Morgunblaðið - 12.09.2003, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 12.09.2003, Blaðsíða 8
8 B FÖSTUDAGUR 12. SEPTEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ AUÐLESIÐEFNI ANNA Lindh, utanríkis-ráðherra Svíþjóðar, lést í gær af sárum sem hún hlaut eftir árás í miðborg Stokkhólms á miðvikudag. Stakk árásar-maðurinn hana mörgum sinnum. Svíar eru harmi slegnir vegna þessa skelfilega atburðar. Segja margir um að ræða beina árás á lýðræðið og opið samfélag. Lindh var stödd í verslun í Stokkhólmi þegar ungur maður klæddur hermanna-jakka hljóp að henni og stakk mörgum sinnum með hnífi. Forðaði hann sér síðan burt. Vitni hafa þó gefið góða lýsingu á honum og er hans nú leitað. Sænska lögreglan hefur þegar undir höndum hnífinn sem Lindh var myrt með og blóðugan jakka mannsins. Göran Persson, forsætis-ráðherra Svíþjóðar, sagði lát Lindh mikinn missi fyrir alla Svía. Hún þótti einstaklega geðug og hæfileika-rík kona. Litu margir á hana sem væntanlegan leiðtoga sænskra jafnaðar-manna og forsætis-ráðherraefni. Stjórnmála-menn og þjóðar-leiðtogar um allan heim minntust hennar með miklum hlýhug í gær. Ekki var vitað hvað vakti fyrir morðingjanum. Átökin sem nú eru meðal sænskra stuðnings-manna og andstæðinga evrunnar komu þó óhjákvæmilega upp í hugann hjá mörgum. En á sunnudag kjósa Svíar um hvort evran verði tekin upp eða ekki. Var Lindh framarlega í flokki þeirra, sem berjast fyrir upptöku evrunnar og veltu því margir fyrir sér hvort kosningunum yrði frestað í kjölfar láts hennar. Þegar hefur þó verið ákveðið að svo verði ekki og sagði Persson ódæðis-manninn ekki fá að ráða framgangi lýðræðis í Svíþjóð. Viðbúið er, að gæsla um stjórnmála-menn verði hert í Svíþjóð og jafnvel annars staðar á Norður-löndum vegna þessa atburðar. Morðið á Lindh sagt árás á lýðræðið Reuters Fjöldi manna hefur minnst Önnu Lindh með því að leggja blóm að árásar-staðnum. PAUL Simon og Art Garfunkel hafa tilkynnt að þeir ætli saman í tónleika-ferð um Bandaríkin og Kanada í haust. Þeir hafa ekki leikið saman í tvo áratugi fyrir utan að þeir komu fram á Grammy tónlistar-hátíðinni í febrúar. En þar afhentu þeir sérstök heiðurs-verðlaun. Þeir Simon og Garfunkel eru báðir 62 ára gamlir og nefnist tónleika-ferðin nefnist Gamlir vinir: 2003. Hún hefst í Michigan 18. október og stendur fram í desember, en á þeim tíma spila félagarnir í 36 borgum. Gömlu vinirnir kynntu tónleika-ferðina á blaðamanna-fundi í New York í vikunni. Þar sagði Garfunkel að þegar þeir Simon hittust í vetur hefðu þeir tekið að nýju upp samband. Simon og Garfunkel nutu vinsælda á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar fyrir dægurlög sem nú eru klassísk. Má nefna „Sound of Silence“ og „Bridge Over Troubled Water“. Þeir kynntust á æskuárunum í Queens í New York og gáfu út fyrstu plötuna í lok sjötta áratugarins. Eftir því sem vinsældir Simons og Garfunkels jukust óx spennan á milli þeirra. Simon, sem samdi flest lögin, fannst Garfunkel hefta sig. Og Garfunkel var það þyrnir í augum hve Simon átti létt með að semja lög. Þegar plata þeirra Bridge Over Troubled Water kom út árið 1970 hættu þeir samstarfinu. Þeir hafa þó komið nokkrum sinnum fram saman síðan á tónleikum, síðast árið 1983. Reuters Paul Simon (til hægri) og Art Garfunkel tilkynntu um tónleika-ferðalagið á blaðamanna-fundi í New York í vikunni. Simon og Garfunkel saman á ný ÍSLENSKA lands-liðið í knattspyrnu karla er í öðru sæti í 5. riðli undan-keppni Evrópu-mótsins í knattspyrnu. Ennþá eiga Íslendingar einn leik eftir í keppninni og er sá leikur gegn efsta liði riðilsins, Þjóðverjum. Þjóðirnar mætast í Hamborg 11. október og skera úrslit leiksins úr um það í hvaða sæti Ísland hafnar og hvort liðið nær að tryggja sér sæti í loka-keppninni í Portúgal á næsta ári. Til að svo verði þurfa Íslendingar að vinna leikinn og tryggja sér efsta sætið. Hafni liðið í öðru sæti verður það að leika tvo auka-leiki við eitthvert þeirra liða sem hafnar í öðru sæti í öðrum riðlum undan-keppninnar. Þá geta Íslendingar líka hafnað í þriðja sæti og setið eftir. Getur sú staða komið upp ef Skotar sigra lið Litháens og Ísland tapar fyrir Þjóðverjum eða gerir jafn-tefli. En Íslendingar og Þjóðverjar skildu jafnir eftir fyrri leik liðanna á Laugardalsvelli sl. laugardag. „Það er virkilega gaman að vera í þessari stöðu,“ sagði Ásgeir Sigurvinsson, landsliðs-þjálfari í knattspyrnu. „En við verðum að vera raunsæir og það verður erfitt að sækja stig, hvað þá sigur, til Hamborgar.“ Íslendingar í spennandi stöðu Morgunblaðið/Árni Torfason Hart var barist um boltann í leik Íslands og Þýskalands á Laugardalsvelli á laugardag. Úrslit leiksins voru 0:0. FLOSI Arnórsson stýri-maður er kominn heim eftir að hafa verið í fangelsi og gæslu-varðhaldi í Sameinuðu arabísku fursta-dæmunum. Var Flosi handtekinn í vor fyrir ætla að taka riffil með sér í flugvél á leið heim. Flosi sagði í samtali við Morgunblaðið að fangelsið í borginni Abu Dhabi hefði verið hræðilegt. „Við vorum sjö saman í einum klefa og sváfum allir á steypugólfi. Þegar við komum inn fengum við þrjú teppi. Eitt til að hafa undir okkur, annað til að hafa yfir okkur og þriðja til að hafa sem kodda. Þarna var allt vaðandi í skorkvikindum, maurum og kakkalökkum. Þetta var viðbjóður,“ sagði Flosi, sem mætti aldrei í morgunmatinn af því að hann var svo ógeðslegur. Það hefði ekki verið þess virði að vakna til að fara í hann. Morgunblaðið/Árni Sæberg Flosi með þriggja ára syni sínum, Guðjóni Alex, eftir heimkomuna. Flosi kominn heim

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.