Lesbók Morgunblaðsins - 02.02.2002, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 02.02.2002, Blaðsíða 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 2. FEBRÚAR 2002 K OMIR þú einhverntíma til Bergen skaltu fara í Bergens Sjöfartsmuseum og finna heimildir um söguna sem ég var að segja þér.“ Þessi orð frænda míns, Ófeigs Guðna- sonar, sögð fyrir 50 árum eða meira, rifjast upp fyrir mér þegar ég alls óundirbúið sigli inn á höfnina í Bergen við sólarlagsbil kvöld eitt haustið 1999. Nú er slæmt að hafa ekki tekið með sér grunn- upplýsingar til að byggja á. En hvað um það, mætt er ég við dyrnar næsta dag þegar Sæ- ferðasafnið er opnað. Málaleitan mín er sú, að finna gögn um ferð skips, sem sökkt var á Biscayaflóa í fyrra stríði. Ég held, en veit ekki með vissu, að skipið hafi verið skráð í Bergen, verið sökkt af Þjóðverjum nálægt strönd Frakklands, björgunarbátar verið tveir, annar sem var undir stjórn skipstjóra hafi týnst í hafi en hinn komist eftir mikla hrakninga til Gijon á Norður-Spáni. Nafn skipsins veit ég ekki en eft- ir aðstoð að heiman fæ ég að vita að í Skip- stjóra- og stýrimannatali (viðauka) standi nafn- ið „Lotbakken“. Hins vegar líst Arild Hansen, starfsmanni Sæferðasafnsins, strax illa á það nafn enda finnst það hvergi í skrám safnsins. Hann sýnir okkur kort af Biscayaflóa þar sem merkt eru inn með númerum öll þau norsku skip sem sökkt var á flóanum í fyrri heimsstyrj- öld. Þau eru ískyggilega mörg. Við setjumst öll niður til leitar, hr. Hansen, maðurinn minn og ég. Stórir doðrantar eru fyrir hvert ár stríðsins og tveir fyrir árið 1917. Þetta er eins og að leita að saumnál í heystakki. Við flettum upp hverju skipsnafninu á fætur öðru. Þvílíkur fjöldi sem hefur farist á þessum árum! Við flettum og flett- um. Hr. Hansen er orðinn vondaufur. Ef við hefðum aðeins nafn skipsins! Er ég viss um að skipið hafi verið skráð í Bergen? Við flettum upp skipinu „Borg“ sem getið er um að Ófeigur hafi siglt á, í þeirri von að hægt sé að átta sig eftir útgerðarfélaginu. Borg finnst strax, 2111 tonna skip, útgerð O. Fretheim Olsen í Bergen. Önnur skip sömu útgerðar: Solbakken ... Við komust í uppnám – Solbakken! Hr. Hansen flettir upp í seinna bindi ársins 1917 – Solbakk- en – sökkt af kafbáti, fyrsti stýrimaður Ófeigur Guðnason, Árnessýslu, Íslandi! Leitin hefur tekið fjórar klukkustundir. Í sjöunda himni og full þakklætis kveðjum við hr. Hansen og sam- starfsfólk hans í Sæferðasafninu og göngum út í rigninguna með dýrmætar upplýsingar í fórum okkar. Solbakken var smíðað í Middlesbrough á Englandi af Sir Raylton Dixon & Co. árið 1895. Til ársins 1909 bar það nafnið Homer en frá 1909 til 1915 nafnið Odila og 1915 til 1917 Sol- bakken. Þetta var stálskip, 2.616 tonn, 310,2 ensk fet á lengd, breidd 42 fet, dýpt 23,6 fet. Miðvikudaginn 3. janúar árið 1917 lét skipið Solbakken úr höfn í Buenos Aires í Argentínu með 4.200 tonna farm, þar af 3.600 tonn af ómöl- uðu hveiti, sem flytja átti til Cherbourg í Frakk- landi. Skipstjóri hafði veikst fyrr í ferðinni og orðið eftir í Halifax í Kanada. Fyrsti stýrimaður tók því stöðu skipstjóra. Annar stýrimaður, Ís- lendingurinn Ófeigur Guðnason, var þá hækk- aður upp í stöðu fyrsta stýrimanns og var það sem eftir var ferðar eini stýrimaðurinn um borð. Ýmsar breytingar aðrar urðu á mannskap vest- an hafs. Í Buenos Aires gengu nokkrir hásetar af skipinu og nýir komu í staðinn, sumt æv- intýramenn og jafnvel afbrotamenn eða með orðum Ófeigs „óttalegur rumpulýður“. Ekki bætti úr skák að sextanti skipsins var stolið í Buenos Aires og varð því að sigla efir áttavita og himintunglum austur um haf. Fyrsti við- komustaður var San Vincent á vesturströnd Afríku. Þangað kom skipið 19. janúar og tók kol. Næsta dag, hinn 20. janúar, var akkerum létt og stefna tekin á Tenerife. Siglt var þar með ströndu en ekki leitað hafnar og segir ekki frek- ar af ferðum Solbakken fyrr en um það bil 60 mílur úti fyrir Brest í Frakklandi. Sunnudaginn 4. febrúar um hádegisbil gekk Ófeigur af vakt en skipstjóri tók við í brúnni. Eftir að hafa matast hugðist Ófeigur sofna og var að afklæðast þegar hann heyrði að vél skips- ins var stöðvuð og í sama bili kvað við skot. Klæddist hann þá í snatri og flýtti sér upp til skipstjóra. Skipstjóri sagðist sjá fleytu eða eitt- hvað ógreinilegt úti við sjóndeildarhring og fékk Ófeigi sjónaukann. Var að sjá sem lítinn vélbát þar úti, sem síðan hvarf sjónum. Eftir drjúga stund kom þetta í ljós öðru sinni og þá miklu nær. Leyndi sér þá ekki að þar var kom- inn kafbátur. Norski fáninn var strax dreginn að húni á Solbakken sem hélt enn kyrru fyrir. Skaut þá kafbáturinn kúlu yfir stjórnpall skips- ins og fann Ófeigur glöggt þytinn og sá hvar hún féll í sjóinn hinum megin við skipið. Kafbát- urinn hafði uppi gunnfána Þýskalands og gaf nú merki um að hann krefðist skipsskjalanna. Skipstjóri fór við tólfta mann um borð í annan björgunarbátinn og síðan um borð í kafbátinn með skipsskjölin. Ófeigur stóð við stjórnpall á meðan og hafði gát á ef merki yrðu gefin. Bað hann menn þá sem eftir voru í skipinu að tína til vistir, fatnað og aðrar nauðsynjar. Veður var fremur bjart, hiti 5–6 stig, strekkingsrok, tals- verður sjór og gekk á með éljum. Skipstjóri var u.m.b. þrjá stundarfjórðunga í kafbátnum. Skipsskjöl skildi hann þar eftir en kom aftur um borð í Solbakken ásamt mönnum sínum og til- kynnti að gefnar væru 10 mínútur til að yfirgefa skipið. Tveir þýskir hermenn komu með um borð og settu tvær sprengjur í skipið. Sprengj- unum var komið fyrir, annarri ofan þilja framan við stórlestina og hinni niðri í vélarrúmi. Var nú björgunarbáturinn stjórnborðsmegin sjósettur og vistir fluttar um borð. Kafbáturinn tók síðan báða björgunarbátana í tog og dró þá fram und- ir miðnætti. Sprengjurnar sem komið hafði ver- ið fyrir í Solbakken, sprungu en lítið sá þó á skipinu. Frá kafbátnum var þá skotið ellefu fall- byssuskotum, sem flest hittu og kom þá slagsíða á Solbakken. Kafbáturinn sigldi umhverfis skip- ið og lét skothríðina dynja þrátt fyrir að vera með björgunarbátana tvo í togi. Ekki var skipið þó alveg sokkið þegar það hvarf sjónum mann- anna í bátunum. Þegar kafbáturinn hætti toginu var staðsetning áætluð samkvæmt upplýsingum hans 20 mílur frá Brest. Ekki sást þó til strand- ar í Frakklandi eða ljós frá vitum og áleit Ófeig- ur að lengra væri til lands en upp var gefið. Vindur hafði aukist og var sterkur af aust-norð- austri eða með öðrum orðum beint á móti ef ná átti landi við Brest. Björgunarbátarnir voru nýlegir, höfðu verið keyptir í Barry á Englandi á leiðinni vestur um haf, en hinn 3. febrúar hafði brotsjór riðið yfir Solbakken, skollið á björgunarbátnum stjórn- borðsmegin, fært hann úr stað og trúlega skemmt hann. Það varð nú hlutskipti Ófeigs Guðnasonar að taka við stjórn þessa hripleka björgunarbáts en skipstjóri fór sjálfur í hinn bátinn ásamt 12 mönnum, setti upp segl og hvarf fljótlega úr augsýn. Fyrirskipun hans var að báðir bátar skyldu sigla til Brest, sem var skemmsta leiðin en móti vindi og straumi. Stór- viðri var nú skollið á með haugasjó og slyddu- veðri. Fljótt kom í ljós að segl lélega björg- unarbátsins voru fúin og rottuétin og til lítils gagns. Þess má geta að rottugangur var mikill í Solbakken og þegar björgunarbátur þessi var sjósettur leyndist rotta um borð en gerði ekki vart við sig fyrr en eftir nokkurn tíma að hún skreið út úr treyjuermi timburmanns. Skips- hundurinn fór í bát skipstjóra en allir þeir mörgu kettir sem voru um borð í Solbakken fóru í bát stýrimanns. Var það timburmaður sem gekkst fyrir björgun kattanna en það var til lítils barist því allir króknuðu þeir í bátnum. Tveir og stundum þrír menn jusu stöðugt, svo lekur var báturinn. Mastur passaði heldur ekki í grópið og fór hálftími í að reisa það. Í skjölum sjóréttar er eitt vitni, timburmaðurinn, ekki sammála öðrum í áhöfn um hvort mastrið pass- aði ekki eða eins og hann heldur fram, að það hafi einfaldlega snúið öfugt þegar menn glímdu við að reisa það. Mjög var farið að ganga á matföng Solbakken þegar því var sökkt. Í bát Ófeigs fóru vistir sem hér segir: 6–7 flöskur af Spánarvíni, 2 kaggar drykkjarvatns og var sá minni aðeins hálfur. Saltvatn hafði komist í hinn þar sem hann var lekur og spillt vatninu. Það var því ódrykkjar- hæft. Brauð það sem var í kassa um borð var rakt, myglað og grænt að utan. Af þessu gæða- brauði voru 4–5 kg. Auk þessa voru um borð 10– 12 hálfs punds dósir af niðursoðinni mjólk og 12 sardínudósir. Eitthvað af nýju skipsbrauði var tekið um borð en það blotnaði strax og eyði- lagðist í sjóganginum. Aðrar matvörur voru ekki í þessum björgunarbáti en vélstjóri lýsir í vitnaleiðslu síðar að í hinn bátinn, þann er skip- stjóri réð fyrir, hafi verið fluttar meiri vistir, m.a. skipsbrauð og 2 stórar dósir af niðursoðnu kjöti. Mannskapur skiptist í bátana eftir því hverjir höfðu staðið vaktir með skipstjóra og hverjir með stýrimanni. Svo hittist á að í bát skipstjóra lentu margir hraustir menn en í bát stýrimanns ýmsir pasturslitlir, sumir aldraðir en aðrir hálf- gerð börn. Alls voru í þessum báti 14 menn. Líf þeirra valt nú á stjórn íslenska stýrimannsins og því hvort honum tækist að ná landi með áhöfn sína. Einhverjir mannanna áttu úr og bað Ófeigur þá að gæta vel að þeim gripum og halda þeim gangandi. Sumir mannanna voru klæðlitlir og var vosbúð fjótt mikil í bátnum. Mikill óhug- ur greip um sig meðal þeirra þegar í ljós kom hversu lélegur báturinn var og veðrið ískyggi- legt. Ég minnist þess að Ófeigur lýsti ástandinu í bátnum og hve ömurlegt það var, vonleysi, skelfingu og ofsjónum manna. Ófeigur hafði rætt við skipstjóra um hvort ekki væri gerlegt að stefna til Spánar fremur en að halda móti veðri. Ekki leist skipstjóra vel á það enda 250 sjómílur ef staða var rétt sem kaf- báturinn gaf upp. En nú fannst Ófeigi ekki um annað að ræða. Hann settist undir stýri og hugðist stefna að botni Biscayaflóa eða til Spán- ar. Beitti hann fyrst inn flóann eins og auðið var. Seglið var rásegl. Eins og áður sagði var það stórskemmt af rottum. Það gaf sig fljótlega og sprakk upp að rifi og síðar slitnaði álnarbreið lengja aftan af segljaðrinum og ekkert varð að gert. Sjókort tættist fljótt upp í veðrinu en Ófeigur hafði þó áður náð að átta sig á því. Háa leðurskó hafði Ófeigur á fótum og var í frakka ystum klæða, ekki mjög þykkum. Engin olíu- klæði hafði hann og enginn þeirra félaga nema Finni einn, sem var þeirra best búinn. Háværar raddir voru í bátnum um að nú væri Ófeigur að ana með þá út í dauðann í stað þess að fara sömu leið og skipstjóri, þ.e. í átt til Brest. En Ófeigur þekkti hina sterku strauma Biscayaflóa og treysti á að láta þá frekar vinna með sér en móti. Þar sem báturinn var illa búinn til þess að sigla beitivind og hann fylltist óðar af vatni ef honum var snúið upp í vindinn ákvað Ófeigur að ekki væri um annað að ræða og eina lífsvon þeirra að stefna til Spánar, þrátt fyrir orð skip- stjóra. Varð kurr meðal bátsverja þegar þeir gerðu sér grein fyrir aðstæðum. Ekki sagði Ófeigur þeim þó nærri strax hvert hann stefndi en bað þá vera hughrausta og treysta sér. Einn maður studdi stýrimann dyggilega. Ég kannast strax við nafnið Carlsson, í sjóréttarskjölum skráður Otto Carlsson Hjæme, háseti frá Gautaborg. Ófeigur hafði oft talað um hann og styrk hans og áleit að án Carlssons hefði bát- urinn sokkið og þeir allir farist. Það var á sunnudegi sem menn fóru frá borði á Solbakken en strax á þriðjudegi þraut vatns- birgðir í björgunarbátnum, mjólkin og sardín- urnar. Dálítið var þá eftir af myglaða brauðinu. Loftvog og áttaviti úr skipinu voru um borð, en áttavitinn reyndist bilaður. Eldspýtur höfðu þeir í krús undan ávaxtamauki og var segldúkur vandlega vafinn utan um en þegar til þeirra átti að taka reyndust þær samt blautar og ónýtar. Ekki tókst því að kveikja á skipsluktum. Siglt var án afláts og ausið í sífellu. Bagaði mjög hvað báturinn var seglvana og ekki hægt að róa að gagni þar sem leggja þurfti allan kraft í austur- inn. Strax hinn 5. febrúar höfðu sjö skipverja gef- ist upp. Varð engu tauti við þá komið, hvorki fortölum, blíðmælum né hótunum. Þeir höfðu lagst niður, sumir frammi í barka en aðrir hing- að og þangað um bátinn. Þennan dag dó kynd- arinn Karl Svendsen frá Kaupmannahöfn. Hann var 24 eða 25 ára. Hann dó úr kulda og vosbúð enda var hann klæðlítill. Mjög kalt var um nótt- ina og undir morgun skall á með haglél. Fyrsti vélstjóri hafði léð honum teppi til skjóls en Svendsen hafði varla krafta til að halda því utan um sig. Þennan morgun átti hann að taka vakt- ina við að ausa en var ófær um það og síðdegis var hann kominn með óráð. Stuttu seinna and- aðist hann. Svendsen hafði komið um borð í Buenos Aires. Hvort hann var fjölskyldumaður vissu menn ekki en í sjóréttarskjölum er skráð að hann hafi verið hinn ágætasti maður í hví- vetna. Miðvikudaginn 7. febrúar var líkinu varp- að fyrir borð. Heldur gerðust menn nú vondaufir og höfðu á orði að nú mundi skipstjóri kominn til lands með sína menn en fjölskyldur þeirra sjálfra Á BISCAYAFLÓA Í FEBRÚAR 1917 „Í báti Ófeigs Guðnasonar voru upphaflega 14 menn. Tveir dóu á leiðinni eins og áður er sagt. Annar þeirra hlaut vota gröf en lík hins var greftrað í Gijon laugardag- inn 10. febrúar. Í báti skipstjóra voru alls 13 menn. Þrátt fyrir að sá bátur væri betur búinn á allan hátt og skipstjóri áliti að hægt væri að komast hina stuttu leið til strand- ar Frakklands, kom sá bátur aldrei fram. Þarna fórust því 15 menn.“ Mynd þessi fannst í Sæferðasafninu í Bergen og e ur Guðnason er þá háseti. Hann er sá hávaxni og h fangin á frásagnir hans. Það segir nokkra sögu af E F T I R H E L G U F R I Ð F I N N S D Ó T T U R

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.