Morgunblaðið - 04.12.2002, Blaðsíða 5
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 4. DESEMBER 2002 D 5
BÆKUR
FLESTIR áhugamenn um sögu
Íslands munu hafa fagnað er fréttir
bárust af því fyrir nokkrum árum að
Sögufélag hefði falið Helga Skúla
Kjartanssyni að rita sögu Íslands á
20. öld. Allir, sem eitthvað þekktu til
viðfangsefnisins, gerðu sér vitaskuld
grein fyrir því að það var í senn um-
fangsmikið og vandasamt, en jafn-
framt ögrandi og áhugavert. Margt
hefur að sönnu verið skrifað um ein-
staka þætti í sögu 20. aldarinnar á
Íslandi, einkum þó heimastjórnar-
tímann og ár síðari heimsstyrjaldar,
en flest er það í brotum og heild-
arsaga aldarinnar hefur aldrei áður
verið skrifuð, ef undan eru skildar
stuttorðar kennslubækur. Munu
þær þó fæstar ná til aldarloka.
Margar leiðir má vitaskuld velja
þegar skrifa skal svo umfangsmikið
yfirlitsverk sem þetta, og vanda-
málin sem leysa þarf í upphafi hljóta
að vera ærin. Verkið má hvorki
verða of stuttaralegt né óhóflega
langt, og líkast til væri auðveldara
að segja sögu 20. aldar á Íslandi í
fimm bindum en einu. Umfram allt
verður þó frásögnin að vera trúverð-
ug og hnitmiðuð og rituð á góðri ís-
lensku, svo sem flestir fái notið og
numið.
Þetta hefur Helga Skúla tekist að
gera. Saga hans er ágætlega skrifuð,
textinn flæðir vel, frá fyrstu síðu til
hinnar síðustu, og tengingar á milli
tímaskeiða og efnisþátta eru vel
heppnaðar. Bókinni er skipt í átta
meginkafla og fjallar hinn fyrsti um
fyrstu sautján ár aldarinnar, frá
1901–1918, annar og þriðji um lung-
ann úr sögu konungsríkisins, frá
1918 og fram að síðari heimsstyrj-
öld, fjórði um styrjöldina og stofnun
lýðveldis og hinir síðustu fjórir um
tímabilið frá 1950 til aldarloka.
Skiptingin í efnisþætti innan hvers
tímabils er býsna taktföst. Í hverjum
kafla er gerð grein fyrir helstu þátt-
um sögunnar, efnahagsmálum,
stjórnmálum og menningarmálum,
og hvarvetna er áhersla lögð á að
lýsa þeim breytingum sem urðu á
daglegu lífi, lífskjörum og viðhorfum
Íslendinga á viðkomandi tímaskeiði.
Afraksturinn verður glöggt og
greinargott yfirlit yfir þjóðarsöguna
á 20. öldinni. Frásögnin er og öll trú-
verðug og skemmtilega skrifuð og
hvergi gat ég séð að hallað væri
réttu máli. Má það kallast vel af sér
vikið í sögu tímabils sem höfundur
hefur sjálfur lifað að töluverðu leyti
og hlýtur að hafa skoðanir á eins og
annað hugsandi fólk.
Fræðimenn hafa löngum deilt um
það, hvort eitthvað sé til sem heiti
hlutleysi í sagnfræði, og hvort sagn-
fræðingar geti nokkurn tíma náð því
takmarki að verða algjörlega hlut-
lausir í frásögn sinni. Hér verður
engin afstaða tekin til þeirrar um-
ræðu, en hitt getur engum dulist, að
fræðimenn hljóta ávallt að velja sér
tiltekinn sjónarhól er þeir líta yfir
viðfangsefni sitt og þegar um er að
ræða yfirlitsrit yfir sögu heillar
þjóðar, eins og það sem hér er til
umræðu, hljóta efnistökin æði oft að
ráðast af því hver sjónarhóllinn er og
hvar hann er staðsettur. Sumir
reyna að segja söguna „utan frá“, ef
svo má kalla, og er þekkt dæmi um
það saga Bretlandseyja eftir breska
sagnfræðinginn Norman Davies,
sem út kom fyrir nokkrum árum og
þótti sérlega vel heppnuð. Hlaut höf-
undurinn mikið lof fyrir það, að ólíkt
fyrri höfundum um sama efni hefði
hann litið til Bretlandseyja í heild,
frá meginlandinu eða utan af hafi, og
lýst sögunni frá því sjónarhorni.
Helgi Skúli hefur valið að segja sögu
Íslands á næsta hefðbundinn hátt,
innan frá, ef svo má segja, og það
þykir mér helsti ljóðurinn á þessari
bók. Sögulegt sjónarhorn höfundar
verður á köflum fullþröngt og
Reykjavík og atburðir og þróun
mála þar fullmikið í fyrirrúmi. Þetta
á einkum við um umfjöllun um at-
vinnu- og framkvæmdasögu fyrri
hluta aldarinnar. Þar er gjarnan
sagt frá því hvenær eitthvað gerðist
í Reykjavík, en þess lítt eða ekki get-
ið að oft voru Reykvíkingar í raun
eftirbátar annarra, og stundum svo
munaði mörgum árum. Má þar nefna
t.d. lagningu vatnsveitu og hafnar-
gerð. Eftir síðari heimsstyrjöld hafði
Reykjavík hins vegar forystu í flest-
um efnum og þá á þetta sjónarhorn
mun meiri rétt á sér.
Tuttugasta öldin er að því leyti
ólík fyrri öldum í sögu okkar að
miklu meira er til af
heimildum en frá fyrri
tíð og úrval þeirra fjöl-
breyttara. Það léttir í
mörgum tilvikum starf
sagnfræðingsins, en
gerir honum þó á
stundum erfiðara fyrir,
og alltaf hlýtur sú
spurning að leita á hug-
ann, hvers skuli geta og
hverju skuli sleppa. Að
minni hyggju hefur
Helga Skúla tekist vel
siglingin á milli þessara
skerja. Frásögn hans
er fyrst og fremst efn-
isleg, þ.e.a.s. hún snýst
um efnisþætti, gott
jafnvægi er í umfjöllun um alla
helstu málaflokka og ekki saknaði ég
umfjöllunar um nein sérstök mál-
efni. Sumir hefðu kannski kosið að
meira væri fjallað um einstaka menn
og konur, sem settu svip á öldina, en
þá er vandséð hvar hefði átt að
hætta og hætt við því að bókin hefði
vaxið óhóflega.
Mikið myndefni er í þessari bók
og vel valið. Margar myndanna
varpa skemmtilegu ljósi á megin-
málið og myndatextar eru víða gott
ítarefni. Sumir þeirra eru þó of al-
mennt orðaðir en hefðu getað orðið
tilefni til þess að bæta enn við góða
frásögn í meginmáli. Sem dæmi um
það má nefna myndatexta á bls. 426.
Þar er mynd af Skymasterflugvél
fyrir utan flugskýli á Reykjavíkur-
flugvelli árið 1948 og hún sögð
„áþekk“ þeim flugvélum, sem ís-
lensku flugfelögin hafi notað til milli-
landaflugs fram til 1964. Nú er það
að vísu alltaf álitamál hvað sé
„áþekkt“ í þessum efnum, en heldur
ólíklegt tel ég að sérfræðingar og
áhugamenn um flugmál kalli flugvél
af þeirri gerð er sést á myndinni
„áþekka“ öðrum tegundum, sem
notaðar voru í millilandaflugi Íslend-
inga á þessum árum. Hitt er svo aft-
ur annað mál að myndin er af þeirri
frægu flugvél Geysi. Af henni er
mikil saga, sem nýta hefði mátt
myndatextann til að segja, m.a. geta
þess að Geysir flaug fyrsta áætlun-
arflug Loftleiða til New York, sem
tvímælalaust markaði tímamót í
samgöngusögu þjóðarinnar.
Í tveimur myndatextum rakst ég á
villur, sem áhugamenn um skip og
landhelgisgæslu munu
telja heldur meinlegar.
Á bls. 285 er mynd af
mönnum sem róa gúm-
báti frá skipi og segir í
myndatexta, að þar séu
á ferð varðskipsmenn
af Ægi á leið „út í“
breskan togara í apríl
1959, en þá stóð fyrsta
þorskastríðið sem
hæst. Hér er eitthvað
málum blandið og text-
inn með myndinni
reyndar kolvitlaus. Í
fyrsta lagi er skipið á
myndinni ekki Ægir
(„gamli“ Ægir), heldur
vitaskipið Hermóður.
Það má glöggt sjá á skorsteinsmerk-
inu, sem var merki Vitamálastjórnar
á þessum tíma. Hermóður fórst 18.
febrúar 1959, svo ekki hefur myndin
verið tekin í apríl það ár. Í öðru lagi
er ljóst af myndinni, að mennirnir í
gúmbátnum eru að róa í átt að Her-
móði og geta því varla verið á leið „út
í“ togara, enda ótrúlegt að nokkur
skipherra hjá Gæslunni hefði verið
svo óvarkár að senda tvo menn á
litlum gúmbáti að togara, sem verið
var að handtaka.
Hinn myndartextinn er á næstu
opnu, á bls. 287. Þar sést skipverji
hjá Landhelgisgæslunni miða fall-
byssu og enn er sagt að atvikið á
myndinni eigi sér stað um borð í
Ægi og í apríl 1959. Umbúnaðurinn
umhverfis fallbyssuna er hins vegar
allt annar en var á „gamla“ Ægi og
hafi myndin verið tekin 1959, má
fullvíst telja að hún hafi verið tekin
um borð í Þór (III).
Þessar aðfinnslur hljóta að teljast
smávægilegar, en myndatextar
skapa góð tækifæri til þess að auka
við texta meginmáls og koma að
ýmsu sem er of sérstakt og smátt til
að falla vel að meginmáli. Það á ekki
síst við um yfirlitsrit sem þetta, en
þá skiptir höfuðmáli að textarnir séu
réttir.
Í bókarlok er að finna skrár um
lands- og ríkisstjórnir á Íslandi á 20.
öld, ýmsar tölulegar upplýsingar og
hefðbundnar skrár. Allur frágangur
bókarinnar er með ágætum og nið-
urstaðan hlýtur að verða sú, að þessi
bók sé harla góð.
Saga 20. aldar
Jón Þ. Þór
Helgi Skúli
Kjartansson
Sagnfræði
Ísland á 20. öld
HELGI SKÚLI KJARTANSSON
Sögufélag, Reykjavík 2002. 584 bls.,
myndir, línurit.
Skapaðu líf þitt,
upphaf og þróun
Avatar er eftir
Harry Palmer í
þýðingu Sigurðar
Bárðarsonar.
Harry segir sög-
una um grundvöll
uppljómunar og
leit sína að betri
leið. Hann segir frá fortíð sinni á
hippaárunum og samskiptum sínum
við skólastofnanir. Hann lýsir einnig
könnun sinni á viðhorfum þeirra sem
talið var að hefðu svörin og eigin
rannsóknum á uppbyggingu meðvit-
undarinnar.
Tímamót urðu í rannsóknum Har-
rys þegar hann fann aðferð sem
sýndi fram á að það sem við upp-
lifum er mótað af okkar eigin með-
vitund, viðhorfum okkar, en ekki öf-
ugt. Í framhaldinu þróaði hann níu
daga námskeið sem hann kallar
Avatar.
Útgefandi: Andakt Bókaútgáfa.
Bókin er 128 bls., prentuð í Slóven-
íu. Verð: 2.980 kr.
Lífsstíll
Harry og hrukku-
dýrin er eftir Alan
Temperley í þýð-
ingu Guðna Kol-
beinssonar.
Þegar Harry er
sendur til afa-
systra sinna á
Haftabóli býst
hann við eintóm-
um leiðindum. En frænkur hans og
gamlingjarnir vinir þeirra eru alls ekki
eins og Harry átti von á. Er þetta lið
ekki of gamalt til að aka á ofsahraða
og klifra í trjám? Og hvaða ráðagerðir
eru þau með og vilja ekki að Harry viti
neitt um… ráðagerðir um ýmislegt
sem enginn gæti sagt að væri leið-
inlegt…
Sjónvarpsþættir hafa verið gerðir
eftir sögunni og verða sýndir í Sjón-
varpinu í vetur.
Útgefandi er Æskan. Bókin er
240 bls.
Börn
ÞAÐ virðist vera útbreiddur
misskilningur að börn séu illa gef-
in og hafi ekki áhuga á öðru en því
sem er einfalt, einfeldningslegt og
í stíl fimmaurabrandara. Íslenskt
barnaefni í sjónvarpi er merkt
þessum misskilningi og alltof al-
gengt er að íslenskar barnabækur
séu sama marki brenndar. Inni-
haldslausar sögur sem hróflað er
upp án metnaðar að því er virðist
til þess eins að einhverjar íslensk-
ar barnabækur séu nú í boði þessi
jólin. Á þessu eru sem betur fer
undantekningar en Lúsastríðið er
engin undantekning frá þessari
hroðvirknistefnu. Hér segir af
nokkrum krökkum í ellefu ára
bekk sem taka sig saman um að
starta lúsafaraldri í bekknum til
að skólanum verði lokað og þau fái
frí. Það gengur upp og sagan segir
frá því sem á daga þeirra drífur þá
viku sem þau eru laus við skólann.
Þar rekur hvert asnastrikið annað:
keilukeppni á stofugólfinu, skíða-
ferð niður stigana í blokkinni, út-
leiga á húfu með lúsum í til ann-
arra skóla o.s.frv. Aðalpersóna og
sögumaður er Ingibjörg Þórhildur
sem virðist vera ótrúlega van-
þroska ellefu ára
stúlka sem sækir allar
hugmyndir sínar um
lífið í gömul ævintýri
og Dickenssögur, þótt
hún lesi ekki neitt
annað en Tinnabækur
(!) og Disneyblöð. Hún
er potturinn og pann-
an í flestum uppátækj-
um krakkanna, en þau
enda að sjálfsögðu
flest með skelfingu.
Hugmyndin að þess-
ari persónu er greini-
lega sótt í prakkara-
bækur einsog Fríðu
framhleypnu og Grím
grallara, sem bæði
urðu ástsælar persónur á sínum
tíma, en gallinn er bara sá að Ingi-
björg Þórhildur er svo illa skrifuð
persóna að prakkarastrik hennar,
iðrun og vangaveltur um lífið
verða afspyrnu ósannfærandi og
óspennandi. Það vottar reyndar
ekki fyrir spennu í sögunni og
hvergi er kafað undir yfirborðið til
að lesandinn fái skýrari mynd af
krökkunum og umhverfi þeirra.
Hér er engin dulúð, enginn drif-
kraftur, ekkert sem knýr söguna
áfram. Bara endalausar lýsingar á
klúðri og skömmum. Persónusköp-
un er engin, sögupersónurnar ná
aldrei að lifna, málfarið er flatt og
ósannfærandi í munni ellefu ára
barns og stíll og bygging í molum.
Í besta falli er hér
um að ræða frum-
drög að sögu og vek-
ur furðu að höfundi
skyldi ekki bent á að
vinna bókina betur
fyrir útgáfu.
Meira að segja
myndir Önnu Cynth-
iu eru staðlaðar og
andlausar og ná-
kvæmlega í sama stíl
og þær myndir sem
skreytt hafa aðra
hverja barnabók síð-
ustu 15 árin.
Og þá erum við aft-
ur komin að þessu
viðhorfi til verka fyr-
ir börn sem minnst var á í upphafi.
Þar virðist enginn metnaður liggja
að baki. Afi og amma kaupa hvort
eð er þá bók sem mest er auglýst
til að gefa barnabörnunum í jóla-
gjöf og útgefendur virðast láta
hagnaðarvonina nægja þegar kem-
ur að vali barnabóka til útgáfu. Og
svo er óskapast yfir því að börn
„nú til dags“ vilji ekki lesa heldur
hangi í tölvuleikjum daginn út og
inn. Sem er ekki undarlegt þegar
svona trakteringar eru í boði.
Reyndar full ástæða til að hvetja
börn til að eyða tímanum frekar í
spennandi tölvuleik en í lestur
þessarar bókar.
Barnaskapur
BARNABÓK
Lúsastríðið
BRYNHILDUR ÞÓRARINSDÓTTIR.
MYNDIR: ANNA CYNTHIA LEPLAR.
Mál og menning 2002, 134 bls.
Friðrika Benónýsdóttir
Brynhildur
Þórarinsdóttir
Bakað úr spelti
hefur að geyma
uppskriftir Fríðu
Sophíu Böðv-
arsdóttur.
Spelti er æva-
forn korntegund.
Í fréttatilkynningu
segir að það megi nota í stað
venjulegs hveitis, en sé þó að
mörgu leyti ólíkt því. Í bókinni eru
uppskriftir af brauði með og án
gers, súrdeigsbrauði, kökum, bök-
um, pitsum og bakstri sem börn
hafa gaman af.
Í bókinni eru bæði sígildar upp-
skriftir sem eru aðlagaðar spelti og
uppskriftir, sem bera keim af mat-
argerðarlist frá ýmsum löndum.
„Speltið hefur bæði meira nær-
ingargildi og er bragðbetra en hveit-
ið. Það hentar vel til lífrænnar
ræktunar og fólk með hveitióþol
getur oft notað það í stað hveitis.“
Útgefandi er PP Forlag. Bókin er
89 bls., prentuð í Danmörku. Verð:
2.990 kr.
Bakstur
Peð á plánetunni
jörð eftir Olgu
Guðrúnu Árna-
dóttur er endur-
útgefin í kilju en
bókin kom fyrst út
árið 1995.
Bókin er saga
hinnar fjórtán ára
Möggu Stínu. Í
kynningu segir
m.a.: „Leynilegur ástmaður minn
stendur í eldheitu sambandi við barbí-
dúkku ... Hólmfríður handavinnubani
lætur eins og ég sé með fjórtán þum-
alputta ... auk þess hóta kaloríu-
draugarnir að breyta mér í súmó-
glímukappa með tveggja sæta rass.“
Útgefandi er Mál og menning. Bók-
in er 174 bls., prentuð í Danmörku.
Kápu hannaði Björg Vilhjálmsdóttir.
Verð: 1.599 kr.
Unglingar
Halldór Lax-
ness – Líf í
skáldskap
er eftir Ólaf
Ragnarsson.
Ólafur dreg-
ur upp mynd af
Halldóri Lax-
ness, mann-
inum og skáld-
inu. Hann
byggir á nán-
um kynnum
sínum af Hall-
dóri og verkum
hans um árabil, á meðan hann var út-
gefandi Nóbelsskáldsins. Áður óbirt
samtöl Ólafs við Halldór um lífsferil
hans og viðfangsefni eru rauður þráð-
ur bókarinnar. Inn í þau er fléttað
margvíslegu efni úr einkabréfum Hall-
dórs, minniskompum hans og hand-
ritum, einkum frá fyrri árum, þegar
hann ferðaðist um „í frumskógum
menníngarinnar“.Víða er vísað til
greina Halldórs, sagna hans og
kvæða til þess að leggja áherslu á
samhengi hlutanna og það hvernig líf
hans, skrif og skáldskapur hefur
tvinnast saman.
Í kynningu frá útgefanda segir: „Í
bókinni glitrar á orðsnilld Halldórs,
glettni hans og gamansemi, ekki síst
í sögum hans af sjálfum sér og litrík-
um samferðamönnum sínum.“
Útgefandi er Vaka–Helgafell. Bókin
er 488 bls. auk 48 myndasíðna.
Ragnar Helgi Ólafsson hannaði kápu
og útlit bókarinnar. Bókin er prentuð í
Odda.
Verð: 4.990 kr.
Samtöl
Halldór Laxness -
Líf í skáldskap-
bókatilkynning