Morgunblaðið - 16.01.2004, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 16.01.2004, Blaðsíða 8
8 | FÓLKIÐ | FÖSTUDAGUR 16|1|2004 MORGUNBLAÐIÐ Fáar þjóðir í heiminum eru eins stoltar af sjálfum sér og Íslendingar. Hér er allt best og flottast. Við keppumst við að lofa land og þjóð og jörmum hvert upp í annað, um eigið ágæti, eins og rollur í rétt. Og allir sem efast um eða gagnrýna þessa blindu þjóðernishyggju eru einfaldlega neikvæð- ir. Þjóðernisnasisminn einkennir okkur öll. Hann kann að virðast krúttlegur í blaðri eldri borgara í heita pottinum, landkynningum sem senda ískaldan bjánahroll niður eftir bakinu á manni en skín svo í gegn í miskunnarlausri harðneskju sinni og eigingirni þegar kemur að flóttafólki og innflytjendum. Allt er best og flottast á Íslandi. Því er haldið að manni frá blautu barnsbeini, frá foreldrum, skólum og fjölmiðlum. Ég er búinn að gleyma af hverju ég kaus að fæðast hér. Ég man ekki einu sinni hvort ég hafði eitthvert val. Leifur Eiríksson var Íslendingur. Það er engin spurning. Samt var hann fæddur og uppalinn á Grænlandi. Það skiptir ekki máli. Hann var samt ekki Grænlendingur. Esjan er líka flottasta fjall ever. Samt man ég ekki eftir því hvernig hún lítur út. Hún er svona eins og hrúga af grjóti. Ég gæti ekki lýst henni fyrir einhverjum sem hefur ekki séð hana. En ég gæti teiknað Matterhorn. Það er töff fjall. Í fegurðarkeppni landa yrði Ísland í besta falli vinsælasta stúlkan. Hvað er svona merkilegt við íslenska hestinn? Er hann betri en hestarnir á Falklandseyjum? Íslenski hesturinn kann tölt. Er það ekki álíka merkilegt og að kunna Moonwalk? Við hæðumst að útlendingum sem hafa einhverjar ranghugmyndir um Ísland og hneykslumst á fáfræði fólks um þennan nafla alheimsins. Sjálf vitum við ekkert um daglegt líf á Madagaskar. Sem barni var mér sagt að íslenskt lambakjöt væri besta kjöt í heimi. Og að íslenskt vatn væri það besta í heimi. Það voru því mikil vonbrigði þegar ég smakkaði lambakjöt í Kína. Það var enginn munur! Þetta var bara lambakjöt. Ís- lenska kindin er aftur á móti flottasta kind í heimi, stolt og ákveðin með kúkinn úr sér dingl- andi aftan úr sér. Hún er eins og Al Pacino með klósettpappír lafandi uppúr buxnastrengnum. Að halda því fram að vatn sé betra á Íslandi en ann- ars staðar er eins og að halda því fram að Ópal sé betra á Akureyri en í Keflavík. Við höfum gert Ísland að guði. Íslendingar eru hundheiðnir og dýrka stokka og steina. Þeir tigna landið en ekki þann sem skapaði það. Ís- land er ekkert betra eða verra en önnur lönd. Þetta er allt meira eða minna eins. Og það er enginn munur á okkur eða Sierra Leoneum. Það er til gott fólk og slæmt. Og gott fólk er ekkert frekar á Íslandi en annars staðar. Ísland er eins og gamall afi sem er hvorki fal- legur né skemmtilegur og í mesta lagi einkenni- legur. En manni finnst vænt um hann vegna þess að hann er afi manns. Jón Gnarr Morgunblaðið/Árni Sæberg Afi minn, Ísland HUGRENNINGAR ALÞÝÐUMANNS HUGRENNINGAR ALÞÝÐUMANNS Michael Moore er ekki bara vinsæll fyrir kvikmyndir sínar og bækur heldur er hann ekki síður umdeildur fyrir skoðanir sínar og hvernig hann setur þær fram. Fyrir stuttu kom þekktasta bók hans út á ís- lensku á vegum Forlagsins undir nafninu Heimskir hvítir karlmenn. Þær Heiðrún Marteinsdóttir, laganemi við Háskóla Ís- lands, og Katrín Jakobsdóttir, íslensku- nemi við Háskólann og varaformaður Vinstri grænna, lásu bókina. LYGAR OG SAMSÆRI Heiðrún Marteinsdóttir segir að bókin hafi ekki verið góð, en hún hafi verið athygl- isverð. „Moore er einn þeirra manna sem er ekkert óviðkomandi. Kúariða, ósónlagið, bókasöfn, byssueign, bensíneyðsla, Bush og margt fleira lendir undir vökulu auga Moores. En skæruhernaður Moores byggist upp á að skjóta til allra átta í von um að eitthvert skotanna hæfi mark. Slíkt hefur aldrei þótt heillavænlegt vilji menn hljóma trúverðugir og Moore missir einfaldlega flugið í heilögu stríði sínu gegn stóra bróð- ur. Það voru því miður of margir kaflar bók- arinnar þar sem mér þótti hreint ótrúlegt að nokkur skynsamur maður færi með lygar á lygar ofan í viðleitni sinni til að leiða brengl- un bandarískra stjórnvalda í ljós.“ Heiðrún segir að Moore virðist sann- færður um að ekki þurfi að sýna fram á réttmæti staðhæfinga sinna, en til að þyrla ryki í augu lesandans og hylma yfir eigin lygi saki hann aðra óspart um lygar og sam- særi. „Þótt vel megi vera að einhverjar staðhæfinga Moores séu sannar, þá eru að sama skapi of margar sem eru ósannar. Sýnt hefur verið fram á að staðhæfingar Moores um m.a. félagslega kerfið, stríðs- rekstur Bandaríkjanna, viðleitni yfirvalda til fóstureyðinga og kosningasjóð Bush eru hreinn uppspuni og heimildir sem hann nefnir þessu til stuðnings tala öðru máli. Þegar mönnum þykir á sig hallað er ávallt gott að heyra rödd einhvers sem er á sama máli. Mörgum þykir Moore eflaust vera þessi rödd og loka því augunum fyrir stað- reyndum sem segja annað. Mörgum virðist hreinlega standa á sama hvort Moore segi rétt frá eður ei. Það er því áhyggjuefni að verk Moores skuli vera svo víðlesin sem raun ber vitni þar sem fáir virðast leggja sig í líma við að kanna réttmæti orða hans. Ef til vill er það hins vegar þankagangur minn sem laganema að krefjast þess að rök séu færð fyrir máli og því er mér ógerlegt að samþykkja Moore sem sjálfskipaðan póli- tískan siðapostula. Moore virðist einn af þeim sem hugsa upphátt og frásagnir hans verða sökum þess beinskeyttar og fyndnar. Þótt ég sé ósammála megininntaki bókarinnar og mörgum skoðunum Moores þá er bókin ekki alslæm. Ég get eindregið mælst til þess að fólk lesi m.a. kaflann um út- rýmingu karlmanna, sem er óborganlega fyndinn. Moore segir móður náttúru hafa hafist handa við að losa sig við karl- menn og sem fyrr er ekki grunnt á samsæriskenningum í hug- arfylgsnum höfundarins. Að öllu gamni sleppt hafa vinstrisinnaðar kenningar Moores að geyma miklar öfgar og fyrir þann sem ekki þekkir vel til þykir það furðu sæta að órökstuddar skoðanir hans skuli rata í hillur bókabúðanna. En Bandaríkjamenn virðast taka skoðunum þessum opnum örmum og bækur Moores, sem og bækur öfga-íhaldsfólksins Rush Limbaughs og Anne Coulter, seljast líkt og heitar lummur.“ HRESSANDI LESNING Katrín Jakobsdóttir segist hafa haft mjög gaman af að lesa bókina enda sé hún mjög hressandi fyrir alla vinstrimenn. „Það sem Michael Moore tekst, ólíkt þeim sem venjulega tjá sig um stjórnmál, stjórnmála- fræðingum og lærðum mönnum, er að gera pólitík skemmtilega – sem er ekki vanþörf á! Hann bendir hins vegar oft á hluti sem í sjálfu sér eru alveg „politically correct“ en gerir það á ótrúlega skemmtilegan hátt. Hann fjallar t.d. um umhverfismál á mannamáli sem allir í íslenskum stjórn- málum mættu taka sér til fyrirmyndar. Það er ekki snefill af tæknikratisma í Michael Moore; hann segir bara það sem honum finnst, beint út. Það er hrikalegt að lesa frásögn hans af kosningasvindlinu í Flór- ída þegar Bush var kjörinn forseti – hvern- ig allir „hugsanlegir“ og „grunaðir“ glæpa- menn voru þurrkaðir út af kjörskrá sem bitnaði auðvitað einkum á svertingjum. Annar áhugaverður kafli er þegar hann sýnir fram á það, með einföldum tölum, hvernig bandarískt efnahagslíf hefur þróast út í fákeppni og hvernig skattbyrð- arnar lenda æ meir á einstaklingunum vegna þess að fyrirtækin eru öll skráð á Cayman-eyjum eða Bermúda, þó að öll starfsemi þeirra sé í Bandaríkjunum – þetta ætti að vera lærdómsrík lesning fyrir Geir Haarde og skyldulesning fyrir þann vinstrimann sem einhvern tíma tekur við af honum í embætti.“ Katrín segir að sem áhugamanneskju um skólamál hafi sér fundist kaflinn sem nefnist Þjóð fávitanna einna bestur. „Þar er rætt um bandarískt skólakerfi, sívax- andi ítök fyrirtækja í skólunum sem styrkja þá og fá á móti að láta auglýs- ingum rigna yfir nemendur á sama tíma og ríkið neitar að styrkja skólana frekar. Þetta minnir líka á íslenska orðræðu um að atvinnulífið eigi að taka aukinn þátt í skólakerfinu. Í raun er Michael Moore einn af fáum sem hafa komið vinstrisinnaðri blaða- mennsku á kortið í Bandaríkjunum. Og hann kveður þá í kútinn sem vilja meina að þeir sem gagnrýna Bandaríkin séu bara haldnir Bandaríkjahatri eða „anti- americanism“ því að hann sjálfur er erki- Bandaríkjamaður, derhúfukani sem borðar ábyggilega of mikið af hamborgurum ef marka má útlitið. Sjálfur er hann sprottinn úr rótum bandarískrar verkalýðsstéttar þannig að enginn getur sakað hann um Bandaríkjahatur. Í stuttu máli: Mjög hress- andi lesning fyrir alla áhugamenn um stjórnmál.“ |arnim@mbl.is Morgunblaðið/Kristinn Umdeildur HVÍTUR karlmaður HEIÐRÚN:Þyrlar rykií augu lesandans KATRÍN: Lærdómsrík lesning fyrir Geir Haarde http://www.bowlingforcolumbine.com http://www.bowlingfortruth.com

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.