Morgunblaðið - 05.10.2002, Blaðsíða 11

Morgunblaðið - 05.10.2002, Blaðsíða 11
Lesbók Handritasýning 2002 Morgunblaðið ∼ 11 hefur varðveist af kaþólskum messubókum hérlendis en máldagar kirkna veita nokkra hugmynd um þær bækur sem í eina tíð lágu á púltum í kirkjum landsins. Til guðsþjónustu þurftu menn ekki aðeins að hafa biblíutextann og aðrar lesbækur: klerkar þurftu orðubækur sem mæltu fyrir um form guðs- þjónustunnar og söngbækur fyrir þá hluta messunnar sem sungnir voru. Allt voru þetta latínubækur og latínu nefndu Íslendingar stundum b ó k m á l sem sýnir hve tungumál og miðill voru samtvinnuð í hugum fólks. En Íslendingar virðast snemma hafa tekið að skrifa ýmislegt á eigin tungu. Í Fyrstu málfræðiritgerðinni, sem svo er kölluð og talin er rituð um miðja 12. öld, kemur fram að þá hafi um skeið tíðkast að rita á móðurmálinu bæði lög og áttvísi og þýðingar helgar og einnig nefnir fyrsti málfræðingurinn „þau hin spakligu fræði er Ari Þorgilsson hefir saman sett af skynsamligu viti“. Við þessa upptalningu má bæta rímtölum og stjörnufræði en efni af því tagi er að finna í einu elsta íslenska handritinu sem varðveitt er, GKS 1812 4to. Af þessu má ráða hvers konar upplýsingar menn töldu ástæðu til að festa á bók þegar sú tækni var orðin þeim töm. Lög, ættartölur og sagnfræði Ara eru þar fulltrúar innlends fróðleiks. Rím, stjörnufræði og þýðingar helgar tengj- ast á hinn bóginn starfsemi kirkjunnar. Tímatalsfræðin var mikilvægur þátt- ur í menntun presta því þeir urðu að geta reiknað út páska og aðrar hrær- anlegar hátíðir. Af þessum sökum voru tölvísi og stjörnufræði, tvær af greinum fjórvegarins, nauðsynlegar prestsefnum og rímtöl áttu sér fastan sess í handbókum presta. Með þýðingum helgum mun fyrsti málfræðing- urinn eiga við útleggingar á ritningunni, en ritskýring var annar snar þáttur í prestmenntun, eins og áður sagði. Sjálf ber málfræðiritgerðin svo vitni um frumlega fræðaiðkun á móðurmálinu sem beinlínis sprettur af kynnum Ís- lendinga af latnesku ritmáli og viðleitni þeirra til að nýta það til umfangs- mikillar skráningar á innlendu efni, en tilgangur höfundarins er að laga hið latneska stafróf að hljóðkerfi íslenskunnar þannig að hvert málhljóð sé tákn- að með sérstökum bókstaf. Þetta gerir hann í því augnamiði að samræma stafsetningu og gera fólki þannig léttara að lesa og skrifa. Virðist hafa átt þátt í móta stafsetningu íslenskra skrifara Engar vísbendingar höfum við um að neinn hafi fylgt leiðbeiningum Fyrsta málfræðingsins út í hörgul en tillögur hans virðast þó hafa átt þátt í að móta stafsetningu íslenskra skrifara. Á lærdómssetrum þar sem hópur fólks stundaði bóklestur og skrift varð einnig samræmi í skriftarvenjum og vísar að skrifaraskólum mynduðust. Þegar er getið menntasetra sunnanlands og skólahalds við biskupsstólana í Skálholti og á Hólum, en með stofnun klaustra urðu til fleiri miðstöðvar bókagerðar í landinu. Munklífið að Þing- eyrum í Húnavatnssýslu var fyrsta klaustrið sem stofnað var hérlendis, árið 1133. Segja má að klaustrið hafi að minnsta kosti öðrum þræði verið ávöxtur skólahalds á Hólum því Jón biskup Ögmundarson hafði búið í haginn fyrir klausturstofnunina og einhverjir munkanna munu hafa menntast á Hólum. Klaustrið tilheyrði Benediktsreglu en þrjú önnur klaustur af þeirri reglu voru síðar sett á Íslandi; á Munkaþverá (1155), í Kirkjubæ á Síðu (1186) og á Stað í Reynisnesi í Skagafirði (1295). Tvö þau síðarnefndu voru nunnuset- ur. Sumt í heimildum bendir til þess að tengsl hafi verið í öndverðu milli Þingeyraklausturs og klaustra á Englandi en gleggri hugmynd um tengsl ís- lenskra og erlendra lærdómssetra gefur þó ferill Þorláks Þórhallssonar, prí- órs fyrsta klausturs af Ágústínusarreglu á Íslandi og síðar biskups. Þorlákur fæddist 1133, árið sem Þingeyraklaustur var stofnsett, og hlaut sína fyrstu menntun í Odda á Rangárvöllum hjá Eyjólfi, syni Sæmundar fróða. Síðar var hann við nám erlendis um sex ára skeið, fyrst í París en svo í Lincoln á Eng- landi. Árið 1168 gerðist hann forstöðumaður nýs klausturs í Þykkvabæ sem sett var eftir reglu heilags Ágústínusar. Sú regla var ætluð prestvígðum mönnum, kanúkum, og var áhrifamikil í menntalífi í Frakklandi og á Eng- landi og má ætla að Þorlákur hafi haft kynni af reglunni á námsárum sínum. Áhrif reglunnar urðu og mikil í hinu nýja erkibiskupsdæmi í Niðarósi (stofn- að 1153) enda voru tveir af fyrstu erkibiskupunum menntaðir við Viktors- klaustrið í París, eitt mesta lærdómssetur reglunnar í Norðurálfu. Fjórum ár- um eftir stofnun Þykkvabæjarklausturs var sett ágústínusarklaustur í Flatey á Breiðafirði en það var flutt að Helgafelli árið 1184. Með tímanum bættust við þrjú ný klaustur af sömu reglu, í Viðey (1226), á Möðruvöllum í Hörg- árdal (1296) og loks á Skriðu í Fljótsdal (1493). Kjarni klausturlifnaðar var bæna- og tíðagjörð. Því þurftu klaustur á bók- um að halda og mörg þeirra eignuðust með tímanum álitleg söfn. Í bókaskrá Möðruvallaklausturs frá 1461 eru taldar upp orðubækur, ýmiss konar messusöngsbækur svo sem grallarar, antiphonaria og sekvensíubækur, bæk- ur með pistlum og guðspjöllum, saltarar, handbækur, ártíðaskrá dýrlinga og fleira, alls um sjötíu bækur og er þá aðeins talinn sá hluti bókakostsins sem notaður var við guðsþjónustur. Líklegt er að í klaustrum hafi snemma hafist afritun messubóka svo mæta mætti bókaþörf klaustursins en einnig hlýtur eftirspurn eftir messubókum að hafa vaxið eftir því sem kirkjum fjölgaði í landinu. Að auki urðu klaustrin að eiga einhverjar skólabækur því nokkuð var um að þau tækju við börnum til náms. Enn fremur var í reglu Benedikts kveðið á um að á matmálstímum skyldi lesið upphátt úr heilagra manna sög- um eða öðrum þóknanlegum verkum, reglusystrum eða -bræðrum til upp- byggingar. Margt er af slíkum bókum í skrá Möðruvallaklausturs, bæði á lat- ínu og íslensku. Lífssögur nokkurra dýrlinga eru enda með því fornlegasta sem varðveist hefur á íslensku og má ætla að slík verk hafi verið með því fyrsta sem þýtt var úr latínu. Einnig má nefna hér stólræður en á tveimur skinnblöðum frá miðri 12. öld, sem talin eru þau elstu sem varðveitt eru með íslensku ritmáli, er að finna brot úr slíkri predikun. Stólræðurnar vitna um hvernig Íslendingar útlögðu orðið á móðurmálinu. Sjálfur ritningarlesturinn í guðsþjónustum fór fram á latínu en þess var þó ekki langt að bíða að menn tækju að þýða frásagnir úr biblíunni. Elstu varðveittu biblíuþýðingar á ís- lensku eru taldar vera frá 13. öld en handritin sem geyma þær eru öll yngri, flest frá 14. öld. Þar á meðal er eitt glæsilegasta afrek íslenskrar bókagerðar á miðöldum, Stjórn – AM 227 fol, en á þá bók eru skrifaðir kaflar úr Gamla testamentinu með ritskýringum.“ V ésteinn Ólason spyr m.a. í ritgerð sinni „Samfélag og bókmenning“ hvers vegna svo mikil bókmennta- starfsemi þróaðist hjá fátækri og fámennri þjóð við ysta haf og hvað hafi fengið menn til að verja svo miklu fé og tíma til bókagerðar sem raun ber vitni. Í ritgerðinni slær hann því fram að náin tengsl kirkju og nokkurra helstu höfðingjaætta hafi stuðlað að góðri menntun margra höfðingja og áhuga á bókum, en ver- aldleg áhugamál þeirra hafi síðan kallað á ritun sagna á móðurmáli. „Þá hafa menn látið sér detta í hug að útflytjendaþjóð í nýju landi hafi lagt sérstaka rækt við fornan fróðleik, heimþráin hafi með vissum hætti alið af sér sagna- list og kvæðalist,“ segir hann. „Því má heldur ekki gleyma að fjöldi land- námsmanna kom ekki beint frá Norðurlöndum heldur hafði dvalist um langt skeið á Bretlandseyjum, kynnst menningu þeirra og blandast íbúum. Enginn vafi er á að í föruneyti landnámsmanna og hópi þeirra hefur verið fjöldi fólks sem mælt var á írsku eða gelísku, líklega mun fleiri konur en karlar, en á Ír- landi stóðu bæði bóklegur lærdómur og munnlegar sagna- og kvæðalistir í blóma. Það er ekki einsdæmi að eyþjóðir sem finnst þær vera úti á hjara ver- aldarinnar leggi sérstaka rækt við skáldskap og bókaramennt, og má einmitt vísa til Írlands til samanburðar. Um bókagerð hefur þess verið til getið að mikið hafi fallið til af kálfsskinni eins og búskap var háttað á Íslandi og efn- iskostnaður því ekki verið svo mikill sem ætla mætti, þegar um það er hugs- að að þurft hefur hundrað kálfsskinn í Flateyjarbók eina, sem er að vísu mest íslenskra skinnbóka. Kenningar um þetta allt eru þó varla annað en misvel rökstuddar getgátur, en staðreyndirnar tala sínu máli: Íslendingar eignuðust á miðöldum auðugri bókmenntir en nokkur önnur þjóð á Norðurlöndum og þótt víðar væri leitað. Arfur sagna og kvæða og annars fróðleiks, sem varðveist hefur og dafnað í minni fólks, er áreiðanlega mikilvægasti efniviður þeirra bókmennta sem skráðar voru á Íslandi á miðöldum. En því má þó ekki gleyma að bækur sækja ævinlega mikið af efni sínu, hugmyndum og fyrirmyndum til annarra bóka. Í glímunni við að bræða ólíkt efni saman í heild rísa ný verk og stund- um merkileg, ekki síst þegar vel tekst að tengja saman það sem á sér öld- ungis ólíkan uppruna. Meðal þess efnis sem Íslendingar geymdu trúlega í minni sér um aldir og voru auðugir af í þann mund sem kostir bókfellsins til varðveislu fornra fræða voru að koma í ljós, voru hirðkvæði forn og ný sem íslensk skáld, og framan af einnig norsk, höfðu ort um konunga og jarla á Norðurlöndum. Kvæði þessi hafa varðveist með minningum og arfsögnum um merka við- burði fyrri tíma. Þegar klerkar af norrænu bergi brotnir höfðu náð góðum tökum á ritlistinni þótti ástæða til að festa á bækur fróðleik um konunga og ekki síst að reyna að fá botn í tímatal konungaæva. Latínan var ritmálið, og allra elstu sagnarit Norðurlandamanna voru samin á latínu; það á meðal ann- ars við glatað rit Sæmundar fróða og varðveitt rit Norðmannsins Theodor- icusar um Noregskonunga og Saxa hins málspaka um sögu Dana. Í eldri gerð Íslendingabókar hefur verið „konunga æfi“, og Ari hefur verið brautryðjandi í ritun á móðurmáli. Þegar leið á tólftu öld tók sagnaritun um konunga að efl- ast á Íslandi, og hefur vafalaust sótt sér efni í kvæði þau sem menn kunnu af konungum og sagnir sem þeim fylgdu. Þessi rit hafa síðan verið endursamin og aukin og eru aðeins varðveitt í yngri gerðum. Norðmenn skrifuðu snemma frásagnir af Ólafi Haraldssyni á latínu, og íslenskur munkur, Oddur Snorra- son á Þingeyrum, setti saman á því máli langa sögu um nafna hans Ólaf Tryggvason. Sú saga er aðeins til þýdd á íslensku og sama er að segja um brot úr enn lengri sögu um Ólaf sem annar Þingeyramunkur, Gunnlaugur Leifsson, setti saman. Íslendingar hafa líklega byrjað nokkru fyrir aldamótin 1200 að rita sögu af Ólafi helga með tilvísun til dróttkvæða sem síðari og lengri sögur af honum hafa gleypt. Um aldamótin 1200 má segja að Íslend- ingar hafi verið búnir að taka forystu í sagnaritun á móðurmáli um höfðingja norrænna þjóða. Má þar nefna sögur um norska konunga frá því um 1000 og upphafi elleftu aldar auk sagna um konunga og konungsefni tólftu aldar, ennfremur sögur um fornkonunga Dana og um jarla á Orkneyjum. Á fyrsta þriðjungi þrettándu aldar urðu til þrjár miklar kröníkur um norska konunga hvern fram af öðrum og hafa á síðari öldum fengið nöfnin Morkinskinna, Fagurskinna og Heimskringla. Milli þeirra eru margvísleg efnistengsl en þó eru þær ólíkar hver annarri að stíl og efnistökum. Sögur þessar hafa smám saman vaxið vegna þess að í þær var bætt efni úr munnmælum og kveðskap, en einnig af því að rithöfundar gerðu sitt til að lengja þær og auka efni sem þeir drógu að sér úr öðrum ritum. Efni úr munnmælum og sagnahefðin sjálf hafa haft áhrif á rithöfundana, og þess vegna hafa þessi rit sérstakan blæ þegar borið er saman við evrópsk sagnarit frá sama tíma. Þó er þar vitaskuld að finna margvísleg en mismikil merki um áhrif frá evrópskri rithefð, bæði í stíl og efnisskipan. Konungasögur Snorra Sturlusonar, Heimskringla, hafa sérstæðastan svip, geyma mest efni og hafa notið mestrar hylli á síðari öld- um. Þótt talað sé um konungasögur og sagnaraðir sem verk rituð á ákveðnu tímaskeiði fyrir 1240, er textinn í langflestum tilvikum aðeins varðveittur í handritum frá fjórtándu öld eða eftirritum þeirra, og er oft erfitt að greiða það efni í sundur. Nokkru eldri hefur Kringla verið, fallegt handrit sem geymdi þann texta sem við nú köllum Heimskringlu, skrifað um 1260. Kringla brann í eldinum mikla í Kaupmannahöfn 1728, en eitt blað er enn til og er nú í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Flest meginhandrit kon- ungasagna eru varðveitt utan Íslands. Sum bárust til Noregs þegar á miðöld- um, önnur til Danmerkur í Konungsbókhlöðu eða safn Árna Magnússonar ellegar til Svíþjóðar á sautjándu og átjándu öld. Þegar Árnasafni og Kon- ungssafni var skipt urðu konungasagnahandrit eftir, en þó fengu Íslendingar í sinn hlut það handrit sem stærst er og glæsilegast af öllum, Flateyjarbók, GKS 1005 fol. Meginefnið á þeirri bók, sem var skrifuð á árunum 1387–94, eru sögur konunganna Ólafs Tryggvasonar, Ólafs Haraldssonar, Sverris Sig- urðarsonar og Hákonar gamla Hákonarsonar. Seinna hefur verið aukið við sögum þeirra Magnúsar góða og Haralds harðráða. Með því að telja upp þessa konunga er sagan ekki fullsögð, því að sá sem lét gera bókina hefur viljað hafa hana sem lengsta og þess vegna er aukið í sögur konunganna margvíslegu efni sem á einhvern hátt tengist ævi þeirra og ríki. Þar á meðal eru Grænlendinga saga, Orkneyinga saga, Færeyinga saga og Fóstbræðra saga, en auk þess mikið af styttri þáttum. Þættir af Íslendingum voru þó fyrr, jafnvel frá upphafi konungasagnaritunar á móðurmáli, fléttaðir inn í þessa bókmenntagrein. Mikið af efni Flateyjarbókar er hvergi annars staðar til, en mun þó hafa verið skráð löngu fyrr en það var tekið þar upp. Flateyjarbók var gerð handa húnvetnskum höfðingja, Jóni Hákonarsyni í Víðidalstungu. Ekki er ósennilegt að hinar fjölskrúðugu heimildir hennar hafi einkum verið að finna í klaustrinu á Þingeyrum og bókin hafi verið skrifuð þar. Flateyj- arbók er ekki aðeins stærst allra íslenskra miðaldahandrita, heldur einnig F á t æ k o g f á m e n n þ j ó ð v i ð y s t a h a f

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.