Lesbók Morgunblaðsins - 20.04.2002, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 20.04.2002, Blaðsíða 9
Lesbók Halldór Laxness 2002 Morgunblaðið ∼ 9 út í æsar hvað allir hugsa og hlýtur að enda í óskapnaði sem er and- stæður sögu; úr því verður einna helzt „nouveau roman“. Í Íslands- klukkunni reyni ég að segja með sem fæstum orðum, hvernig per- sónan kemur fram í hverju atviki, hvað hún talar og hvernig hún svarar heiminum með hegðan sinni. Ég vona að það hafi ekki orðið til þess að persónurnar í Íslandsklukkunni séu lakar dregnar upp en í bókum sem ástunda meiri mærð. Matthías: Jafnvel Heimsljós er af allt öðrum toga spunnið en Ís- landsklukkan. Er þetta rétt? Halldór: Heimsljós er ljóðræn saga og sums staðar fer hún á kaf í landslagsmyndum, sálarlífslýsingum og veðurfarsspekúlasjónum. Matthías: En svo við tökum aftur upp þráðinn, þar sem fyrr var frá horfið, þá skrifaðir þú Íslandsklukkuna á Eyrarbakka og að mestu leyti að næturlagi. Og Eyrbekkingar vildu, að sögn, ekki umgangast þig meira en í hófi. Var það vegna þess að þeir héldu kannski að þú værir að skrifa um þá? Halldór: Ég hef aldrei kvartað yfir Eyrbekkingum. Ég sinnti þeim að vísu ekki mikið, hafði um annað að hugsa í þessu indæla þorpi. Ég var kominn þangað til að vinna. Ég fór austur á Eyr- arbakka þegar verið var að reisa Gljúfrastein, svo ég gæti verið í friði fyrir smiðum, sem alltaf voru að spyrja mig ráða. Ég var vondur að byggja hús og það var þýðingarlaust að spyrja mig. Á Eyrarbakka skrifaði ég þá bók, sem heitir Eldur í Kaupinhafn, í íbúð Guðmundar Daníelssonar sem þá var í Ameríku. Þetta var heldur ósögulegt sumar. Ég vann seinni partinn á daginn og fram yfir miðnætti. Þetta var í júní og júlí. Ég fékk stundum að borða hjá frú Ragnhildi í Háteigi, sem átti húsið. Oft fór ég í langar gönguferðir út með sjó, tíndi söl og þurrkaði þau á bæjarhellunni og tuggði þau meðan ég var að vinna. Eða ég fór í göngu inn til landsins, stundum fram undir morgun, aleinn og allir sofandi í Fló- anum. Upp úr tíu leit til mín gömul kona úr litlu húsi rétt hjá. Hún hafði þann starfa með höndum að kveikja upp í ofninum. Hún var eins og konan í kvæðinu hjá Davíð Stefánssyni. Hún kynti upp með kolum og ég fór ekki á fætur fyrr en farið var að loga. Þegar ég fór af Eyrarbakka, átti ég eftir einn kolapoka sem ég gaf konunni í verðlaun fyrir góða frammistöðu. Ég hef sjaldan eða aldrei fengið aðrar eins guðbænir fyrir mér og mínum um tíma og eilífð, eins og fyrir þennan kolapoka. Ég ímynda mér að þessar bænir dragi mig langleiðina til himnaríkis. IV. Að setja sig í stellingar Matthías: Mér er sagt að þú hafir hripað niður orð og orðatiltæki hvar sem þú hefur komið, og notað síðar. Stundum jafnvel sótt söguþráðinn í munnmæli eða frásagnir sem þú hefur heyrt. Að hve miklu leyti vinnurðu sögur þínar með þessum hætti? Halldór: Ég hef oft lagt eyru við orðum og orðatiltækjum, sem mér voru ekki kunn, og fest mér þau í minni. Sum hef ég síðan not- að þegar mér hefur fundizt við eiga. En ég hef ekki gert mikið að því að skrifa upp orð sem ég hef heyrt. Þegar ég hef ekki verið al- veg viss um að ég myndi rétt á skrifandi stund, hef ég flett upp í orðabókum. Og hafi ég ekki fundið orðin þar, hef ég kvatt til menn, sem ég hef haldið að könnuðust við þau. Ef þeir hafa ekki getað hjálpað mér, hef ég látið orðið eða orðatiltækið flakka eins og ég mundi það. Við eftirgrennslan fræðimanna hefur sjaldan reynzt að ég hafi munað skakkt. Matthías: Þú hefur einhvern tíma sagt að fólk úti á landsbyggð- inni tali, þrátt fyrir allt, ekki betra mál en við sem erum uppalin í Reykjavík. Halldór: Það gerir það sjálfsagt ekki heldur. Ég veit eiginlega ekki hvaðan þessi hugmynd um að tala gott eða vont mál er komin – líklega upphaflega úr kennaraskólanum. Að minnsta kosti höfðu allir barnakennarar mínir strangar kenningar um rétt og rangt mál. Mál sem talað er hér í Reykjavík og er frábrugðið sveitamáli er oft mjög skemmtilegt og sjálfsagt að nota það í bókum þar sem það á við, mér er sama þó það sé kallað slang og skrílmál. Ég hef oft af „listrænum ástæðum“ tekið orðskrípi af götunni upp í texta mína, engu síður en rammíslenzkar glósur eftir almenningi í strjál- býlinu. Matthías: Þegar ég las Brekkukotsannál, fannst mér hann væri ekki skáldsaga, heldur sérstök tegund ævisögu. Reyndirðu nokkuð að setja þig í ævisögustellingar, þegar þú skrifaðir söguna? Halldór: Já, það eru þannig stellingar í bókinni. Maður verður að setja sig í sérstakar stellingar við hverja bók, eins og leikari verður að vera nýr maður í hverju hlutverki. Matthías: Var Bjartur mótmæli gegn Hamsun? Halldór: Bjartur er að vissu leyti skrifaður sem mótmæli gegn sveitarómantíkinni, sem mér hefur alltaf fundizt leiðinleg nema hjá Jónasi og Steingrími sem sækja hana til Grikkja. En það er varla hægt að kalla sveitarómantíkina lífsstefnu og því síður þjóðfélags- stefnu. Þegar ég sem ungur maður í Kaupmannahöfn las Gróður jarðar eftir Knut Hamsun, nýútkomna, fannst mér spurning verks- ins röng og þar af leiðandi svarið, þó sagan sé sjálf þar fyrir utan merkileg og að mörgu leyti ágætt verk eins og ég hef áður minnzt á við þig. V. Hefð og heiðurstitlar Matthías: Nú langar mig að spyrja þig um Únglínginn í skóg- inum. Halldór: Þegar ég orti Únglínginn í skóginum hér heima vet- urinn 1924–’25 var ég mjög hrifinn af þeirri formbreytingu, sem expressionistar og súrrealistar stóðu að. Mig langaði mikið til að yrkja íslenzkt kvæði sem hafnaði öllum þeim formúlum sem okkur hérna höfðu verið kenndar. Ég var að reyna að setja saman kvæði, mátulega stórt, sem átti að brjóta í bág við íslenzka hefð, án þess að vera leirburður eða þrugl. Hversu erfitt þetta reyndist fyrir 40 árum má sjá af því að ég var marga mánuði að yrkja ljóðið. Þegar við lítum nú á þetta ljóð og höfum í huga þróunina sem síðan hefur orðið í skáldskap, virðist mitt kvæði heldur lítilfjörlegt; og einsk- isvirði ef það er borið saman við Söknuð eftir Jóhann Jónsson. Matthías: En dýrt! Það hafði af þér skáldalaun. Halldór: Skáldalaun, æ – já. verðlaun hafa aldrei haft nein áhrif á mig, því síður að þau hafi breytt lífsstefnu minni. Ég lít á verðlaun sem gullhamra. Peninga étur maður upp á skömmum tíma. Þetta á einnig við um Nóbelsverðlaunin. Þegar ég fékk þau, var ég í miðjum Brekkukotsannál, vann áfram að bókinni hálfan mánuð í Stokkhólmi eftir hátíðahöldin, en fór svo til Rómaborgar og hélt þar verkinu áfram. Þegar ég fékk Sonningverðlaunin frá Kaup- mannahafnarháskóla, þótti mér hnýsilegast að horfa upp á íslenzka stúdenta ganga um götur Kaupmannahafnar og halda uppi spjöld- um með mótmælum gegn Laxness á dönsku. En það gerist margt á langri leið, segir máltækið. Í einn tíma var ég gerður heiðursfélagi íslenzkra stúdenta í Kaupmannahöfn, næsta skipti ganga þeir sömu Íslendingar um stræti þessarar útlendu borgar með kröfu- spjöld gegn heiðursfélaga sínum, og það á dönsku. Þetta sýnir að maður ætti að taka heiðursútnefningar með salti! Ég tók andmæl- unum gegn Únglíngnum í skóginum ekki heldur mjög hátíðlega á sínum tíma. Matthías: Þú notaðir fyrstur manna orðið atómskáld. Síðan hafa ýmsir notað það sem skammaryrði um ung skáld. Halldór: Það var ekki skammaryrði af minni hálfu. Þetta orð lenti í Atómstöðinni. Þar voru tvö skáld eða spekingar, dulrænir menn og sjáendur sem reyndar voru einhvers konar „smáglæpon- ar“, og ortu skrítin kvæði. Ég kallaði þá atómskáld. Þetta var í rauninni nokkurs konar heiðurstitill, aðrir titlar lágu ekki á lausu. Og þó einhverjir aumingjar hafi síðar tekið orð þetta upp sem skammaryrði um heiðarlega menn, gildir það mig einu. Matthías: Er ekki nauðsynlegt að brjóta hefðina til að skapa eitt- hvað nýtt? Halldór: Það er sjálfsagt og nauðsynlegt að brjóta hefð hvenær sem þess gerist þörf. Þegar gömul hefð hefur gengið sér til húðar, er ekkert sjálfsagðara en brjóta hana. Það hefur oft verið gert. Eitthvert mesta brot á hefð í íslenzkum skáldskap voru nýjungar Jónasar Hallgrímssonar og þeirra sem komu á eftir honum. En Jónas yrkir alltaf í föstu, skipulögðu formi. Hann hafði þess konar menntun. Þó hann kynni skálda bezt að yrkja fornyrðislag, yrkir hann einnig undir þýzkum, ítölskum, frönskum og enskum brag- arháttum, sem höfðu aldrei heyrzt á Íslandi fyrr. Hann þýðir meira að segja Stóð ég út í tunglsljósi undir lagi við alþekkt enskt drykkjukvæði. VI. Kórvilla Matthías: Hvernig lízt þér á framtíð Íslands, Halldór? Halldór: Ég hef aldrei verið bölsýnismaður. Það mun hafa oltið einhvern tíma upp úr mér, því miður þó, held ég, á dönsku, að böl- sýnin sé húmor lukkulega mannsins. En það er a.m.k. sá húmor sem ég ekki skil. Matthías: Ertu hræddur um að við glötum tungu okkar í þessari hringiðu nútímans og nábýlinu við aðrar þjóðir? Halldór: Svo gæti farið. Þess eru mörg dæmi að smáþjóðir hafi glatað tungu sinni, til dæmis Norðmenn. Mjög sterk tilhneiging er í þá átt á okkar dögum víða um heim. Matthías: En íslenzka þjóðin hefur sterka arfleifð og miklar bók- menntir að styðjast við. Getur það ekki verið okkur styrkur? Halldór: Jú, ef menn hafa ánægju af að lesa gullaldarbók- menntir, annars ekki. Matthías: Sumir halda því fram að smásagan þín, Kórvilla, sé viðvörun; að þú viljir með henni benda á að flest sé okkur öndvert nú á dögum, allt streymi upp í móti á Íslandi. Halldór: Það eru að vísu til táknræn eða allegórísk skáld. Þau eru sjaldan góð. En það eru líka til margir táknrænir lesarar, ef svo mætti segja og engin takmörk fyrir því hvað þeir geta lesið út úr skrifuðum texta. Stundum tekur þetta svo út yfir allan þjófa- bálk, að það er ekki einu sinni hægt að brosa að vizkunni. Ég minn- ist þess að hafa einhvern tíma lesið í ritdómi um leikrit eftir mig, Strompleikinn, að kerlingin sem múruð var inn í strompinn væri tákn Keflavíkurflugvallar. Sama máli gegnir um Kórvillu á Vest- fjörðum, það á að vera „þjóðfélagsástandið“ á Íslandi. Sagan fjallar einfaldlega um roskna konu sem villist af bæjarhlaðinu heima hjá sér og ráfar yfir í annað byggðarlag, yfir fjall. Annað felst ekki í sögunni; þjóðfélagsástand á Íslandi er allt annað mál. Margir virð- ast ekki geta haft ánægju af að lesa sérkennilega sögu, til að mynda af konu sem villist af hlaðinu heima hjá sér, nema tengja hana við einhverja þráhyggju sjálfs sín. Menn krefjast þess að lítil saga sé einhvers konar opinberunarbók um óskyld mál. Þegar ég les sögu, gef ég einungis gætur að því sem stendur í bókinni. Marg- ir ritdómarar sjá aðeins það sem stendur ekki í bókinni. Svo verða þeir illir yfir einhverju sem stendur ekki í bókinni og sjá ekki það sem stendur þar, – kannski stendur þar í rauninni ekki neitt, en það er annað mál. Það er leiðinlegt þegar menn sjá einungis það sem ekki stendur í bókinni. Matthías: Þegar þú varst ungur sagðirðu að heimurinn væri djöf- ullega unaðslegur. Ertu enn sömu skoðunar? Halldór: Sagði ég það? Ég man nú ekki öll þau gæluorð um heim-

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.