Morgunblaðið - 05.10.2002, Blaðsíða 7

Morgunblaðið - 05.10.2002, Blaðsíða 7
Lesbók Handritasýning 2002 Morgunblaðið ∼ 7 S offía Guðný Guðmundsdóttir og Laufey Guðnadóttir fjalla um bókagerð á miðöldum í samnefndri ritgerð sinni þar sem fram kemur að á fárra færi hafi verið að eignast bækur, enda efnið í þær vandunnið og dýrt. „Bækur voru að öllu leyti handunnar og urðu engar tvær eins, hver bók varð einstakur gripur,“ segja þær. „Þegar ritöld hófst á Íslandi voru bækur búnar til úr skinni. Fyrir um 4500 árum var fundin ákveðin aðferð við að verka skinn og gera úr því gott og handhægt efni til að skrifa á. Slíkt skinn nefnist bókfell eða pergament og í það má nota skinn af sauðkindum, geitum og kálfum. Bókfell er ólíkt leðri að því leyti að skinnið hefur ekki verið sútað eftir afhárun heldur strekkt og síðan þurrkað. Strekkingin veldur breytingum í skinninu og gerir það afar endingargott sé það geymt við réttar aðstæður, þar sem hvorki er of þurrt né of rakt. Í fyrstu var bókfell skorið í ferhyrninga sem síðan voru saumaðir saman og vafðir upp í rollur eins og gert var við egypska papýrusinn. Nokkrum öldum eftir Kristsburð komu síðan bækur til sögunnar. Í stað þess að sauma saman lengjur voru tilsniðin blöð lögð saman og bundin í bækur. Miklu handhægara þótti að finna ákveðinn stað í texta með því að fletta bókum en að snúa roll- um og þar af leiðandi öðlaðist bókarformið vinsældir. Bókfell var dýrara efni en papýrus og flóknara að framleiða það, en sökum þess að það var mun endingarbetra náði það fljótlega útbreiðslu. Bókfell barst til norðvesturhluta Evrópu með kristni og var algengasta efni í bóka- gerð á miðöldum. Frá 14. öldinni breiddist síðan notkun pappírs út í Evrópu, ekki síst í kjölfar prentlistarinnar, en á Íslandi leysti pappír bókfell smám saman af hólmi í bókagerð á 16. öld. Bókagerð á miðöldum var mikið og margþætt verk. Fyrst þurfti að útvega skinn og verka það, því næst að undirbúa skrifflötinn, sjóða blek og skera til penna. Þá var hægt að hefja skriftir. Þegar búið var að skrifa textann voru litir blandaðir og notaðir í kaflafyrirsagnir og stundum myndskreytingar. Að síð- ustu var bókin bundin inn og þá loks var hún fullgerð. Frá kálfi til bókar Fyrsta skrefið í bókagerð var að verka skinn í bókfellið. Engar íslenskar frásagnir eru til sem lýsa bókagerð og skinnaverkun á miðöldum en tvennt getur þó gefið vísbendingar um hvernig bókfell var unnið hér á landi. Annars vegar má kanna lýsingar á bókagerð í Evrópu á miðöldum þar sem aðferðin barst þaðan til Íslands. Hins vegar er hægt að skoða útlit íslenskra skinnbóka og athuga bókfellið í þeim. Skinnaverkun í Evrópu Fyrsta verk skinnaverkandans var að afhára húðirnar. Algengast var að með- höndla þær með kalki en þá losnuðu hárin nógu vel af skinninu til að auðvelt væri að skafa þau af. Eftir vandlega skolun var skinnið strengt á ramma, skafið og síðan þurrkað en þurrkun undir þenslu er mjög mikilvægur liður í verkun bókfells og einkennandi fyrir gerð þess. Þurrkun skinnsins tók mislangan tíma en gæði bókfellsins fóru eftir því hversu vel tókst að stjórna þurrkunarferlinu. Í heitu loftslagi reyndu menn að tefja þurrkunina með því að væta skinnið en í kaldari veðráttu var kalkduft borið á skinnið til að flýta ferlinu. Þegar skinnið var farið að þorna í rammanum var borið á það þurrt kalk til að leysa upp leifar af fitu og raka en síðan var það skafið með bjúghníf. Gott bókfell átti að vera þunnt, sterkt en samt sveigjanlegt og með sléttu yfirborði. Bókfellsgerð á Íslandi Íslensk skinnhandrit frá miðöldum eru yfirleitt mun dekkri en evrópsk handrit. Það stafar að verulegu leyti af mikilli og aldalangri notkun bókanna sem og af geymslu þeirra í sótfylltum og rökum torfbæjum. Íslensk handrit sem varðveist hafa í Noregi við önnur skilyrði eru til dæmis ljósari og í mun betra ástandi en þau sem hlutu vist hér á landi. Nokkur munur virðist samt hafa verið á verkun bókfells hér og annars staðar í Evrópu því að íslenskt bókfell er aðeins frábrugðið evrópsku bókfelli. Þar sem engar lýsingar eru til á bókfellsgerð Íslendinga á miðöldum er gert ráð fyrir að handverkið hafi í meginatriðum verið hið sama og í Norður- Evrópu. Þó hefur verið bent á mun á evrópsku bókfelli eftir löndum sem staf- ar af mismunandi aðstæðum, hráefni, efnivið og kröfum til afurðarinnar. Vegna einangrunar og dýrra aðfanga hafa Íslendingar væntanlega lært að nýta þau efni sem náttúran hafði upp á að bjóða. Jarðvarmi og ýmiss konar gosefni hafa ef til vill verið nýtileg til afhárunar. Líklega hefur loftslagið, sér í lagi hin stuttu sumur, einnig haft áhrif á aðferðir við verkun bókfells. Helsti munur á verkun bókfells hér á landi og víðast í Evrópu virðist liggja í aðferðum við afhárun skinna sem yfirleitt voru lögð í kalkbað erlendis. Bók- fell varð hvítara fyrir vikið þar sem kalkið gekk inn í skinnið og gaf því ljós- ara yfirbragð. Sú staðreynd að kalk var af skornum skammti hérlendis á ef til vill sinn þátt í útliti og gerð íslenska bókfellsins. Þó engum miðaldafrásögn- um sé til að dreifa nefna síðari tíma heimildir um skinnaverkun á Íslandi þrjár aðferðir við afhárun skinna sem gætu hafa viðgengist frá alda öðli en engin þeirra felur í sér að skinnin séu meðhöndluð með kalki. Samkvæmt heimildum voru skinn stundum rökuð en önnur aðferð við afhár- un, og ef til vill algengari, var svokölluð rotun. Skinnin voru þá bleytt með keytu en síðan staflað í hrúgu og látin rotna uns hárin losnuðu. Að sögn var þriðja aðferðin sú að binda skinnin nýflegin á bak kvígu og láta hárahliðina, há- raminn, snúa niður. Að sólarhring liðnum áttu hárin að vera laus frá skinninu. Íslenskar skinnbækur eru flestar taldar skrifaðar á kálfskinn. Sú kenning hlýtur stuðning af þeim sárafáu rannsóknum sem gerðar hafa verið á íslensku bókfelli. Frá fornu fari var nautgriparækt meiri hér á landi en síðar varð og gæti það rennt enn frekari stoðum undir þá skoðun manna að íslenskt bókfell hafi að mestu verið verkað úr kálfskinnum. Líklega hefur skinn af ljósum eða rauðleit- um dýrum gefið af sér hvítara bókfell og því verið eftirsóttara til bókfellsgerðar. Fullverkað bókfell var tekið úr römmunum áður en næsti liður í gerð bók- arinnar hófst. Fyrst hafa allir skæklar verið skornir af þannig að hvert skinn yrði ferningur að lögun. Bókfellsarkirnar sem þannig fengust þurftu að vera jafnstórar ef þær áttu að fara í eina bók. Eftir að stærð bókar hafði verið ákveðin var bókfellið í hana valið en síðan var það skorið til í samræmi við stærð hennar. Ef örkin var brotin einu sinni fengust tvö bókarblöð eða fjórar síður til skriftar. Slíkar bækur eru í arkarbroti eða folio. Í næstu bókastærð var skin- nörkin skorin í tvennt áður en hvor helmingur var brotinn saman, þá fengust fjögur blöð eða átta síður. Þær bækur eru sagðar í fjögurra blaða broti, táknað 4to (quarto). Þriðja stærðin fékkst þegar arkir voru skornar í fernt áður en hver partur var brotinn saman, það kallast átta blaða brot, 8vo (octavo), með 16 síðum. Minnsta stærðin 12mo (duodecimo) eða tólfblöðungur er 24 síður í örk, en í þeim bókum er hver örk skorin í sex hluta. Pappírsstærðir nútímans eru sambærilegar við brot skinnbóka. Nærri lætur að eitt blað í folio-broti jafngildi einu A3 blaði, 4to stærð samsvari A4 en 8vo blað sé svipað A5 blaði að stærð. Þegar vísað er til staðar í handriti er oftast vísað til blaðs en ekki blaðsíðu, og er á bætt við blaðtöluna r(ecto = hægri) þegar um framhlið á blaði er að ræða en v(erso = vinstri) um bakhliðina. Varðveitt handrit í bókasöfnum eru meðal annars flokkuð eftir broti en bækur innan sama stærðarflokks geta þó verið misstórar. Oft er skýringin sú að skorið hefur verið af spássíum þegar bók var bundin inn eða bókband endurnýjað. Ástæða þess gæti verið sú að blöðin hafi verið orðin slitin á jöðr- unum eða til hafi verið bókarkápa sem reynt var að fella stærð blaðanna að. Einnig má vera að misstórum handritum með sama eða skyldu efni hafi verið ætlaður staður hlið við hlið í hillu og því hafi þurft að skera af sumum þeirra til að samræma stærðir. Greinileg merki um að skorið hafi verið af blöðum má sjá þegar hluta spássíumyndar vantar í skreyttum handritum. Bókagerð á miðöldum Hér hefur grænn litur étið sig í gegnum bókfellið. Úr Svalbarðsbók AM 343 fol. Greinileg merki fyrir línum, dálkum og spássíum, úr Konungsbók Grágásar frá miðri 13. öld. Hvernig bjuggu menn til bækur á Íslandi fyrr á öldum og hvernig leið skrifurum við hið mikla þolinmæðis- og nákvæmnisverk? Hvernig pennar voru notaðir og voru skrifararnir ánægðir með skriffæri sín?

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.