Morgunblaðið - 04.12.2002, Blaðsíða 8
8 D MIÐVIKUDAGUR 4. DESEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
BÆKUR
„ARFUR allra liðinna kynslóða
hvílir sem farg á heila lifenda.“
Þessi orð Karls Marx er að finna í
tilvitnun sem Einar Már Guð-
mundsson hefur valið sem aðfara-
orð að Nafnlausum vegum, sem er
þriðja verk hans í sögunni af lífi og
örlögum Ólafs og Guðnýjar og hin-
um tíu börnum þeirra sem hann hóf
að rekja í Fótsporum á himnum og
hélt áfram í Draumum á jörðu.
(Reyndar má með nokkrum rökum
halda því fram að Englar alheims-
ins tilheyri sama sagnaflokki og hér
sé því um fjórðu bókina að ræða.)
Eins og alþekkt er orðið er Einar
Már hér að spinna skáldskaparþráð
úr sögu föðurfjölskyldu sinnar;
hann notar arf kynslóðanna sem
efnivið í skáldskapinn og fléttar af
list saman sagnfræði og skáldskap.
Ég hef áður orðað það þannig að
Einar Már hafi í þessum verkum
hitt á gjöfula æð; að sú fortíð sem
hann lýsir hér sé að vissu leyti for-
tíð okkar allra og því eigi flestir les-
endur þessara bóka auðvelt með að
tengja sig sögunum og hrífast með.
En galdurinn er að sjálfsögðu ekki
síst fólginn í þeirri staðreynd að úr-
vinnsla höfundar ber listrænu
næmi hans glöggt vitni. Frásagn-
araðferð hans er fólgin í persónu-
legri úrvinnslu á íslenskri sagna-
hefð um leið og stíllinn sver sig oft
og tíðum í ætt við það besta í þeirri
flóru sem kalla má „Norðurlanda-
bókmenntir“ – og má þar nefna til
sögunnar fremstan William Heine-
sen. Einar Már hefur sjálfur bent á
þennan færeyska meistara sem
áhrifavald á skrif sín og þessi
sagnaflokkur hans á margt sameig-
inlegt með Þórshafnarsögum
Heinesens þar sem mannlýsingar
eru í forgrunni en söguflétta (eða
„plott“) skiptir minna máli. Það eru
einmitt mannlýsingarnar sem eru
aðall þessarar bókar sem og hinna
tveggja sem á undan henni fóru.
Sögumaðurinn, Rafn Ólafsson
(Ólafssonar), heldur sig að mestu
leyti til hlés og lætur myndirnar af
ættfólkinu svo að segja framkalla
sig sjálfar í textanum, en þó er hann
yfir og allt um kring og því eru upp-
hafsorð þriðja kaflans einkar við-
eigandi þegar spáð er í stöðu hans:
Ég hefði líka getað hafið mál mitt
á himninum sem teygir úr bláma
sínum. Þá er ég bara strákur og við
mér blasir snjóbreiðan, hvít eins og
kjóll, alsett glitrandi steinum. (16)
Hér sjáum við sögumanninn í
hlutverki hins alsjáandi skapara (á
himnum) sem lítur niður yfir sögu-
efnið (kjólefnið) þar sem persón-
urnar birtast í gervi glitrandi
steina. Og þetta sjónarhorn skap-
arans er stundum vítt en þrengist
síðan niður að einni persónu og
dvelur við hana um stund, áður en
sjónarhornið er aftur víkkað og
saga einstaklingsins er mátuð við
sögu samfélagsins.
Hér eru það aðallega tvær per-
sónur sem dvalið er við: bræðurnir
Ragnar og Ívar. Ragnar hefur kom-
ið þó nokkuð við sögu í fyrri bók-
unum, hann er kommúnistinn sem
fór til Spánar til að taka þátt í borg-
arastyrjöldinni gegn fasismanum,
heljarmenni mikið en óstýrilátur og
drykkfelldur. Frásögnin af Spánar-
ferð Ragnars kallast skemmtilega á
við skáldsögu Álfrúnar Gunnlaugs-
dóttur, Yfir Ebrófljótið, sem kom
út í fyrra. En áhrifameiri er þó sag-
an af örlögum Ragnars á Íslandi,
hjónabandi hans og stríðinu við fá-
tæktina og brennivínið. Og ein allra
sterkasta persóna bókarinnar er
kona hans, Helga, sem er sönn val-
kyrja sem lætur ekkert buga sig og
snýr persónulegri
eymd í pólitíska sókn.
Hetjan sem barðist í
Spánarstríðinu þoldi
ekki hversdagsstríð
fátæktarinnar þar sem
hann bjó í bragga með
konu sinni og fjórum
börnum, eða eins og
Sóley, dóttir hans,
orðar það:
„Þetta var mjög al-
gengt þarna í brögg-
unum,“ segir Sóley.
„Karlarnir fóru en
konurnar sátu eftir
með krakkana.“
„Hvers vegna?“
spyr ég.
„Þeir bara gáfust upp,“ segir Sól-
ey. „Pabbi gafst upp en mamma
snerist til varnar.“ (129)
Ívar, hinn bróðirinn sem frásögn-
in snýst um, er gjörólíkur Ragnari
að öðru leyti en því að báðir eru
þeir með hávaxnari mönnum. Sag-
an af aðbúnaði Ívars á sveitaheim-
ilinu, sem hann lenti á þegar fjöl-
skyldan var leyst upp og börnin
send í fóstur út um hvippinn og
hvappinn, er átakanleg. Hrjáður og
sjúkur af líkamlegri og andlegri
vannæringu uppgötvar hann mátt
náttúrunnar til lækninga (skarfa-
kál, blóðberg og rjúpnalauf bjargar
lífi hans) og gerist upp úr því tals-
maður jurtafæðis, og síðar einnig
almennrar heilsuræktar – og er þar
langt á undan samtíð sinni. Fátækt-
inni, vosbúðinni og hinum eilífa
„tómleika í maganum“ gleymir Ívar
aldrei og einsetur sér að verða rík-
ur, sem og honum tekst með ýms-
um óprúttnum aðferðum (sem í dag
teljast reyndar fullgildar innan
bankakerfisins). Með okurlána-
starfsemi tekst Ívari að komast í
slíkar álnir að hann getur ferðast
um heiminn að vild, umgengist að-
alsmenn og sængað hjá greifynjum
– en föðurlandið togar í hann og er-
lendar baðstrendur og
Alparnir mega sín lít-
ils gagnvart íslenskum
Bláfjöllum, Skerjafirð-
inum og Örfirisey.
Þótt það séu þannig
hugsjónamaðurinn
Ragnar og raunsæis-
maðurinn Ívar sem
eru í forgrunni þeirrar
myndar sem Einar
Már dregur upp í
Nafnlausum vegum
koma ótal aðrar per-
sónur við sögu og
margar hverjar ekki
síður litríkar en þeir
bræður. Nafnlausir
vegir bæta mörgum
myndbrotum við þá heildarmynd
sem Einar Már er að spinna í þess-
ari fjölskyldusögu. Enn er þó vafa-
laust af miklu taka og ég trúi að
langt sé í að myndin sé fullgerð. En
þessar bækur Einars Más kallast
ekki aðeins á innbyrðis heldur eru
þær einnig í skemmtilegu samhengi
við íslenska bókmenntahefð síðustu
áratuga. Sagan af lífi Ragnars og
Helgu í Camp Knox á sér hliðstæð-
ur í sögum Ástu Sigurðardóttur og
Sigurðar A. Magnússonar, svo eitt-
hvað sé nefnt. Áður hefur verið
minnst á tengingu við síðustu
skáldsögu Álfrúnar Gunnlaugsdótt-
ur og ótal fleiri slíkar tengingar
væri hægt að gera. Hér sannast enn
sem fyrr að í skáldskapnum má
greina samhengi og heild. Skáld-
skapurinn er heimur út af fyrir sig,
en um leið spegilmynd af samfélag-
inu. Og þegar best lætur getur
skáldskapurinn gefið okkur innsýn
inn í líf einstaklinga og samfélags á
þann hátt sem fæst sagnfræðirit
geta gert, hversu vönduð sem þau
eru. Bækur Einars Más Guðmunds-
sonar eru þessu dýrmæta eðli
gæddar.
„…að gefa þögninni mál
og minna á hið gleymda“
SKÁLDSAGA
NAFNLAUSIR VEGIR
Einar Már Guðmundsson, Mál og menn-
ing 2002, 214 bls.
Einar Már Guðmundsson
Einar Már
Guðmundsson
Soff ía Auður Birgisdótt ir
1
Furðudýr íslenskra þjóðsagna eiga
það sammerkt að enginn hefur séð þau
berum augum. Menn hafa heyrt í þeim,
fundið af þeim lyktina og jafnvel séð
móta fyrir þeim í vetrarrökkri en
ennþá hefur enginn orðið svo (ó)
heppinn að sjá fjörulalla, skoffín eða
nykur. Þekktari skepnur eins og Lag-
arfljótsormurinn, Katanesskrímslið og
Urðarboli eru að sjálfsögðu und-
anþegin þar sem fjölmargir telja sig
hafa barið þau augum og efast ekki um
tilurð þeirra.
2
Björk Bjarnadóttir stundar MA nám
í umhverfisfræðum eftir BA nám í
þjóðfræðum við Háskóla Íslands. Hún
fékk hugmyndina að bókinni um furðu-
dýrin þegar hún starfaði á leikskóla og
var orðin jafnleið og börnin á öllum
þessum „venjulegu“ barnabókum.
„Ég fór þá að segja þeim íslenskar
þjóðsögur um alls kyns furðudýr og
þeim fannst þetta gríðarlega spenn-
andi og spurðu og spurðu. Algengasta
spurningin er auðvitað: Eru þau til í al-
vörunni? og þar sem ég er þjóðfræð-
ingur þá svaraði ég ekki neitandi en
sagði jafnframt að það væri mjög langt
síðan einhver hefði séð þau.“
3
Tilurð bókarinnar um furðudýrin
var síðan á þann veg að Björk varð at-
vinnulaus um hríð eftir að námi lauk
og fremur en leggjast í sút og volæði
þá fór hún að setja saman bókina um
furðudýrin. „Ég fór síðan til þeirra
heiðurskvenna í bókaútgáfunni Sölku
og bar hugmyndina undir þær og það
skipti engum togum, þær vildu gefa
þetta út með vönduðum myndlýs-
ingum og á þremur tungumálum, ís-
lensku, ensku og þýsku.“
4
Björk hefur unnið sem skálavörður
og leiðsögumaður gönguhópa um há-
lendið og segir ferðamenn mjög hrifna
af því að fá lýsingar á landinu og nátt-
úrunni sem tengjast þjóðtrú fyrr og
nú. „Landslagið fær á sig lifandi blæ
þegar skýringar þjóðtrúarinnar á mót-
un lands og náttúru eru hafðar í huga.“
Bókin um furðudýrin er ætluð jafnt
börnum og fullorðnum og ekki síst Ís-
landsvinum á erlendri grund sem hafa
áhuga á öllu er viðkemur landi og þjóð.
Mynd: Guðrún Tryggvadóttir
KATANESDÝRIÐ: Árið 1876 sáu mjög margir dýrið, var það þá orðið á stærð
við þriggja vetra naut, aflangt nokkuð með langan haus og hala afar mikinn,
hvítleitt um búkinn en hausinn rauður. Mynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Íslensk skrímsli orðin
ferðamannamatur
Bókaútgáfan Salka hefur gefið út
Furðudýr í íslenskum þjóðsögum eftir
Björk Bjarnadóttur með myndlýsingum
Guðrúnar Tryggvadóttur.
Jón Baldvin – Til-
hugalíf – Kaflar úr
þroskasögu
stjórnmálamanns
er skráð af Kol-
brúnu Bergþórs-
dóttur.
Saga Jóns Bald-
vins er rakin frá því
hann fæðist í Al-
þýðuhúsinu á Ísafirði og allar götur til
þess er hann verður flokksformaður og
arftaki Jóns Baldvinssonar og Hanni-
bals. Í fréttatilkynningu segir m.a.: „Til-
hugalíf er Íslendingasaga í nýjum stíl
þar sem bræður berjast og brugguð
eru launráð á bak við tjöldin. Þetta er
saga ungs manns sem leggur af stað
út í heim með samhygðina með bræðr-
um sínum og systrum að veganesti úr
foreldrahúsum. Hann ratar víða og fer
um skeið villur vegar en finnur loks
leiðina heim. Og hreppir á leið sinni
ballerínuna sem á hug hans allan.“ Út-
gefandi er Vaka-Helgafell. Bókin er
400 bls., prentuð í Odda hf. Kápu
hannaði Loftur Ólafur Leifsson. Verð:
4.990 kr.
Ævisaga
Bókin Vatnsafls-
virkjanir á Íslandi
er skráð af Helga
M. Sigurðssyni.
Bókin hefst á al-
mennu yfirliti yfir
raforkusögu Ís-
lands. Ennfremur
er fjallað um hvað
sé vatnsafls-
virkjun. Meginhluti bókarinnar er síðan
umfjöllun um vatnsaflsvirkjanir á Ís-
landi sem tengdar eru almennings-
veitum. Þær eru 38 talsins og vinna yf-
ir 99% af beislaðri vatnsorku í landinu.
Í fréttatilkynningu segir m.a.: „Um
aldamótin 1900 féllu straumvötn Ís-
lands á haf út óáreitt. Fáum hafði þá
dottið í hug að þessir skæðu far-
artálmar, sem tekið höfðu tugi og jafn-
vel hundruð mannslífa, ættu eftir að
verða verðmætar orkulindir, sem létta
mundu strit landsmanna..“ Ljós-
myndir eru eftir Önnu Fjólu Gísladótt-
ur.
Útgefandi er Mál og mynd í sam-
vinnu við Verkfræðistofu Sigurðar
Thoroddsen hf. sem á 70 ára afmæli á
þessu ári. Bókin er 180 bls. Verð:
4.480 kr.
Saga
Litla lirfan ljóta, eft-
ir Friðrik Erlingsson
við teikningar Gunn-
ars Karlssonar, er
komin út á bók og á
DVD diski. Sagan er
gerð eftir sam-
nefndri teiknimynd
sem frumsýnd var í
sumarlok og vann
til tvennra Edduverðlauna fyrir
skömmu.
Sagan segir af lítilli lirfu sem opnar
augun í fyrsta sinn í garði einum. Þessi
litla prinsessa í álögum lendir í ýmsum
ævintýrum. Á DVD diskinum er einnig
pödduleikur þar sem notandinn getur
sett saman pöddu með fjarstýringu.
Jafnframt er 7 mínútna löng mynd um
gerð myndarinnar, sem ekki hefur ver-
ið sýnd áður ásamt upplýsinga-
myndbandi með tiltillagi myndarinnar.
Útgefandi er Caoz hf. en Bjartur ann-
ast dreifingu.
Börn
Ég er slanga er eft-
ir Birgi Jóakims-
son og myndskreyt-
ingar eru eftir Höllu
Sólveigu Þorgeirs-
dóttur. Bókin er í
raun leikfimibók
fyrir börn.
Í fréttatilkynn-
ingu segir m.a.:
„Við sjáum hvað nokkur vel valin dýr
gera og hermum síðan eftir þeim. Það
er skemmtilegur leikur en um leið er
kroppurinn teygður og styrktur.“ Birgir
er reyndur jógakennari en Halla Sól-
veig hefur myndskreytt fjölmargar
barnabækur.
Útgefandi er Bókaforlagið Bjartur.
Bókin er 24 bls., prentuð í Danmörku.
Verð: 1.480 kr.
Börn