Morgunblaðið - 24.12.2003, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 24.12.2003, Blaðsíða 8
8 | FÓLKIÐ | MIÐVIKUDAGUR 24|12|2003 MORGUNBLAÐIÐ Þegar ég var barn var ég svo saklaus og hreinn að ég skildi ekki hvernig maður gat fengið marga pakka á jól- unum. Mér nægði einn. Þegar ég var búinn að opna einn pakka afþakkaði ég fleiri. Mér fannst ég búinn. Ég var saddur. Það tók mörg jól og afmæli að eyðileggja sakleysi mitt. Smátt og smátt glataði ég því. Við höldum jólin hátíðleg til að minn- ast þess að þá fæddist Jesú og votta honum smá virðingu í leiðinni. Samt er búið að margsanna að við vitum ekki nákvæman fæðingardag hans. Sumir trúa því ekki einu sinni að hann hafi fæðst. En allir taka þátt í jólunum á einn eða annan hátt. Maður getur al- veg haldið uppá jólin þó maður trúi ekki að Jesú hafi nokkurn tíma verið til. Sá guð sem hvað mest er tignaður núna um hátíðirnar er Mammon, guð peninga og græðgi. Hann er frændi Djöfulsins. Við dönsum í kringum jóla- tréð með honum. Og oftar en ekki slæst Bakkus frændi hans með í för. Hann er alltaf velkominn. Eftir vel heppnaða verslunarferð fáum við okk- ur í glas og látum líða úr okkur eftir stjórnlaust kaupæðið. Djöfullinn sjálf- ur stendur svo álengdar og klappar saman lófunum í takt við Göngum við í kring um. Fyrirgefning, auðmýkt og kærleikur eru einskis virði við hliðina á allri þeirri gleði og hamingju sem hægt er að kaupa fyrir peninga. Og ef maður er eitthvað órólegur yfir því þá fær mað- ur sér bara í glas. Svo belgjum við okkur út af svína- kjöti þrátt fyrir að Guð almáttugur, skapari himins og jarðar með meiru, hafi stranglega bannað okkur að borða svín því þau eru með klaufir en jórtra ekki. Okkur er alveg sama. Við erum hvort sem er búin að brjóta öll boðorð. Við girnumst konu náungans og náung- ann líka. Enginn fer í messu nema gamlar kellingar. Jólin eru orðin okkar eigin kjötkveðjuhátíð. Við erum farin að dýrka okkur sjálf og færa sjálfum okkur fórnir. Við þurrkum svínabrákina úr munnvikunum, ropum af öllum jóla- bjórnum og segjum hátt: „Jesú er fyrir aumingja!“ Ef ég væri Jesú þá mundi mér finn- ast afmælið mitt komið úr böndunum. Ég mundi byrja að reka út boðflenn- urnar. Ef við værum í alvörunni að halda uppá afmæli Jesú þá myndum við borða fisk. Fiskur var uppáhalds maturinn hans, steiktur fiskur. Við myndum hætta að fylla uppí tómarúm- ið í okkur með mat og veraldlegu dóti og fylla það með Jesú sjálfum. Við myndum leggja niður jólasveininn. Það er bara ekkert kúl að trúa á Jesú. Það er hallærislegt. Það er miklu meira kúl að trúa á sjaldgæfa guði. Það er kúl að fara í svett. Það er veru- lega hallærislegt að fara á samkomu hjá Fíladelfíu. Allt heilbrigt fólk hefur áhuga á Tarot. Enginn hefur áhuga á Matteusarguðspjalli. Ég trúi á Jesú. Hann er ekki svona væminn í alvörunni. Mér er alveg sama hvenær hann fæddist. Og hvað mig varðar þá er hann ekki dáinn enn. Það verður steikt ýsa hjá mér á að- fangadagskvöld. Jón Gnarr Hann á afmæli í dag! HUGRENNINGAR ALÞÝÐUMANNS HUGRENNINGAR ALÞÝÐUMANNS Hér í Kaupmannahöfn er yndislegt að vera fyrir íslenskan námsmann og fjöl- skyldu hans, ekki síst nú þegar jólin nálg- ast. Hér er allt svo ljómandi passlegt. Degi er farið að halla, en þó er ekki orðið dimmt fyrr en komið er heim og kveikt hefur verið á kertum og hitað te. Daginn styttir eiginlega bara í annan endann, því fáir ná að fara svo snemma á fætur að ekki sé komin smáskíma uppfyrir eirþök borgarinnar. Húsin standa hér leirrjóð og sæl af glöggangan og kertayl allan des- embermánuð, því þá halda Danir jól. Jólin byrja á svipuðum tíma og heima á Ís- landi, kannski samt af meiri krafti. Danir virðast ekkert vera of uppteknir af því að skilgreina hvenær byrja má að spila jóla- lögin; það segir sig sjálft – maður byrjar í fyrsta julefrokostinum og hann er nú venjulega um miðjan nóvember. Síðan tekur hver frokostinn við af öðrum, það er haldinn einn með vinunum, einn í skóla barnanna, einn í vinnunni, einn með gamla kollegíinu og aldrei neinn með maka en alltaf með sama matseðlinum; hérlendingar sýna aðdáunarverða elju og þrautseigju í því að þræla í sig sömu röð af síld, spekki og ákavíti og eina tilbreyt- ingin virðist vera staðsetning hinna óum- flýjanlegu stafsetningarvillna í hápunkti kvöldsins: látlausum grjónabúðingi með stóru nafni og kirsuberjasultu. Skömmu fyrir jólin fer síðan veðurspáin um hvít jól að birtast. Það vekur samhug að sjá hvað Danir geta orðið spenntir yfir einhverju jafn vonlausu, því hvít dönsk jól eru álíka mikil óskhyggja og hinn íslenski sumardagur, sem Íslendingar trúa jú statt og stöðugt að sé rétt handan við hornið. Vissulega eru til menn sem segj- ast muna eftir að hafa rennt sér á sleða um danskar brekkur fyrir jólin. Þótt við lát- um það ósagt að orðin dönsk og brekka fara varla saman, þá hefur reynsla und- anfarinna ára sýnt að snjói yfir höfuð, þá festir nú ekki lengi og þá eingöngu á stöðum sem liggja 50 metrum yfir sjáv- armáli og reikniði nú. Maður getur þess vegna ekki gert að því að gruna fólk um elliglöp eða lygar og þar sem maður vill nú síst væna fólk um svoleiðis svona rétt fyrir jólin getur maður fundið upp skýr- ingar, t.d. að foreldrar viðkomandi hafi í árdaga tekið sleða upp í skuld af norsk- um ógæfumanni eða íslenskum náms- manni og um þann viðburð hafi verið spunnin snævi þakin minning í fjölskyld- unni. En þetta segir okkur sem sagt að jólin séu óðfluga að nálgast og þar með að kveðja, því hér í Danmörku ná jólin rétt að staldra við yfir helstu hátíðisdagana og svo ekki söguna meir. Á aðfangadag hitt- ist fjölskyldan og dansar í kringum jóla- tréð skreytt lifandi litlum ljósum – þ.e.a.s. kertaljósum. Það eru beinlínis svik við jólin að nota eitthvað eins óekta og rafmagnsljósaseríur. Fólk skiptist á pökkum við þá sem eru á staðnum, svo er slappað af í huggulegheitum á jóladag og annan og svo er öllu jóla skutlað út, hvort sem er úr heimahúsum eða af Ráð- hústorginu sjálfu, og jólunum komið fyrir í svörtum plastpoka. Ráðvilltir Íslendingar mega sjálfir saga sín tré niður í flísar vilji þeir fá þau hirt eftir nýárið. Því eftir jólin koma áramótin og auðvitað þarf að skreyta fyrir þau líka. Þetta er þjóð sem kann að njóta sín og er ekki að teygja lop- ann að óþörfu. Hún á margt þessi gest- gjafaþjóð okkar fjölskyldunnar og ekki síst fegurðina í meinlokunni sem felst í tölfræði hins ómögulega; t.d. að nú í skrifuðum orðum séu hér 10% líkur á hvítum jólum. (Heimasíða upplýsingaseturs dönsku þjóðarinnar um hvít jól: http://www.dmi.dk/dmi/index/ danmark/hvid_jul.htm.) LÍFIÐ Í KAUPMANNAHÖFN HILDIGUNNUR SVERRISDÓTTIR Mér hafði alltaf leikið hugur á að vita hvern- ig náfrændur okkar í Færeyjum héldu upp á jólin. Þar sem mér hafði nýlega áskotnast færeysk símaskrá, hringdi ég í þrjá Fær- eyinga af handahófi og spurði hvernig jólin hjá þeim væru. Fyrstur fyrir svörum varð ungur piltur, Jógvan að nafni, sem ómögulega vildi láta taka við sig viðtal. Hann lét þó uppi að Fær- eyingar borðuðu jafnan siginn fisk á að- fangadagskvöld og stundum innyfli en síð- an hló hann hrossahlátri svo ég veit ekki hvort hann var að gera grín að mér. Ég hringdi þvínæst í Díönu Poulsen, 26 ára stúlku sem býr í Kollafirði, litlu þorpi á Straumey. Hún var alveg til í að spjalla og sagðist einmitt hafa verið að enda við að „pynta“ gluggana með seríum og gera „húnalegt.“ Hafið þið jólasveina? Hvað er það? Maður með skegg... santa klás... Jaaaá, jólamann! Nei, við höfum aldrei haft þá hér. Það eru bara „amríkanskir“ jólamenn í búðum. Hvað er borðað á aðfangadagskvöld? Siginn fiskur eða þurrkað kjöt. MINNI EN JÓLAMENN Sá þriðji sem varð fyrir svörum var bónd- inn Berint, eldri maður sem var með ein- dæmum málglaður og hress. Hvað gerið þið á jólunum? Við erum með jólatré og möndlugjöf. Og já, já, já, margir dansa í kringum tréð á jól- unum, en ekki ég, ég er orðinn svo gamall og rólegur. Svo er veisla í „dansihúsinum“ hér í þorpinu annan í jólum og þá hittast all- ir og dansa. En fáið þið í skóinn? Nei nei nei, bara í „hosuna“. Krakkarnir fá í „hosuna“ á jóladagsmorgun, sælgæti og svoleiðis. Þá eru „jólanissarnir“ búnir að koma niður strompinn til að setja í „hos- una“. Jólanissar? Já, þeir eru alveg eins og jólamennirnir nema bara miklu minni... |bryndis@mbl.is Fá í HOSUNA HVERNIG ERU JÓLIN Í FÆREYJUM?

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.