Morgunblaðið - 02.11.2003, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 02.11.2003, Blaðsíða 8
8 ∼ Morgunblaðið í 90 ár 1913 ∼ 2003 háskóla sem leysti hinar flóknustu reikningsþrautir. Þátturinn Fjaðra- fok geymdi allmarga brandara og skopsögur. Kvæðið Sandfok eftir Ríkarð Jónsson þakti næstum heila síðu, en það var ort í tilefni af 65 ára afmæli sandgræðslustjóra ríkisins, Gunnlaugs Kristmundssonar. Bridge-þátturinn fór líka yfir á aðra síðu. Í þættinum Smælki voru nokkrir vel valdir brandarar til uppfyllingar. Á baksíðunni var stór mynd af barnastjörnunni fyrrverandi Shirley Temple sem nú var orðin glæsileg ung kona og auk þess allmargar skrýtlur. . . . Ofangreind Morgunblaðsvika sýnir glöggt að blaðið var fyrst og fremst fjölbreytt fréttablað sem bauð upp á margvíslegan fróðleik og upplýsingar fyrir lesendur sína. Yfirleitt var enginn stjórnmálakeimur af fréttaflutningnum og erlendu fréttirnar voru einfaldlega frá hlut- lausum erlendum fréttastofum, Reuters og NTB, og ýmsum stór- blöðum, svo sem Kaupmannahafnarblöðunum þar sem Morgunblaðið hafði í þjónustu sinni duglegan fréttaritara. Haustið 1945 er jafnvel ekki að finna pólitískan nöldurdálk í blaðinu; Staksteinar komu seinna. Auð- vitað beitti Morgunblaðið sér oft fyrir Sjálfstæðisflokkinn í tíð Valtýs, ekki síst í aðdraganda kosninga, en það var allt annað yfirbragð og ann- ar keimur af Morgunblaðinu en öðrum blöðum á þessum árum sem er vitaskuld ástæða þess að blaðið öðlaðist sína einstöku stöðu á íslenskum blaðamarkaði, eins og lýst hefur verið.“ Blað hans var skóli Í 25. og lokakafla bókarinnar segir meðal annars frá veikindum Valtýs, andláti hans og eiginkonu hans og eftirmælum samferðamanna. Þar segir jafnframt frá síðustu árum Valtýs við Morgunblaðið og meðal ann- ars svo: „Í desembermánuði 1955 fékk Valtýr tilefni til að horfa um öxl og leiða hugann að lífsstarfi sínu. Morgunblaðið stóð á tímamótum: í vænd- um var flutningurinn í stórhýsið að Aðalstræti 6 þar sem ný og full- komin prentvél beið þess að verða sett í gang til að prenta enn stærra og betra Morgunblað. Sjálfur stóð Valtýr líka á krossgötum. Að læknisráði var hann nú heima við og fyrirskipað að halda kyrru fyrir. Starfsorka hans var á þrotum. Engu að síður var hann bjartsýnn á að hann kæmist brátt til heilsu. Það átti ekki við Valtý að liggja rúmfastur en tímann mátti þó nota til að láta hugann reika – ekki síst eftir að hann fékk í hendur innilegt bréf frá ungum samverkamanni og vini sem átti eftir að verða eftirmaður hans á blaðinu, Matthíasi Johannessen. Valtýr og Matthías voru ritstjórar Morgunblaðsins í samtals yfir 75 ár, frá 1924 til 2001. Engir hafa sett meiri svip á blaðið, að frátöldum Vil- hjálmi Finsen, stofnanda Morgunblaðsins og ritstjóra á árunum 1913– 1921. Bréf Matthíasar hefur að geyma lýsingu á því hvernig Valtýr beitti ritstjóravaldi sínu og örvaði ungt fólk til samstarfs. Fyrst og fremst er bréf Matthíasar þó einlægur og persónulegur virðingarvottur ungs skálds og blaðamanns við Valtý Stefánsson á kvöldi ævistarfs hans: Kæri Valtýr. Ég þakka þér margfaldlega fyrir síðast og alla þína vináttu og tryggð í minn garð og allan þann lærdóm sem ég hef af þér num- ið. Ef ég hef nokkurn tíma kynnst manni sem kann tökin á því að móta ungar sálir og veita óframfærninni útrás og opna flóðgáttir tilfinninga og hugsana, þá ert það þú. Ég tel mig því óendanlega lánsaman að hafa verið leiddur á fund þinn, ungur og óreynd- ur . . . Þú hefur ekki hýtt okkur strákana, en þó held ég að þú hafir agað okkur, þú hefur ekki áminnt okkur, en þó held ég að þú hafir bent okkur á vitleysurnar, þú hefur ekki hælt okkur, en þó held ég að þú hafir borið virðingu fyrir skrifum okkar; þú hefur rætt við okkur og alltaf hlustað á okkar rökfærslur, þér hefur fundist við hlaupa út undan okkur, en alltaf treyst okkur. Fyrir það hljót- um við að vera þakklátir . . . og þess vegna hefur mér alltaf dottið í hug, þegar ég hef hugsað um áhrif þín á mig sérstaklega, það sem Snorri segir um Erling jarl Skjálgsson: Öllum kom hann til nokk- urs þroska . . . . Ég man það frá Menntaskólaárum mínum, frá þeim árum þeg- ar heimurinn var leyndardómur og framtíðin óviss, að ég heyrði menn tala um ritstjóra Morgunblaðsins með óttablandinni virð- ingu, ekki vegna þess endilega að þeir héldu að hann væri um- burðarlyndur eða sérstaklega frjálslyndur heldur hins, hvílíkt ógnarvald hann hafði yfir mönnum og hve hann beitti því mis- kunnarlaust í baráttu dagsins. Og eins og eðlilegt er um óharðn- aðan ungling sem kemur frá góðu borgaralegu heimili og sýkist lítillega af kommúnisma, atheisma og hvað það nú heitir allt sam- an, þá stóð mér stuggur af þessum stóra manni og áhrifum hans, vorkenndi aumingja litlu ræflunum sem aldrei fengu að hugsa sjálfstætt, voru barðir áfram eins og ritvélin sem þeir slógu á. Þetta var pólitík! Og svo. Einn góðan veðurdag stóð ég sjálfur frammi fyrir þess- um manni, læknaður af öllum ismum Menntaskólaáranna, feim- inn og ósjálfbjarga á vettvangi lífsbaráttunnar, og var tekið tveimur höndum. Þá fyrst fékk ég trú á hugsjónir afa míns og for- eldra, trú á framtíðina og sjálfan mig og hugsjónir okkar allra – vegna þess að áróðursmennirnir höfðu á röngu að standa: mað- urinn sem ég hafði heyrt rætt um var ekki virðingarverður vegna ógnarvalds, heldur umburðarlyndis, mannþekkingar og víðsýnis sem tengdi öld við öld og gerði allt að einni órjúfandi heild. Þú getur sennilega aldrei ímyndað þér þá gleði sem ég öðlaðist við þessa vitneskju og sjaldan hefur nokkur ungur maður unnið meiri sigur. Þegar maður sigrar með sannfæringu sína eina að vopni er maður öfundsverður. Og ég held að allir sem trúa á Morgunblaðið og hugsjónir þess eigi eftir að sigra þegar sagan verður skráð og við erum allir og enginn skilur sálarástand þeirra manna sem eitt sinn trúðu á Stalín eins og við á guð. . . . Valtýr hugsaði lítt til þess hver skyldi verða eftirmaður hans á Morgunblaðinu. Hann ætlaði sér að komast til heilsu og fannst hann ekki vera á þeim aldri að tími væri kominn til að leggja árar í bát. Hins vegar hafði hann hugað nokkuð að framtíð Árvakurs hf. Snemma sumars 1954 skrifaði hann í litla minniskompu: Byrjaði að hugleiða hvernig hægt myndi vera að láta almennt framfarafélag yfirtaka Morgunblaðið, er beitti sér fyrir almenn- um framfaramálum í hvívetna og fengi skattfríðindi . . . Muna: þarf að tryggja starfsfólkinu fríðindi, og barnabörnunum styrk til sinna námsþarfa. Þarf að ráðgast um þetta við fróðustu og víð- sýnustu menn erlenda og innlenda. Ekki er af þessum fáu orðum fyllilega ljóst hvað Valtýr hafði í huga, en hann hefur væntanlega haft fyrirmynd að þessum vangaveltum í Dan- mörku þar sem nokkur þekkt blöð eru í eigu sjálfseignarstofnana. En þessar hugleiðingar Valtýs sýna glöggt að hann stefndi ekki að því á þessum árum að auka tengsl blaðsins við Sjálfstæðisflokkinn. Á hinn bóginn vildi hann að þjóðmálastefna blaðsins væri áfram að mestu sam- síða stefnu Sjálfstæðisflokksins í helstu málaflokkum. Sú ákvörðun Val- týs að fá Bjarna Benediktsson, varaformann Sjálfstæðisflokksins, til að taka sæti sitt í stjórn Árvakurs haustið 1955 var byggð á því að þeir voru nánir vinir til margra ára, samherjar í stjórnmálum og hugsuðu á svip- uðum nótum um blaðamennsku. Árvakur gekk þá í gegnum mikið breyt- ingaskeið, gömlu mennirnir, sem höfðu verið kjölfestan í starfi félagsins með Valtý, voru nú skyndilega horfnir af sjónarsviðinu og ungir menn komnir í staðinn með sínar meiningar – þegar allt var í óvissu í bygging- armálunum og þar með um framtíð blaðsins. Valtýr vildi fá mann í stjórnina sem gæti stýrt fleyinu heilu í höfn úr þessum sjóum. Enginn maður var betur fallinn til þess en Bjarni Benediktsson. Haraldur Sveinsson segir frá því í endurminningum sínum að Bjarni hafi verið settur í stjórnina til að hafa taumhald á ungu mönnunum, eins og hann kemst að orði. Ber þá að hafa í huga að árið 1928, þegar Valtýr eignaðist sinn stóra hlut í Árvakri, mynduðust ákveðin skil innan félags- ins. Þó var samstarf stjórnarmanna almennt mjög gott, ekki síst milli Valtýs og Hallgríms Benediktssonar. Þessi skil lýstu sér í því að á aðra hliðina var Valtýr með sinn rúmlega 46% hlut en á hina hliðina kaup- sýslumennirnir sem vildu standa vörð um meirihlutaeign sína í félaginu. Þegar líða tók á árið 1956 varð ljóst að Valtýr kæmi ekki til fullra starfa á Morgunblaðinu í bráð. Fyrir alþingiskosningarnar 1956 var Einar Ásmundsson lögfræðingur ráðinn til að annast stjórnmálarit- stjórn blaðsins ásamt Sigurði Bjarnasyni frá Vigur sem þurfti jafnframt að taka þátt í kosningaundirbúningi í kjördæmi sínu fyrir vestan. Einnig var Kristján Albertsson rithöfundur ráðinn til að skrifa stjórnmála- greinar í blaðið um tveggja mánaða skeið. Þá skrifaði Pétur Benedikts- son, sem nýorðinn var bankastjóri Landsbanka Íslands, tvo nafnlausa pólitíska greinaflokka í blaðið fyrir þessar kosningar. Um haustið þegar mynduð hafði verið vinstri stjórn undir forystu Hermanns Jónassonar var afráðið að Bjarni Benediktsson tæki við rit- stjórn blaðsins. Stjórn Árvakurs samþykkti þá að ráða Bjarna við hlið Valtýs sem „aðalritstjóra“, en Valtýr skyldi áfram vera ábyrgðarmaður blaðsins. Tveir „ritstjórar“ voru síðan ráðnir að auki, Einar Ásmunds- son og Sigurður Bjarnason frá Vigur sem áður var titlaður „stjórn- málaritstjóri“. Kaupsýslumennirnir í stjórn Árvakurs stóðu á bak við ráðningu Einars. Hann var ritfær maður og hafði skrifað um stjórnmál í blaðið um nokkurra ára skeið. Á ritstjórastóli tók Einar meðal annars upp þann sið, sem síðan hefur haldist, að hafa daglega fund með blaða- mönnum í upphafi vinnudags. En þótt ritstjórarnir væru nú fjórir í „hausnum“ var það vitaskuld Bjarni Benediktsson sem réð ferðinni í fjarveru Valtýs. Einar Ásmundsson lét af ritstjórastörfum 1. ágúst 1959. Hinn 8. ágúst sama ár var Matthías Johannessen ráðinn ritstjóri blaðsins. Eftir mynd- un Viðreisnarstjórnarinnar lét Bjarni Benediktsson af ritstjórn Morg- unblaðsins, í nóvember 1959. Hinn 1. maí 1960 var síðan Eyjólfur Kon- ráð Jónsson ráðinn ritstjóri. Voru starfandi ritstjórar Morgunblaðsins því áfram þrír á meðan Valtýr lifði, en nú voru þeir allir jafn réttháir. Valtýr var áfram skráður fjórði ritstjórinn og ábyrgðarmaður blaðsins.“ Morgunblaðsglugginn var eins konar Net síns tíma. Þangað streymdi fólk þegar fréttnæmir atburðir voru að gerast og tíðindi í vændum. Blaðamenn Morgunblaðs- ins settu þá jafnharðan fréttaskeyti út í gluggann.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.