Morgunblaðið - 23.12.2003, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 23.12.2003, Blaðsíða 8
8 B ÞRIÐJUDAGUR 23. DESEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ BÆKUR ÞRJÁR bækur fyrir börn sem ekki hefur borið mikið á nú fyrir jólin eru grænlenskt ævintýri um dreng sem numinn er á brott, endursögn úr sögum Jóns Sveinssonar (þar sem grænlenskir ísbirnir koma mikið við sögu) og ljóð og lög handa fullorðnum börnum um ým- is fyrirbæri í nútímanum, eftir Birgi Svan Símonarson og Krist- ínu Arngrímsdóttur. Í grænlenska ævintýrinu Brottnumda drengnum (Hólar, 2003) er sagt frá drengnum Anng- annguujuk og fjölskyldu hans sem lifir af selveiðum. Drengurinn leik- ur sér meðan pabbi hans veiðir og mamma hans verkar skinn, og dag nokkurn er hann numinn á brott. Áheyrendur fá nasasjón af græn- lenskum lifnaðarháttum, samfélagi og tungu í knappri og einfaldri frá- sögn, og rauði þráðurinn ekki síst ást foreldra á litla drengnum sín- um. Kærleiksríkt samband barns og fullorðinna og hættulegur viðskiln- aður við fjölskyldu kemur líka við sögu í endursögn eins af ævintýr- um Nonna, Á Skipalóni (Hólar, 2003). Hefst það á Þorláksmessu í torfbæ á Möðruvöllum í Hörgárdal þegar Nonni litli leggur í leið- angur að Skipalóni þar sem hann hyggst vera yfir jólin. Á hann bæði fyrir höndum erfitt ferðalag í frosti og snjó og grimmileg átök við ísbirni. Líkt og grænlenska ævintýrið varpar frásögn Nonna ljósi á allt annað samfélag en það sem við eigum að venjast og er því upplýs- andi um leið og haft er ofan af fyr- ir lesendum og áheyrendum, sem ekki er alltaf raunin þegar efni fyrir börn er annars vegar. Hér er á ferðinni annað ævintýri Nonna í nýrri endursögn og eins og áður hefur verið sagt á þessum vettvangi mætti gjarnan byrja frá- sögnina á stuttum kafla um Jón Sveinsson og ævi hans, því þótt ekki þurfi að kynna Nonna fyrir þeim sem löngu eru komnir á legg gildir ekki hið sama um smáfólkið. Bland í poka og dýrin í Hálsa- koti (Fótmál – Neðanjarðar, 2003) er á hinn bóginn rækilega staðsett í nútímanum, en engu að síður gott til umhugsunar og dægrastytt- ingar. Þar eru á ferðinni ljóð og lög handa fullorðnum börnum (líkt og segir á kápu) og bókin bönnuð fólki með brageyra og þeim sem elska bragfræði (æði?). Umfjöll- unarefnið er af ýmsu tagi; ástin, samviskan, sjálfsmyndin, einelti, ofnæmi, (vegfar)endur, geitungar, landafundir, Keikó, eða bara hvað sem er og þótt ljóðin séu hin besta skemmtun hefði verið til bóta að geta hlustað á lögin líka. En ágætur tónlistarmaður með gítar, sem syngur mikið og leikur fyrir börn, veitti liðsinni sitt og sagði: „Lögin í bókinni eru mörg hver skemmtileg og þeim fylgja laglínur og hljómar svo hægt sé að spila þau og syngja. Þó væri mikil bót í máli ef bókinni fylgdi ann- aðhvort geisladiskur eða spóla með einföldum útgáfum af lögunum. Þannig ættu börn og foreldrar auðveldara með að læra þau eftir eyranu þar sem nótnalestur er ekki almenn þekking meðal Ís- lendinga.“ Lífsháski, kærleikur og ljóð Grænlensk heimsmynd, ísbirnir, einelti og ást eru fyrirtaksviðfangsefni fyrir smáfólkið. Helga K. Einarsdóttir segir frá þremur barnabók- um með nærtækum söguþræði, sem skemmta, fræða og vekja til umhugsunar. VORIÐ eftir fall talíbana í Afg- anistan fékk norska blaðakonan Åsne Seierstad að flytja inn á heimili bóksalans Shah Moham- med Rais, sem hún í bókinni nefn- ir Sultan Khan, og dvelja þar í þrjá mánuði þar sem hana langaði til kynnast fjölskyldunni með það að markmiði að skrifa um hana bók. Í formála bókarinnar tekur Seierstad fram að sú fyrirætlan sín hafi verið með vitund og sam- þykki fjölskyldunnar (bls. 7). Síð- ar sama ár kom bókin út og vakti töluverða athygli og nýverið bár- ust t.a.m. þær fréttir að bókin hefði verið tilnefnd til Bresku bókmenntaverðlaunanna (British Book Award). En bókin hefur líka vakið mikla athygli sökum þeirra málaferla sem bóksalinn sjálfur hefur hótað höfundinum þar sem hann er afar ósáttur við þá mynd sem dregin er upp af honum í bókinni. Í fyrrnefndum formála leggur Seierstad áherslu á að hún hafi unnið bókina líkt og um skáldsögu væri að ræða þótt hún byggi á raunverulegum atburðum og fólki. Það er því ómögulegt að meta hversu raunsæ lýsing henn- ar af t.d. bóksalanum er, enda skiptir það lesendur í sjálfu sér ekki máli. Af lýsingum höfundar má hins vegar ljóst vera að Sultan Khan er á margan hátt frjálslynd- ur maður þótt það frjálslyndi nái ekki beinlínis inn á heimili hans. Þannig segir t.d. í bókinni: „[Sult- an] óskaði þess í hjarta sínu að Afganistan yrði nútímaland og hann talaði fallega um frelsun kvenna. En innan fjölskyldunnar var hann sem fyrr hinn ráðríki ættfaðir“ (bls. 238). Höfundur byrjar bókina á að kynna Sultan til sögunnar og segja okkur for- sögu hans með því að stikla á stóru í lífi bóksalans. Í framhald- inu taka síðan við kaflar þar sem einn meðlimur fjölskyldunnar er í forgrunni hverju sinni þó svo að öðrum fjölskyldumeðlimum bregði auðvitað líka fyrir. Þannig fáum við m.a. að kynnast Sonyu, seinni konu Sultans, sem er ólæs unglingur, Sharifu, fyrri konu Sultans, sem skammast sín fyrir fjölkvæni mannsins síns, Mansur, elsta syni Sultans, sem þráir ekkert heitar en að læra en neyðist til að sjá um bókabúðirnar þar sem faðir hans treystir engum nema fjölskyldunni til þess, Bibi Gul, móð- ur Sultans, sem gift- ist aðeins fjórtán ára og fæddi eiginmanni sínum þrettán börn, Leilu, yngstu systur Sultans, sem þrælar frá morgni til kvölds við að þjóna allri fjölskyldunni meðan hún lætur sig dreyma um að geta orðið enskukennari í skóla og Aimal, yngsta syni Sultans, sem aðeins er ellefu ára og þrælar myrkranna á milli í einni búða föður síns. Seierstad leggur áherslu á að frásögn hennar af þessari mann- mörgu fjölskyldu sé aðeins frá- sögn einnar afganskrar fjöl- skyldu, sem sé engan veginn dæmigerð þar í landi sökum þess að hún sé nokkurs konar milli- stéttarfjölskylda. Meðlimir henn- ar hafi margir hverjir hlotið ein- hverja menntun, auk þess séu þau það vel efnuð að enginn í fjöl- skyldunni þurfi að svelta. En í samskiptum fjölskyldumeðlima við aðra fá lesendur hins vegar innsýn í líf fólks sem ekki býr við jafngóð kjör og Khan-fjölskyldan. Þetta á til dæmis við um sam- skipti Sultans við hinn fátæka smið í seinni hluta bókarinnar og þegar Mansur verður vitni að því hvernig eldri maður notfærir sér eymd fátækra kvenna og barna (bls. 114–116). Við lestur bókar- innar verður ljóst að hér er um samfélag að ræða þar sem flestir íbúanna líða mikinn skort og margir búa við mikla eymd. Og í slíku samfélagi, þar sem hver á einfaldlega nóg með sig, fer oft lítið fyrir hvers kyns meðlíðan eða samúð. Þótt Seierstad hafi valið að skrifa sig ekki inn í bókina sem persónu er nærvera hennar sem höfundar afar áberandi. Þannig er söguhöfundur sífellt að læða inn í textann upplýsingum um land og þjóð. Þessar upplýsingar eru afar fróðlegar og veita les- endum aukna innsýn í samfélag sem lengi hefur verið umheimin- um lokuð bók. Meðal þess sem lesendur fá upplýsingar um er saga búrkunnar (þ.e. klæðnaðar sem hylur líkama kvenna frá hvirfli til ylja), hin ýmsu ættbálkastríð og saga hótelsins þar sem Aimal vinnur. Víðast hvar er þetta afar haganlega gert hjá höfundi, eins og t.d. í pílagrímsferð Mansurs til Mazar þar sem Mans- ur á ferðalaginu les í gamalli ferðamannabók og ber texta bók- arinnar samtímis saman við þann raunveruleika sem fyrir augu ber. Á öðrum stöðum vilja þessar ann- ars fróðlegu upplýsingar hins vegar trufla flæði bókarinnar um of sem kemur niður á persónu- sköpuninni og samsömun lesenda með persónunum. Þetta á t.d. við í kaflanum þar sem ættmóðirin Bibi Gul er í aðalhlutverki. Í því, sem virðist endurminningar Bib- iar Gul um hjónaband sitt og barnsfæðingarnar þrettán, kemur söguhöfundur allt í einu með upp- lýsingar um ungbarnadauða í Afganistan og helstu sjúkdóma sem dregið geta börn til dauða (bls. 105). Hér hefði þurft að tvinna þessar upplýsingar mun betur inn í textann eða hreinlega sleppa þeim. Þrátt fyrir þessa annmarka er hér um afar fróðlega og læsilega bók að ræða sem vert er að gefa gaum. Lýsingar Seierstads eru áhrifamiklar og lesendur Bóksal- ans í Kabúl ættu að vera margs vísari um afganskt samfélag eftir lestur bókarinnar. Það er bara synd að bókin skuli ekki vera lengri, því maður er rétt farinn að kynnast persónunum þegar henni skyndilega lýkur. Erna Árnadótt- ir á hrós skilið fyrir prýðis góða og lipra þýðingu. Einnig verð ég að minnast á kápuna sem Björg Vilhjálmsdóttir hannaði, sem mér finnst einstaklega smekkleg og falleg bæði með tilliti til litanotk- unar og myndefnis. Átakanleg fjölskyldusaga ÞÝDD SKÁLDSAGA Bóksalinn í Kabúl ÅSNE SEIERSTAD Íslensk þýðing Erna Árnadóttir. 246 bls. Mál og menning 2003. Silja Björk Huldudóttir Åsne Seierstad FLESTUM eru átthagarnir kær- ir og fólk minnist þeirra með ýmsum hætti. Fáir munu þó hafa lagt í ann- að eins stórvirki til minningar um átt- hagana og Bragi Straumfjörð Jóseps- son í þessu verki, sem lýsir Stykkis- hólmi og fólkinu þar á uppvaxtarárum hans, frá 1930 og fram um 1950. Þetta er þó engin venjuleg staðarlýsing, þaðan af síður hefðbundin byggðarsaga. Bragi fer hús úr húsi, lýsir byggingum og híbýl- um, rekur sögu þeirra og greinir frá íbúum, oft í talsvert löngu máli. Að auki fjallar hann um það sem hann kallar „jaðarsvæði Stykkishólms“, þ.e. þær Breiða- fjarðareyjar sem næstar liggja Hólminum og tilheyra Helgafells- sveit. Fyrsta bindi hefst á ýtarlegum formála og inngangi, þar sem höf- undur gerir grein fyrir verkinu og tilurð þess. Þá tekur við „Braga- bók“, sem er eins konar æviágrip höfundar á Stykkishólmsárunum. Þá kemur kaflinn um eyjarnar, en 3. kafli nefnist „Plássið“ og greinir frá hinum eiginlega verslunarstað og húsum þar. Þá tekur við kafli um Silfurgötu og því næst um Þinghús- höfða. Í 2. bindi er fjallað um hús og fólk við Skólastíg, Höfða, Austur- höfða og Tanga, þá er kafli sem ber yfirskriftina „Tilbrigði við manna- nöfn“ og greinir frá nöfnum og auk- nefnum ýmiss konar. Ellefti kafli nefnist „Hús í Stykkishólmi“ og eru þar talin hús og nöfn þeirra og saga húsanna rakin. Líku máli gegnir um 12. kafla, en þar segir frá vatns- brunnum í Hólminum. Í 3. bindi er svo „yfirlit yfir fólk sem fjallað er um í bókinni“, og er það skrá yfir alls á 5. þúsund manns með margs- konar upplýsingum. Í lok 3. bindis eru svo prentaðar skrár um hand- hafa mynda og heimildir. Aðeins eitt orð á við til að lýsa þessu verki: stórvirki. Er þá ekki aðeins horft til umfangs verksins og stærðar, heldur einnig og ekki síður til hinnar miklu vinnu sem höfundur hefur lagt í það. Hér er dreginn saman ótrúlega mikill fróðleikur um hús og híbýli og fólkið sem bjó í Stykkishólmi á uppvaxtarárum höf- undar. Frásögnin er vel fram sett og skipuleg, á köflum í gamansömum tón og höfundur segir ýmsar skemmtilegar sögur af sjálfum sér og öðrum, en er þó aldrei meinlegur. Í fyrsta hlutanum, „Bragabók“, lýsir hann til að mynda á glettnis- lega hátt tildrögum þess að hann varð sjálfur til, greinir frá samskiptum sínum við móður sína á barnsaldri, segir frá eina skiptinu sem hann hitti föður sinn, og lýsir fóst- urforeldrum sínum og heimili þeirra af nær- færni. Þessi kafli geymir einnig mikinn og gagn- legan fróðleik um mann- líf og daglegt amstur fólks í Hólminum á tímabilinu frá því um 1930 og fram um 1950 og má kallast glögg þjóðháttalýsing. Væri fróðlegt að bera hana saman við það sem tíðkaðist í öðrum bæjum hér á landi á þessum tíma. Stykkishólmur er einn rótgrón- asti þéttbýlisstaður landsins og var um langa hríð miðstöð viðskipta, menningar og stjórnsýslu á Vest- urlandi. Bæjarstæðið er fagurt og sérstætt og á fyrri tíð naut bærinn nábýlisins við Breiðafjarðareyjar og fólkið, sem þar bjó. Í Hólminum var sérstakt mannlíf, eins konar blanda af dansk-íslenskri þéttbýlismenn- ingu aldamótaáranna, íslenskri sveita- og strandmenningu og áhrif frá eyjabúskapnum. Yfir öllu þessu hvíldi sérstakur andblær, sem Braga Jósepssyni tekst vel að lýsa. Í ferð sinni frá einu húsi til annars leiðir hann fram á sviðið fjölda fólks, börn og fullorðna, og ýmsir kynlegir kvistir koma við sögu svo úr verður lifandi lýsing og skemmtileg aflestr- ar. Þetta verk er prýtt miklum fjölda mynda, alls tæplega 1.700, og auðga þær frásögnina, ekki síst mannlífs- myndirnar. Allur frágangur bók- anna er með miklum ágætum og eru þær gefnar út í fallegri öskju. Óður til föðurtúna BYGGÐASAGA Stykkishólmsbók I–III BRAGI STRAUMFJÖRÐ JÓSEPSSON 521+455+495 bls. Útgefandi: Mostrarskegg, Reykjavík og Stykk- ishólmi 2003. Jón Þ. Þór Bragi Jósepsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.