Morgunblaðið - 14.05.2004, Side 5
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 14|5|2004 | FÓLKIÐ | 5
Heimurinn dýrkar gáfur. Mér
hefur alltaf fundist skrítið hvað
fólk leggur mikið uppúr gáfum.
Það er sífellt verið að verðlauna
gáfur. Gáfaður maður fær alls
staðar mikla aðdáun. Fólk vill
eignast gáfuð börn. Hvað með
góð börn? Mér finnst góð-
mennskan miklu meira virði en
gáfur. Best er náttúrlega þegar
þetta tvennt fer saman. Gáfur
án góðmennsku eru ávísun á
hrylling. Verstu illmenni sög-
unnar eru og hafa verið gáfaðir
menn. Mestu glappaskot
mannkynssögunnar eru gerð
þegar gáfurnar taka stjórnina
og mannkærleikurinn gleymist
því í augum gáfnanna er Guð
ekki til. Allt er útskýrt á vísinda-
legan hátt, manneskjan er bara
vetni, kolefni og súrefni og Jesú
er ekki meira til en hægt er að
sanna með fornleifafræði og
vísindum. Heilinn er eina líffæri
mannsins sem er algjörlega til-
finningalaust. Og hvað græðir
maður á því að vera ríkasti og
gáfaðasti maður í heimi ef mað-
ur fyrirgerir sálu sinni?
Heimurinn er ekkert sér-
staklega hrifinn af góð-
mennsku. Öll framúrskarandi
góðmenni eru undantekning-
arlaust drepin; Jesú, Gandhi,
Lennon, Kennedy og Martin
Luther King. Nelson Mandela
slapp með skrekkinn, það hefur
verið reynt að drepa páfann og
Dalai Lama þurfti að flýja land.
Illmenni virðast komast upp
með allt. Hitler fékk að halda
áfram nær endalaust. Hann var
einmitt eldklár, snyrtilegur og
kurteis og kunni að koma fyrir
sig orði. Það eina sem vantaði
uppá var að hann væri gull-
fallegur. Þá hefði hann verið
fullkominn. En hann átti engan
mannkærleika til. Og hérna er
kannski komin ágætis lýsing á
djöflinum.
Ég vantreysti öllu fólki sem
hefur ekki í sér kærleika til ann-
arra. Mér er alveg sama hvað
það er gáfað. Læknar eru gott
dæmi. Ég þurfti einu sinni að
gangast undir meðferð hjá
skurðlækni. Hann kom fram við
mig eins og slátrari sem skoðar
kindaskrokk, af fumlausu og ís-
köldu öryggi. Það var engin
hlýja, engin virðing, engin um-
hyggja. Mér finnst ég heyra
þetta oft hjá fólki. Bandarískir
tollverðir horfa á mann, með
samblöndu af áhugaleysi og
andúð. Dyraverðir eiga líka til
þetta augnaráð. En þegar lækn-
ir er kominn með þennan augn-
svip þá er eitthvað að. Þá fær
maður á tilfinninguna að hann
hafi ekki farið útí skurðlækn-
ingar til að hjálpa fólki heldur til
að græða peninga á því að
skera í sundur skrokka.
Ég held að heimurinn væri
miklu betri staður ef við legðum
meiri áherslu á góðmennsku og
minni á gáfur. Hjartað er merki-
legra en heilinn. Hvað með góð-
mennskuverðlaun Nóbels?
En kannski er þetta bara
svona í þessum heimi. Kannski
byrjar hið raunverulega líf ekki
fyrr en eftir dauðann. Ég trúi því.
Jón Gnarr
Hugrenningar alþýðumanns
Gáfur
Ég sá í vikunni viðtal í
Íslandi í bítið við einn
af þjónustufulltrúum
Landsbankans. Lýsti
sá ágæti fulltrúi þar yf-
ir að Íslendingar væru
lélegir í að spara. Ís-
lendingar eyða um efni
fram, misþyrma vísa-
kortinu í tíma og ótíma
og hugsa ekki um
sparnað fyrr en nánast
þegar á grafarbakkann
er komið. Margur gæti
haldið Íslendingar
væru almennt óskynsöm þjóð og
get ég að nokkru tekið undir slíkt –
að sjálfri mér undanskilinni auðvit-
að. Ég kann svo sannarlega að
spara … það líður reyndar ekki sá
dagur að ég hugsi ekki um sparnað!
Hins vegar tel ég vert að benda á að
sparnaður minn er um margt nýstár-
legri en sá sparnaður sem banka-
mannafulltrúinn taldi gildan. Auðvit-
að er það góðra gjalda vert að leggja
alltaf ákveðna summu á mánuði inn
á einhvers konar nískureikning þar
sem féð ávaxtast um
eina krónu á ári eða
svo, en til eru aðrar leið-
ir sem ég tel heppilegri
og hafa reynst mér
nokkuð vel. Ég get nefnt
hversdagsleg dæmi
bankamönnum til upp-
lýsinga og yndisauka.
Sparnaðarleið 1: Ég
versla aldrei í stórmörk-
uðum – það er mjööög
óhagkvæmt. Ástæða
þess að ég versla ekki í
stórmörkuðum er sára-
einföld. Stórmarkaðir eru ekki gerð-
ir fyrir einbúa. Ég hef stundum reynt
að vera vísitölukona og birgt mig
upp af alls kyns hollustu og gúmme-
laði í stórmörkuðum en pening-
unum mætti allt eins henda út um
gluggann. Þegar heim er komið er
vörunum raðað fallega inn í tóman
ísskápinn … en það næsta sem
gerist er að ég opna ísskápinn
tveimur vikum síðar og fleygi 80% af
því sem ég keypti! Allir með ágæta
rökhugsun hljóta að sjá þetta er
mjög óhagstætt fyrir þjóðarbúið,
arðsemi eigin fjár og fyrir öll þessi
óskiljanlegu bankamannahugtök
um sparnað. Ég hef lært af reynsl-
unni og fer því alltaf út að borða. Er
þá engum peningum sóað heldur
fer hver einasta króna beint ofan í
mig og spara ég þar með dágóðan
skildinginn.
Sparnaðarleið 2: Ég kaupi alltaf
tvöfaldan gin í tónik í stað einfalds
þegar ég bregð undir mig betri fæt-
inum – það er svo hagkvæmt sjáið
til. Á stundum hefur það þó ekki
reynst mjög líkamlega hagkvæmt
en það fé sem verður eftir í budd-
unni þegar ekki þarf að kaupa tvo
einfalda drykki hlýtur að vera af hinu
góða. Auk þess fæ ég sama magn
áfengis út úr einum tvöföldum drykk
og tveimur einföldum … en það
góða er líka að ég fæ minna gos –
enda eru sykursætir gosdrykkir ekki
af hinu góða. Með þessu móti spara
ég bæði pening og forða mér frá
aukakílóum – tvær flugur í einu
höggi. Ótrúleg hagkvæmni hér á
ferð.
Sparnaðarleið 3: Fáðu þér kær-
asta. Þessi leið hefur reyndar
reynst mér nokkuð torveld en ég er
þó alltaf að vinna í henni – batnandi
mönnum er best að lifa og allt það.
Svo að við konurnar náum að spara
af einhverju viti er fátt betra en sí-
nöldrandi kærasti sem hótar öllu
illu ef heim er komið með nýja skó
eða ógeðslega flottar (og dýrar)
gallabuxur. Mér þykir það reyndar
átakanlegt að enn á 21. öldinni
skilja menn ekki hvers konar dem-
antur það er fyrir þjóðarbúið að hafa
konur með kaupsýki. Hugsið ykkur
allt það unga fólk sem væri á at-
vinnuleysisbótum ef við konurnar
sæjum búðum ekki fyrir klínki í
kassann! … en já, aftur að áð-
urgreindum sparnaði … það er sem
sagt ótrúlega hagkvæmt að eiga
eitt eintak af kærasta sem hefur
ekki smekk eða nef fyrir tísku.
Að þessum þremur sparnaðar-
leiðum virtum má glögglega sjá að
unnt er að spara með öðrum leiðum
en nískuleið bankamanna. Þeim
sem vilja frekari sparnaðar-
ráðleggingar Járnskvísunnar er bent
á að finna mig á veitingastöðum,
börum eða í tískuvöruverslunum.
Gleðilegan sparnað.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir
Splunkunýjar sparnaðarleiðir
JÁRNskvísan