Lesbók Morgunblaðsins - 20.04.2002, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 20.04.2002, Blaðsíða 3
Lesbók Halldór Laxness 2002 Morgunblaðið ∼ 3 sögur frá Ítalíu og úr Alpafjöllum. Larrabíata þýðir: sú tryllta. Ég innti skáldið eftir, hvort Hulda ætti sér ekki fyrirmynd í Larra- bíötu. Það var eins og eitthvað vaknaði í honum og minningin kom til hans og hann hafði gaman af að rifja upp þessa sögu. „Ég varð fyrir mjög sterkum áhrifum af Larrabíötu,“ sagði hann, „og var undir áhrifum af henni í mörg ár, þau koma meira að segja greini- lega fram í Sölku Völku. Larrabíata stóð í þýzkri kennslubók Jóns Ófeigssonar. Jón valdi í bók sína gullvæga hluti, sem maður gleymir aldrei, t.d. Die Grena- diere eftir Heine, Der Wirtin Töchterlein (Uhland), Der Hand- schuh, Hanzkinn, eftir Schiller; og síðast en ekki sízt: „Unser Herz ist eine Harfe“. Það er ótrúlegt hvað lítil kennslubók, ef hún er góð, getur haft sterk áhrif á hrifnæmt skáldageð í æsku. Þegar ég kom til Þýzkalands, fór ég að lesa bækur eftir Heyse, en fann reyndar ekkert sem kæmist í hálfkvisti við Larrabíötu.“ Þegar Halldór Laxness skrifaði Barn náttúrunnar var hann einn- ig þaulkunnugur samtíma bókmenntum Norðurlanda, enda sér merki þess á víð og dreif í sögunni. „Á þessu áhrifasvæði voru skáld eins og I.P. Jacobsen, sem að vísu var raunsæisskáld, en ljóðrænn realisti. Obstfelder las ég rúmlega fermdur og það er áreiðanlega hægt að finna áhrif frá honum í Barni náttúrunnar. Sömuleiðis frá Hamsun – Pan og Viktoríu; þó ekki frá Gróðri jarðar, því sú bók kom ekki út fyrr en um það leyti, sem ég var búinn með Barn nátt- úrunnar.“ Í skáldsögu Halldórs má finna hér og hvar tilraunir til að líkja eftir stíl Hamsuns. Þó er engan veginn hægt að segja að Barn nátt- úrunnar sé bein stæling á honum. En Hamsum átti eftir að hafa af- drifarík áhrif á rithöfundarferil Halldórs. Sjálfstætt fólk er jafnvel skrifað „sem mótmæli gegn sveitarómantíkinni … Þegar ég las Gróður jarðar fannst mér spurning bókarinnar röng og svarið eftir því … þó verkið sé á margan hátt merkilegt … og ágætt“. Í ritdómi um Konerne ved Vandposten í Morgunblaðinu haustið 1921 kvart- ar hann yfir því, að áhrif Hamsuns á hann hafi verið miður holl: „Mér fannst ég hafa staðið mig að því að vera í vondum fé- lagsskap.“ Þessi orð eru sjálfsagt sprottin af því ekki sízt, að með auknum þroska hefur skáldið fengið löngun til – að vera hann sjálf- ur. Um það þurfti hann að heyja baráttu við Hamsun! Þá telur Halldór að hann hafi ekki sízt orðið fyrir áhrifum af stíl Björnstjerne Björnsons, hröðum, heitum og ljóðrænum í Á Guðs vegum, – „sem ég las í þýðingu Bjarna frá Vogi með afskaplega mikilli aðdáun – sú bók hafði sízt minni áhrif á mig en bækur Hamsuns“. Loks höfðu íslenzk rit áhrif á Barn náttúrunnar eins og vikið er að hér á undan. Eru ekki ábendanleg áhrif bæði frá Einari Kvaran og Jóni Trausta? „Álfaminnin í Barni náttúrunnar eru samt líklega komin úr Nýársnóttinni eftir Indriða Einarsson, sem ég hafði séð leikna,“ segir höfundurinn.  En nú lá mest á að losa sig við skáldsöguna, og flýta sér síðan út í heim. „Ég hafði fengið sterkt hugboð, einhvers konar spásögn um að ég mundi deyja áður en ég yrði seytján ára, og varð þar af leið- andi að flýta mér með hitt og annað.“ Auk þess þurfti skáldið að flýta sér að bæta mannfélagið, því til þess stóð hugur hans mest. En þar sem hann vissi að hann yrði ekki nema seytján ára, varð hann að láta hendur standa fram úr ermum, eins og þegar Ólafur konungur Tryggvason setti sér það göfuga takmark að vera búinn að kristna allan Noreg fyrir árið 1000 – því þá yrði heimsendir. Í öllum skáldverkum kemur að sjálfsögðu fram reynsla, viðhorf og hugsunarþroski höfundarins, ekki sízt í málfari og persónumót- un, og skáldinu dettur ekki í hug að neita því, að bæði Ólafur Kára- son og aðrar aðalpersónur skáldsagna hans spegli umfram allt sál- arlíf hans sjálfs. En í persónum skáldsagnahöfunda er einnig – og ekki síður – annað fólk. Randver, ungur og glæsilegur lífsnautnamaður frá Vesturheimi kemur hingað heim vonglaður og fullur af hugsjónum um að bæta heiminn svo um munar. „En þegar ég kom síðar til Kanada,“ segir Halldór, „sá ég að Randver gat ómögulega verið þaðan kominn. Vestur-Íslendingar voru duglegir púlskarlar, sem hafa áreiðanlega ekki verið orðnir þreyttir á heimsmenningunni og flúið til Íslands þess vegna. En ég hafði eins og aðrir heyrt talað um baróninn á Hvítárvöllum, sem kom úr heimsmenningarborgum, þreyttur að- alsmaður, til að leita hér að sannri hamingju. Fyrst rak hann fjós við Barónsstíg, en fór síðan upp í Borgarfjörð, þar gerði hann bú á Hvítárvöllum. Það var slíkur maður sem ég hafði í huga. En þess konar íslenzkur heimsborgari var ekki til í þá daga – og allra sízt í Kanada.“ Á einum stað í sögunni er sagt að Ari hafi kaupmannsandlit. „En þó Barn náttúrunnar sé öðrum þræði þjóðfélagsskáldsaga og Ari fulltrúi brasks og yfirborðsmennsku, er þetta orð engan veginn niðrandi fyrir kaupmannastéttina. Ég hafði snemma tekið eftir því að andlit kaupmanna voru allt öðruvísi en andlit bænda og verka- fólks sem voru allt í kringum mig. „Kaupmannsandlit“ merkir að- eins að Ari hafi verið öðruvísi í framan en bændur og verkamenn. Þjóðfélagshyggjan í sögunni er sprottin úr því innræti sem ég hlaut í uppeldinu. Á hegðun og fyrirætlanir Ara er vitaskuld lagður siðferðilegur mælikvarði. Fésýsla hans gengur á móti móral sög- unnar, þar sem lögð er áherzla á leitina að guði og þá hugmynd, að guð sé að finna í dyggðugu líferni og heilbrigðu starfi í náttúrunni.“ Þegar Halldór Laxness skrifaði Barn náttúrunnar var ekki kom- in upp sú málefnastilling milli þjóðfélagsstétta, eins og hann kallar það, sem síðar varð hér á landi þegar farið var að boða sósíalisma. Stéttaátök þekkti hann ekki í uppvexti sínum. Samt er sagan lituð af þessum átökum. En það eru einungis óbein áhrif af þjóðfélags- legum skáldverkum sósíalradíkalhöfunda á Norðurlöndum, og í þá veru nefnir hann Jakob eftir Jónas Lie, leikrit Ibsens og þó alveg sérstaklega sögur Alexanders Kiellands. „Ég hafði til dæmis um fermingu lesið Garman og Worse, þar sem þjóðfélagsleg barátta er þungamiðjan. Faðir minn studdi Heimastjórnarflokkinn, þó að hann væri ekki íhaldsmaður, því síður afturhaldsmaður, heldur aðhylltist um- breytingar bæði í búnaðarháttum og almennri upplýsingu. Hann reyndi að mennta sig eins og hann gat, meðan hann átti heima í Reykjavík, þótt ekki gengi hann í skóla. Hann var meira að segja í tímakennslu eftir að hann kvæntist; ég man vel eftir kennslubók- unum hans, bæði í ensku og frönsku. Þær voru útpáraðar, með at- hugasemdum á spássíum og bréfmiðum með glósugerð innan í, og augljóst að hann hafði sótt nám sitt af kappi, enda vel mæltur á ensku. Mér er minnisstætt hve snurðulaust hann talaði við Eng- lendinga, sem komu að Laxnesi. Hann lærði ekki sízt að tala ensku hjá Þorgrími Gúdmundsen, sem var leiðsögumaður Englendinga á sumrin, en kenndi ensku á veturna. Þegar ég var rúmlega fermdur fór ég, að ráði föður míns til Gúdmundsens að læra að tala ensku, sem ekki var kennt í menntaskólanum. Á bernskuheimili mínu var aldrei talað um stjórmál, svo ég muni. En það er ekki að marka, því að ég hafði engan áhuga á flokks- pólitík. Og víst er að ég kynntist ekki neinum radíkalisma á æsku- heimili mínu. Ég sótti hann semsé annað.“ Kannski er það einmitt skýringin á því að „radíkalismi“ Halldórs Laxness hefur enzt honum misjafnlega. Og þegar í fyrstu skáld- sögu sinni gerir hann sér far um „að horfa inn í augu mannanna, hversu auðvirðilegir sem þeir virðast vera, þangað til hann hefir fengið samúð með þeim“, eins og hann segir um einn skáldbræðra sinna. Þessi samúð var honum innrætt í barnæsku. Hún hefur verið honum samgróinn aflgjafi, í senn leiðarljós og grundvöllur beztu verka hans. „Það er í skáldinu sem allir aðrir menn eiga bágt,“ seg- ir í sögunni um ómagann Ólaf Kárason. Betur verður hlutverki rithöfundar ekki lýst. Það er einkar tákn- rænt fyrir líf Halldórs Laxness og ritstörf: hann ímyndaði sér að Ólafur Kárason væri mest skáld í heimi þau sex ár sem hann var samvistum við hann í huganum. Hvað á leikarinn í leikriti? Rulluna sem hann leikur, meðan hann er á sviðinu. Halldór Laxness hefur orðið að vera á sviðinu í mörgum gervum. Hann hefur verið í gervi þess handalausa í Prjónastofunni Sólinni, þess blinda, þess sem hefur hellu fyrir eyra, að ógleymdum buxum pressarans í Dúfna- veislunni og hinni slitnu hempu Jóns Prímusar. Þó einn missi hend- urnar, annar vitið í peningastreðinu, þá týndu þeir pressarinn og Jón Prímus aldrei sínu góða hjarta. Halldór Laxness hefur ávallt gert sér grein fyrir því að þeir standa höllum fæti, sem vilja halda Halldór Laxness í Kaupmannahöfn við móttöku Sonning-verðlauna 1969. Teikningar/Hans Bendix

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.