn hvað af honum hafði orðið. Var hans leitað og loksins fannst hann, niðursokkinn í fyrstu teikningarnar sem hann bar við að gera. Um það verður ekkert fullyrt hvort Arngrímur litli hafi hér gleymt sér við þær sömu myndir og sjá má á síðum Melsteðs Eddu en nógu gaman er þó að gæla við þá hugmynd að hann hafi handleikið þessa bók og myndirnar í henni hafi þá verið hans fyrstu kynni af myndlist. Nokkru neðar á aftasta blaðinu stendur „St. Petersen“, sem ekki hafa verið borin kennsl á, og neðst stendur „Magnús Guðmundsson“. Líkleg- ast er að þar sé kominn Magnús Guðmundsson bóndi á Sandi í Aðaldal því að dóttir hans, Elín Sigríður, fluttist frá Halldórsstöðum í Kinn til Kanada með sex börn sín árið 1876, nam land skammt frá Gimli og nefndi bæinn sinn Melstað. Eitt þessara barna var Jóhannes Frímann Magnússon Melsted, fæddur á Gvendarstöðum í Kinn 1859. Jóhannes bjó seinna stórbúi að Garðar í Norður-Dakota þar til hann fluttist að Wyny- ard árið 1910. Sonur hans var Leo Melsted, fæddur 1902, bóndi í Wyny- ard, faðir Kenneth Melsteds, sem fæddist 19. júní 1931 og varð seinna stórbóndi á ættaróðali sínu. Um hann segir í Vesturíslenskum æviskrám (5. b, bls. 180): „Mikill unnandi góðra bóka og á afar sjaldgæfar bækur íslenskar í bókasafni sínu. Hann á einnig mikið og merkilegt frímerkja- safn.“ Þessi lýsing er varla miklar ýkjur, og hefði getað átt við um Árna Magnússon ef frímerkin hefðu verið til um hans daga, því að á meðal hinna sjaldgæfu bóka var þetta handrit sem nú er komið heim, ekki bara sjaldgæft heldur einstætt verk og svo merkilegt að árið 1876 datt sex barna móður á leið yfir Norður-Atlantshaf í leit að betra lífi í ókunnu landi með börnin sín öll ekkert betra í hug en að hafa það með sér í þeim litla farangri sem hún gat borið. Slík bók hlýtur að vera nokkurs verð og er tæpast „af absolut ingen værdi“.“

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.