Lesbók Morgunblaðsins - 02.02.2002, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 02.02.2002, Blaðsíða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 2. FEBRÚAR 2002 Á meðan brimið þvær hin skreipu sker og skýjaflotar sigla yfir lönd þá spyrja dægrin: Hvers vegna ertu hér, hafrekið sprek á annarlegri strönd? Það krækilyng sem eitt sinn óx við klett og átti að vinum gamburmosa og stein, er illa rætt og undarlega sett hjá aldintré með þunga og frjóa grein. Hinn rammi safi rennur frjáls í gegn um rót er stóð í sinni moldu kyr, en öðrum finnst sig vanta vaxtarmegn þótt vorið fljúgi í lofti hraðan byr. Drýpur af hússins upsum erlent regn, ókunnir vindar kveina þar við dyr. (Úr landsuðri, 1939.) Form þessa kvæðis er sonnettuafbrigði, nánar tiltekið afbrigði af svokallaðri enskri sonnettu. Þetta er upphaflega ítalskur bragarháttur er kom fyrst fram á Sikil- ey á 13. öld. Ítalska sonnettan er 14 vísuorð er skiptast í fjögur erindi, tvær ferhendur og tvær þríhendur, og er hver braglína 11 atkvæði og endar á kvenrími. Enska gerð- in, sem oftast er kennd við Shakespeare, er aftur á móti 14 tíu atkvæða vísuorð með eins atkvæðis víxlrími (karlrími) sem skiptast í þrjár ferhendur og loks tvíhendu sem er sér um rím. Þessu fylgir Jón, nema hvað tvíhendan heldur áfram rímfléttu þriðju ferhendunnar. Sonnettan hefur að því leyti ákveðna sérstöðu sem bragarháttur, að að hún gerir ekki aðeins formkröfur, heldur einnig um ákveðna efnismeðferð. Þannig er í ítalskri sonnettu almenn reifun efnis í fyrri erindunum tveimur (ferhendunum) en unnið úr því á sértækari hátt í þríhendunum sem á eftir fylgja. Í enskri sonnettu er tvíhendan í lokin aftur á móti eins konar efnisleg niðurstaða þess sem áður er lýst. Sá sem tekur sér fyrir hendur að yrkja sonnettu velur sér mjóan stíg að markmiði sínu. Formið skammtar naumt rými og setur huganum þröngar skorður. Ekkert má vera of eða van, línufjöldi ákveðinn og atkvæði talin í hverju vísuorði. Bragsnilld Jóns Helgasonar er slík, að það er engu líkara en hugur hans sé algerlega frjáls í þröngum klefa sonnettunnar. Hvergi verður vart við nokkra fjötra. Orðaröðin er fullkomlega eðlileg. Rím og stuðlar falla á merkingarbær og efnislega þýðingarmikil orð. Orðavalið er kjarnmikið og stíllinn í senn svipmikill og einfaldur. Allt er í rauninni býsna auðskilið efnislega þótt ekkert sé sagt beinum orðum heldur fært í búning tign- arlegs myndmáls, þar sem mest ber á myndhverfingum og persónugervingum. Hins vegar eru engar líkingar. Brimið þvær skerin og skýin umhverfast í flota. Sú mynd- hverfing kallar á sögnina sigla, og þessi floti siglir ekki sjó heldur yfir lönd. Dægrin eru persónugerð með spurningunni og viðmælandi þeirra verður „hafrekið sprek á annarlegri strönd“. Hér kemur strax í fyrsta erindi sjálfur efniskjarni ljóðins: mælandinn er ekki á sín- um rétta stað, heldur kastast með öldum hafsins (örlaganna?) upp í framandi fjöru. Þessi hugsun heldur síðan áfram í breyttum myndum uns niðurstaða fæst í lokalín- unum tveimur. Krækilyngið sem slitið er upp úr hrjúfum jarðvegi sínum þrífst illa í suðrænum aldingarði. Annað erindið geymir að mestu beinar myndir. Þó er það eins konar persónugerving að segja að lyngið eigi vini. Þriðja erindið skil ég svo að skáldið skírskoti til arfleifðar. Hin rótfasta jurt dregur næringu úr sínum eigin eðlilega jarð- vegi, en sú jurt sem er slitin upp og sett niður í allt annan jarðveg finnur ekki lengur hinn endurnærandi lífskraft vorsins, þótt hún viti af því og sjái vorið fljúga „í lofti hraðan byr“. Í ljóðabók Jóns Helgasonar Í landsuðri (1939) standa tvö ljóð hlið við hlið sem fjalla bæði um heimkynni, en frá gagnstæðu sjónarmiði. Fyrra ljóðið heitir Á Rauðsgili, þar sem skáldið vitjar æskustöðvanna í Hálsasveit í Borgarfirði og „grunar hjá grassins rót / gamalt spor eftir lítinn fót“. Hann nýtur gróðurs og nefnir hvönn, engjarós og mjaðarjurt (og er athyglisvert hvernig vísað er til gróðursins í báðum ljóðum) en einnig landslagsins. Og hann man hvernig „ómur af fossum og flugastraum / fléttaðist síðan við hvern minn draum“. En honum er ekki gefið að dveljast þarna lengi: Handan við Okið er hafið grátt, heiðarfugl stefnir í suðurátt, langt mun hans flug áður dagur dvín, drýgri er þó spölurinn heim til mín. Skáldið á ekki lengur heima á æskustöðvunum og ekki annað eftir af drengnum en grunur um gamalt spor eftir lítinn fót. En vorþeyrinn í Danmörku veitir honum ekki heldur neitt vaxtarmegn. Ekki heldur þar eru raunveruleg heimkynni hans. Hann líkir sér við hafrekið sprek og rótslitið krækilyng. Jafnvel regnið er erlent og fram- andi og hljóðið í vindinum ókunnuglegt kvein. JÓN HELGASON Í VORÞEYNUM LJÓÐRÝNI NJÖRÐUR P. NJARÐVÍK T IMES Literary Supplement (TLS) varð hundrað ára 17. janúar síð- astliðinn. Að mati sumra er þetta þrautleiðinlegt og gamaldags blað. Og sennilega er það rétt að vissu leyti. TLS slær sér ekki upp á stórum myndum eða flottu um- broti og er því kannski ekki mjög aðlaðandi. Greinahöfund- ar eru líka sumir haldnir þeim lærdómskvilla að koma sér seint og illa að efninu. Það kann því að reynast almennum les- endum erfitt að komast að kjarnanum í lengri grein- um blaðsins þar sem rök- leiðslur eiga það til að teygja sig yfir fleiri dálk- sentimetra en góðu hófu gegnir. Það er að minnsta kosti ekki mjög algengt að höfundar komi sér jafn af- dráttarlaust að efninu og hinn alræmdi Martin Am- is í afmælisblaðinu (18. janúar) þar sem hann hef- ur ritdóm á yfirlýsingu um að tiltekin bók sé „frá- munalega leiðinleg“. En þetta er þó ekki einsdæmi og segja má að flest sé leyfilegt í þessu blaði nema hroðvirknisleg vinnubrögð. Alltaf alvarlegt TLS hefur lítið breyst í þessi hundrað ár eins og fram kemur í afmælisgrein ritstjórans, Ferdinands Mount. Það hefur alltaf haft þetta alvörugefna yfirbragð eins og það vilji gefa til kynna að léttúð sé ekki viðeigandi þegar bækur eru annars vegar. „Það fer sér hægt,“ segir rit- stjórinn, „er óuppnæmt en samt eftirtektar- samt, gagnrýnið en ekki óhæft um að sýna skilning, stundum stygglynt, stundum ljúft eða jafnvel þunglamalegt en alltaf alvarlegt (meira að segja í léttvægari skrifum), situr við sinn keip.“ TLS var arftaki sérblaðs The Times um bók- menntir sem hét einfaldlega Literature en The Times hafði frá upphafi lagt mikla áherslu á vandaða bókmenntaumfjöllun. Framkvæmda- stjóri The Times á þessum tíma, Charles Frede- ric Moberly Bell, gerði sér háar hugmyndir um TLS allt frá upphafi en hann ætlaði því að verða jafn áhrifamikið á sínu sviði og The Times var í almennum fréttum og umræðu. Og blaðið sló þegar í gegn. Í byrjun þriðja áratugarins þótti framkvæmdastjóra The Times raunar nóg um vinsældir blaðsins. Það hafði tekið 20.000 les- endur frá aðalblaðinu og framkvæmdastjórinn taldi því rétt að fella TLS inn í aðalblaðið. Úr því varð ekki. En vinsældir TLS urðu sífellt meiri og náðu hámarki árið 1950 þegar blaðinu var dreift í 49.000 eintökum á viku. Virt en líka gagnrýnt Blaðið naut einnig mikillar virðingar sem fag- rit. Þegar árið 1919 talaði T.S. Eliot um að bók- menntagagnrýnanda gæti ekki hlotnast meiri heiður en að skrifa í TLS. Í gegnum tíðina hefur það þó verið harðlega gagnrýnt. Árið sem út- gáfa The Times lá niðri (nóv. ’78–nóv. ’79) urðu til tvö ný bókmenntarit af svipuðu tagi í Eng- landi, London Review of Books og Literary Re- view en stofnendur þeirra höfðu uppi stór orð um að blöð þeirra myndu ekki verða jafn „leið- inleg, sjálfsánægð og illskiljanleg í fræði- mennsku sinni“ og TLS. Þessi gagnrýni hefur alltaf heyrst og ritstjór- ar blaðsins hafa alltaf haft áhyggjur af henni, segir Ferdinand Mount. En það hefur kannski verið sárara og erfiðara að heyra gagnrýni frá virtum fræðimönnum á borð við F.R. Leavis og Leslie Fiedler þess efnis að blaðið stæðist í raun ekki þær kröfur sem það setti sér, „að það væri tilgerðarlegt, yfirlætisfullt og hefði litla tilfinn- ingu fyrir sönnum sköpunarkrafti og frum- leika.“ Mount tekur þessa gagnrýni til greina en bendir jafnframt á að sér finnist það þó standa upp úr þegar horft er aftur hversu sjaldan blað- ið hefur verið glámskyggnt á samtímabók- menntir. Nefnir hann nokkur dæmi þess að framúrstefnulegir höfundar og verk hafi fengið velviljaðar og jákvæðar viðtökur hjá gagnrýn- endum blaðsins í gegnum tíðina, svo sem eins og D.H. Lawrence og Virginia Wolf, en einnig bendir hann á að ekki var fjallað um Ulysses eft- ir James Joyce í blaðinu (að hluta til af lagalegum ástæðum). Hann bendir einnig á að þrátt fyrir að Jacques Derrida sé „haldinn þeirri firru“ að hann sé ofsóttur af blaðinu þá hafi bæði hann og aðrir franskir fræðimenn samtímans fengið mjög jákvæða um- fjöllun af gagnrýnendum þess. Því verður hins veg- ar varla á móti mælt að Derrida og félagar hans úr frönsku framvarðar- sveitinni í hugvísindum hafa oft mætt litlum skiln- ingi hjá skriffinnum og ekki síður lesendum TLS. Nýjasta dæmið er ritdeila um Michel Foucault sem staðið hefur síðustu vikur í blaðinu þar sem kenningar hans eru skoðaðar í ljósi kynhneigðar hans á undarlega gamaldags og óviðeigandi hátt. Ritstjórinn telur hins vegar að blaðið sé vin- sælt og virt vegna þess að í því rúmast allar skoðanir, og er það örugglega rétt. Blaðið hefur ekki borið sig fjárhagslega lengi, eða síðan á sjö- unda áratugnum en því hefur verið gert kleift að halda sjálfstæði sínu og sömu ströngu en frjáls- lyndu ritstjórnarstefnunni af sterkum bakhjarli sínum, The Times. Höfundarleysi Í TLS hafa margir af skörpustu og skemmti- legustu bókmenntagagnrýnendum enskrar tungu skrifað, áðurnefndur Martin Amis er tví- mælalaust einn af þeim. En allt til ársins 1974 voru öll skrif í blaðinu höfundarlaus. Ástæðan var að ritstjórar töldu það gera gagnrýnina ópersónulega – fyrst engin vissi hver skrifaði ritdóminn myndi hann síður litast af persónu- legum kritum milli einstaklinga í bókmennta- heiminum. Árið 1974 var krafan aftur á móti sú að lesendur yrðu að vita hver væri að skrifa til að vita hvort það væri eitthvert mark á gagn- rýninni takandi. Margir óttuðust að þetta myndi leiða til þess að einungis frægir „pennar“ yrðu fengnir til að skrifa í blaðið en Ferdinand Mount bendir á að blaðið hafi ætíð lagt mikla áherslu á ákveðna endurnýjun í gagnrýnenda- hóp sínum. Gegn klíkumáli og fræðastagli Taka má undir þau orð Mounts að TLS sé nauðsynlegt blað. „Ef TLS væri ekki til þá væri nauðsynlegt að stofna það,“ segir hann allkok- hraustur. „Það þarf að vera til sjálfstætt rit sem er tilbúið til þess að rýna ofan í öll svið bók- mennta án nokkurs annars tilgangs en þess að komast að því hvað er að gerast.“ Með þetta markmið í huga segir Mount að blaðið hafi forðast að nota hvers konar fagmál eða klíkumál sem komist hefur í tísku á hverjum tíma í fræðunum. Oftast sé hægt að orða sama hlutinn með einföldum og hversdagslegum hætti, auk þess sem sérfræðihugtökin séu iðu- lega til þess eins að láta ómerkilega hugmynd líta út fyrir að vera eitthvað annað og meira en það. Hann segir líka að blaðið vilji ekki birta fræð- astagl sem hafi ekki neina tengingu við ytri heim; bókmenntafræði sem ekki fjalli um bók- menntirnar sjálfar eða tiltekið verk eigi ekki heima í blaðinu. Afstaða TLS virðist vera tals- vert þröngsýn að þessu leyti og íhaldssöm. Eigi að síður verður varla um það deilt að blaðið er nánast ómissandi fyrir hvern þann sem vill fylgjast með því helsta sem er að gerast í bók- menntum samtímans og menningarumræðu. TLS Í HUNDR- AÐ ÁR „Ef TLS væri ekki til þá væri nauðsynlegt að stofna það,“ segir ritstjóri Times Literary Supplement. ÞRÖSTUR HELGASON skoðaði sögu blaðsins. Forsíða afmælisblaðs TLS.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.