Lesbók Morgunblaðsins - 18.05.2002, Blaðsíða 14

Lesbók Morgunblaðsins - 18.05.2002, Blaðsíða 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 18. MAÍ 2002 A Ð HÁTÍÐINNI Island Hoch stóðu Steidl- forlagið í Göttingen og íslenska sendiráðið í Berlín í samstarfi við fjölmarga aðila. Til- efnið var að minnast hundrað ára afmælis Halldórs Laxness sem og fimmtíu ára stjórnmálasamskipta Íslands og Þýska- lands, en hinn 25. apríl 1952 reit þáverandi kanslari Vestur-Þýskalands, dr. Konrad Adenauer, bréf þar sem hann óskaði eftir að þjóðirnar tvær tækju aftur upp stjórnmálasamband. Halldór Laxness átti það oft til að kvarta yfir lélegri dreifingu verka sinna í Vestur-Þýskalandi en var ánægður með útgáfumál sín í austur-þýska Alþýðulýðveldinu. Í dag er allt annað upp á teningnum. Vegleg ellefu binda útgáfa kom út hjá Steidl-forlag- inu í tilefni af afmæli skáldsins. Hubert Seelow, prófessor í nor- rænum fræðum við Erlangenháskóla, sá um útgáfuna og sneri úr íslensku ásamt íslenskufræðingnum Bruno Kress, sem nú er lát- inn. Listakonan Roni Horn sá um að hanna útlit bókanna. Menningarhátíðin hlaut töluverða umfjöllun í fjölmiðlum áður en hún hófst. Dagblaðið die tageszeitung gaf út blaðauka helg- aðan Íslandi með greinum rituðum af Íslendingum og Þjóðverj- um. Blaðið ber heitið „Ég Ísland!“ eftir orðum Jóns Hreggviðs- sonar úr Íslandsklukkunni og er prýtt ljósmyndum tónlistar- og myndlistarmannsins Egils Sæbjörnssonar. Auglýsingaplaköt héngu víðsvegar um borgina og dreifibæklingum með nákvæmri lýsingu á dagskránni var komið á framfæri. Opnunin fór fram með viðhöfn í Haus der Berliner Festspiele. Davíð Oddsson forsætisráðherra og Gerhard Schröder kanslari Þýskalands ávörpuðu gesti sem voru fjölmargir og víðsvegar að komnir frá Þýskalandi. Í ræðu sinni fór Schröder fögrum orðum um samskipti þjóðanna en bætti því við í lokin að enginn griður yrði gefinn þegar þær myndu mætast í riðlakeppninni fyrir næsta Evrópumót í knattspyrnu. Að því loknu söng Gunnar Guð- björnsson óperusöngvari við Þýsku ríkisóperuna nokkur lög, þar á meðal Sjá, dagar koma og Maístjörnuna, við fögnuð áhorfenda. Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur og forleggjari flutti síðan erindi um Laxness á nánast lýtalausri þýsku, en bók hans um skáldið, „Halldór Laxness, Leben und Werk“, er einmitt ný- komin út hjá Steidl-forlaginu. Stuttu eftir að formlegu opnuninni lauk hófst á sama stað „Lange Nacht der Dichtung“ (Langa bókmenntanóttin). Hall- grímur Helgason, Kristín Ómarsdóttir og Steinunn Sigurðar- dóttir lásu úr verkum sínum en þeim til aðstoðar voru þýsku skáldin Steffen Kopetzky, Julia Franck og Inka Parei. Aðrir liðir kvöldsins voru meðal annars lestur þeirra Kristínar og Hallgríms, en mikil hlátrasköll fóru um salinn er sá síðar- nefndi las kafla úr bókinni 101 Reykjavík. Síðast en ekki síst ber að minnast á lestur leikarans kunna, Otto Sander, úr bók Söru Kirsch, „Islandhoch“, sem hátíðin fékk nafn sitt af. Islandhoch getur í senn þýtt háþrýstisvæði frá Íslandi og Ísland lifi. Bókin hefur að geyma ferðaminningar skáldkonunnar frá Íslandi. Með- al annars er greint frá heimsókn hennar og forleggjarans Ger- hard Steidl til nóbelskáldsins á Gljúfrasteini. Hljómsveitin Guit- ar Islancio sá svo um að skemmta gestum. Íslensku rithöfundarnir gistu í húsakynnum Literarisches Colloquium Berlin (LCB) á yndislegum stað við Wannsee í Vest- ur-Berlín. Næstu kvöld lásu þau þar úr verkum sínum með að- stoð fyrrgreindra kollega sinna. Arthúr Björgvin Bollason stjórnaði bókmenntakvöldunum sem voru ágætlega sótt. Skáldin töfruðu áhorfendur sem voru ófeimnir við að spyrja þau um hitt og þetta. Kristín Ómarsdóttir vakti mikla athygli og gestirnir voru spenntir að vita hvenær von væri á bók frá henni á þýsku. Steinunn las ljóð sín á þýsku eins og Hallgrímur úr bókinni 101 Reykjavík. Hann sýndi mikil leikræn tilþrif og þótti lesturinn undraverður, eins og einn af aðstandendunum komst að orði. Húsfyllir var er Davíð Oddsson las upp úr bókinni Nokkrir góðir dagar án Guðnýjar í Magnus-Haus við Safnaeyjuna í hjarta Berlínarborgar. Smásagnasafnið er nýkomið út hjá Steidl og hélt forleggjarinn bráðskemmtilegt erindi áður en Davíð hóf lest- urinn. Þar líkti hann honum við Joseph Beuys, Günther Grass, Söru Kirsch og Karl Lagerfeld, sem öll hafa komið út hjá forlag- inu og óskaði eftir epískri skáldsögu frá forsætisráðherranum og sagðist meira að segja gefa honum leyfi til að skrópa á rík- isstjórnarfundum ef þörf kræfi við samningu bókarinnar. Leik- arinn Hanns Zischler las síðan tvær sögur. Um kvöldið var „Stóra tónkvíslarhátíðin, íslenskir söngvar frá rómantík til dagsins í dag“ (Die große Stimmgabelshow) á dag- skrá í Haus der Berliner Festspiele. Íslandvinurinn Wolfgang Müller (alias Úlfur Hróðólfsson) skipulagði og stjórnaði kvöld- inu. Dagskráin byrjaði á því að Wolfgang var afhent risavaxin ís- lensk tónkvísl úr tré sem kvöldið dró nafn sitt af. Áður en messó- sópransöngkonan Hólmfríður Jóhannesdóttir steig á svið tók Wolfgang eitt lag, sagði áhorfendum sitt hvað um Ísland og sýndi myndskyggnur. Hólmfríður byrjaði á að taka Maístjörnuna og gaf sig síðan Schubert og Schumann á vald. Næst á svið voru þau Páll Óskar og Monika Abendroth. Eftir hlé var komið að Agli Sæbjörnssyni og í för með honum var þýskur kór sem söng und- ir. Hápunktur kvöldsins, að mati sumra, var síðan þegar hljóm- sveitin XXX Rottweilerhundar birtist á sviðinu. Á milli atriða ræddi Wolfgang við íslenska gesti. Hallvarður Ásgeirsson tónlistarmaður – betur þekktur undir nafninu Varði – og Grímur Hákonarson kvikmyndagerðarmaður töluðu um nýj- ustu mynd Gríms, „Varði goes urope“, en myndin var meðal ann- ars tekin upp í Berlín síðasta sumar. Sigurður Hjartarson reð- urstofustjóri sagði áhorfendum frá safni sínu og sýndi eina þrjá gripi. Eitt eftirminnilegasta atriði kvöldsins var þegar listakonan Inga Svala Thorsdóttir (Thor’s Daughter’s Pulverization Serv- ice) tók sig til og duftaði gifshéra eftir ónefndan listamann. Inga Svala var klædd vinnugalla, með hjálm og hlífðargleraugu á höfði og búin stórri sleggju. Hún duftaði hérann á örfáum mínútum, en í lokin sást þó ekki mikið því rykský hafði myndast á sviðinu. Stóra tónkvíslarhátíðin var ágætlega sótt. Góður rómur var gerður að henni og það sýndi sig enn og aftur hve hugmyndarík- ur Wolfgang Müller er í kynningu sinni á íslenskri menningu. Íslensk ferð um Berlín Samtök hans, Walther von Goethe Foundation, stóðu svo að ís- lenskri ferð um Berlín (Isländische Reise) í tveggja hæða strætó. Alls voru ferðirnar fjórar. Þær hlutu mikla athygli, enda ekki á hverjum degi sem boðið er upp á þesskonar reisur um Berl- ínarborg. Þær hófust í bókaversluninni Pro qm þar sem Inga Svala sýndi myndir af lestarstöðvum miljónaborgarinnar Borg sem hún hyggst reisa í Borgarfirði. Því næst var haldið til rak- arastofunnar Beige í Auguststraße. Egill Sæbjörnsson sýndi myndbandsverk sitt „Paranoic hair’“og spilaði og söng fyrir gesti. Næsti viðkomustaður var safn samkynhneigðra í Kreuz- berg. Þar gaf að líta tvær myndaraðir eftir ljósmyndarann Báru Kristinsdóttur, annarsvegar „Fjölskyldur af ýmsu tagi“ og hins- vegar myndir frá Gay Pride í Reykjavík árið 2001. Þá var komið við á Safni hinna óheyrilegu hluta (Museum der unerhörten Dinge) í Crellestraße í Schöneberg. Safn þetta er hið minnsta sem Berlín getur státað sig af. Þar voru til sýnis tæplega þrjátíu gripir úr Hinu íslenska reðursafni. Sigurður Hjartarson tók á móti mannskapnum ásamt forstjóra safnsins, Roland Albrecht. Síðasti áfangastaðurinn var næturbarinn Kumpelnest 3000 þar sem kynnt voru útvarpsleikrit um Ísland (Islandhörspiele) sem Wolfgang Müller gerði fyrir útvarp Bæjaralands og nú eru kom- in út á geisladiski. Rödd Erlings Gíslasonar leikara heyrðist inni á staðnum, en hún nýtur sín ekki síður á þýsku en íslensku. Greint var frá Íslendingafélaginu í borginni og valdir kaflar lesnir upp úr bókinni Býr Íslendingur hér sem kom út í þýskri þýðingu fyrir fáeinum árum. Einnig var lesið upp úr skáldsögu eftir Theodor Fontane, þar sem sögumaður ver íslenska menn- ingu gagnvart hleypidómum Kaupmannahafnarbúa. Hallvarður Ásgeirsson sá um tónlistina í ferðinni. Blaðamaður Frankfurter Allgemeine Zeitung komst svo að orði um Íslandsferðina: „Það fallega er, að Íslendingar vekja aldrei þau áhrif að vilja vera sér- stakir, aðeins til að vera öðruvísi. Þeir sýna sérkenni sín alltaf á svo trúverðugan hátt, að maður kynnist þeim samtímis sem sér- vitringum og venjulegum, indælum manneskjum.“ Og í Berliner Zeitung mátti lesa: „Íslandsferðin er á enda. Þetta var góð hug- mynd. Ferðafólkið brosir.“ Kvikmyndahátíð haldin Af öðrum dagskrárliðum má nefna að í hinu sögufræga kvik- myndahúsi Babylon við Rosa-Luxemburg-Platz var kvik- myndahátíð tileinkuð Íslandi. Sýndar voru þrettán kvikmyndir frá síðustu tveimur áratugum. Rokk í Reykjavík og Land og syn- ir riðu á vaðið og hátíðinni lauk með myndunum 101 Reykjavík og Dansinum. Þess má geta að utan hátíðarinnar var Þýska- landsfrumsýning á kvikmynd Jóhanns Sigmarssonar, Plan B (Óskabörn þjóðarinnar), en myndin fékk misjafna dóma í Berl- ínarblöðunum. Á veitingastaðnum Abendmahl (Kvöldmáltíð) var íslenskt kvöld. Matarlistamaðurinn Udo Einenkel bauð upp á súrusúpu með steinbít og tröllabrauði. Í aðalrétt var þorskur með rauðbeðu-kartöflustöppu, næpugrænmeti og graslaukssósu og eftirrétturinn, More than a Sugarcube, samanstóð af skyrmús á rabarbarasorbe. Íslenskt brennivín var á boðstólum og á milli rétta skemmtu þau Páll Óskar og Monika Abendroth matargest- um sem voru hæstánægðir með kvöldið. Á sama tíma var Ragn- hildur Gísladóttir með tónleika. Fjölmiðlar sýndu henni töluverð- an áhuga. Einnig var ágætis mæting á Electronic Night þar sem Gus Gus DJ Set spiluðu ásamt öðrum. Í sameiginlegu húsi nor- rænu sendiráðanna (Fælledhuset) er sýning um Halldór Lax- ness og lýkur henni í lok maí. Lesið var daglega úr Brekkukots- annál á meðan hátíðin stóð. Það er óhætt að segja að Íslandshæðin hafi vakið mikla athygli á meðan hún fór yfir Berlín. Dagskráin höfðaði til ólíkasta fólks, en maður hefur oft á tilfinningunni hér í Þýskalandi að það sé svolítið þröngur hópur sem sýni landi og þjóð einhvern áhuga að ráði. Menningar- og listahátíðir eins og þessi geta því verið mikið þarfaþing til að losa um sumar af þeim klisjum sem ganga um Ís- land í Þýskalandi og um leið til að víkka sjóndeildarhring Þjóð- verja gagnvart menningu okkar. ÍSLENSK HÆÐ YFIR BERLÍN Ein umfangsmesta íslenska menn- ingarhátíð sem efnt hefur verið til í Þýskalandi fór fram í Berlín dag- ana 23.–27. apríl. JÓN BJARNI ATLASON segir að dagskráin hafi verið fjölbreytt og um margt óhefð- bundin og til þess fallin að hrista svolítið upp í þeirri ímynd sem Ís- land hefur í Þýskalandi. Ljósmynd/Angi Welz-Rommel Sigurður Hjartarson, Wolfgang Müller og Roland Albrecht fyrir framan Museum der unerhörten Dinge. Tónleikar XXX Rottweilerhunda vöktu athygli í Berlín.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.