Lesbók Morgunblaðsins - 15.02.2003, Blaðsíða 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 15. FEBRÚAR 2003
LISTASAFN Íslands hefur tekið tvö ný sýn-
ingarrými í kjallara hússins í notkun. Þar
býður safnið listamönnum af yngri kynslóð-
inni að sýna verk sín og hefur þessi vett-
vangur fengið nafnið Sjónarhorn. Verkin
sem sýnd verða eru ýmist í eigu listamann-
anna eða í einkaeign, en eitt af markmiðum
Sjónarhornsins er að varpa ljósi á áhugaverð
verk og kynna þau í samvinnu við listamenn-
ina sjálfa.
Fyrsti listamaðurinn sem Sjónarhorninu
er beint að er Anna Líndal. Sýnir hún fimm
verk og þar af þrjú sem sérstaklega eru unn-
in fyrir þessa sýningu. Hin verkin eru Jaðar,
vídeóskúlptúr frá 1999–2000 og Jöklak-
úrekar, videóverk frá árinu 2002.
Jaðar er heitið á elsta verki Önnu á sýn-
ingunni, en þar teflir hún saman heimilinu
og náttúrunni. Heimilið er verndarhjúpur
sem öllum er eiginlegt að koma sér upp en
Anna hefur kafað undir yfirborðið og komist
að því að jafnvel inni á heimilinu getur nátt-
úran skipað stóran sess.
Ánægjan er drifkrafturinn
Nýjasta verkið á sýningunni ber heitið
Hundur, kona, úlfur og gíll. Anna segir það
verk vera í ákveðnu framhald af því sem hún
hefur áður unnið með. „Ég hef notað heim-
ilisáhöld og aðra heimilistengda hluti, sem
eru á heimilinu hjá mér, þannig er efniviður-
inn í þessum nýja skúlptúr eru föt sem ég er
hætt að nota en eru of heil til að henda – og
föt sem eru orðin of lítil á börnin,“ segir hún
og bætir við: „Hundurinn er til dæmis sam-
settur úr einni úlpu og hettupeysu.
Síðan er ég með sjálfstætt verk sem er inni
í þessum skúlptúr, því hundurinn og konan
eru að horfa á það.“
Það hefur löngum verið tilhneiging hér að
meta myndlist út frá sölumöguleikum – en
innsetningar eru sjaldnast söluvara. Hvað er
það sem hvetur myndlistarmenn eins og þig
til þess að halda áfram?
„Drifkrafturinn á bak við mín verk er
ánægjan sem ég hef af því að búa þau til.
Myndlistin hefur alltaf verið eins og félagi
fyrir mig. Þetta er heimurinn sem mér finnst
mjög gaman að dvelja í.
Ég viðurkenni að þetta er ekki tóm sæla,
en það sem er spennandi við að búa til sýn-
ingu er að þá fer maður miklu dýpra inn í
sköpunarferlið, verður að kanna sín innri
mörk og það er eftirsóknarverð upplifun.
Íslenskt myndlistarumhverfi er mjög
frumstætt og byggist á því að myndlist-
armenn fjármagna starfsemina að mestu
leyti sjálfir. Þess vegna er mjög mikilvægt að
varðveita löngunina eða ástríðuna ef við
leyfum okkur að vera hátíðleg.“
Margbreytileiki á Grímsfjalli
Segðu mér meira frá nýja verkinu sem er
inni í skúlptúrnum.
„Það er myndbandið Úlfur og gíll, þar sem
eru þrjár sólir á lofti. Þetta er óskaplega fal-
legt fyrirbæri og mikið náttúruundur. Ég
tók verkið upp á Grímsfjalli í 20 gráða frosti.
Allan þann dag voru sólirnar þrjár á lofti.
Við eigum orðatiltæki sem segir: „Sjaldan er
gíll fyrir góðu, nema úlfur á eftir renni“ og
það nefni ég einmitt þetta vídeóverk sem er
af þremur sólum. Þarna er ég að láta náttúr-
una sjálfa – í mismunandi birtingarformi –
og menninguna tala saman. Menningin birt-
ist þá að nokkru leyti í því sem myndbands-
tæknin gerir mögulegt; að taka það sem er
fyrir utan og færa það inn.
Verkið sem ég nefni Hjartsláttur er tekinn
upp á sama stað og sólirnar, það er að segja,
á Grímsfjalli. Það er brjálaður skafrenn-
ingur sem ég flyt einfaldlega inn í Listasafn
Íslands. Þetta er ein taka sem spannar fjórar
mínútur. Hún er endurtekin í sífellu og sam-
anstendur af hljóði og mynd.“
Tveimur dögum fyrir opnun sýning-
arinnar er Anna ennþá að vinna nýjasta
verkið á sýningunni. Undirbúningur hefur
þó staðið í um það bil tvo mánuði. En þegar
hún er spurð hvort ekki sé erfitt að vera að
vinna verkið fram á síðustu stundu, segir
hún svo ekki vera. „Fyrir okkur sem vinnum
innsetningar skipta sýningar sköpum. Eðli
innsetningar eru þannig að ef ekki er sýning,
þá er engin grundvöllur til að sýna þær og
því hefjum við oft ekki útfærslu við nýtt verk
fyrr en sýning stendur fyrir dyrum. Því það
er nú einu sinni þannig að hverjum myndlist-
armanni er mikilvægt að hafa óslitið ferli í
skapandi vinnu.“
Anna Líndal hefur opnað sýningu í nýju sýningarrými í Listasafni Íslands sem hlotið hefur heitið Sjónarhorn.
SÚSANNA SVAVARSDÓTTIR ræddi við Önnu um inntak sýningarinnar og útfærslu.
ÞRJÁR SÓLIR
Á LOFTI
Morgunblaðið/Golli
Fyrsti listamaðurinn sem Sjónarhorninu er beint að er Anna Líndal.
TÓNLISTARAKADEMÍA Kristjáns Jó-hannssonar, Accademia Musicale Int-ernazionale Kristján Jóhannsson, tekurtil starfa nú í vor, í heimabæ Kristjáns,
Desenzano við Garda-vatnið á Ítalíu. Kristján
hefur unnið að undirbúningi þessa verkefnis
ásamt fleirum í nærri tvö ár.
„Þetta er listaakademía sem ber nafn mitt, –
og ég er forseti hennar. Hugmyndin er þó ekki
mín, og það eru fleiri sem standa á bak við þetta
með mér. Hugmyndin var sú að lyfta svolítið
kúltúrnum hérna á staðnum, og þá ekki síst
hvað varðar tónlist og söng, en ég myndi segja
að hann væri alveg í lægri kantinum. Það eru
kórar hér og einn og einn söngvari, en ég verð
að segja eins og er að mér finnst standardinn
lágur, – hvað á maður að segja, – eins og meðal
íslenskur standard.“
Kristján segir að Akademían njóti velvildar
bæjarstjóra og bæjarstjórnar, sem hafi útvegað
glæsilegt og hentugt húsnæði fyrir starfsemina,
enda þyki þeim þetta frumkvæði mjög jákvætt.
„Í fyrstu verður Akademían starfrækt tvo mán-
uði á ári, en í framtíðinni, þegar ég hef meiri
tíma sjálfur, getum við bætt við skólann. Fram-
tíðarhugmyndin er að þetta verði heils árs aka-
demía, – kannski eftir tíu ár eða svo, – ef guð lof-
ar. Við köllum þetta scuola di perfezionamento,
sem þýðir að við viljum reyna að fullkomna eins
og hægt er sönginn hjá hverjum og einum. Við
verðum með tíma í túlkun, framburði og fram-
komu, söngtækni og söng. Ég vona að ég fái
Jónu mína [eiginkonuna, Sigurjónu Sverrisdótt-
ur] með mér í þetta í framtíðinni, en ég er núna
með mjög góða konu með mér. Hún heitir Maria
Francesca Siciliani, og er dóttir heimsþekkts
impresaríós, sem á sínum tíma leitaði að góðum
söngvurum og uppgötvaði meðal annarra Maríu
Callas, – hann var síðar impresaríó á Scala í
tuttugu ár. Maria Francesca hefur mikið verið
að leikstýra óperum og er sjálf menntuð söng-
kona. Við erum líka með tónvísindamann, Mic-
hele Nocera, sem sér um tónfræði og sögu. Á
laugardögum verðum við með hóptíma þar sem
allir koma saman; nokkrir verða beðnir að
syngja og við ræðum það saman hvernig gekk
og hvað mætti gera betur. Við verðum með tvo
píanóleikara, Matteo Falloni og Marino Nicol-
ini, en hann kom með mér til Íslands fyrir
tveimur árum þegar ég söng í Háskólabíói. Stef-
ania Erindelli er svo konan á kassanum; – sér
um peningamálin.“
Erlendir nemendur fleiri en ítalskir
Kristján segir að undirbúningurinn hafi verið
mikið fjör og ljóst að aðsókn að Akademíunni
verði góð. Fyrsta námskeið hefst 14. apríl, og
það næsta í lok júní, og standa þau í um þrjár
vikur hvort og lýkur með stórum tónleikum í Pi-
azza del Castello, þar sem lengst komnu nem-
endurnir fá að syngja. „Við ætlum að vinna að
því í samvinnu við bæjaryfirvöld að þetta verði
að föstum lið í bæjarlífinu, og reyna að gera
þetta aðlaðandi fyrir þá fjölmörgu ferðamenn
sem leggja leið sína hingað að Garda-vatninu
sérstaklega frá Austurríki, Þýskalandi og Sviss;
– og það er menningarfólk sem vill ekki bara
borða og djamma, – heldur líka upplifa ítalska
menningu. Tónleikarnir verða því heilmikill við-
burður, með hljómsveit, – og þeim verður bæði
útvarpað og sjónvarpað.“
Nemendur koma frá Ítalíu en Kristján segir
útlendingana þó vera fleiri, og koma víða að, frá
Þýskalandi, Bandaríkjunum og auðvitað frá Ís-
landi. Enda er skólanum ætlað að vera alþjóð-
legur. Kristján segir allt of mikið til af slæmum
söngkennurum, og söngkennslu oft ábótavant.
Nemendur séu oft látnir syngja önnur verkefni
en henta röddum þeirra. „Svo á bara eftir að
koma í ljós hversu góður söngkennari ég er, – en
ég er náttúrulega hafsjór af reynslu eftir 25 ár í
vinnu með helstu músíköntum heims, og það
skiptir miklu máli. Ég legg mikla áherslu á að
velja söngnemendum rétt verkefni. Nú eru
gömlu snillingarnir að fara yfirum hver af öðr-
um, og mér hefur fundist það vanta síðustu tíu,
fimmtán árin, að áhersla sé lögð á rétt verk-
efnaval, því raddir fólks eru jú mjög mismun-
andi. Það er alltaf verið að tala um að það séu fá-
ar góðar raddir til í dag. Ég held að það sé ekki
rétt. Hins vegar held ég að þær séu bara ekki
rétt skólaðar af fólki sem er ekki nógu vel viti
borið á þessu sviði. Þannig er oft verið að senda
góðar raddir í vitlaus verkefni, nemendum er
ekki gefinn nægur tími, og undirbúningurinn er
ekki nógur. Fyrir bragðið getur falleg rödd ver-
ið eyðilögð á stuttum tíma, bara af því að henni
er ekki beint á réttar brautir. Ég var sjálfur lát-
inn syngja Ástardrykkinn, Don Giovanni og
fleira þrátt fyrir stóra rödd; – söng þetta í mörg
ár áður en ég fór að fitla við verkefni sem hæfðu
mér betur. Ég veit því að það vantar talsvert
upp á það að söngvarar séu leiddir á réttar
brautir.“
Kristján segir að þetta snúist líka um pen-
inga, því stóru hlutverkin fyrir stóru raddirnar
séu betur borguð, og því kannski skiljanlegt að
fólk vilji reyna sig við þau. „En við verðum von-
andi líka einhvers konar umboðsskrifstofa í
framtíðinni; – fyrir okkar fólk.“
Kristján er auðheyrilega spenntur, og sjálf-
sagt búinn að vera spenntur fyrir þessu lengi.
„Þetta er mjög gaman, og þegar ég hef verið að
syngja við stóru húsin hafa yngri söngvarar
gjarnan komið til mín og beðið um tilsögn, en ég
hef aldrei tekið það að mér. Nú er þetta hins
vegar að verða að veruleika.“
Akademían verður til húsa í byggingu frá 18.
öld, sem gegnir því hlutverki að vera menning-
armiðstöð bæjarins. Kristján segist ætla að nota
tækifærið fyrir námskeiðið í sumar til að reyna
að koma þar á myndlistarsýningu með verkum
íslensks vinar, Tolla. „Annars er þarna alls kon-
ar annað menningarstarf og uppákomur. Aka-
demían verður starfrækt í fjórum herbergjum,
með aðgangi að 150 manna sal fyrir samsöngs-
tíma á laugardögum.“
Uppákomum vestanhafs fækkar
Kristján hefur í nógu að snúast, því auk þess
að koma Akademíunni af stað er hann auðvitað
sjálfur að syngja. Hann syngur í Cavalleria
Rusticana og I Pagliacci í Teatro Verdi í Trieste
frá febrúarlokum og út mars. Í mars verður
hann þó einnig að syngja í Otello í Vín, og verður
þar fram í apríl. Þá verður hann einnig að
syngja í Turandot í Aþenu og í maí og fram í júní
syngur hann í Otello í Tókýó, en einnig í Samson
og Dalílu í Aþenu. Í millitíðinni – í maí – kemur
hann heim og syngur í Sálumessu Verdis með
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. „Ég verð þar
með vini mínum Kristni Sigmundssyni, og ég
held að það sé í fyrsta skiptið sem hann syngur
svona stórt verkefni á Akureyri. Það verður
örugglega mjög gaman, og vonandi verður
verkið flutt í Reykjavík líka. Það er bjartara út-
lit í söngnum nú en í fyrra, sérstaklega hér í
Evrópu. Það er erfiðara vestanhafs; ástandið
eftir 11. september hefur verið slæmt, og Met-
ropolitanóperan á til dæmis í miklum fjárhags-
erfiðleikum, og stórum uppákomum þar hefur
fækkað. Ameríkanar eru bara svo hræddir að
þeir koma helst ekki saman á stórum samkund-
um, og það er alvarlegt mál. En ég kann nú allt-
af betur við mig í Evrópu, ég vil helst vera sem
næst fjölskyldunni.“
Alþjóðleg tónlistarakademía Kristjáns Jóhannssonar stofnuð
Morgunblaðið/Sverrir
Kristján Jóhannsson bauð söngfólki upp á „masterklassa“ fyrr í vetur. Hér leiðbeinir hann Krist-
ínu R. Sigurðardóttur sópransöngkonu og Þorsteinn Gauti Sigurðsson píanóleikari fylgist með.
„ALLT OF MIKIÐ TIL AF SLÆM-
UM SÖNGKENNURUM“