Morgunblaðið - 05.10.2002, Blaðsíða 9

Morgunblaðið - 05.10.2002, Blaðsíða 9
Lesbók Handritasýning 2002 Morgunblaðið ∼ 9 en ekki virðist hafa tíðkast að menn ynnu við skriftir í einrúmi þó aðstaða til þess hafi gefist. Óvíst er hvort aðstæður hafi verið með svipuðum hætti í íslenskum klaustrum enda hefur smæð samfélagsins sett svip sinn á starfsemina. Í sam- anburði við evrópsk klaustur voru þau íslensku fremur fámenn. Af spáss- íukroti má ráða að skrifarastarfið hafi stundum verið einmanalegt á Íslandi: „Nú þykir mér langt einum saman í skrifstofunni,“ stendur í handriti af Mar- grétar sögu. Vinnubrögð og leiðréttingar Þegar skrifari skrifaði upp texta hefur hann annaðhvort haft forrit fyrir framan sig sem hann skrifaði eftir eða einhver lesið upp textann fyrir hann. Skrifarar gerðu oft villur er þeir skrifuðu upp texta og af þeim má stundum draga ályktanir um vinnuaðferðir. Sumar ritvillur geta bent til þess að skrifari hafi misskilið upplestur. Algengari eru villur sem benda til að annaðhvort sá sem las fyrir eða skrifarinn sjálfur hafi farið línuvillt eða hlaupið yfir texta í forritinu. Á miðöldum fengust fá efni til að afmá eða leiðrétta villur sem oft hentu við skrifin. Ef villan uppgötvaðist strax var þó hægt að skafa blekið burt með leiðréttingarhníf. Skrifarar höfðu einnig ýmis önnur ráð til að leiðrétta texta. Deplar voru til dæmis settir undir stafi sem ofaukið var í textanum en þá stafi átti ekki að lesa. Ef orð gleymdist var það gjarnan skrifað fyrir ofan línu eða út á spássíu en stundum strikað yfir þau orð sem var ofaukið. Sérstök merki, oftast skástrik ofan línu, gáfu til kynna að breyta ætti orðaröð í texta. Ef til vill hafa skrifarar stundum notað vaxtöflur og skrifað uppkast til að forðast villur áður en þeir hófu skriftir, meðal annars ef um var að ræða mik- ilvæg skjöl. Þær voru þannig gerðar að bráðnu vaxi var rennt í litla tréramma, það látið storkna og síðan skrifað á vaxið með stíl. Töfluna mátti svo nota aft- ur og aftur með því að strjúka yfir vaxið uns það var uppurið en þá var nýju vaxi hellt í rammann. Erfiði og augnaraun Ýmiss konar líkamleg óþægindi, svo sem bakverkir, þjáðu skrifarana eins og umkvartanir margra í lok bóka og á spássíum bera með sér. Einn þeirra sem uppi var á 8. öld í Evrópu fer fram á að notendur bókarinnar umgangist hana af varúð og nærgætni enda liggi miklar þjáningar að baki gerð hennar: „Ó, lánsami lesandi, þvoið hendur yðar og snertið þannig á bókinni, flettið blöðunum mjúklega, haldið fingrunum í góðri fjarlægð frá bókstöfunum. Sá sem ekki stundar skriftir trúir ekki að það sé vinna. Ó, hve erfitt er að skrifa: það sljóvgar augun, þrýstir á nýrun og kvelur þar að auki alla liði. Þrír fingur skrifa, allur líkaminn þjáist …“ Þegar þessi lýsing er höfð í huga er ekki að undra að vinna við skriftir hafi stundum verið notuð sem yfirbót í klaustrum Evrópu. Sjónleysi var algengur atvinnusjúkdómur skrifara enda þurftu þeir oft að rýna í texta í lélegri birtu. Fyrir tíma gleraugna var sjóndepurð mörgum hug- leikin eins og dæmin sýna á spássíum íslenskra handrita: „Augnaveikur er aulinn“ kemur úr penna eins þeirra sem ákallar síðan frelsarann sér til hjálpar: Jesús Máríuson, sjá þú til augna þræls þíns.“ Ekki er að undra að skrifarar hafi orðið þreyttir á vinnu sinni. Það gat tekið langan tíma að skrifa bók, jafnvel nokkur ár, en afköst skrifarans hafa eflaust farið eftir líðan hans og aðstæðum. Skrifari nokkur á Írlandi er sagður hafa lokið við að skrifa 248 blaðsíðna bók á 12 dögum sem þótti skammur tími. Að vísu er ekkert getið um það hversu mikill texti var á hverri síðu eða hversu stór bókin var. Landi hans og starfsbróðir Timothy O’Neil mun hafa skrifað 200 orð á klukkustund að meðaltali en hann þurfti líka að taka sér hlé reglulega. Á spássíum má lesa kvartanir undan þreytu, lengd verksins og létti yfir því að hafa loks lokið erfiðu verki. Sumum er alls ekki hlátur í huga eins og þessum íslenska skrifara: „Leiðist mér að skrifa.“ Hann er einnig óánægður með blekið: „Vont er skrif því veikt er blek,“ og ennfremur er kvartað undan illa skornum penna. Sumir óska þess að uppskera árangur erf- iðisins, aðrir kvarta beinlínis undan lélegum launum eða vanþakklæti yf- irmanna sinna. Íslenskur skrifari er heldur óánægður með vinnuveitanda sinn er hann kvartar undan matarskorti: „Illa gjörir þú við mig, Dóri minn, þú gefur mér aldrei fiskinn nógan.“ Vænta má að Dóri þessi hafi gert eins konar samning við skrifarann um laun, gistingu og uppihald eins og jafnan tíðkaðist meðal erlendra skrifara. Líklegt má telja að vinna skrifarans hafi oft og tíðum verið dýrasti þátturinn í framleiðslu bókarinnar eða rúmlega þriðj- ungur heildarkostnaðar. Ef marka má erlendar heimildir má ætla að í sumum tilvikum hafi skrifarinn þurft að útvega sér bókfellið sjálfur og greiða fyrir það, en þá hefur eflaust verið gert ráð fyrir því í verksamningi. Þó að skrifarar noti spássíur bókanna oftast sem vettvang fyrir kvartanir um líkamlega vanlíðan, slæman aðbúnað eða léleg launakjör, þegar frá eru taldar guðrækilegar hugleiðingar, láta þeir stundum persónulegar kvartanir flakka, til dæmis ef illa gengur í ástarmálunum: „Úti það er, hún unni mér“ stendur í íslensku rímnahandriti sem áður hefur verið vitnað til og geymir fjölmargar athugasemdir skrifarans á spássíum. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður og ýmiss konar atvinnusjúkdóma sýna heim- ildir að bæði lærðir og leikir skrifarar í Evrópu álitu starf sitt andlega göfugt enda þótt þeir hafi oft jafnað því við verkamannavinnu. Klausturskrifararnir börðust gegn djöflinum sjálfum með pennann og blekið að vopni þegar þeir afrituðu hið guðdómlega orð. En það voru ekki aðeins skrifararnir sjálfir sem álitu starfið göfugt, þeir virðast einnig oft hafa notið virðingar í samfélaginu. Myndlist í handritum Eftir að lokið var við að skrifa textann var bókin lýst eða skreytt ef svo bar undir. Þá skildi skrifarinn eftir hæfilegar eyður til að hægt væri að bæta við fyrirsögnum, myndstöfum og upphafsstöfum kafla. Það var svo ýmist hann eða sérstakur myndlistarmaður sem skrifaði fyrirsagnir og teiknaði og málaði stafi í eyðurnar. Kaflafyrirsagnir voru nær alltaf rauðskrifaðar án tillits til þess hvort handritið var skreytt að öðru leyti. Af varðveittum handritum má sjá að þeir sem skrifuðu og lýstu handrit náðu býsna langt í list sinni hvort sem um var að ræða stafagerð, skrautverk eða myndir. Myndlistarmenn mið- alda voru, eins og skinnaverkendur og skrifarar, flestir óþekktir verkmenn. Þær fáu heimildir sem gefið geta til kynna nöfn þeirra benda til þess að þeir hafi í flestum tilvikum verið karlmenn. Ekkert er þó því til fyrirstöðu að kon- ur hafi einnig komið að þessari vinnu eins og raunin var í erlendum nunnu- klaustrum. Með kristnitökunni kynntust Íslendingar ekki aðeins rittækni heldur gáf- ust einnig ný tækifæri til listsköpunar. Landnámsmenn höfðu borið listhefð heimalanda sinna með sér á nýjar slóðir, svo sem útskorna gripi, útsaumuð tjöld, málaða skildi og aðra listmuni. Engu að síður hefur sá efniviður sem ís- lensk náttúra býður upp á ráðið nokkru um farveg listiðkunar, líkt og gerðist með aðra þætti bókagerðar eins og skinnaverkun, blekgerð og litablöndun. Efni til litunar finnast í íslenskri náttúru en ekki hefur úrvalið verið jafn fjölskrúðugt og víða erlendis. Varðveitt handrit og skreytingar þeirra eru auk útskurðar helst til vitnis um íslenska miðaldalist. Myndskreytingar í handritum eru ekki síst mikilvægar vegna þeirra vísbendinga sem þær gefa um að kirkjulist hafi staðið hér með blóma og máluð verk, svo sem helgimyndir, sem síðar hafa farið forgörðum, hafi skreytt kirkjur. Myndlist í íslenskum handritum hefur lítið verið rannsökuð en þær rann- sóknir sem gerðar hafa verið sýna að Íslend- ingar sóttu áhrif víða að úr Evrópu, einkum frá Englandi. Lýsingar Algengasta lýsing í handritum er í upphafs- stöfum og myndstöfum. Myndstafir standa við upphaf nýrrar sögu eða nýrra bálka í lögum og tengist myndefni þeirra gjarnan efni textans eða er lýsandi fyrir hann á einhvern hátt. Upphafs- stafir eru oftast flúraðir eða skreyttir, standa við upphaf kafla eða efnisgreina, eru minni en mynd- stafir og algengari í textanum. Menn hafa notað mismunandi myndstíl og liti svo nærri má segja að hvert myndskreytt handrit hafi sín einkenni. Sögur af heilögum mönnum og biblíuþýð- ingar eru margar listilega skreyttar og bera vitni um íburð og ríkidæmi kirkjunnar. Lögbækur eru enn- fremur fagurlega myndskreyttar en mikill fjöldi ís- lenskra lögbóka hefur varðveist. Á sumum þeirra, til dæmis Reykjabók og Heynesbók, eru spássíur nær hverrar síðu skreyttar með fjölbreyttum og litskrúðugum mannlífsteikningum sem greinilega eru gerðar af hæfileikaríkum teiknurum. Sagnahandrit eru oft með skrautlegum upphafsstöfum sagna og kapítula, stundum í lit, enda þótt myndstafir séu ekki í þeim. Nær einu varðveittu sagnahandritin sem hafa að geyma myndlýsingar eru Njáluhandritið Kálfa- lækjarbók, sem í eru þrír myndstafir, og konungasagnahandritið Flateyj- arbók sem er ríkulega myndskreytt. Rímna- og kvæðabækur eru yfirleitt ekki skreyttar þó finna megi undantekningar eins og rímnahandritið AM 604 4to. Lýsingarnar í þeirri bók eru nær allar unnar með bleki og standa oftast á spássíum. Á sama hátt er lítil bók með Margrétar sögu skemmtilega mynd- skreytt með blekteikningum en annars voru litlar bækur sjaldnast skrauti hlaðnar. Merkilegt handrit, Íslenska teiknibókin, hefur að geyma safn fyrirmynda sem listamenn á miðöldum hafa nýtt sér, til dæmis er þeir lýstu handrit eða máluðu altarismyndir. Bókin er sú eina sinnar tegundar sem varðveist hefur á Norðurlöndum og fáar hennar líkar hafa varðveist annars staðar í Evrópu. Á einni síðu bókarinnar má sjá hvernig stungin hafa verið göt í skinnið um- hverfis mynd af manni og dreka til að marka fyrir útlínum hennar, sem svo mátti nýta sem grunn í nýja mynd. Stíltegundir í handritalýsingum Á Norðurlöndum, ekki síst í Noregi, var tréskurður þjóðarlist allt aftan úr heiðni. Menn ófu saman keltneska fléttinga og Úrnesstílinn af mikilli snilld. Þegar rómanski blómsveigastíllinn, sem hafði vínviðarteinunginn að fyr- irmynd, barst til Norðurlanda um miðja tólftu öld varð til sérstakt afbrigði sem sameinaði þessar listhefðir og varð vinsælt um aldir á Íslandi, bæði í út- skurði og silfurvíravirki. Frá gotneska stílnum tóku Íslendingar síðan inn blómamyndir, eikarlauf og rósir þrátt fyrir fastheldni sína á notkun róm- anskra skrautsveiga. Á elsta skeiði íslenskrar bókagerðar hlýtur rómönsk lýsingahefð upphafs- stafa að hafa staðið í miklum blóma. Að minnsta kosti náði hún hér slíkri fót- festu að allar götur síðan var hún ráðandi í íslenskum handritalýsingum mið- alda og talsvert fram yfir siðaskipti. Grunnform rómanska stílsins er hringlaga myndflötur en innan hans var ákveðin myndbygging, oftast var meginatriði myndarinnar fyrir miðju hringsins. Hvert myndatriði var kyrr- stætt og raðað í myndreitinn af miklum hagleik. Gotneski stíllinn átti upphaf sitt í húsagerðarlist þegar menn fóru að nota oddboga í stað sveigboganna sem einkenndu rómanskan stíl. Í skreytilist, höggmyndalist, útskurði, myndlist og handritalýsingum sjást gotnesk áhrif á því að teikningar verða fíngerðari og minna stílfærðar. Meira er lagt upp úr hreyfingu í myndum, svo sem eðlilegri fellingum í klæðum manna, sveigðari líkömum og nostrað er við smáatriði þannig að myndir urðu raunverulegri. Bókband á Íslandi Um bókband á Íslandi fyrstu aldir bókagerðar er lítið vitað enda eru fá miðaldahandrit varðveitt í upprunalegu bandi. Styðjast má við þekkingu manna af erlendu bókbandi frá sama tíma en auk þess er stundum getið um bókband í íslenskum fornbréfum. Á miðöldum voru skrautlegar bækur í kirkjum, oft bundnar í leðurklædd tréspjöld með rykkskreytingum, stundum skreyttar gulli, silfri eða messing, settar steinum eða skornu fílabeini. Við bókband þurfti fyrst að sauma einstök kver saman með garnþræði en síð- an voru öll kver bókarinnar ýmist saumuð í kápu úr skinni eða bundin í tré- spjöld. Þess finnast dæmi að bækur hafi verið bundnar í selskinn en nauts- húðir, kálfskinn eða sauðskinn var líka notað. Kverin voru saumuð við kápuna með skinnþvengjum og var þetta einfaldasta gerð bókbands. Njáluhandritið Gráskinna er gott dæmi um bók í skinnbandi sem gæti verið gamalt. Þegar bækur voru bundnar inn í tréspjöld voru kverin saumuð í réttri röð með sterkum þræði á uppistöður, leðurþvengi eða hörtauma, sem lágu með ákveðnu millibili þvert á kjölinn og langt út fyrir hann. Uppistöðuendarnir voru síðan dregnir gegnum göt á spöldunum og festir niður með ýmsu móti, til dæmis tré- fleygum, í götin að innanverðu. Spjöld voru aðallega unnin úr eik, beyki eða furu og að líkindum oft úr rekaviði. Bókin var stundum klædd með skinni og spennur eða leðurreimar festar á hana til að halda henni lokaðri. Úreltar og úr sér gengnar skinnbækur voru oft endurnýttar og skinn þeirra meðal annars notað í bókband utan um nýjar bækur. Þegar prent kom til sög- unnar fundu skinnaverkendur erlendis ný not fyrir framleiðsluvöru sína og héldu áfram að verka skinn til bókagerðar. Það var þó ekki lengur ætlað í bók- ina sjálfa heldur sem bókband utan um bækur úr pappír.“ Á síðu AM 604 4to má sjá dæmi um nýtni við bókagerð. Þar fylgir skrift- in lögun skinnsins en einnig var skrifað umhverfis gatið.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.