Lesbók Morgunblaðsins - 02.02.2002, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 02.02.2002, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 2. FEBRÚAR 2002 5 – það var frumstig hnattvæðingarinnar svoköll- uðu – en fallið varð hátt, Evrópuríkin tóku að berast á banaspjótum og fyrir vikið glataði Evr- ópa heimsyfirráðum sínum á methraða. Að vísu var það bót í máli að veldissprotinn (og kyndill siðmenningarinnar) féll ekki heiðingjunum í skaut heldur gekk hann til hins skilgetna af- kvæmis Evrópu, Bandaríkja Norður-Ameríku. En það breytir því ekki að við lok aldarinnar, og upphaf þeirrar nýju, er Evrópa í mikilli sjálfs- myndarkreppu sem birtist í óvæginni sjálfs- skoðun hvað varðar alla þætti menningarinnar – þar á meðal heimspekina. Nánar tiltekið einkennist þetta kreppuástand af sektarkennd gagnvart umheiminum – öllum þeim heimshlutum, menningarheildum, þjóð- um, þjóðarbrotum og minnihlutahópum sem út- þenslustefnan bitnaði á. Sektarkenndin birtist til dæmis í fyrirferðarmikilli umræðu í samtím- anum um hugtök á borð við „þjóðarmorð“, „glæpi gegn mannkyni“ og „þjóðernishreinsan- ir“. Hámark sektarkenndarinnar sprettur vita- skuld af vitneskjunni um helför Gyðinga, en hún nær til fjölmargra annarra glæpa og voðaverka sem leynt eða ljóst er raðað eftir mikilvægi – sumt þykir verra en annað, sumu er haldið á lofti en öðru er markvisst sópað undir teppið. (Nokkur dæmi til umhugsunar, í tilviljunar- kenndri röð: grimmdarverk landvinninga- manna í Mexíkó og Suður-Ameríku, aðskilnað- arstefnan í Suður-Afríku, voðaverk á hendur indjánum í Norður-Ameríku og frumbyggjum Ástralíu, gúlagið í Síberíu, nýlendustríðið í Als- ír, þrælahald í Bandaríkjunum og víðar, stuðn- ingur við harðstjórnir í Mið-Ameríku og Araba- löndum, kúgun kvenna í Evrópu sem birtist til dæmis í því hversu seint þær fengu kosninga- rétt.) Þessi dæmi úr sögunni bera glöggan vott um óbilgirni okkar (karlkyns) Evrópumanna gagnvart hverju því sem er (er óhætt að segja „var“?) ólíkt okkur: öllu slíku urðum við ann- aðhvort að umbreyta þannig að það yrði líkt okkur eða jafnvel því sem næst eins og við; eða, ef ekki vildi betur, þá varð að uppræta það, ryðja því burt, kasta því á eldinn, eða í það minnsta halda því í skefjum, undiroka það og kúga. Með heimspekilegu orðalagi má segja að útþenslustefnan hafi falist í vægðarlausri út- breiðslu hins sama, þess sem er eins, á kostnað þess sem er ólíkt eða frábrugðið. Auðvitað hefur útþenslustefnan ekki verið þekkt fyrir að nota slíkt og þvílíkt orðalag um sjálfa sig – að minnsta kosti ekki opinberlega. Hún hefur jafnan borið sjálfa sig á borð undir yfirskriftum á borð við „útbreiðsla siðmenning- arinnar“, „frelsun til kristinnar trúar“, „lausn úr viðjum fátæktarinnar“, „upplýsing hinna fá- fróðu og frumstæðu“. Evrópa hefur réttlætt ásókn sína í auðæfi fjarlægra landa með skír- skotun til (meintra) yfirburða sinna hvað varðar menningu, trú, efnahag og menntun: hin ráð- andi líking hefur (að minnsta kosti í seinni tíð) verið á þá leið að Evrópa væri að færa hinum frumstæðu og bjargarlausu ljósið. Á yfirborð- inu hefur útþenslan þannig lengstum haft þann mannúðlega tilgang að veita hinum vanþróuðu hlutdeild í þeirri auðlegð sem Evrópumenn hafa aflað sér í krafti framfara á sviði vísinda og tækni, en eftir að áhrifa sektarkenndarinnar fór að gæta fyrir alvöru og sjálfsgagnrýnin tók að grípa um sig kom úr kafinu að sjálfar framfar- irnar hafa hvílt á eigingjarnri nýtingu Evrópu- manna á auðlindum í löndum hinna vanþróuðu sem þannig eru í raun sviptir möguleikanum á því að komast jafnfætis drottnurunum. Sektarkennd og bræðravíg En þetta er allt önnur saga og við erum kom- in langt út fyrir efnið – eða hvað? Hvað varð af heimspekinni? Hver eru tengsl hennar við þessa svokölluðu útþenslusögu? Á hún, þessi loftkennda líkanasmíð, nokkurn þátt í henni? Ber hún nokkra ábyrgð á því sem miður hefur farið hvað varðar hlutverk Evrópu í veraldar- sögunni? Þessum spurningum er vandsvarað: það er vissulega ekki auðleyst verkefni að festa hendur á því að hvaða leyti og að hve miklu marki heim- spekin hefur orðið misindismönnum evrópskrar útþenslustefnu að innblæstri í gegnum tíðina. Þó virðist ríkja almenn sátt um tiltekin atriði. Enginn getur til dæmis neitað því að höfundar og harðstjórar Sovétríkjanna töldu sig komna í beinan andlegan karllegg frá Karli Marx, og eins er erfitt að horfa framhjá því að undirokun kvenna í Evrópu studdist að mörgu leyti við hugmyndir heimspekinganna um kveneðlið – eða jafnvel við þögn heimspekinga um sama efni. Þar að auki ber að hafa í huga það sem bent var á framar, að trúarkreddur kristninnar, sem telja má ábyrgar fyrir margvíslegum grimmd- arverkum á hendur hinum „vantrúðu“, geta ekki talist algjörlega hreinar af heimspekileg- um áhrifum: samband heimspekinnar og krist- innar trúar er flóknara en svo. Skýrt dæmi um áhrifamikla hugmynd sem hefur í senn kristnar og heimspekilegar rætur er sjálft líkingamálið um upplýsingu hinna fáfróðu og frumstæðu, sem skírskotar ekki einvörðungu til tilmæla Krists um að „gjöra allar þjóðir að lærisveinum“, heldur einnig til hugmynda spekinga á borð við Platon, Descartes og Kant um yfirburði þess sem leyft hefur „náttúrunnar skilningsljósi“ að glæðast innra með sér. Annað dæmi, og öllu umdeildara, er þáttur þýskra heimspekinga í hugmyndafræði nasismans; sú skoðun hefur til dæmis reynst langlíf að Nietzsche hafi verið einhvers konar hugmyndasmiður og fyrirrennari nasismans og jafnvel má sjá því haldið fram að án spekinga á borð við Herder, Hegel og Fichte hefði Adolf Hitler aldrei orðið það sem hann varð. Erfiðari viðfangs er þó spurningin um hugsanlegan nas- ískan þátt, eða jafnvel nasískan kjarna, í hinum áhrifamiklu kenningum Heideggers. Af þessum knöppu og óskipulegu athugasemdum má sjá að hugmyndir um þátt heimspekinnar í hinni evr- ópsku hörmungasögu eru að minnsta kosti ekki algjörlega tilhæfulausar. Er þá þar með sagt að heimspekin sé af hinu illa – að okkur beri að varast hana eða halda að minnsta kosti metnaði hennar í lágmarki? Eða, með kunnuglegra orðalagi, að okkur beri að forðast allar „stórar hugsjónir“ um eðli, ástand og framtíð veraldarinnar? Síðari hluti tuttug- ustu aldar einkenndist af mikilli togstreitu inn- an heimspekinnar hvað snertir þátt hugsjóna í veruleikanum. Á meðan kalda stríðið stóð sem hæst var hvers kyns róttæk gagnrýni á þjóðfé- lagið í anda frelsunar- eða byltingarhugsjóna tortryggð með skipulegum hætti í Vestur-Evr- ópu og Bandaríkjunum og tennurnar voru dregnar úr talsmönnum slíkra hugsjóna með sí- felldum og óvægnum samanburði við bág kjör óbreyttra borgara í meintu föðurhúsi allrar hugsjónamennsku, Sovétríkjunum. Til mót- vægis við samfélagsgagnrýni af þessum toga, sem jafnan fólst í einhvers konar úrvinnslu úr arfleifð þýsku hughyggjunnar og arftaka henn- ar, Karls Marx, tóku löndin vestan tjalds, eink- um Bretland og Bandaríkin, að búa í haginn fyr- ir iðkun heimspeki sem telja mætti ómengaðri hvað samfélagsleg hugðarefni snertir, til dæmis málspeki, rökfræði og þekkingarfræði. Þjóðir á meginlandi Vestur-Evrópu, einkum Frakkland og Þýskaland, létu hins vegar illa að stjórn að þessu leyti og þar héldu spekingar ótrauðir áfram að bollaleggja kenningar Marx. Þetta borgarastríð spekinganna tók til dæmis á sig mynd í yfirborðskenndum deilum um þá margfrægu og undarlegu skepnu póstmódern- ismann, en skýrasta holdtekning þess var þó ef til vill þrætan um svonefnda kenningu um enda- lok sögunnar sem kom fram í ofureðlilegu fram- haldi af hinum skyndilegu endalokum kalda stríðsins. Forvígismenn sögulokakenningarinn- ar héldu því blákalt fram (til dæmis í líki slag- orðsins „Marx er dauður!“) að nú væri þætti hugmynda í sögunni, „stórra hugmynda“ að minnsta kosti, lokið fyrir fullt og allt vegna þess að komið væri fram þjóðfélagskerfi sem tæki öllum öðrum fram og væri fyrir vikið hámark og endapunktur sögunnar. Gagnrýnendur kenn- ingarinnar bentu á hinn bóginn á að kenningin sjálf væri ekkert annað en ákaflega „stór hug- mynd“ sem reist væri á tiltekinni söguskoðun sem væri augljóslega takmörkuð og umdeilan- leg og gæti í það minnsta ekki talist „vísinda- lega sönnuð“ á neinn hátt. Þegar þetta er ritað stendur sögulokakenningin höllum fæti; forvíg- ismenn hennar hafa snúið við henni baki eða í það minnsta gert á henni svo miklar bragarbæt- ur að hún er óþekkjanleg eftir, og skyldi engan undra þegar haft er í huga að aðstæður í heim- inum nú eru allt aðrar en við lok kalda stríðsins. Þar með má kannski ætla að hinu kalda stríði spekinganna sé einnig lokið: hinar stríðandi fylkingar geta nú lagt niður vopnin og tekið höndum saman í þeirri vitund að ágreinings- efnin voru aðeins sögulegur og pólitískur tilbún- ingur. Póstmódernisminn er liðinn undir lok, sögulokakenningin hefur runnið sitt skeið og tortryggnin í garð hugmyndanna hefur verið lögð í gröfina (þó að hún eigi eflaust eftir að rísa upp aftur og sækja á okkur að nýju). … og framtíðin? Nú erum við vonandi orðin einhvers vísari um það, hvað heimspekin hefur verið í gegnum tíð- ina – og þar með er kominn tími til að vekja að nýju upp spurninguna um framtíð heimspek- innar og heimspeki framtíðarinnar. Hvert er samhengið á milli fortíðar og framtíðar í þessu efni? Segir fortíðin okkur nokkuð um framtíð- ina? Verður framtíðin eitthvað alveg nýtt og framandi, eða verður hún kannski ekkert annað en endurtekning þess sem heyrir fortíðinni til? Nú eru góð ráð dýr. Reynum þetta: framtíðin er í eðli sínu óútreiknanleg. Þegar við leggjum á ráðin og gerum áætlanir og „framtíðarspár“ (svo gripið sé til þess skemmtilega orðs) getum við sannarlega lagt mikla og vandaða vinnu í að velja okkur forsendur og aðferðir; þannig eru sumar spár óneitanlega betri og vandaðri en aðrar og sumar þar með (að öllum líkindum!) áreiðanlegri en aðrar. En þegar við setjumst niður í einrúmi og leiðum í ró og næði hugann að eðli spádóma, þá gerum við okkur óhjákvæmi- lega grein fyrir því að allar spár geta brugðist. Líkindareikningur tekur aldrei af öll tvímæli; meira að segja það sem er ólíklegast getur alltaf komið upp á teninginn vegna þess að sérhver at- burður er einstakur, hann hefur aldrei áður átt sér stað og mun aldrei aftur verða: formgerð hans er bundin í formúluna „einu sinni aldrei aftur“. Þar að auki takmarkast allur líkinda- reikningur af þeirri einföldu staðreynd að sér- hvert sjónarhorn er endanlegt: aldrei er hægt að gera ráð fyrir öllum möguleikum, hið ófyr- irsjáanlega sleppur ætíð undan. En þar með er ekki sagt að það sé öldungis fánýtt að reyna að hafa áhrif á framtíðina, á það hvaða stefnu málin taka; né heldur að vitundin um söguna komi okkur að engum notum þegar við horfum fram á veg. Þvert á móti er það verk- efni okkar á hverjum tíma að nota alla þá þekk- ingu sem við höfum yfir að ráða í því skyni að reyna að sjá til þess að veruleiki nútíðarinnar, sem framtíðin veitir til okkar án afláts, verði sem þolanlegastur og að hið óvænta verði okkur uppspretta ánægju og gleði en ekki sorgar og þrauta. Ein leið til þess að takast á við þetta verkefni felst í því að halda vakandi vitundinni um það sem miður hefur farið í sögunni og rækta jafnframt virðinguna fyrir því sem er ólíkt manni sjálfum og frábrugðið því sem mað- ur hefur átt að venjast. Vitundin um hörmungar Evrópusögunnar er nýtilkomin; hún kviknaði á tuttugustu öld og er enn í frumbernsku. Þessi vitund er staðreynd, og hún á framtíðina fyrir sér eins og síðustu at- burðir og aðstæður í heimssögunni vitna um. Við getum að sjálfsögðu kosið að bæla niður þessa vitund um óréttlætið í fortíðinni og nútíð- inni, til dæmis með því að þvinga sagnaritara okkar til að segja söguna í anda þeirrar sjálfs- upphafningar og einhæfu sýnar sem öllu réð fram á síðari hluta síðustu aldar. Þetta gætum við reynt, en í hreinskilni sagt yrði okkur ekki mikið ágengt: eins og Sísyfos yrðum við ekki fyrr búin að velta steininum upp á fjallið en hann ylti niður að nýju og við yrðum að byrja upp á nýtt. Eina von okkar í þráhyggjunni yrði að koma með einhverjum ráðum á stjórnarfari þar sem við réðum ein og gætum látið það verða okkar fyrsta verk að útrýma öllum málaflækj- um, efasemdum og óánægjuröddum, jafna alla sjónarhóla við jörðu og koma þannig loksins á hinni algjöru flatneskju hins sama, flatneskju okkar þar sem rödd hinna hefur verið kæfð í eitt skipti fyrir öll. Þar með yrði framtíðin að eilífri endurtekningu nútíðarinnar og vandinn um sektina yrði úr sögunni – og ótal margt annað líka, til dæmis sjálft lýðræðið. Því að þrátt fyrir allt megum við ekki gleyma því að framlag heimspekinnar til veraldarsög- unnar – það er að segja þeirrar heimspeki sem við verðum í þessu samhengi að kalla „evr- ópska“ eða „vestræna“ – hefur ekki allt verið á sömu bókina lært: göfugar, fagrar og almennar hugsjónir, til dæmis um lýðræði, almenn mann- réttindi og frelsi alþýðunnar, hafa orðið til í hug- um hinna evrópsku heimspekinga og leitað út í heiminn, flestum öðrum en harðstjórum til hagsbóta. Verkefni heimspekinnar næstu ald- irnar verður án efa fólgið í því að halda þessum hugsjónum á lofti, breiða þær út og leitast þann- ig við að þær nái fullnun, og halda jafnframt uppi gagnrýni á ófullkomnar birtingarmyndir þeirra nær og fjær. Það liggur nefnilega í aug- um uppi nú við árþúsundamótin að hugsjónir heimspekinnar, sem eru almennar í eðli sínu, geta ekki lengur látið binda sig við ákveðinn heimshluta, kyn, kynþátt, eða trúarbrögð. Hvers vegna? Í fyrsta lagi vegna þess að þær hafa spurst út og eru ekki lengur einkaeign hins evrópska pip- arsveins; og þeir sem hafa einu sinni öðlast inn- sýn í kjarna hugmyndanna um almenn mann- réttindi og lýðræði (svo dæmi séu tekin) hljóta að gera þá kröfu til okkar að við liggjum ekki á þeim eins og ormar á gulli heldur stuðlum þvert á móti að útbreiðslu þeirra. Í öðru lagi vegna þess að þekking okkar á sögunni hefur flætt yfir bakka sína með þeim af- leiðingum að við getum ekki annað en viður- kennt að til er önnur heimspeki sem að sumu leyti líkist „heimspekinni okkar“ en er jafn- framt að öðru leyti býsna frábrugðin henni. Hinn óhjákvæmilegi samfundur heimspekinnar við þessar „óþekktu“ systur sínar (því þær reynast vera fleiri en ein: til dæmis er ein kín- versk, önnur indversk, sú þriðja japönsk og sú fjórða arabísk) hlýtur að verða henni upp- spretta nýrra möguleika. Í þriðja lagi vegna þess að hnötturinn okkar – okkar allra – hefur skroppið saman, þökk sé tækninni, en um leið hangir framtíð hans – okk- ar allra – á bláþræði: fólksfjöldinn í heiminum vex með áður óþekktum hraða, andstæðurnar milli fátæktar og ríkidæmis aukast og blikan á hinum gráa himni umhverfismála er svartari en nokkru sinni fyrr. Veröldin er loksins orðin að heild, og enginn getur lengur neitað því að við sitjum í súpunni – saman . Saga Vesturlanda – hins ráðandi afls í sög- unni – hefur einkennst af tilhneigingu til að drottna yfir því sem er framandi og neyða það til að samlagast sér. Hin vestræna hugsun hefur einkennst af viðleitni til að eigna sér það sem er ólíkt, tileinka sér það og leggja það að lokum að jöfnu við sjálfa sig: breyta ólíku í eins . Heim- spekin nýja hlýtur að fagna því sem er ólíkt, opna því leið og bjóða það velkomið í anda rétt- lætishugtaks sem ber merki gestrisni og lítil- lætis fremur en ásælni og útilokunar. Teikning/Andrés Höfundur er heimspekingur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.