Lesbók Morgunblaðsins - 23.11.2002, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 23.11.2002, Blaðsíða 5
HJÖRTUR PÁLSSON NÓTT FRÁ SVIGNASKARÐI Hver varstu? Hvað greip þig goðsögn í líki hests með glóð í auga, styggð í hverri taug og brotnandi öldur brims í hlustum þínum? Þú þyrlar upp stjörnum stælt með titrandi bóga og stefnir burt yfir holt, yfir klappir og flóa orðin að logandi þrá til að flýja frjáls út í fjarskann... Þitt heimkynni var ekki hérað blánandi jökla hraun og mýrar né borgin þar sem þú stóðst... nei, heimkynni þitt var hafið sem býr í oss öllum ...og himinninn sem oss dreymir... Hófadynur! Þú stefnir til hafs og stekkur í freyðandi brimið fram af ísgrænni skör. Áttfætti hestur! Svo hófst þín vængjaða för um undirdjúpin upp í sjöunda himin. Vængjaða Nótt! Nú heyri ég fax þíns flug sé froðuna löðra um granir á skýjanna vegi með styggð í blóði stefnir þú enn sem fyrr með stormbláar manir á móti glófextum Degi. Til athugunar Kveikjan að þessu ljóði og heiti þess er sótt í þátt eftir Ásgeir Jóns- son frá Gottorp sem fyrst birtist í riti hans, Horfnum góðhestum I, 1948, en saman dregin á þessa leið í safnritinu Hófadyn sem Andrés Björnsson og Kristján Eldjárn tóku saman og út kom 1966: „Í stóði Kristófers var brún hryssa, sem kölluð var Nótt. Hún var stygg í haga, einráð og sérvitur, en það sem þótti einkennilegast við háttalag hennar var, að hún hélt sig jafnaðarlega nálægt sjó, einkum þegar brim var mikið. Hún valdi sér dvalarstað á Borg á Mýrum. Oft sást hún standa áveðurs uppi á háum klettaborgum, þar sem hún hafði góða sýn yfir hinn sollna flaum hafaldnanna. Nótt var aldrei tamin, og aldrei kom hún í hús til hjúkrunar. Þegar Nótt var komin um eða yfir tvítugt, gerði mjög harðan vetur, og voru flest hross í Mýrasýslu komin á gjöf. Nótt var þá enn úti og fá hross, sem henni fylgdu, og þar á meðal brún hryssa á öðrum vetri, sem undir henni gekk. Frost voru þá svo mikil, að Borgarfjörð lagði langt út. Ein- hvern dag var því veitt athygli, að Nótt stikaði á undan hópnum, sem fylgdi henni, út eftir lagísnum og stefndi til djúps. Þegar á skörina kom, steypti hún sér þar fram af. Þarna hvarf Nótt í öldur hafsins.“ Höf. Höfundur er skáld og þýðandi og hlaut ljóðlistarverðlaunin „Ljóðstaf Jóns úr Vör“ fyrir þetta ljóð þegar þau voru veitt í fyrsta sinn 21. janúar síðastliðinn. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 23. NÓVEMBER 2002 5 inum, já, þetta var öskutunnan í garðinum þeirra, og nú stóð hún þarna galtóm og hann hafði engar áhyggjur af henni lengur – en gat þetta verið draumur? Nú fór hann að hugsa um það því hann hafði verið að dreyma að hann væri sjálfur troðfull ösku- tunna og stæði á berangri og það var ekki hægt að loka henni en mjólkurfernur, dag- blöð og tímarit voru eins og kúfur undir lok- inu og stóðu upp úr tunnunni. Og honum hafði liðið illa þarna á berangri, svo troðfull öskutunna einsog hann hafði verið og ekki einu sinni hægt að setja lokið yfir blöðin og fernurnar og hann var nánast bjargarlaus og fullur af áhyggjum yfir því að hann ryki upp af suðaustan og allt fyki úr tunnunni áður en hreinsunardeildin kæmi á vettvang og svo fyki tunnan um koll og honum hafði síður en svo liðið bærilega þarna á berangri og áhyggjurnar hrönnuðust upp og hann var orðinn harla órólegur í svefninum og langaði mest til að losna við að horfa upp á sjálfan sig í þessu vandræðalega ástandi en komst þó ekki undan draumnum, var hlekkjaður við hann; ófrjáls. Og hann fór að hugsa um það væri ekki einu sinni neinn friður í svefn- inum, það var ekki einu sinni hægt að leita þangað undan ágangi þessa uppivöðslusama nágrennis sem var athvarf hans í vöku, en samt hafði hann enga tilfinningu fyrir því fá- ránlega ástandi sem hann var í, nei, þvert á móti þótti honum það fullkomlega eðlilegt einsog á stóð að vera í því hlutverki sem hann nú gegndi en hafði einungis einhvern fyrirvara á þeim sem fylltu tunnuna alls kyns drasli af grimmdarlegu miskunnarleysi og tillitslausri eigingirni sem hann skildi ekki alveg þarna í draumnum hvernig sem hann reyndi að setja sig inní allar aðstæður. En þá losaði hann um svefninn og honum fannst einhver lausn í því. En þá hafði skrölt- ið byrjað fyrir utan og köllin og hægagang- urinn í bílnum og hann skildi ekki beinlínis hvernig hann gæti verið að dreyma sjálfan sig á sama tíma og karlarnir komu að tæma tunnurnar og engu líkara en þeir hefðu svar- að kalli hans þarsem hann stóð á berangri og gat sig ekki hreyft en setti allt sitt traust á hreinsunardeildina. Og þá hafði hún komið einsog kölluð og stanzað utanvið húsið. Hann rumskaði, opnaði jafnvel augun til að ganga úr skugga um að enn væri örugg- lega myrkur og enginn dagur. Hann gæti því sofið áfram hvaðsem hreinsunardeildinni liði. Jú, honum sýndist enn vera ósköp dimmt, eða var hann einnig að dreyma það? Hann vissi það ekki almennilega og þó hafði hann að öllum líkindum opnað augun, eða að minnsta kosti lyft augnalokunum og horft undan þeim inní myrkrið. Hann lagðist á hliðina og lét fara eins vel um sig og unnt var. Þá festi hann svefninn aftur. Köllin úti fjarlægðust, bíllinn var fluttur til, stór gulur bíll með rúmgóðu stýrishúsi og miklu gím- aldi sem hámaði í sig ruslið úr hverri tunn- unni á fætur annarri. Og hann var ekki leng- ur með hugann við götuna og karlana en fór nú að hugsa um sjálfan sig í eigin hlutverki og þá birtist öskutunnan enn einu sinni held- ur einstæðingsleg og ómáluð þar sem hún stóð í draumnum og gömul kona kom og fleygði í hana dagblaði, heldur sóðaleg þótti honum og hann stóð sig að því að velta fyrir sér að eitthvað mundi nú líklega fylgja henni, og hann heyrði sjálfan sig segja, Hvað á þetta að þýða, sýnist þér ekki vera komið nóg? En gamla konan hristi bara höfuðið, sagði ekkert en gekk þögul í burtu. Hún mætti ungri konu sem kom með bláar ný- mjólkurfernur í plastpoka og gamalt vikurit með myndum af uppum og auglýsingafíklum og tróð ofan í ruslið og enn heyrði hann sjálfan sig segja, Sérðu ekki, manneskja, að ég er troðfullur af drasli og ekki á það bæt- andi? En unga konan hristi bara höfuðið og sagði, Það er lengi pláss fyrir einn plastpoka af liðnum dögum. Og hún tók blöðin og veif- aði þeim ögrandi framan í hann, tróð þeim svo enn betur í tunnuna og hann fylltist nýj- um nagandi kvíða en þá gekk hún hnarreist burt án þess brygði fyrir í svip hennar neinni meðaumkvun og hann var einn eftir, aleinn, í skjóllausu en víðáttumiklu bjargarleysi og horfði á eftir henni hálfhryggur og hugsaði með sér að ekki væri nú tillitsseminni fyrir að fara þegar mannfólkið væri annars vegar og athygliskrafan lenti í ruslinu og viki fyrir nýju ónotuðu fjölmiðlafári. En meðan hann var að hugsa um þetta kom ungur maður og gekk hægum skrefum að honum með ónýtt útvarp undir handleggnum og fyllti mælinn. Hann var líka með plastpoka fullan af rauð- um undanrennuhyrnum sem áttu að fara í endurvinnslu ásamt þvældum einnota dag- blöðum. Hann hikaði lítið eitt við tunnuna og hugsaði með sér, Ég hlýt að geta troðið þessu útvarpstæki í draslið og svo tók hann að ýta því undir plastpokann og blöðin fuku á götuna en ungi maðurinn tíndi þau jafn- óðum upp og tróð þeim aftur í ruslið og reyndi að þrýsta lokinu niður svo draslið fyki ekki út um allt en tókst það ekki svo full sem tunnan var. Nú þótti honum nóg komið og gerði einhverjar athugasemdir við ítroðsluaðferðir unga mannsins en á þær var ekki hlustað fremur en fyrri athugasemdir hans svo hann dró sig í hlé og gegndi hlut- verki ruslatunnunnar með þeirri reisn sem hann átti enn eftir þrátt fyrir ágang og skilningsleysi. Ungi maðurinn hvarf aftur út- varpslaus frá tunnunni og hugsaði um hvað hún væri óásjáleg þarsem hún stóð ólokuð og illa farin eftir hugmyndalausan ágang og hrokafullt tillitsleysi þeirra sem bjuggu í ná- grenninu. Hann var farið að langa til að rumska og helzt að vakna af þessu hlutverki sem hann gegndi þarna í draumnum af einhverjum ill- skiljanlegum ástæðum sem hann velti þó ekki fyrir sér einsog á stóð. En nú vildi hann endilega losna úr þessum sérkennilegu átt- hagafjötrum sem dæmdu af honum frelsið og taldi sér trú um að honum liði einsog fugli í búri sem fengi ekki að njóta vængja sinna. En hvað sem því leið tók hann nú ákvörðun. Héðan í frá tæki hann ekki við meiri blöðum eða öðru drasli úr umhverfinu en kveið því þó í aðra röndina að sitja uppi með nýja plastpoka sem fykju út um allt ef hann gerði storm eða hrakviðri. Kvíðinn var svo sann- arlega ekki ástæðulaus einsog tillitsleysið gekk úr hófi fram. En þá allt í einu ekur þessi stóri guli ösku- bíll hreinsunardeildarinnar inní drauminn og hann heyrir sér til mikils hugarléttis hálf- dempuð köll karlanna og þeir ýta honum að bílnum og hann tekst á loft og þeir tæma úr honum í gímaldið og setja hann á sinn stað og loka tunnunni og honum líður betur en áður þarna á berangri og nú hefur hann litl- ar eða engar áhyggjur af veðrinu því nú er hann tómur og fær í flestan sjó. Og honum líður vel í svefnrofunum þegar hann horfir á eftir bílnum sem hverfur út úr draumnum og hann er einn eftir og þar eru engir skellir eða hávaði og ekkert nema vesalingur hans sjálfs í öskutunnu líki og þarna stendur hann einn á auðu svæði með snert af víðáttufælni og fólk kemur úr öllum áttum og er farið að troða nýju rusli í tunnuna og einhver opnar hlið og dyrabjöllunni er hringt og hann hrekkur upp af værum blundi og segir við konuna sem liggur í rúminu við hlið hans, Var einhver að hringja? Hún rumskar, opnar augun og segir. Ha, var það? Nei, ég veit það ekki. Jú, mér heyrðist það. Nei, segir hún, og er nú glaðvakandi, það eru bara öskukarl- arnir. Þeir eru að tæma tunnuna. En við get- um víst ekki flatmagað hér lengur, þú verð- ur að fara í vinnuna. Já, segir hann og rís upp. Það er aldrei neinn friður, aldrei stund- inni lengur. En mig var að dreyma eitthvað sem ég hef gleymt. Og hann byltir sér. Veit hann er að bylta sér í svefnrofunum. Veit það þó ekki, þótt hann viti það. En þá byrja klukkurnar í kirkjunni að hringja og hann veit það er sunnudagur og hann heldur áfram að sofa og veit ekki hvort klukknahljómurinn er einn þráðurinn í þessum myndvefnaði draumsins eða ekki og hann veit að hann hefur ekki vaknað og er enn sofandi og hugsanir hans hefja nýtt ferðalag inní draum og veruleika þarsem er fullt af fólki sem hann kvíðir fyrir og er sífellt að koma með gömul dagblöð, tómar mjólkurhyrnur og annað drasl úr liðnum dögum. Sagan birtist í samnefndu smásagnasafni höfundar árið 1995. Nú fór hann að hugsa um það því hann hafði verið að dreyma að hann væri sjálfur troðfull öskutunna og stæði á berangri og það var ekki hægt að loka henni en mjólkurfernur, dagblöð og tímarit voru eins og kúfur undir lokinu og stóðu upp úr tunnunni.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.